09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 108 í C-deild Alþingistíðinda. (1764)

72. mál, skipun prestakalla

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Í umr. í gær bar ég fram tvær fsp. til hæstv. kirkjumrh. Ég spurðist fyrir um það, hvort þetta frv. hefði verið sent til umsagnar safnaðarstjórnum þeirra prestakalla, sem nú á að leggja niður. Og ég spurðist fyrir um það í öðru lagi, hvað væri ætlunin að ráða marga sjúkrahúspresta hér í Reykjavík. Ég drap á það um leið, að ef nauðsyn væri á sjúkrahúsprestum í landinu, væru sjúklingar víðar en í Reykjavík og þörfin mundi kannske vera annars staðar ekki síðri, miðað við þann fjölda presta, sem hér er.

Hæstv. kirkjumrh. hefur nú svarað þessu. Hann segir, að frv. hafi verið kynnt söfnuðum á þann hátt, að nm., sem þetta sömdu, hafi ferðazt um landið. Hins vegar sýnist mér á svari hans, að formlega hafi ekki verið leitað skriflegra umsagna neinna safnaða um þetta, en það hefði ég talið heppilegra og raunar alveg sjálfsagt. Hinu atriðinu, um fjölda sjúkrahúspresta, svaraði hann þannig, að sér væri ekki í hug nú, hvað þeir mundu verða margir, m. ö. o.: hann hefði enga ákvörðun um það tekið eða væri búinn að hugsa það neitt endanlega, hvað þeir kynnu að verða margir, en þetta á að vera á valdi hæstv. ráðh. skv. frv.

Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir þessi svör. En í umr. í gær lýsti ég ekki skoðun minni á einu einasta efnisatriði í þessu frv., nema hvað ég lét þess getið, að ég teldi ekkert óeðlilegt við það, þótt einhvers staðar væru færð saman prestaköll. Um önnur efnisatriði ræddi ég alls ekki. En þá bregður svo við, að eini presturinn hér á hæstv. Alþ., hv. 2. þm. Norðurl. v., rís upp með ávítur til mín um, að ég hafi rætt um þetta mál af kerskni og óvirðulega, gaf sérstaklega í skyn, að ég hefði ekki talað nógu virðulega um hina væntanlegu sjúkrahúspresta. Og hann dró mig algerlega í dilk með hv. 3. þm. Reykv. í þessu máli. (Dómsmrh.: Það er þá ekki leiðum að líkjast.) Nei, ég vil segja það eftir orð hæstv. kirkjumrh. hér áðan, að þetta er alls ekki slæmur dilkur, því að ráðherra var það víðsýnn og hann var það sanngjarn í sínum ummælum áðan, er hann sagði, að hv. þm. væri kannske ekkert minna kristinn en við hinir. Þetta kalla ég vel mælt og betur mælt en ég hef oft heyrt, jafnvel frá kirkjunnar mönnum. En ég átta mig ekki á þessari fljótfærni hv. 2. þm. Norðurl. v., að hefja ávítur fyrir það að hafa efnislega ekki talað um eitt einasta atriði þessa frv.

Nú vill svo til, að það var annar ræðumaður í gær, sem minntist t.d. á sjúkrahúsprestana væntanlegu, það var hæstv. forsrh. Hann lét þau orð falla, að það mætti deila um það, hvort stofna ætti til þessara embætta. Ég hins vegar deili ekkert um þau, fjarri því. Kannske hv. þm. hafi bara farið mannavillt, það hafi átt að vera hæstv. forsrh., sem átti að lenda í dilknum hjá hv. 3. þm. Reykv., en ekki ég. Það er nokkur ágalli, það verð ég að segja, og það hjá presti að þekkja ekki sauði frá höfrum í svona efnum. Og ég vil vænta þess, að þegar hann í næsta sinn kemur upp í ræðustól til að skamma einhvern, þá hitti hann á réttan mann.

Þetta frumvarp lýsir miklum áhuga kristinna manna á kristni og kirkjulífi í landinu. En ég verð að segja það alveg eins og er, fyrst þessi mál eru nú hér til umræðu, að mér finnst ekki alveg laust við, að þessi áhugi sé eitthvað staðbundinn. Ég verð að nefna sem dæmi, að á s.l. vetri brotnuðu tvær kirkjur í spón á Vestfjörðum í ofviðri. A. m. k. söfnuður annarrar þessarar kirkju hefur leitað til kirkjuyfirvaldanna um fjárhagslega aðstoð til þess að koma upp kirkjunni á ný. Söfnuðurinn hefur leitað til biskups, til ríkisstj. og til fjvn. Alþ., allt saman árangurslaust. Hvergi fyrirfinnst nokkur vilji til þess að reisa þetta guðshús á ný. Þar sem þessi söfnuður er mjög fámennur, er engin von til þess, að hann af sjálfsdáðum reisi sér kirkju fyrst um sinn, og að vetri til a. m. k. er útilokað, að hann sæki til annarrar kirkju, því að yfir fjallgarð er að fara. Þessi söfnuður virðist eiga að búa við það að hafa enga kirkju, og þá er honum sennilega ekki ætlað að hafa prest, fyrst engin er kirkjan. Mér finnst einhvern veginn, að uppbygging kirkjulífsins í dreifbýlinu þarna sé ekki í sérlega miklu samræmi við tillögurnar í þessu frv. um, hvað eigi að gera í þéttbýlinu. Ég vildi óska, að samræmið væri svolítið meira.

Ég endurtek það svo, að þetta frv. mun ég ekki ræða efnislega á þessu stigi, þar sem það kemur í n., þar sem ég á sæti, en ég vildi ekki una því að fá vítur fyrir aðfinnslur um hluti, sem ég hef ekki nefnt á nafn.