09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í C-deild Alþingistíðinda. (1767)

72. mál, skipun prestakalla

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt, af því að vikið var að minni ræðu nokkuð og ég vildi leiðrétta það.

Í fyrsta lagi, hv. 2. þm. Sunnl. var ekki viss í, hvaða merkingu ég legði í orðið, þegar ég hafði sagt „saklaus sveitamaður“. Ég legg góða merkingu í orðið sveitamaður, alveg sömu merkingu og ég legg í orðið bóndi. Og það, sem ég var að leggja áherzlu á, þegar ég notaði þetta orð, var andstæðan við spillingu borgarlífsins, sem mér virtist hv. þm. ekki vera klár á, enda sagði hann sjálfur rétt á eftir, að hann hefði ekki trúað því, að íbúar Reykvíkinga væru að byggja t.d. kirkjubyggingar sínar af hræsni. Ég er hræddur um, að hann geri sér ekki alveg ljóst allar þær hvatir, þó að margar séu góðar, sem á bak við kirkjubyggingarnar liggja í Reykjavík. Þar er sannarlega sýndarmennskan og montið eins mikið og kristin trúarþörf. Og ef hann heldur, að Reykvíkingar þurfi svona margar og svona stórar kirkjur, ætti hann að reyna að koma í þær á venjulegum sunnudögum, þegar ekki eru hátíðar, og sjá, hvernig það er sótt.

Nei, við skulum gá að því, að það er viss hlutur, sem er að týnast og tapast í okkar þjóðfélagi með því, hvernig það gagnsýrist af braski og peningagirnd. Og það er einmitt sá gamaldags heiðarleiki, sem átti sér stað í sveitunum. Það er þess vegna, sem borgurunum, þegar þeir fara að setja sitt mark á þjóðlífið, finnst sveitamaðurinn oft og tíðum svo gamaldags, af því að hann er ekki kominn inn í allar þær refjar, sem eru höfuðatriðið í því kapítalistíska borgarlífi.

Hv. 2. þm. Sunnl. minntist líka á, að kirkjan þyrfti að vera fjárhagslega sterk eins og á tímum Hallgríms Péturssonar. Ég veit nú ekki, hvort við mundum skoða Brynjólf Sveinsson, með því mikla valdi, sem hann hafði á jarðeignum kirkjunnar og öðru slíku, sem fyrirmynd í slíkum efnum. A. m. k. leit ekki Þorsteinn Erlingsson þannig á, þegar hann orti „Eiðinn“. Og ef við hugsum um handritin, býst ég nú ekki við heldur, að okkur þyki til neinnar sérstakrar fyrirmyndar það vald, sem biskupinn þá hafði í sínum höndum. Ég held einmitt, að fjárhagslega mjög sterk kirkja muni vera í miklu meiri hættu fyrir spillingu heldur en sú fátæka kirkja almennt væri.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. sagði viðvíkjandi prestskosningunum, vil ég minna hann á,að það er náttúrlega alveg á valdi safnaðanna á Íslandi, ef þeir vilja heldur koma því þannig fyrir, að prestar væru kosnir til 4, 6 eða 10 ára í senn. Ég efast ekki um, að ef almennt hinn evangelísk-lúterski söfnuður á Íslandi færi fram á það, að slíkt væri gert, mundi Alþ. verða við því. Ég skil ekki í, að Alþ. ætti að fara að reyna að breyta þar eitthvað öðruvísi en þessir söfnuðir óskuðu eftir. Þegar lagt hefur verið til og það án þess að söfnuðirnir sjálfir væru með því að svipta þá valdinu til að kjósa sína presta, þá hef ég lagt á móti því, vegna þess að ég álít það þeirra lýðræðislegu réttindi. Ef þeir vilja breyta þarna til, þannig að þeir kjósi prestana til skemmri tíma, finnst mér ekki, að Alþ. ætti að setja sig þar upp á móti. Það ætti að gera það, sem þessir aðilar segja í því efni, á meðan á annað borð er verið að veita þeim þau sérréttindi, sem þeir hafa. Hitt er ég aftur á móti hræddur um, að margir söfnuðir mundu kannske líta svo á, að það væri meiri hætta fyrir þá að missa prestana, svo framarlega sem þeir væru aðeins kosnir til skamms tíma. Ég er hræddur um, að margir söfnuðir mundu líta þannig á og vera þess vegna fastheldnari í sína presta.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. kom inn á, að það er í mörgum sóknum og mörgum söfnuðum, sem hefur gengið erfiðlega að fá presta. Það er náttúrlega ekki einstakt með prestana. Það er alveg sama viðvíkjandi læknisembættunum viða úti um land.

Svo viðvíkjandi því, sem hv. 2. þm. Norðurl. v. klykkti út með, hélt, að ég væri farinn að trúa á eilíft líf fyrir einstakar persónur. Því fer mjög fjarri. Það, sem ég hef trú á slíku, er, að það, sem gott er unnið af mönnum, lifi, minningin um það, sem gott er gert, og um þá menn, sem vel vinna, lifi, hvort sem maðurinn heiti Jesús frá Nazaret eða Spartakus og hvort sem hann er krossfestur í Gyðingalandi eða á Ítalíu, það er nokkuð sama. Ef menn einu sinni hafa gert góðan hlut og barizt fyrir þeim smáu í þjóðfélaginu, álít ég, að þau verk séu sjálf þau laun fyrir þann mann, sem hann eigi að fá og önnur ekki. Ég hef ekki neina trú á, að það sé neitt til hinum megin í slíkum efnum. Og satt að segja finnst mér alltaf, að allar þær prédikanir, sem kirkjan hefur verið með í þeim efnum, ef menn vinni vel á jörðinni, eigi þeir að fá laun fyrir það á himnum, smakka nokkuð mikið af verzlunarsiðgæði. Ég held, að ef menn geta ekki unnið vel hér á jörðinni, eingöngu vegna þess, að það sé gott og það sé eðlilegt fyrir manninn að vinna vel, eigi ekki að vera að reyna að fá menn til þess með einhverjum gylliboðum um laun annars staðar. Ég held, að spursmálið í þessum efnum standi um matið á manngildinu sjálfu og hvers menn meta það og hvaða skyldu menn finna til í sambandi við það að vera maður, en ekki um neitt, sem snerti trú á annað líf eða eitthvað þess háttar.