09.12.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 115 í C-deild Alþingistíðinda. (1768)

72. mál, skipun prestakalla

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það var eitt atriði, sem ég hafði ætlað að koma að í fyrri ræðu minni, en láðist, sem mér fannst vera í gær e. t. v. ástæða til þess að leiðrétta, en er það kannske ekki. En ræða hv. 2. þm. Sunnl. vakti þessa hugsun upp hjá mér aftur. Það er það, þegar hv. 2. þm. Sunnl. segir, að hann hafi í sjálfu sér ekki við það að athuga, að færð séu saman prestaköll, þar sem engir prestar séu eða prestslaust sé, en það eigi ekki að rífa prest upp úr prestakalli, sem er þar í dag, og það hefði mátt geta staðið óbreytt um sinn. Þetta gæti gefið tilefni til þess misskilnings, að þm. líti svo á, að um prestakall, sem á að sameinast öðru, þar sem nú er prestur, verði farið þannig að, að presturinn verði látinn hætta. Ég vil taka fram, að það er engan veginn í þessu frv. Í 19. gr. frv. stendur: „Kirkjustjórnin hlutast til um, að þær breytingar á skipun prestakalla, sem ákvæði 1. gr. hafa í för með sér, komist á svo fljótt sem við verður komið eftir gildistöku þessara laga.“ Í því felst það, að ef sameinuð eru prestaköll, þar sem er prestur fyrir, heldur sá prestur áfram prestskap, svo lengi sem hann hefur rétt til lögum samkv. nú. Þess vegna stendur það óbreytt að svo stöddu, þar til að því kemur. Þetta leiðir af hlutarins eðli og skýrist í raun og veru af 20. gr., þar sem prófastsdæmunum er öðruvísi varið og það er gert ráð fyrir að koma þeirri skipan á, strax og lögin taka gildi. En einmitt vegna prestskosninganna í fyrsta lagi er nú ríkið skuldbundið eftir almennum reglum að halda áfram þeim prestum á launum, en það hefur ekki aðstöðu til þess að koma þeim í annað prestakall vegna prestskosninganna, og þess vegna er gangurinn hugsaður þannig, að þar sem svona stendur á, heldur viðkomandi prestur áfram, þar til hann lætur af prestskap einhverra hluta vegna. Þetta var kannske óþarfi, en ég vildi samt, að þetta kæmi fram vegna þessara ummæla hv. þm.