16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í C-deild Alþingistíðinda. (1772)

162. mál, vörumerki

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Frv. þetta um vörumerki er samið af n., sem iðnmrh. skipaði 20. maí 1958. Í n. voru Sigurgeir Sigurjónsson hrl., sem var formaður, Páll Pálmason ráðuneytisstjóri þá og Theódór B. Líndal prófessor. N. skilaði áliti í nóvembermánuði s.l., frv. þessu ásamt grg., og eru frv. og grg. lögð fram í óbreyttu formi eins og n. gekk frá þeim, enda þótt vera megi, að einhver atriði frv. þarfnist betri athugunar, áður en lýkur. En hér er um allflókið mál að ræða í framkvæmd og ekki rétt að hraða því um of. Ég taldi þó rétt, að frv. væri lagt nú fyrir Alþ. til að kynna málið, en teldi eðlilegt, að ekki væri að því stefnt að afgreiða frv. sem lög frá Alþ. því, sem nú situr, heldur vísa því til n. til athugunar og leggja síðan málið aftur fyrir næsta Alþ., hugsanlega með einhverjum breytingum, og stefna að því, að ný vörumerkjalög taki gildi t.d. 1. jan. 1968.

Gildandi lög um vörumerki eru frá því árið 1903, og er því við því að búast, að verulegra breytinga sé þörf á þeim, enda hafa t.d. Norðurlöndin öll fyrir löngu endurskoðað og breytt mikið vörumerkjalögum sínum frá því um aldamótin, og eru lög hinna Norðurlandanna fjögurra nú frá árunum 1959–1964.

Frv. n. er mjög sniðið eftir dönsku l. um vörumerki, svo og höfð hliðsjón af skuldbindingum Íslands sem aðila að hinni svonefndu Parísarsamþykkt um eignarréttindi á sviði iðnaðar. En 1934-texti hennar hefur lagagildi hér á landi frá 5. marz 1962, sbr. lög nr. 102 1961.

Frv. þetta felur í sér ýmis nýmæli. T. d. má nefna, að hér er lagt til, að brott falli sá munur, sem nú er gerður á orðmerkjum og myndmerkjum. Þau fyrrnefndu má nú aðeins skrá fyrir sérstaklega tilgreindar vörutegundir, en hinar síðarnefndu fyrir allar vörutegundir. Þessi munur, sem algengur var í vörumerkjalögum um og fyrir aldamót, er nú víðast hvar úr sögunni, enda alveg hætt að andæfa gegn orðmerkjum og þau orðin mun algengari nú en myndmerki. Í frv. er lagt til, að skrásetningar verði framvegis eftir vöruflokkakerfi í stað oft mjög langra vörulista nú, einkum fyrir orðmerkin. Verður þetta til mikilla þæginda í framkvæmd og er í samræmi við það, sem tíðkast víðast hvar í öðrum löndum.

Þá er lagt til, að umsóknir um skrásetningar á vörumerki verði framvegis auglýstar, í stað þess að nú er engin auglýsing birt, fyrr en skrásetning er um garð gengin, og þá venjulega engu hægt að breyta nema með dómsúrskurði, t.d. ef merki reynist of líkt firmanafni eða einhver telur á rétt sinn gengið, nema þá samkomulag náist milli aðila um þær breytingar.

Þá er í frv. gert ráð fyrir, að markaðsfesta, þ. e. ef merkið hefur lengi verið notað, þótt óskráð sé, og orðið alþekkt sem auðkenni á vörum notenda, skapi honum vörumerkjarétt, þótt merkið sé óskrásett, og er þetta nýmæli.

Allmörg fleiri nýmæli eru í frv., t.d. skrásetning vígorða eða „slogan“ á erlendu máli. Andlag vörumerkja er mjög rýmkað. Og loks eru enn önnur nýmæli, sem e. t. v. orka tvímælis, svo sem skrásetning erlends merkis án heimalandsútskriftar. Með því að krefjast ekki lengur heimalandsútskriftar á erlendum vörumerkjum, sem óskað er skrásetningar á hér á landi, er gengið lengra en okkur er skylt samkv. þeim texta Parísarsamþykktarinnar, sem Ísland hefur fullgilt. Er þetta, eins og ég sagði, eitt þeirra atriða, sem e. t. v. orka tvímælis og er rétt að athuga nánar.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að málinu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. iðnn.