06.04.1967
Efri deild: 57. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í C-deild Alþingistíðinda. (1780)

171. mál, skipulag framkvæmda á vegum ríkisins

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það væri ástæða til að ræða margt, sem fram kom í ræðu hv. 4. þm. Austf., en tímans vegna skal ég nú reyna að takmarka mig við aðeins fáein höfuðatriði í því efni. Ég þakka honum fyrir ábendingar varðandi málfar og veit, að hann er með málhagari mönnum hér á þingi, og efast ekkert um, að hann leggi þar gott til. Ég er ekki að afsaka það, að það kunni að hafa verið ýmsir annmarkar í því efni, og það ber þá að fagna því, að það skuli vera góðir menn hér í þingi, sem geta lagfært það, ef á þarf að halda. En ég skal taka undir það, að það má vitanlega með fullum rökum finna að því, ef ekki er reynt að ganga frá frv. þannig, að a. m. k. sé augljóst, hvað menn meina.

Það kom alveg skýrt fram í ræðu hv. þm. það viðhorf, sem mér kom í rauninni ekkert á óvart að kynni að koma fram hjá ýmsum aðilum hér á Alþ., sem sagt það, að með því að setja nánari reglur og skipulag, sem hv. þm. leizt nú ekki allt of vel á að gera of mikið af, væri að einhverju leyti verið að takmarka þann rétt þm., sem hv. þm. talaði svo mjög um. Þetta er að vissu leyti rétt, vegna þess að í rauninni er ekki um annað að ræða, ef á að koma einhverju viðunandi kerfi á þessi mál, heldur en menn beygi sig fyrir vissum starfsháttum, jafnt á þessu sviði sem ótalmörgum öðrum í þjóðfélaginu. Með því er ekki verið að svipta neinn mann í rauninni rétti. Við erum með ótalmörgum lögum, sem við setjum, að leggja okkur undir vissar hömlur, vegna þess að við teljum, að það þurfi að koma málum í fastara horf og það þjóni betur í senn hagsmunum einstaklinganna og heildarinnar, að það sé gert. Ég geri ekki ráð fyrir, að hv. þm. telji, að það hafi verið til fyrirmyndar, hvernig þessum málum hafi verið háttað hér í okkar landi — ég vil segja alla tíð frá því að við fórum að annast framkvæmdir okkar sjálfir. Þetta hefur hins vegar verið að smáþokast í rétta átt, að vinna með hagkvæmari hætti að framkvæmdum í landinu, með meira skipulagi og á kerfisbundnari hátt. Þetta hefur komið fram í margvíslegri löggjöf, sem hv. Alþ. sjálft hefur samþ., og það er þess vegna ekkert nýtt í þessu frv., að þm. séu að leggja á sig vissar kvaðir. Þeir hafa gert það í ótalmörgum tilfellum. Ég vil benda á í því sambandi t.d. mjög eftirtektarverða löggjöf, sem ég vil segja að hafi þróazt í mjög jákvæða átt síðustu árin, og það eru fjármál skóla. Nú liggur hér fyrir Alþ. frv., sem vafalaust kunna að verða skiptar skoðanir um, en ég hiklaust fullyrði að stefni í mjög rétta átt, sem felur í sér enn þá fastari ákvarðanir um það og fyrirmæli, hvernig skuli haga skólabyggingum. Það er hins vegar ekkert nýtt mál og enginn þm. hefur tekið fram, að það væri verið að svipta þm. neinu valdi, þó að það hafi verið vissar hömlur í þessu efni. Lögin um fjármál skóla, sem nú gilda, hinda Alþ. að verulegu leyti, og þar eru settar mjög ákveðnar reglur um það, hvaða fyrirmæli þurfi að uppfylla, til þess að heimilt sé að greiða fé til skólabygginga, og reyndar er það á fleiri sviðum, enda þótt Alþ. hafi samþ. fjárveitingar, þá er það ekki greitt út. Og ég held, að við hljótum allir að vera sammála um, að það sé hin brýnasta nauðsyn, miðað við þær miklu fjárhæðir, sem hverju sinni er varið til verklegra framkvæmda, og miðað við þær margvíslegu þarfir, sem við stöndum andspænis, að reyna að haga þessum málum á þann hátt, að það nýtist sem bezt, þetta framkvæmdafé.

Ég er ekki í neinum vafa um, að það má deila um margt, sem í þessu frv. felst, og það ýmislegt, sem þar stendur til bóta. Eins og ég gat um í minni framsöguræðu, er þetta frumsmíð. Það er að vísu byggt á margvíslegri reynslu, sem fengin er á undanförnum árum á því, hvar annmarkar helzt eru í sambandi við skipulag opinberra framkvæmda. Það er byggt á reynslu og byggt á þeim hugleiðingum, sem fróðustu menn hafa fram sett um það, hvernig hugsanlegt væri að koma þessu máli í betra horf, spara í senn verulega við framkvæmdir og í rauninni ekki að hindra það, eins og hv. þm. vildi leggja orð að, að komið verði í framkvæmd ýmsum áhugamálum kjördæmanna, heldur að að þeim yrði unnið með hagkvæmari hætti en gert hefur verið.

Hv. þm. þekkir vafalaust alveg eins vel og ég og flestir þdm. munu þekkja ótal mannvirki, sem hefur verið ráðizt í af algerum vanefnum og án þess að nokkur undirstaða hafi verið undir því, hvernig ætti að afla fjár til þeirra. Og ég þykist vita, að hv. þm. hafi oft á sínum þingmannsferli þurft að standa í miklu basli við að reyna hér og þar að herja út fé í framkvæmdir, sem var ráðizt í, af nauðsyn vafalaust, en án þess að væri nokkur nauðsynleg eða nægileg fjárhagsforsenda fyrir því að ráðast í framkvæmdirnar. Þetta þekkjum við á ótal sviðum. Og ég held, að við getum ekki deilt um það, þótt við kunnum að deila um einstök atriði þessa frv., að sú hugsun, sem hér er á bak við, að koma á þetta fastara skipulagi, reyna að leita að úrræðum til að nýta sem bezt þetta framkvæmdafé, sem allir hv. þm. tala stöðugt um að sé allt of lítið, — það sé mikil nauðsyn fyrir alla aðila, að þetta sé gert.

Varðandi það, að fjárlög séu einhver heilög kýr, sem ekki megi hagga við, þá er það mikill misskilningur, vegna þess að fjárlög eru sett á óæðri bekk en önnur lög. Fjárlög geta ekki breytt öðrum lögum, en önnur lög geta breytt fjárlögum, enda hefur alltaf verið á það litið svo. Í stórum dráttum eru fjárlög áætlun um nauðsynleg útgjöld ríkissjóðs, en geysilegur hluti þeirra útgjalda er ákveðinn með sérlögum, og ríkið verður að inna þau útgjöld af hendi, hvað sem fjárlögum líður, annað væri talið lagabrot, þannig að við erum auðvitað búnir í ótalmörgum greinum að binda okkur um fjárráðstafanir og höfum mjög bundnar hendur, ég vil segja allt of bundnar hendur hér í Alþ. til að ráðstafa og ákvarða fjárveitingar frá ári til árs, því að það er svo lítið brot af því fé, sem er til ráðstöfunar, sem hægt er að ráðstafa frjálst.

Varðandi verðhækkanirnar, sem hv. þm. talaði um, þá er það alveg rétt, það hefur verið mikið vandamál. Og það er m. a. eitt vandamál, sem nauðsynlegt er að mæta og er hægt að mæta með miklu auðveldari hætti, með því að reyna að stuðla að því, að framkvæmd sé skemur í gangi en nú er. Það hefur farið ákaflega illa fyrir mörgum aðilum fyrir þá sök, að þeir ráðast í framkvæmd, sem þeir höfðu haft von um að yrði kannske helmingi ódýrari en síðar kemur á daginn. Og það er vissulega mikið hagsmunamál fyrir sveitarfélög og aðra aðila, að reynt sé að girða fyrir þetta. Það er m. a. stefnt að þessu marki með hinum nýju lögum um skólakostnað, þar sem gert er ráð fyrir, að greiðslur til skólabygginga séu mun hraðari en áður hafi verið. Þetta gengur auðvitað út yfir það, að við getum ekki haft eins mörg mannvirki í gangi, það gefur auga leið. En ég hef hins vegar haldið, að yfirleitt væri það orðin almenn skoðun manna í dag, að áætlunargerð að þessu leyti, — það á ekkert skylt við höft, heldur skynsamleg vinnubrögð, — að slík áætlunargerð væri brýn og nauðsynleg allra aðila vegna. Það kann að vísu að vera, að það seinki hjá einhverjum, en það flýtir hjá öðrum og það verður að meta það, hvað er brýnast í því efni. Og ég get a. m. k. ekki varizt því að láta mér koma til hugar, hvort það brjóti svo mjög í bága við þá stefnu, sem vissir aðilar halda fram að sé grundvallaratriði fyrir okkur í dag, það sé að raða framkvæmdum og þá vafalaust á sama hátt að reyna með skipulögðum hætti að vinna að þeim. En þetta er meginhugsunin, sem liggur að baki þessa máls, en ekki að sé verið að færa neitt óeðlilegt vald frá Alþ. yfir til ríkisstj.

Þar sem hv. þm. minnti á hina löngu göngu til keisarans, þá hygg ég, að hann af gamalli reynslu viti, að mikið af því, sem hann þar taldi upp, gerist í dag og þarf að gerast og er óumflýjanlegt að gerist, ef skynsamlega á að vinna að undirbúningi og framkvæmd mála. Þróunin hefur verið sú, að hún hefur stefnt til aukinnar skipulagningar og skýrslugerðar og áætlunargerðar.

Hv. þm. minntist á Efnahagsstofnun, hagsýsludeild og annað þess konar, mér skildist að vísu nokkuð í gagnrýnistón. Ég held nú, að almennt sé viðurkennt, að það hafi verið stefnt mjög í rétta átt með störfum þessara stofnana, og það er áreiðanlegt, að báðar þær stofnanir, sem hann minntist á, hafa þegar fullkomlega unnið fyrir sínu kaupi og meira en það, þannig að sú útþensla ríkiskerfisins, sem er fólgin í þvílíkri starfsemi, er ekki af hinu illa, heldur hinu góða og stefnir til þess, að það verði hagkvæmlega notað það fé, sem á hverjum tíma er til ráðstöfunar, og stuðlar jafnframt að því að leysa margvíslegar deilur, sem hægt er að forðast, ef menn kanna málin nógu vel. Og margar deilur á liðnum árum, sem valdið hafa þjóðinni stórtjóni, stafa m. a. af því, að menn hefur skort þekkingu á því, hver sé hinn raunverulegi kjarni málanna. En til þess þarf að gera athuganir og vissar áætlanir líka. Og það er ákaflega brýn nauðsyn fyrir okkar litla þjóðfélag einmitt, að við höldum uppi áætlunargerð um það, hvar við ráðumst í dýrar framkvæmdir og hvenær hagkvæmt sé að ráðast í þær. Það er svo mikið í húfi fyrir okkur. Við höfum ekki efni á því að eyða peningum allt of mikið í tilraunir og til þess að geðjast einum eða öðrum umfram það, sem efnislegt mat hverju sinni bendir okkur á, að sé rétt fyrir þjóðfélagið að gera.

Ég skal ekki, herra forseti, orðlengja þetta meira. Eins og ég sagði, kemur mér ekki neitt á óvart, þótt komi upp ýmsar hugmyndir í sambandi við þetta mál. Ríkisstj. taldi rétt að leggja þetta frv. fyrir Alþ. nú. Það er unnið af nefnd, sem hefur unnið ágætt starf og reynt að kryfja vandamálin til mergjar. Hvort við svo að lokum teljum rétt að hafa það í þessu formi eða öðru, skal ég ekkert um segja. En ég hygg, að það sé skynsamlegt, einmitt út af því, hvað hér er um nýtt mál að ræða, að það sé lagt fram á þingi og sé síðan til athugunar milli þinga. Það er oft gert með löggjöf, sem menn telja að sé gott að hafa tóm til að íhuga.

Ég vil svo aðeins að lokum geta þess, af því að hv. þm. sagði í nokkrum hneykslunartón, að við frjálshyggjumenn værum að gleyma okkar stefnu með þessu máli, að í því er fólginn ákaflega mikill misskilningur, af þeirri einföldu ástæðu, að það hefði engum dottið í hug, þó að menn vilji byggja á athafnafrelsi og framtaki, að menn ættu skipulagslaust að vinna að eigin málum. Þetta er fyrst og fremst um skipulag á þeim framkvæmdum, sem ríkið sjálft stendur í, og ráðstöfun þess fjár. Þetta er það, sem hver og einn verður að meta við sínar ráðstafanir, hvort sem það er einstaklingur eða ríki, og jafnvel miklu fremur, ef menn eru frjálsir af þjóðfélagsins hálfu til athafna, að þá sé reynt að meta það, hvernig hver og einn notar sitt fé. Og ríkinu er auðvitað skylt að reyna að leita að úrræðum til að hagnýta sem bezt sitt eigið fjármagn og koma með sem ódýrustum hætti upp sínum eigin byggingum. Það brýtur ekkert í bága við spurninguna um frelsi einstaklinganna að þessu leyti.

Að öðru leyti skal ég svo ekki ræða hér frjálshyggju og skipulags- eða haftastefnu. Það gefst tækifæri til þess á öðrum vettvangi. Ég er þakklátur hv. þm. fyrir að hafa vakið athygli á málinu og dregið fram sjónarmið, sem eins og ég sagði kemur mér ekkert á óvart að komi hér fram. Ég álit hins vegar og legg á það áherzlu, að það sé nauðsynlegt, að menn breyti dálítið eldri hugsunarhætti um það í þessum efnum, þannig að það verði ekki með eins miklu handahófi, sem fjárveitingar séu veittar, eins og hefur oft og tíðum verið gert í sambandi við verklegar framkvæmdir, þar sem hrundið hefur verið af stað framkvæmdum fjárvana, með einhverjum smáfjárveitingum, sem svo hefur valdið öllum aðilum stórfelldum vandræðum, að skuli hafa verið ráðizt í án þess að leggja nægilega traustan grundvöll. Þetta held ég, að sé „hin leiðin“ að þessu leyti, ef ég má nota það orð, búskaparhyggindi, sem ég efast ekkert um að hv. þm., sem vill áreiðanlega fara með gætni að framkvæmd mála, er í eðli sínu sammála mér um að sé rétt að vinna eftir.