17.10.1966
Neðri deild: 4. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 134 í C-deild Alþingistíðinda. (1783)

17. mál, umferðarlög

Flm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég flyt hér frv. á þskj. 17 um, að þeir menn, sem aka bifreiðum eða öðrum vélknúnum tækjum, þegar þeir eru undir áhrifum áfengis, skuli sviptir ökuréttindum að fullu. Þetta er efni frv. Annað felur það ekki í sér. Á síðasta þingi flutti ég frv. um þetta, en þá varð það ekki útrætt.

Mér þykir það einkennilegt, ef hv. þm. geta ekki fallizt á að samþykkja þetta frv. Það virðist sjálfsögð öryggisráðstöfun að taka ökuleyfi af þeim, sem aka drukknir, því að akstur þeirra veldur oft slysum og tjóni. Frjálsræði drykkjumanna er mikið hér á landi, þótt þeim leyfist ekki að aka bifreiðum, þegar þeir eru fullir. Þeir geta farið inn í vínbúðir ríkisins og keypt þar vín til að súpa, eftir því sem gjaldgetan og magarúmið leyfir. Oft njóta þeir þeirrar náðar að vera boðnir í veizlur hjá ríkisstj., en þar er venjulegast vín á borðum. Þar geta þeir drukkið sig góðglaða og vel það. Þeir geta farið í loftköstum yfir höf og lönd og drukkið sig fulla í loftferðunum, þótt þeir fái ekki að stýra flugvélunum. Þeir geta farið á skipum í skemmtiferðir til fjarlægra landa. Og þeir hafa frelsi til þess að drekka upp allar vínbirgðir Rússaveldis í einni slíkri reisu. Hins vegar munu Rússar ekki leyfa þeim að stýra skipinu, en það finnst mér ekkert tiltökumál.

Drykkjumenn hafa leyfi til að gera margt fleira. Þeir hafa frelsi til þess að leggja heimili sín í rústir með áfengisneyzlu. Svo er nú það. Vissulega er frjálsræði drykkjumanna hér á landi mikið, þótt þeir fái ekki að aka bifreiðum, þegar þeir eru fullir. Það er þeim sjálfum fyrir beztu, að þeim ökuferðum linni, því að þær enda oft með hörmungum fyrir þá og aðra.

Ég legg til, herra forseti, að frv. þessu verði vísað til 2. umr., þegar þessari er lokið, og til hv. allshn.