13.12.1966
Neðri deild: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 296 í B-deild Alþingistíðinda. (180)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég verð að segja það, að ég kann ekki við svona lagað eins og hér á að hafa í frammi. Það verður að ganga þannig, frá l., að þau séu nokkurn veginn skýr. Það er sitthvað, þótt menn geri dellur í grg., eins og í þessu frv., en að gera það í l. sjálfum getur ekki gengið. Og það er ekki til neins að gefa einhverjar yfirlýsingar um, að ríkisstj. eða einhverjir aðilar skilji þetta svona og svona, þegar lagabókstafurinn er alveg þvert á móti. Hér stendur í 3. gr.: „Af því fé, sem ráðstafað verður úr sjóðnum á ári hverju, má eigi verja meiru en 1/3 hluta til styrkveitinga.“ Það er því ekki til neins fyrir neina ríkisstj. að gefa yfirlýsingu um, að hím skilji þetta svo sem enginn annar maður getur skilið, að þetta ætti ekki að gilda fyrir árið 1966. Það, sem á að gera til þess að afgr. l. frá Alþ., ef hæstv. ríkisstj. hugsar sér að gera þetta svona, það er að bæta þarna inn í t.d.: Af því fé, sem ráðstafað verður úr sjóðnum á hverju ári eftir 1966, má eigi verja meiru en 1/3 til styrkveitinga. — Ég get ekki séð, af hverju ætti að fara inn á þá leið hér í lagasetningu á Alþ., að hinir og þessir menn, hvort þeir eru ráðh. eða ekki, séu að gefa einhverjar yfirlýsingar um, hvernig þeir skilji mál, þegar sjálfur bókstafurinn í l. er þveröfugur við skilninginn. Dómari gæti ekki dæmt öðruvísi seinna heldur en viðkomandi ráðh. hafi ekki skilið íslenzku. Ég held því, að hæstv. ríkisstj. eigi bara að breyta þessu með einni smábrtt., en ekki láta stangast svona á. Svona eigum við ekki að afgr. lög.