24.11.1966
Neðri deild: 24. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 159 í C-deild Alþingistíðinda. (1800)

31. mál, verðlagsmál

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Fyrir réttum mánuði, 24. okt., var vísað til hv. fjhn. frv. til l. um breyt. á l. um verðlagsmál, sem ég flyt ásamt tveim öðrum hv. þm. Alþb. Fjhn. hefur nú haft þetta mál til meðferðar í einn mánuð, og eins og við allir vitum hefur ekki verið sérstaklega mikið að gera hér í d. þannig að það mætti gjarnan vera fjölskrúðugri dagskráin. Það væri mjög æskilegt, að þau mál, sem vísað hefur verið til nefnda, fyndu nú útgöngudyr úr þeim n. á ný. Með þetta mál stendur alveg sérstaklega svo á, að einmitt vegna þess umtals um verðstöðvun sem nú á sér stað í þjóðfélaginu, er um að ræða till. um verulegt framlag í þeim efnum með þessu frv., og ég vil eindregið mælast til þess og skjóta því líka til hæstv. forseta, hvort ekki væri heppilegt að reka á eftir fjhn. með að afgreiða þetta mál. Ég held, að það megi ekki halda þeim hætti, sem stundum hefur komizt inn á undanförnum þingum, að liggja á málum alveg endalaust. Ég vil þess vegna beina því til hæstv. forseta, hvort ekki væri rétt að reka á eftir fjhn. með að skila þessu máli.