17.11.1966
Neðri deild: 17. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í C-deild Alþingistíðinda. (1814)

60. mál, umferðarlög

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Við hv. 10. landsk. þm. höfum leyft okkur að flytja hér frv. til l. um breytingar á umferðarlögum. Það gengur út á, að 28. gr. verði þannig breytt, að til þess að mega aka dráttarvél utan alfaravegar skuli unglingar hafa náð 14 ára aldri, Nú er 28. gr. í umferðarl. þannig, með leyfi hæstv. forseta, þ.e. síðari hluti gr., um vinnuvélarnar:

„Enginn má stýra dráttarvél, nema hann hafi fengið skírteini til bifreiðaaksturs eða sérstakt skírteini til aksturs dráttarvéla. Slíkt skírteini má ekki veita yngri mönnum en 16 ára. Eigi þarf ökuskírteini til aksturs dráttarvéla, þegar þær eru notaðar við jarðyrkjustörf utan alfaravegar.

M.ö.o.: nú er ákveðið, að yngri maður en 16 ára megi ekki aka dráttarvél á venjulegum vegum. En þegar um er að ræða að aka dráttarvél utan alfaravegar, eru engin aldurstakmörk fyrir því, hve ungur sá unglingur eða það barn má vera, sem ekur dráttarvél utan alfaravegar. Ég ætla ekki hér að ræða um það, hvort þetta ákvæði kann að vera brotið, þegar um er að ræða akstur á alfaravegum. Það kemur ekki beint þessu máli við. En hitt er aftur á móti það, sem okkar brtt. gengur út á, að í staðinn fyrir, að það sé ekkert aldurstakmark sett, þegar um er að ræða akstur á dráttarvélum utan alfaravegar, verði nú sett aldurstakmark og það verði miðað við 14 ár. Það var svo, að þegar umferðarlögin voru hér til umr. 1957, var flutt brtt., sem gekk út á þetta sama, sem nú er lagt til, að það væri takmarkað við 14 ára aldur, að unglingar eða börn mættu aka dráttarvélum utan alfaravegar. Það var Gunnar Jóhannsson, sem flutti þá till., og við töluðum báðir um þetta mál, ég og hann, og við vorum víst tveir einir, sem greiddum því atkv., er atkv. vorn greidd, það munu ekki fleiri hafa verið viðstaddir af okkar Alþb.-þm., og þessi brtt. var þá kolfelld.

Nú er það svo, að síðan er komin nokkur reynsla á, hvernig þetta er. Ég hef hér skýrslu frá Slysavarnafélagi Íslands um þau slys, sem orðið hafa í sambandi við dráttarvélar á árunum 1958 til 14. nóvember 1966, og ég ætla — með leyfi hæstv. forseta — að lesa upp þær tölur, sem þar fjalla um slys og sérstaklega um banaslys.

Alls voru dráttarvélaslysin á árinu 1958, banaslys 4 og aðrir slasaðir 2. 1959 var banaslys 1, slasaðir 2. 1960 var banaslys 1, slasaður 1, 1961 banaslys 2, slasaðir 4. 1962 var ekkert banaslys, en 2 slasaðir. 1963 var eitt banaslys, en enginn slasaður annars. 1964 varð 1 banaslys og 1 slys öðruvísi. 1965 voru 3 banaslys og 2 slasaðir öðruvísi. Og 1966, það sem af er, eru 5 banaslys og 4, sem hafa slasazt öðruvísi.

Á þessum tíma, frá því 1958, er tala þeirra, sem misst hafa lífið af dráttarvélaslysum og eru 14 ára eða yngri, alls 6. Þeir, sem misst hafa lífið á aldrinum 15—20 ára, eru 4. Þeir, sem misst hafa lífið á aldri þar fyrir ofan, milli 21 og 50 ára, eru 8. Það er því mjög greinilegt, að einkum á síðustu tveimur árum hefur banaslysum fjölgað mjög mikið og ekki sízt hvað unglingana snertir. Og við teljum, flm., að það sé ekki hægt að láta þetta ganga svona til áfram, það verði að setja einhverjar skorður í löggjöf, sem reyna að koma í veg fyrir þetta. Ég skal viðurkenna, að það er ýmislegt fleira, sem kemur til greina, fyrir utan sjálf aldurstakmörkin, og þó held ég, að þau verði óhjákvæmilega að vera þarna með.

Ég hef hér frá Slysavarnafélaginu allnákvæma skýrslu um þessi mál og líka, hvernig þau slys hafa átt sér stað, sem orðið hafa í ár. Mikið af þeim banaslysum er hjá einmitt drengjum á aldrinum 15—16 ára, þannig að 14 ára aldurinn eða bann takmarkað við hann er ekki einhlítt til þess að koma í veg fyrir þetta. En hitt er greinilegt, að svona má ekki ganga til áfram, og löggjafarsamkundan getur ekki látið það viðgangast, samtímis því sem reynt er þó að setja barnaverndarlög um vinnu á ýmsum öðrum sviðum, að þarna sé látið vera opið hættusvæði, ekki sízt eftir þá reynslu, þá hörmulegu reynslu, sem þegar er komin á.

Nú höfum við flm. enn fremur sett þarna inn í, að á þeim dráttarvélum, sem unglingar á aldrinum 14 ára og eldri aka, skuli vera yfirbyggð skýli. Það er enginn efi á því, að það mundi draga mjög úr slíkri slysahættu, ef skýli eru yfirbyggð. En ég vil þar að auki leyfa mér með leyfi hæstv. forseta — að lesa hér upp ályktun, sem borizt hefur til Alþ. frá fundi í Kvenréttindafélagi Íslands, sem haldinn var 18. okt. 1966. Þessi ályktun hljóðar svo:

„Fundur Kvenréttindafélags Íslands, haldinn 18. okt. 1966, lætur í ljós harm sinn yfir hinum mörgu slysum, sem orðið hafa s.l. sumar og mörg undanfarin sumur af völdum landbúnaðarvéla. Fundurinn telur, að við svo búið megi ekki lengur standa, heldur verði að hefjast handa til þess að reyna að koma í veg fyrir slys af þessu tagi. Fundurinn skorar því á hv. Alþ. og landbrh. að láta semja lög, sem miði að því að fækka þessum óhugnanlegu slysum.“

Og í grg. fyrir þessari till. segir svo :

„Þar sem ekki mun unnt að framfylgja banni, þótt í lög væri leitt, um, að unglingar stjórni dráttarvélum og öðrum landbúnaðarvélum, verður að finna aðrar leiðir til þess að koma í veg fyrir þessi slys. Benda má á nokkur atriði, sem að gagni mættu koma:

1) Í hverri sveit fari fram árlega skipulögð kennsla fyrir þá unglinga og aðra, sem vinna eiga við landbúnað næsta sumar, en hafa ekki lært og kunna ekki meðferð véla og farartækja. Kennslan miðist ekki aðeins við að geta ekið tækjunum, sem mun vera tiltölulega auðvelt, heldur verði mikil áherzla lögð á, að nemendur geri sér grein fyrir takmörkun tækjanna og hættunum þeim samfara. T.d. má benda á nauðsyn þess, að ökumaður geri sér fulla grein fyrir beygjuradíus tengivagns, að ökumaður sé dómbær á hallaþol ökutækis, að ökumaður gæti þess hverju sinni við hleðslu, að þyngdarpunktur verði hvorki of aftarlega né of framarlega, og að ökumaður láti aldrei fríhjóla niður brekku.

2. Árlegt eftirlit verði haft með landbúnaðarvélum á svipaðan hátt og með bifreiðum.

3. Eftirlitsmaður, t.d. fulltrúi sýslumanns eða tryggingafélags, fari auk þess eftirlitsferðir milli bæja og kynni sér, hvort gætt sé settra reglna og varúðar, miðað við aðstæður á hverjum bæ. Eftirlitsmaður hafi rétt til að banna þeim, sem brjóta settar reglur, að vinna við þessar vélar, og nái það bann jafnt til bændanna sjálfra sem þeirra, er hjá þeim vinna.

4. Lágmarksaldur og/eða lágmarksstærð unglinga til að stjórna landbúnaðarvélum verði ákveðinn.“

Þetta er samþykkt frá Kvenréttindafélagi Íslands, og ég skal taka það fram, af því að ég hef fengið upplýsingar um það, að þessi grg. er samin með aðstoð ungs manns, sem byrjaði 11 ára gamall að stjórna dráttarvél. Þarna er bent á frá hálfu Kvenréttindafélagsins ýmsar aðrar aðferðir en eingöngu að takmarka með lögum aldur þeirra unglinga, sem mega aka dráttarvélum, og allar þessar ábendingar eru vissulega þess virði, að þær séu athugaðar mjög vel. En eins og þarna er líka tekið fram seinast, er þó hallazt að því, að ákvörðun um lágmarksaldur sé líka nauðsynleg.

Ég álít, að það sé alveg óhjákvæmilegt, að við hér á Alþ. tökum þetta mál til meðferðar og til afgreiðslu. Það samrýmist ekki þeim hugsunarhætti, sem menn almennt vilja viðurkenna nú á dögum, að þetta sé látið viðgangast. Það urðu allharðar deilur um þetta 1957, en mér sýnist, að reynslan hafi skorið þannig úr, að það sé ekki hægt að láta þetta viðgangast óbreytt, það verði annars vegar að breyta lögum og það verði hins vegar að setja reglugerðir, sem koma þarna á vissum takmörkunum, eftirliti eða öðru slíku.

Ég vil vonast til þess, að allir hv. þm. hafi fylgzt það vel með því, hvað gerzt hefur á þessum sviðum, að þeir finni nauðsynina á því að gera þessar breytingar, og vil vona, að það geti tekizt samstarf um það í þeirri n., sem þetta mál fer til, að reyna að gera breytingar á þessum lögum eða setja í þau fyrirmæli um nánari reglugerðir og annað slíkt, sem gæti að einhverju leyti orðið til þess að koma í veg fyrir önnur eins slys og þarna hafa átt sér stað eða draga úr þeim, því að við sjáum einmitt af þeirri skýrslu, sem ég las upp, hve óskaplega þau færast i aukana. Ég vil þess vegna óska þess, að að lokinni þessari umr. verði þessu máli vísað til 2, umr. og — hvað formið snertir mun þetta mál eiga að fara til samgmn., þar hafa umferðarlögin alltaf verið, þótt að vísu þessi grein ætti frekar heima hjá félmn. eða menntmn., en ég vil láta forseta um það. Formlega á þetta að fara til samgmn., en til hvaða n. sem það færi, vil ég vonast til þess, að það geti tekizt þannig samvinna um þetta mál, að það sé hægt að tryggja, að þetta Alþ. afgreiði það á þann máta, að verulegar vonir standi til þess, að dregið verði úr þeirri slysahættu, sem á þessu sviði hefur verið.