17.11.1966
Neðri deild: 17. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í C-deild Alþingistíðinda. (1815)

60. mál, umferðarlög

Dómsmrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Það er vissulega alvarlegt mál, sem hér hefur verið gert að umtalsefni og frv. það til l. um breyt. á umferðarlögum fjallar um, sem nú er á dagskrá. Það er auðvitað eðlilegt, eins og fram kom hjá hv. 3. þm. Reykv., að Alþ. láti slíkt mál til sín taka, enda hefur það látið slíkt mál til sín taka áður, eins og eðlilegt er, þar sem tiltekin ákvæði eru í umferðarl. hér að lútandi. En það er ekki aðeins Alþ., sem hefur látið málið til sín taka, heldur hefur þetta mál einnig verið til meðferðar innan ríkisstj. og unnið að athugun þess á undanförnum mánuðum og sannast að segja á vegum fleiri ráðuneyta.

Það er rétt, sem hv. þm. vakti athygli á, að þegar umferðarl. voru sett hér seinast, var í frv., sem lagt var fyrir Alþ. 1957 og umferðarlaganefnd hafði samið, í 28. gr., ákvæði um, að stjórnendur dráttarvéla, sem notaðar eru við jarðyrkju og heyskaparstörf utan alfaravegar, mættu ekki vera yngri en 15 ára. Og í aths. við 28. gr., sem þetta ákvæði var í, var sagt í frv.: „Eigi þykir ástæða til að krefjast sérstaks prófs eða ökuskírteinis fyrir þá, sem einungis stjórna dráttarvélum utan alfaraleiða við jarðyrkju- og heyskaparstörf. Aldursmark er sett 15 ár og er í það lægsta,“ segir n. En niðurstaðan einmitt hér á Alþ. þá var sú, að þetta aldurshámark var brott numið, þannig að það endaði með því, að löggjöfin var afgreidd þannig, að ekkert aldursmark var sett varðandi þá, sem aka dráttarvélum utan alfaraleiða, eins og þar stendur. Í 28. gr. er um þetta fjallað. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Enginn má stýra dráttarvél, nema hann hafi fengið skírteini til bifreiðaaksturs eða sérstakt skírteini til aksturs dráttarvéla. Slíkt skírteini má ekki veita yngri mönnum en 16 ára.“ En svo kemur ákvæðið: „Eigi þarf ökuskírteini til aksturs dráttarvéla, þegar þær eru notaðar við jarðyrkjustörf utan alfaravegar.“

Við höfum síðan haft mjög alvarlega reynslu af því, að ungir menn, sem farið hafa með dráttarvélar, hafa bæði slasazt og beðið bana. Nú er í sjálfu sér alveg ósagt um, hvernig farið hefði, jafnvel þótt ákvæði l. hefðu verið með nokkrum öðrum hætti en það er. Og málið er hreint ekki vandalaust. Það segir m.a. í brtt. í frv., sem fyrir liggur: „Yfirbyggt skýli skal vera á slíkum dráttarvélum.“ Gert er ráð fyrir, að unglingar, sem náð hafa 14 ára aldri, megi þó án ökuskírteinis aka dráttarvél, þegar hún er notuð til jarðyrkju eða við heyskaparstörf utan alfaravegar. Yfirbyggð skýli skulu vera á slíkum dráttarvélum. Það eru annars vegar þessar eðlilegu hugsanir, aldurinn, og hins vegar einhver öryggisútbúnaður á dráttarvélunum, sem mönnum er efst í huga til þess að koma í veg fyrir hin alvarlegu slys. Ákvæði eru nú í reglugerð um gerð og búnað ökutækja, þar sem segir í 28. gr., að eftir 1. jan. 1966, þannig að það er nú komið í framkvæmd, er innflytjendum óheimilt að selja dráttarvélar eða afhenda, nema á þeim séu öryggisgrindur eða hús, sem bifreiðaeftirlit ríkisins hefur viðurkennt. Þetta þýðir það, að allar vélar, sem fluttar eru inn eftir 1. jan. s.l., eiga að vera með öryggisútbúnaði eða skýli, sem viðurkennt er, nær hins vegar ekki til eldri dráttarvéla í landinu, og vafðist a.m.k. fyrir mönnum, þegar þessi reglugerðarákvæði voru sett, að skylda bændur til að setja skýli eða öryggisútbúnað á gamlar og kannske verðlitlar dráttarvélar. En það er einmitt þetta mál, sem hefur verið í nánari athugun innan margra rn., eins og ég sagði áðan, hvað hægt sé að gera til varnar í þessu efni.

Viðskmrh. vakti athygli á því með bréfi frá því í júnímánuði, dags. 27. júní, að það á sér stað viðleitni innan OECD, eða Efnahags- og framfarastofnunarinnar, um samræmingu öryggisreglna að því er snertir notkun dráttarvéla og annarra landbúnaðarvéla. Og öryggismálastjóra, Þórði Runólfssyni, var skrifað út af þessu og hann skrifaði svo aftur samgmrn. 27. sept. Ég tel rétt, að fram komi nokkur atriði úr bréfi öryggismálastjóra, þar sem hann vitnar í fyrsta lagi til bréfs, sem hann hafi móttekið frá viðskmrn. varðandi samræmingu öryggisreglna um notkun dráttarvéla og annarra landbúnaðarvéla. Þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Samkv. 1. gr. laga um öryggisráðstafanir á vinnustöðum er allur almennur búrekstur undanþeginn lögunum og þar af leiðandi vélar, sem í búrekstri eru notaðar. Ég hef hvað eftir annað bent á það, hversu fráleitt ég tel það, að öryggiseftirlitið skuli ekki mega hafa afskipti af öryggisbúnaði landbúnaðarvéla, með því að hin tíðu og alvarlegu slys, sem orðið hafa við þessar vélar, gefa fullt tilefni til eftirlits. Í þessu sambandi hef ég bent á, að beita mætti síðustu mgr. fyrrnefndrar lagagr. Í IV. kafla reglugerðar um gerð og búnað ökutækja 15. maí 1964 er að finna þau einu ákvæði, sem til eru í lögum og reglum hér á landi um öryggisbúnað dráttarvéla og tækja, sem tilheyra þeim. Á forstjórafundi öryggiseftirlita Norðurlandanna, sem haldinn var í Helsingfors vorið 1964, varð það að samkomulagi, að sömu reglur um gerð og styrkleika húsa og öryggisgrinda á dráttarvélum skyldu vera í öllum löndunum, og jafnframt samþykkt að taka upp þær reglur, sem um nokkur ár hafa gilt í Svíþjóð. Með því að þessi mál falla ekki undir starfssvið öryggiseftirlitsins, gagnstætt því, sem almennt er í hinum Norðurlöndunum, gat ég ekki tekið aðra afstöðu til málsins á fundinum en þá að lofa að beita mér fyrir því, að sænsku reglurnar yrðu teknar upp hér á landi. Þessu kom ég síðan á framfæri við forstöðumann bifreiðaeftirlitsins með þeim árangri, að einungis þau hús og öryggisgrindur dráttarvéla, sem uppfylla kröfur sænsku reglnanna, eru viðurkenndar hér á landi.“

Eins og fram kemur í reglugerð, gilda ákvæðin aðeins um nýjar dráttarvélar, sem fluttar eru til landsins eftir 1. jan. 1966, en engin ákvæði varðandi eldri vélar eða eftírlit með því, að húsum eða öðrum öryggisbúnaði sé haldið við. Ætti Ísland að gerast aðili að samræmdum reglum um öryggisbúnað dráttarvéla og annarra búvéla, sem settar yrðu á vegum OECD, tel ég, að ekki verði hjá því komizt að taka upp eftirlit með slíkum vélum og fyrst og fremst beri að leita umsagnar landbrh. um málið.

Þessi mál hafa þannig verið bæði til athugunar í dómsmrn., sem hefur haft umferðarl. til meðferðar, í samgmrn., landbrn. og viðskmrn., og síðast varð það að samkomulagi innan stjórnarinnar, að tveimur ráðuneytisstjórum, í dómsmrn. og samgmrn., var falið að athuga nánar þetta mál, einmitt út frá því sjónarmiði, að við gerðumst aðilar að samræmdum reglum og samkomulagi, sem gert kynni að vera á vegum þeirra þjóða, sem eru í OECD, í þessu sambandi, og hvaða frekari öryggisráðstafanir væri hægt að gera aðrar en þær, sem nú eru í lögum, varðandi aldursmark og útbúnað, hvaða aðrar reglur gætu hér komið til álita.

Þetta mál er sem sagt í þessari athugun. Ég tel alveg eðlilegt og sjálfsagt, eins og kom fram hjá hv. 3. þm. Reykv., að þetta frv. hans, sem hann gerði grein fyrir, fái ýtarlega athugun í n. En ég vil vekja athygli þeirrar n., sem fær það til meðferðar, einmitt á þeirri athugun, sem innan rn. á sér nú stað, og teldi eðlilegt, að samband verði fyrst og fremst haft við þessa tvo ráðuneytisstjóra, sem ég hef sagt. Og ég tek svo undir það að lokum, að við alþm. verðum alvarlega að endurskoða fyrri afstöðu til þessara mála, og ef þess verður nokkur kostur að finna haldbetri úrræði en við fram til þessa höfum fundið, bæði í lögum og reglugerðum, til þess að koma í veg fyrir þessi alvarlegu slys.

Ég vildi aðeins láta koma fram þessar upplýsingar um þá viðleitni, sem innan ýmissa rn. á sér stað til þess að vinna að frekara öryggi á þessu sviði, og vona, að það verði einnig samstaða þm. um það, eins og hv. flm. sagði, og full ástæða til þess, að þn. hefði náið samband, eins og málin standa nú, við þau rn., sem samtímis eru að þessum málum að vinna.