17.11.1966
Neðri deild: 17. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 175 í C-deild Alþingistíðinda. (1817)

60. mál, umferðarlög

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég vil fyrst leyfa mér að þakka hæstv. ráðh. bæði þær upplýsingar, sem þeir hafa gefið, og þeirra góðu undirtektir undir þetta mál. Það gleður mig mjög, að þetta skuli vera til góðrar athugunar í ráðuneytunum og að það skuli vera eins mikill áhugi og fram kom hjá hæstv. ráðh. fyrir, að hægt væri að finna umbætur í sambandi við þetta mál.

Það er rétt kannske að taka það fram fyrst í sambandi við þá skýrslu, sem fyrir liggur, og ég hef fengið hjá Slysavarnafélaginu, og Slysavarnafélagið er mjög reiðubúið til allrar samvinnu um þessi mál, og sá maður, Sigurður Ágústsson, sem hefur sérstaklega með þetta að gera þar, það er rétt að taka það fram í sambandi við það, sem rætt er þarna um aldurinn, að það er ekki staðsetning á því, hvar slysin hafi átt sér stað. Og ég veit ekki, hvort við getum fengið það fram, að hve miklu leyti þessi slys hafa átt sér stað utan alfaravegar eða bókstaflega á alfaravegi, því að eins og getið var um áðan, gera lögin mjög skarpan greinarmun þar á. Vandræðin eru náttúrlega þau, að það er a.m.k. mjög mikil hætta á, að þessum lögum sé ekki nákvæmlega framfylgt.

Ástæðan til þess hins vegar, að við, sem leggjum fram þetta frv., takmörkuðum þarna við 14 ár, var, að við þorðum bókstaflega ekki að gera okkur neinar vonir um, að það væri möguleiki á því að fá fram á Alþingi takmörkun, sem væri við hærri aldur en það. Það voru mjög harðar umr., sem fram fóru hér 1957, og því var haldið mjög eindregið fram, að það þýddi mjög mikil óþægindi og jafnvel það, sem meira væri, fyrir bændur, ef ætti að fara að takmarka þetta við eitthvert sérstakt aldurstakmark. Hæstv. dómsmrh. upplýsti, hvernig breytt hefði verið frá því, sem nefndin upphaflega hafði samið það. En þegar við reyndum hér í Nd. að fá fram 14 ára aldurinn, var þetta kolfellt, og það var minnzt á í umr., hvort það mundi vera einhver möguleiki um það að fá t.d. samkomulag um 12 ára aldur, og það virtist ekki vera grundvöllur fyrir því, þannig að þess vegna þorðum við ekki að reyna með hærri aldur en 14 ára.

Hitt er aftur á móti rétt, að bæði gagnvart þeim, sem eru það ungir, og eins gagnvart þeim, sem keyra dráttarvélar á almannafæri og hafa rétt til þess, þarf þarna miklu fleiri ráðstafanir. Það er engum efa bundið, eins og sérstaklega var líka bent á af hálfu Kvenréttindafélagsins og þess unga manns, sem sjálfur hafði reynslu af þessu sem hafandi byrjað 11 ára gamall að stjórna svona dráttarvél. Það er því alveg gefið mál, að bæði sú kennsla, sem hæstv. landbrh. minntist á, og eftirlit, sem þarna þyrfti að framkvæma og hæstv. dómsmrh. líka kom inn á, og það spursmál að taka landbúnaðarvélarnar almennt inn undir öryggiseftirlitið, þetta eru allt saman mál, sem jafnhliða þessu þarf að rannsaka. Ég vil þess vegna á þessu stigi aðeins leyfa mér að láta í ljós ánægju mína yfir þeim undirtektum, sem það hefur fengíð hjá hæstv. ráðh., og óska eftir því, að þetta mál í heild, bæði sá þáttur þess, sem í þessu frv. felst, og sá þáttur þess, sem er utan við það og verið er að athuga í ráðuneytunum og annars staðar, að þetta verði allt saman þannig unnið, að við getum komið okkur niður á að samþ. slík lög frá þessu þingi og aðrar ráðstafanir, sem gera skuli, að von verði til þess, að draga mætti úr þessum slysum.