06.02.1967
Neðri deild: 35. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í C-deild Alþingistíðinda. (1825)

69. mál, Fiskiðja ríkisins

Flm. (Ragnar Arnalds):

Herra forseti. Á þskj. 78 hef ég leyft mér að flytja frv. til l. um stofnun fyrirtækis, sem beri nafnið Fiskiðja ríkisins. Í stuttu máli er það meginefni þessa frv., að ríkisvaldið taki að sér forustuhlutverk í uppbyggingu niðursuðuiðnaðar á Íslandi, en þessi iðngrein hefur nánast staðið í stað um aldarfjórðung. Ef þessi iðnaður á að verða einn af grundvallaratvinnuvegum þjóðarinnar í framtíðinni, eins og hann hefur vissulega öll skilyrði til þess að verða, verður ekki hjá því komizt, að ríkisvaldið leggi grundvöllinn með nokkrum markvissum ráðstöfunum.

Hér er gerð um það till., að í fyrsta lagi verði sett á stofn fiskiðja ríkisins er starfi undir sérstakri þingkjörinni stjórn. Í öðru lagi, að ríkið leggi fram fjármagn, svo að unnt sé með nokkurri von um árangur að ráðast til atlögu við mesta vandamál þessa iðnaðar, markaðsvandamálið. M.a. verði stofnað til sölusamtaka framleiðenda, sem reyni sameinaðir að brjótast inn á frjálsan markað undir einu auglýstu vörumerki. Í þriðja lagi, að fiskiðjan taki við rekstri niðurlagningarverksmiðjunnar á Siglufirði. Í fjórða lagi, að fiskiðjan reisi nokkrar nýjar verksmiðjur, eftir því sem markaður leyfir, og verði við staðsetningu þeirra einkum að því hugað að bæta atvinnuástand þeirra staða, þar sem vinna er að staðaldri ónóg. Í fimmta lagi, að Fiskiðja ríkisins fái það hlutverk að hafa forustu um hvers konar vísindarannsóknir á þessu sviði, innleiði tækninýjungar, geri tilraunir með nýja matarrétti. Og í sjötta lagi, að Fiskiðju ríkisins verði falið að gera ráðstafanir til þess, að Íslendingar eignist fjölmennan hóp sérmenntaðra manna í niðursuðutækni. Áhugamenn séu kostaðir til náms erlendis og efnt sé öðru hverju til sérstakra námskeiða fyrir verkstjóra og annað starfslið.

Margir munu hafa furðað sig á því og það ekki að ástæðulausu, hversu illa hefur gengið að koma upp niðursuðu- og niðurlagningariðnaði á Íslandi. Á hverju ári hafa Íslendingar mokað gífurlegum afla á land. Þeir hafa minna hirt um það að fullvinna afurðirnar sjálfir. Fiskvinnslustöðvar víða um heim hafa fengið ódýrt úrvalshráefni frá Íslandi og hafa hagnazt drjúgum á því að margfalda hráefnisverðið með fullvinnslu. Ef við berum okkur saman við Norðmenn, kemur glöggt í ljós, hve Íslendingar eru langt á eftir Norðmönnum á þessu sviði. Í Noregi er 15% af útflutningsverðmæti norskra sjávarafurða niðursoðinn eða niðurlagður fiskur, en hliðstæð hlutfallstala á Íslandi er aðeins 1/2% — í Noregi sem sagt 15%, á Íslandi aðeins 1/2%. Það er vissulega nokkuð ömurlegt að sjá, hve Íslendingar standa langt að baki keppinautum sínum, Norðmönnum, á þessu sviði. En hitt er þó jafnvel enn ömurlegra, að sjá, hvað framfarir í þessari iðngrein hafa verið hægar og þróunin einkennilega skrykkjótt. Árin 1940—1941 var útflutningur Íslendinga á niðursuðuvörum um 700 tonn eða um það bil tvöfalt meiri en 1963 og 1964. Á þessu tímabili kom það fyrir, að útflutningurinn eitt árið fór yfir 1000 tonn, annað árið datt hann niður í sama sem ekki neitt. Árin 1965 og 1966 hefur útflutningsmagn niðursuðuvara aukizt talsvert, einkum vegna stóraukinnar sölu til Sovétríkjanna. En þrátt fyrir þessa aukningu er hlutfallstala niðursuðu- og niðurlagningarvara á útfluttum fiskafurðum þó enn langt innan við 1%. Og talinn í tonnum er útflutningurinn á seinasta ári svipaður eða aðeins lítið eitt meiri en hann var mestur fyrir aldarfjórðungi.

Hver er þá helzta skýringin á erfiðleikum niðursuðuiðnaðarins? Um það er víst ekki þörf að deila. Skýringin er fyrst og fremst sú, að skort hefur markaði. En hvers vegna hefur markaði skort? Öllum ber þó saman um, að íslenzk hráefni séu með þeim beztu, sem fáanleg eru í heiminum. Hvers vegna geta Íslendingar ekki selt þessa framleiðslu eins og aðrar þjóðir? Um leið og reynt er að svara spurningunni, er nauðsynlegt að gera sér þess grein, að markaðsöflun fyrir fullunnar iðnaðarvörur eru miklu meiri erfiðleikum bundin en sala á hráefnum eða hálfunnum vörum. Í upphafi þarf stórfellda auglýsingaherferð á frjálsum markaði, erindrekstur, tilraunastarfsemi. Hér á landi hafa verið starfræktar fjöldamargar verksmiðjur, en þær hafa flestar verið heldur litlar og ófullkomnar. Eigendur hafa oftast verið fjárvana og ekki þolað neins konar áföll eða byrjunarörðugleika. Auk þess er víst óhætt að segja, að sérþekking og tæknikunnátta hefur verið mjög af skornum skammti. Og stundum hefur framleiðslan misheppnazt algerlega. En það er augljóst, að jafnvel smávægilegustu mistök á þessu sviði geta eyðilagt stóra markaði. Vafalaust skiptir þó allra mestu máli, að það hefur aldrei verið gert neitt markvisst átak til þess að selja framleiðsluna. Framleiðendur hafa aldrei haft nein samtök með sér, og enginn aðili hefur haft fjármagn til þess að brjótast inn á frjálsan markað með þeim krafti, sem til þarf. Enginn hefur sem sagt getað leyft sér að taka þá áhættu, sem í upphafi hlýtur að fylgja slíku.

Nú eru hér á landi þrjár meiri háttar verksmiðjur í þessum iðnaði, allar búnar mjög góðum framleiðslutækjum. K. Jónsson & Co. h/f á Akureyri framleiðir langsamlega mest og flytur megnið af framleiðslu sinni til Sovétríkjanna samkv. föstum samningum. Norðurstjarnan í Hafnarfirði er nýtt og glæsilegt fyrirtæki, sem upphaflega seldi aðallega til Bandaríkjanna undir norsku vörumerki, en þessi verksmiðja mun ekkert hafa framleitt núna seinustu missirin vegna rekstrarörðugleika. Á Siglufirði var að frumkvæði Alþingis og ríkisstj. hafin bygging verksmiðju af fullkomnustu gerð fyrir mörgum árum, og hún mun nú vera liðlega hálfbyggð. Verksmiðjan er rekin undir stjórn síldarverksmiðja ríkisins og var ætluð sem framlag hins opinbera til styrktar þessum iðnaði og átti að ryðja öðrum verksmiðjum brautina. Framleiðslan hefur þótt takast vel, og hún er að mestu leyti seld til Sovétríkjanna, en ég held, að ég geti leyft mér að segja, að ekkert markvisst stórátak hefur verið gert til þess að afla annarra markaða.

Bygging þessara þriggja fullkomnu verksmiðja er vissulega mikilvægt spor í rétta átt. En ég held, að menn hljóti að vera sammála um það, að næsta skrefið er að hefja víðtæka markaðsöflun og skipuleggja þennan atvinnuveg í heild sinni, svo að hér megi rísa á næstu árum stóriðja í matvælaiðnaði. En hvernig má það verða? Munu hinir ýmsu framleiðendur í þessari iðngrein verða færir um að skipuleggja þennan atvinnuveg einir og koma á fót slíkri stóriðju án aðstoðar eða forustu ríkisvaldsins? Ég held persónulega ekki. Ég held, að ríkisvaldið hafi beðið of lengi eftir því, að þessi atvinnugrein risi upp í landinu af sjálfu sér.

Ástandið í þessum iðnaði og stöðnunin undanfarin 25 ár ætti að geta sannfært menn um það, að ríkisvaldið má ekki halda að sér höndunum á þessu sviði, heldur verður að taka forustuna. Þegar Siglufjarðarverksmiðjan var reist, var það einmitt ætlunin, að hún yrði tilrauna- og forustuverksmiðja. Ég held, að ég geti nú leyft mér að segja, að afstaða ríkisvaldsins til þessa afkvæmis síns hefur oft og tíðum verið nokkuð óljós. Verksmiðjan hefur verið byggð upp hægt og hægt, án þess að henni væri veitt neitt verulegt fjármagn til þess að geta hafið markaðsöflun að einhverju ráði. Hvað eftir annað hefur stjórn síldarverksmiðja ríkisins lagt til við ráðh., að það yrði skipuð sérstök stjórn fyrir verksmiðjuna og jafnvel að fjárhagur hennar yrði gerður sjálfstæður, en ráðh. hefur ekki fallizt á það.

Með þessu frv., sem hér liggur fyrir, er að því stefnt, að ríkisvaldið stigi næsta skrefið í framhaldi af byggingu Sigló-verksmiðjunnar með því sem sagt að setja á fót sérstakt fyrirtæki, Fiskiðju ríkisins, sem í fyrsta lagi fáí árlegt ríkisframlag, 6 millj. kr., í 5 ár, samt. 30 millj., til þess að fullgera verksmiðjuna á Siglufirði og koma upp nokkrum öðrum verksmiðjum til fullvinnslu matarrétta úr fiskafurðum, og í öðru lagi fái 8 millj. kr. í 5 ár, samtals 40 millj. kr., til þess að skipuleggja stórfellda markaðsrannsókn og tilraunastarfsemi. Síðan þetta frv. var til umr. hér á Alþ. fyrir einu ári, hefur það helzt gerzt í þessum efnum, að stofnuð hafa verið samtök íslenzkra niðursuðu- og niðurlagningarverksmiðja, jafnframt hafa sérmenntaðir menn í niðursuðutækni stofnað með sér sérstakt félag. Hvort tveggja er nauðsynlegur og mikilvægur áfangi að því marki, að þessi iðngrein nái að þróast með eðlilegum hætti hér á landi. En hins vegar hafa enn ekki verið mynduð sölusamtök framleiðenda, sem stefni að því að selja fullunnar fiskafurðir í ýmsum tegundum umbúða og undir einu vörumerki, eins og lagt er til í þessu frv., að Fiskiðja ríkisins beiti sér fyrir.

Ég vænti þess, að hv. alþm. geri sér grein fyrir því, hve mikilvægt slíkt forustufyrirtæki á vegum ríkisins gæti verið, og ég vil að endingu leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. sjútvn.