13.12.1966
Neðri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í C-deild Alþingistíðinda. (1831)

76. mál, bygging leiguhúsnæðis

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Ég flyt hér, ásamt hv. 3. og 5. landsk. þm. frv. um að heimila ríkisstj. að byggja árið 1967 500 íbúðir til þess að bæta úr skorti á leiguhúsnæði. Ástandið er þannig nú viðvíkjandi leiguhúsnæði, sérstaklega hér í Reykjavík, og víða úti um land er það líka mjög erfitt, að það má segja, að það ríki alger neyð. Það er þannig fyrir fjölda fólks nú, að það fær ekki inni í leiguhúsnæði. Það verður ýmist að hafast við hjá vinveittum fjölskyldum eða flýja burt úr borginni. Þetta er ástand, sem stendur í dag.

Eitt af því, sem hæstv. ríkisstj. hefur sérstaklega verið að hæla sér af, er, að hún hafi verið að skapa hér í þjóðfélaginu það, sem hún kallar valfrelsi. Það fer æðilítið fyrir því valfrelsi sem stendur hjá þeim mönnum í Reykjavík, sem ætla að útvega sér húsnæði. Það er ekki um margt að velja, og þetta er þó ein brýnasta lífsnauðsyn manna. Og þannig hefur hæstv. ríkisstj. staðið að verki á þessu sviði, að það er ekkert valfrelsi til. Það er aðeins neyð um að ræða. Það er ekki einu sinni svo, að menn geti gengið að einhverju, að menn geti fengið eitthvert leiguhúsnæði. Það er venjulega svo, að menn geta ekkert fengið. En ef menn geta fengið eitthvað, þá eru kjörin þannig, að til viðbótar þeim dæmum, sem ég hef áður lýst hér úr þessum stól, skal ég nefna, að nýlega var tveggja herbergja íbúð hér í Reykjavík leigð á 10 þús. kr. á mánuði, sem er nokkru meira en almennt verkamannakaup. Svona er ástandið í dag. Og hæstv. ríkisstj. segir, að hún hafi útrýmt svörtum markaði í þessu landi. Það hefur aldrei þrifizt annar eins svartur markaður í sambandi við húsnæði og nú. Og það tíðkast nú orðið í sambandi víð húsaleigu hér í Reykjavík að greiða stórupphæðir, sem kallaðar eru lykilgreiðslur og hvergi nokkurs staðar koma fram, fyrir utan það, að oft og tíðum er helmingi af þeirri húsaleigu, sem raunverulega er greidd, stungið undan skatti, og engar ráðstafanir gerðar til þess að koma í veg fyrir þetta okur. Nú síðast hér áðan var verið að fella tillögur, sem að einhverju leyti miðuðu að því að gefa sérstakri húsaleigunefnd rétt til þess að koma í veg fyrir svona okur. Hér viðgengst svartur markaður, þar sem hagnýtt er neyð íbúanna, og fæst ekkert gert til þess að bæta úr þessu.

Það er búið að flytja þetta frv. hér í 4 ár til þess að reyna að fá ríkisstj. til að ranka eitthvað við sér um, að þarna verði að aðbafast. Aldrei hefur þetta frv. farið lengra en til nefndar, aldrei komið úr nefnd aftur. Því hefur verið haldið fram í þessu sambandi, að hver fjölskylda ætti að eignast sína eigin íbúð. Það er alveg óhugsandi, að slíkt sé gert a.m.k. í skjótri svipan og sízt af öllu með þeim kjörum, sem mönnum eru nú skömmtuð. Og a.m.k. á meðan, ef það væri hægt að framkvæma það, að flestar fjölskyldur eignuðust sínar eigin íbúðir smátt og smátt, þá yrðu menn a.m.k. að hafa til einhverjar leiguíbúðir til þess að búa í, á meðan verið væri að byggja. Það er venjulega svo ópraktískt að því farið að byggja, að það tekur jafnvel 3 ár. Það, sem tók fyrir stríð 6 mánuði, tekur nú 3 ár. Þetta eru þær tæknilegu framfarir við byggingu íbúða í Reykjavík, og á meðan verður fólk að fá einhvers staðar inni.

Það, sem hér er lagt til, er, að það séu byggðar með verulega skynsamlegu móti allmargar leiguíbúðir, tveggja til þriggja herbergja íbúðir, þannig að menn geti þá hafzt þarna við og væru ekki í slíkri neyð, að þeir yrðu annaðhvort að sæta óbærilegu okri eða þá að menn yrðu að flýja burt úr bænum hvað Rvík snertir eða þá að liggja upp á einhverjum, sem eiga kannske erfitt með að hafa þá í húsum.

Ég verð að segja, að ef til vill á engu sviði blasir það betur við, hve gersamlega allt þetta einkaframtak, sem hæstv. ríkisstj. hefur talað um, hefur beðið gjaldþrot, en á þessu sviði. Og menn hafa trúað því og boðað það, að það að útvega leiguhúsnæði ætti að vera hlutverk einkaframtaksins hjá þjóðinni. Það ættu að vera til einhverjir menn, sem hefðu á því áhuga, að byggja íbúðir, sem þeir síðar vildu leigja út. Þetta er ekki til. Það eru engir sérstakir menn, sem hafa áhuga á því að byggja íbúðir til þess að leigja út. Það eru til menn, sem hafa áhuga á að byggja íbúðir og selja, og það þrífst óskaplegt brask í slíku sambandi. En menn byggja yfirleitt ekki íbúðir til þess að leigja út. Einkaframtakið hefur gersamlega brugðizt á þessu sviði, og það er raunar engin tilviljun með það þjóðfélagsástand, sem við búum við í svipinn. Þetta óskipulagða einkaframtak er alls staðar að brotna niður hérna núna. Það, sem á hagfræðimáli mundi vera kallað stjórnleysi kapítalismans, er þarna alls staðar að koma í ljós. Það er það skipulagsleysi, sem er að leiða til þess, að það skapast meira og meira svartur markaður og alls konar erfiðleikar á þessum sviðum. Þetta blasir alls staðar við, kannske mest hvað hraðfrystihúsin snertir. Þar sést mjög greinilega, hvernig hvert á fætur öðru er að verða gjaldþrota, hvernig líklega upp undir helmingur af öllum hraðfrystihúsum á landinu á gjaldþrot fram undan núna að óbreyttu ástandi. Við sjáum hér, að það hefur verið áður talað um það og verður aldrei of oft talað um það, að sú sama Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, sem horfir upp á helminginn af sínum hraðfrystihúsum verða gjaldþrota, er svo að ráðast í það að láta byggja hér kassagerð, sem auðvitað verður líka gjaldþrota, enda sá, sem fyrir því hefur barizt mest, vafalaust vanur því að láta flest bjarga sér með verðbólgunni. Sú kassagerð verður auðvitað gjaldþrota, ef hún á að keppa við þá, sem fyrir er, nema því aðeins að verðbólgan fái að halda áfram með fullum krafti. Það er gjaldþrot einkaframtaksins, sem þarna blasir við, m.a. vegna þess, að það hefur verið byggt skipulagslaust, eins og væru vitleysingjar að verki. Jafnvel í litlum kaupstað eru byggð 3 hraðfrystihús, sem standa svo öll meira eða minna tóm. Þeir menn, sem þarna stjórna, kunna auðsjáanlega ekki til verks, enda sú kenning, sem þeir fara eftir, svo vitlaus, að hún getur ekki leitt til neins annars en hruns. Jafnvel ágæt hraðfrystihús, sem byggð hafa verið, eru nú þegar stöðvuð. Menn geta litið til Ísafjarðar, Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og hvar sem er, það blasir alls staðar það sama við. Það er sjálft gjaldþrot þessa stjórnlausa og óskipulagða einkaframtaks, sem við okkur blasir, hvort sem við litum á byggingu leiguhúsnæðis, stjórnina á hraðfrystihúsunum eða öðru slíku. Ég þykist vita, að eftir að þessi hraðfrystihús hafa verið seigdrepin með verðbólgunni á undanförnum árum, eigi svo að reyna að lífga þau upp eftir kosningar með eitursprautu gengislækkunar. Þannig á allt atvinnulífið á Íslandi að ganga og grundvöllur þess.

Þetta var útúrdúr, en rétt til þess að minna á, að sú kenning og sá boðskapur, sem hæstv. ríkisstj. var með og brugðizt hefur hrapallega á sviði leiguíbúðanna, hann er að bregðast víðar og er að stofna okkur víðar í vandræði, og svo lengi sem menn trúa á þessa vitleysu, þetta óskipulagða einkaframtak í þessum efnum, þá siglum við úr einni verðbólgunni yfir í aðra og úr einni gengislækkuninni yfir í aðra til þess að bjarga gjaldþrota fyrirtækjum.

Þegar svo er komið, að þetta einkaframtak sýnir sig að vera gjaldþrota, þá liggur auðvitað ekkert annað fyrir en að ríki og bær, eða það opinbera yfirleitt, verði að bjarga þarna. Það var svo forðum daga, þegar einkaframtakið varð gjaldþrota fyrir 40 árum, bæði á Ísafirði og í Hafnarfirði, þá varð það opinbera, í því tilfelli bæjarfélögin, að grípa inn í, og nú erum við að lifa sama ævintýrið aftur. Það er verið að setja þessi fyrirtæki á hausinn með verðbólgunni, með skipulagsleysinu og að öllum líkindum verða bæirnir og ríkið yfirleitt að grípa þarna inn í, svo framarlega sem það á ekki allt saman að stöðvast.

Hvað snertir leiguhúsnæðið, þá leggjum við til með þessu frv., að það opinbera grípi þarna inn og það sjái um að byggja leiguhúsnæði. Fyrst það er greinilegt, að það verður ekki byggt leiguhúsnæði af hálfu einkaframtaksins, þá verður það opinbera að reyna að sjá um að fullnægja brýnustu þörfum almennings, þannig að menn fái húsnæði yfir höfuðið. Við leggjum til í þessu frv., að þarna sé visst samstarf á milli ríkisstjórnar, bæjarfélaga og húsnæðismálastjórnar.

Þetta frv. var lagt fram á fyrsta þingi eftir síðustu kosningar nokkurn veginn í þeirri mynd, sem það nú er, nema tölur hafa nokkuð breytzt vegna verðbólgunnar. Það hefur komið fram á öllum þingum þessa kjörtímabils, og það hefur verið reynt að opna augu manna fyrir því, að einmitt á þessu sviði þyrfti það opinbera að grípa inn í. Hér á hv. Alþ. hefur ríkisstj. aldrei fengizt til að sinna þessu. Vegna kaupdeilna og yfirvofandi verkfalls fékkst ríkisstj. til þess að sinna að nokkru hugmynd, sem í þessu frv. er, með samningum við verkalýðsfélögin, og vonir standa til, að það byrji að komast í framkvæmd á næsta sumri, en þó vafalaust of seint og of lítið, þannig að það losar ekki það opinbera undan þeirri kvöð sem á því hlýtur að hvíla að útvega mönnum húsnæði.

Það er um leið lagt til í þessu frv. að gera ráðstafanir til þess að lækka húsnæðiskostnað með því móti að ákveða í þessu frv., að leiga af þessum íbúðum, sem ríki og bær þannig létu byggja, skyldi ekki vera meir en 8% af verði íbúðanna, og gera þannig tilraun til þess að halda húsaleigu niðri eða halda henni a.m.k. í sæmilegu verði. Eru sérstakar tillögur í þessu frv., sem ég hef áður gert grein fyrir hér, til þess að tryggja bæði lánsfé og um sérstaka meðferð þess í sambandi við þetta. Sannleikurinn er, að ef mönnum væri nokkur alvara með það að reyna að stöðva verðbólgu, þá eru vextirnir eitt það fyrsta, sem þarf að taka fyrir. Raunar væri það svo, að það eina svið, þar sem ég gæti hugsað mér, að verðtrygging ætti nokkurn rétt á sér, það væri í sambandi við lán til íbúðarhúsabygginga, þegar þau lán væru vaxtalaus, að veita þá tryggingu gegn verðbólgu. En það verður að koma húsnæðismálunum í það horf, að þau séu ekki rekin lengur sem gróðafyrirtæki og afskiptin af þeim, heldur sem þjónusta við almenning.

Það getur ekki allt í einu þjóðfélagi verið gróðafyrirtæki. Sá hugsunarháttur, sem einmitt þessi hæstv. ríkisstj. hefur mest beitt sér fyrir að koma inn í þjóðlífinu, er, að allt eigi að vera gróðafyrirtæki og alls staðar eigi gróðalögmálið að stjórna öllu. Þetta leiðir til hruns og vitleysu, sem við stöndum núna frammi fyrir, og leiðir til þess, að á síðustu stundu, þegar hæstv. ríkisstj. sér sitt eigið gjaldþrot nálgast, þá ber hún fram frv. eins og það, sem við vorum að greiða atkv. um áðan, um verðstöðvunina, og kolfellir um leið allt, sem getur gert frv. að alvöru. Í þessu frv. felst hins vegar tillaga um að reyna að gera eitthvað verulegt á því sviði, þar sem erfiðleikarnir eru mestir fyrir fólk. Það hefur maður kunnugur þessum málum fullvissað mig um, að helmingur þjóðarinnar fari nú með helminginn af sínum tekjum til húsnæðismála, ýmist í leigu eða greiðslu á afborgunum og vöxtum af húsnæði. Það mun ekki fjarri lagi, ef það fengist einhvern tíma rannsakað, — það er eitt af mörgu, sem aldrei fæst rannsakað og hagfræðingar ríkisstj. vilja aldrei líta við, — ef menn vildu athuga, hver þáttur yfirleitt vextir eru í útgjöldum manns, þá er ekki fjarri því, að vextir á einn eða annan máta séu 25—40% af því, sem eru útgjöld venjulegrar fjölskyldu.

Það að reka eitt þjóðfélag þannig, að vextirnir sé svo háir, og ég tala ekki um, þegar verðbólga bætist þar ofan á, það þýðir að setja það þjóðfélag í nokkurn veginn ólækkandi kreppur á 2—5 ára tímabili, kreppur, sem venjulega eru leystar með eitursprautum eins og gengislækkun. Þess vegna, ef taka á svona mál föstum tökum, verður að þora að taka vextina og lækka þá. Það var eitt af því, sem menn skildu hér á Íslandi, á meðan nokkurn veginn „normal kapítalismi“ gilti hér, enda voru þá vextir t.d. í sambandi við verkamannabústaði og bústaði í sveitum 2 og 2 1/2 %. Þá var Ísland fátækt. Þeir vitlausu vextir, sem nú eru ákveðnir, miðast raunverulega við það að láta ákveðna aðila í þjóðfélaginu græða á verðbólgu, að láta verðbólguna geisa og grípa svo öðru hverju til þeirra örþrifaráða, sem að undanförnu hefur verið gert og duga sífellt styttra og styttra tímabil, nema þegar einhverjar sérstakar ytri kringumstæður koma til og hjálpa til, eins og verðhækkanir á nokkrum afurðum hafa gert núna seinustu 2 árin.

Ég álít, að það þyrfti að lækka þannig vextina verulega, jafnvel, ef verðtrygging væri sett, að afnema þá með öllu, veita vaxtalaus lán til íbúðarbygginga. Eins og allir skilja, mun það þýða um leið, að kaupgjald þyrfti þá ekki að hækka að sama skapi og það þarf að hækka, þegar verkamenn verða að borga meira en samsvarar Dagsbrúnarlaunum fyrir 8 tíma vinnudag í húsaleigu eða húsnæðiskostnað á mánuði. Enda er sú stefna hjá öllum þjóðum, sem hafa einhverja hugmynd um hagfræði og þurfa að selja sínar vörur út úr landinu, að halda niðri t.d. allri húsaleigu, menn þurfa ekki nema að lita til Danmerkur í þessu sambandi, — og veita lán til húsnæðis til 80 og 90 ára með að meðaltali 3% vöxtum, þannig að það, sem menn greiða til síns húsnæðis, er rétt það, sem samsvarar venjulegri húsaleigu. Þannig stjórna þær þjóðir, sem hafa eitthvert vit á að stjórna sínum útflutningsatvinnuvegum, í staðinn fyrir að vera með boðskap til allra þeirra, sem byggja hús sem braskarar, að græða og græða sem mest og til bankanna að okra og okra sem mest, því að leiðir til þess, að húsaleiga eða húsnæðiskostnaður verður sífellt dýrari og verkamenn verða að gera því harðvítugri kröfur um kaupgjald til þess að rísa undir því húsnæði, og er svo komið nú, að að öllum líkindum mun helmingur Íslendinga greiða helminginn af öllu sínu kaupi vegna húsnæðiskostnaðar. Það, sem almennt er reiknað með í venjulegum þjóðfélögum, sem stjórnað er að einhverju viti, er, að húsnæðiskostnaður sé um 18% af útgjöldum venjulegrar fjölskyldu.

Það, sem á sök á þessu ófremdarástandi, er sú kenning og sá praxís hæstv. ríkisstj. að láta hinn svokallaða frjálsa framtaki eftir að stjórna þessum málum. Og það er þetta svokallaða frjálsa framtak, sem leiðir til þess gjaldþrots, til þess svartamarkaðs, til þess okurs og til þeirra erfiðleika, sem fólk nú býr við á þessu sviði.

Það er lagt til um leið í þessu frv., að reynt sé að sýna nokkurt tæknilegt vit í því, hvernig farið sé að því að byggja hús. Það fer lítið fyrir tæknilegu viti í sambandi við rekstur íslenzks atvinnulífs sem stendur. Því meira sem talað er um hagræðingu og því meira sem snakkað er um slíka hluti, hvort heldur það er í sambandi við iðnaðinn, landbúnaðinn og annað slíkt, því minna er gert til þess að koma á einhverju almennilegu tæknilegu skipulagi í þessu sambandi. Enn er það svo í sambandi við húsnæðisbyggingar í Reykjavík, að hinir og þessir menn taka að sér að byggja það, sem þeir kalla eitt eða tvö stigahús, það séu kannske 8, í hæsta lagi 16 íbúðir, og eru venjulega tiltölulega lengi með þetta, búa við ýmsa erfiðleika og hafa tiltölulega frumstæðar aðstæður, eins og eðlilegt er, þegar ráðizt er í svona lítið í einu.

Í þessu frv. er gengið út frá, að hvað Reykjavík snertir, þá sé, ef þetta er t.d. boðið út, við skulum segja af húsnæðismálastjórn í samráði við ríkisstj. og bæjarstjórn, þá séu boðnar út 100 íbúðir í einu til byggingar, þannig að það sé hægt að byggja — við skulum segja eftir sömu teikningum, byggja með því að nota nýtízku aðferðir, byggja þannig, að tæknin komi þar að einhverju haldi.

Í fjögur ár erum við búnir að flytja þessi frv. hér á Alþ. Það hefur enn þá ekkert breytzt við byggingarlagið í Reykjavík í þessum efnum. Hæstv. ríkisstj. hefur enga ástæðu séð til þess að grípa þarna inn í og hafa áhrif um það, að þarna verði byggt eins og menn mundu byggja á 20. öld, en ekki eins og molbúar. En hins vegar, á sama tíma og vanrækt er að gera það í þessum efnum, sem þyrfti, bæði hvað snertir vexti og hvað snertir tæknilegar aðferðir við byggingar, hækkar byggingarkostnaður í sífellu og erfiðleikarnir vaxa. Það er svo, að við erum að gera gys að fáfróðum almenningi austur í Indlandi út af þeirra heilögu kúm. En hér hjá okkur er sú heilaga kýr þess frjálsa framtaks stjórnleysisins í öllu okkar atvinnulífi látin blóðsjúga þjóðina og leiða smátt og smátt til þess gjaldþrots, sem blasir nú víð okkur. Og sjálf fæst hvorki hæstv. ríkisstj. né hennar sérfræðingar nokkurn tíma til þess að ræða þessi mál. Aldrei. Það eina, sem gert er, það er að þegja við öllum þeim tillögum, sem fram koma ár eftir ár um að reyna að koma einhverju viti í þessi mál.

Það hefur líka verið talað um stjórnleysi í sambandi við hraðfrystihúsin og það fyrir mörgum árum. Ríkisstj. sér ekki neitt, fyrr en þessi hraðfrystihús eru að verða gjaldþrota hvert á fætur öðru, og hefur vonazt eftir að geta að einhverju leyti kennt verkalýðshreyfingunni um það gjaldþrot, sem yfir þau er að koma. Ég býst við, að verkalýðshreyfingin mundi vart leggja eins mikið upp úr nokkurri endurbót á sínum kjörum og þeim, sem snerta húsnæðismálin, ef þar væri tekið til höndum, svo að um munaði. Hins vegar hefur ekkert alvarlegt í þessu máli fengizt gert. Það litla, sem verkalýðshreyfingin gat knúið fram með verkfallssamningum, það yrði fyrst seint á næsta ári, sem á því yrði byrjað, — of litið og of seint, þó að ekki skuli gert lítið úr því „prinsipi“, sem þar sigraði. „Prinsipið“ um 80% lán og það til þeirra, sem erfiðast hafa, það var „prinsip“, sem gat sigrað, þegar verkamennirnir ætluðu að fara í verkfall. En það var ekki hægt að láta þess háttar „prinsip“ sigra með rökræðum á Alþ., vegna þess að tillit til raka og annars slíks er ekki til. Það eina, sem er virt, er það, ef hnefinn er settur í borðið af hálfu verkalýðssamtakanna. Ef stöðvun er látin vofa yfir öllum íslenzkum atvinnurekstri, hrökkva menn við. Það vita menn, að stundum, þegar hnefanum er slegið fast í borðið, þá mun gerast eitthvað af viti. En rök, góðar leiðbeiningar og annað slíkt, það er eins og að skvetta vatni á gæs. Og þeir sömu menn, sem þannig fara að, eru svo að segja, að það eigi að reyna í þjóðfélaginu að komast hjá stéttabaráttu, það eigi að reyna að afgreiða mál með rökræðum, með athugunum og rannsóknum og öðru slíku. En sannleikurinn er, að það er ekki sízt reynslan af þessu frv., að allt slíkt virðist engin áhrif hafa. Það eina, sem er hugsanlegt, að hafi áhrif í þá átt að knýja eitthvað fram, það er ef utan þingveggjanna er farið í að slá hnefa í borðið og hóta að stöðva atvinnurekstur í landinu. Þá kippast menn við, þeir sömu menn, sem geta hlustað á rökræður um þessi mál ár eftir ár á Alþ. og aldrei dottið í hug að gera neitt.

Ég held, að þarna ætti að fara að breyta um vinnuaðferðir, ef það er ekki meiningin að láta þingræðið algerlega leggjast niður hér sem lifandi stofnun, láta Alþ. ekki verða neitt nema afgreiðslustofnun á því, sem ríkisstj. vill, eða því, sem verkalýðshreyfingin knýr fram með harðvítugri verkfallsbaráttu utan þingveggjanna. Ég held, að hér ætti að brjóta í blað, og mér finnst það satt að segja hart eftir minni reynslu af störfum Alþ. á undanförnum 30 árum, ef það er ekki einu sinni lengur hægt á síðasta þingi fyrir kosningar að fá eina ríkisstj. og hennar flokka til þess að hugsa nokkurn skapaðan hlut um þau mál, sem vitað er að almenningur leggur sérstaklega mikið upp úr sem umbótamálum fyrir sig.

Ég mun ekki hafa fleiri orð um þetta mál nú. Þetta verður í síðasta skipti, sem ég flyt það. En ég vildi mælast til þess, að sú nefnd, sem þetta mál fer til, reyndi nú að sýna þá manndáð að skila þessu frv. frá sér, að það verði ekki svo, að hver einasta nefnd í þinginu fari fyrst og fremst að líta á sig sem gröf til þess að grafa í hverjar þær góðar hugmyndir, sem fram koma hér á þinginu, og sleppa engu öðru í gegn en meira og minna vitlausum frv., sem hæstv. ríkisstj. leggur fyrir.

Ég vil að svo mæltu leyfa mér að leggja til, að að lokinni þessari umræðu verði þessu frv. vísað til hv. heilbr.- og félmn.