13.12.1966
Neðri deild: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 298 í B-deild Alþingistíðinda. (184)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það kemur fram talsverður misskilningur hjá hv. 5. þm. Norðurl. v., þegar hann segir, að það muni engin fjárveiting vera til framleiðnisjóðs á árinu 1967. Það er tekið fram í 4. gr., að á árunum 1967–1969 skuli greiðast 10 millj. kr. á ári. Í þeim fjárl., sem nú er verið að samþ. fyrir næsta ár, er heimild til að greiða 30 millj. kr. af tekjuafgangi ársins 1966, þar af 20 millj., sem lofað hefur verið að greiða nú fyrir áramótin. Framleiðnisjóðurinn er samkv. þessu frv. stofnaður með 50 millj. kr. framlagi. Af því greiðast 20 millj. sem óafturkræft framlag til vinnslustöðvanna á árinu 1966, en þegar þetta frv. er orðið að l., þá skal greiða 10 millj. á ári í næstu 3 ár. Þetta liggur alveg ljóst fyrir.

Hvort það tæki því fyrir bændur að taka við 30 millj. á næstu 2 árum, ég held það séu fáir bændur, sem setja spurningarmerki aftan við það. Ég veit, að hv. 5. þm. Norðurl. v. er stórbóndi og skoðar þetta allt frá því sjónarmiði. En jafnvel þótt bændur búi vel og góðu búi, þá er ég sannfærður um það, að landbúnaðinn munar um það að fá þessar 50 millj., sem hér er ráð fyrir gert, og bændur hafa ekki vanizt því, að þeim væri betur skammtað, og ekki þetta stórt skammtað.

Í sambandi við það, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér áðan, að það ætti að semja lög með það skýru orðalagi, að það væri enginn vafi á því, hvað væri meint, þá er ég honum alveg sammála um það. Og í tilefni af því hef ég talað við tvo mjög færa lögfræðinga einmitt um þetta. Þeir hafa báðir bent mér á, að ákvæðið í 4. gr. varðandi 20 millj. sé fram sett og þannig orðað vegna þess, að það lýtur öðrum ákvæðum heldur en það fé, sem á að ráðstafa á næstu árum skv. 3. gr. Það er eins og hv. þm. sagði, 3. þm. Reykv., og hv. 5. þm. Vestf. hafði orð á, að þá er það alveg kostnaðarlaust að koma með brtt., sem orðar þetta öðruvísi, ef þörf væri á því að áliti þeirra manna, sem eiga að túlka l., sem eru lögfræðingar, því að það má vitanlega ekki vera neinn vafi á því, hvernig framkvæmdin skuli vera. Ég hef leitað til tveggja ágætra manna, sem eru vanir að túlka lög frá sinni sérgrein og því sjónarmiði, sem venja er, og þeir álíta ekki þörf á því. Þess vegna hefur ekki verið flutt brtt. um þetta.

Hv. 5. þm. Vestf. hefur flutt brtt. skriflega um það að hækka framlög til framleiðnisjóðs. Það er vitanlega ekkert við það að athuga. Hv. Alþ. sker úr um það, hvort það sé fært að svo stöddu að leggja meira fram.

Í sambandi við brtt., sem hv. 5. þm. Norðurl. v. boðaði um að hafa þetta til 5 ára, 10 millj. á ári, sé ég ekki ástæðu til að samþ. það nú. Það mætti alveg eins samþ. það á næsta ári eða næstnæsta. Ég er alveg sannfærður um það. að þegar framleiðnisjóður hefur starfað og ef hann starfar eins og vonir standa til og það sýnir sig, að hann gerir það gagn, sem vonir standa til, þá verða fluttar till. um það hér á hv. Alþ. að afla honum tekna til frambúðar.