07.02.1967
Neðri deild: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (1852)

82. mál, gerðabækur ríkisstjórnar

Flm. (Einar Olgeirsson):

Herra forseti. Það frv., sem ég hef lagt hér fram, mælir svo fyrir, að á öllum ráðherrafundum skuli haldin gerðabók og skráð þar í það, sem á fundum gerist, og afstaða hinna ýmsu ráðh, til þeirra mála, sem þar eru rædd. Enn fremur er svo fyrir mælt í 2. gr., að utanrrh. skuli láta halda sérstaka gerðabók um viðtöl sín við fulltrúa erlendra ríkisstjórna. Síðan skuli, þegar 15 ár eru liðin frá því, að fundir þeir hafa verið haldnir, sem i gerðabækurnar eru skráðir, annaðhvort þessar gerðabækur sjálfar eða afrit af þeim svo og bréfum þeim, sem farið hafa á milli ríkisstjórnar Íslands og fulltrúa annarra þjóða, vera geymd í Þjóðskjalasafninu, þannig að almenningur hafi aðgang að þeim.

Það mun löngum hafa verið svo hjá okkur hér heima, að ríkisstjórnir hafa ekki haldið gerðabækur, og vitni um, hvað gerzt hefur á ráðherrafundum, þegar það hafa ekki verið beinir ráðuneytisfundir eða ríkisráðsfundir undir forsæti forseta eða ríkisstjóra, hefur mestmegnis verið ýmist það, sem síðan hefur komið út úr þessu sem lög eða annað slíkt, eða ákveðnar gerðir. Mér er hins vegar kunnugt um, að í tíð núv. ríkisstj., — ég held, að það hafi ekki verið áður, þó skal ég ekki fullyrða um það, — að í tíð núv. hæstv. ríkisstj. hafi verið farið að halda gerðabækur, þar sem í hafi a.m.k. verið skráð þau mál, sem fyrir voru tekin, og höfuðniðurstöður, en ég býst vart við, að það sé meira skráð þar í. Hvað snertir viðtöl utanrrh. er ég hræddur um, en veit þó ekki um það alveg fyrir víst, að það sé mjög lítið til af slíkum viðtölum skráðum, þannig að það hafi verið gengið þannig frá þeim, að það sé hægt að vita, hvað utanrrh. á hverjum tíma hafi rætt um við fulltrúa erlendra þjóða. En í þriðja lagi eru öll þessi skjöl, að því er ég veit bezt, enn sem komið er leyndarmál, þannig að þau liggja ekki Íslendingum opin og a.m.k. ekki aðgengileg.

Ég veit, að hjá ýmsum ríkjum, t.d. Bandaríkjum Norður-Ameríku, eru um það lagafyrirmæli, að að loknum 15 árum skuli öll slík skjöl birt. Það er viðleitni til þess að vinna á móti öllu því, sem héti leyndarmál, allri „behind diplomati“ í viðskiptum á milli ríkja, þannig að þegar ákveðinn tími sé liðinn, séu öll slík skjöl birt, viðtöl á milli ráðh. og fulltrúa erlendra ríkja og slíkar gjörðir. Þetta er sérstaklega í Bandaríkjunum mun ákveðnara en í mörgum öðrum ríkjum, vegna þess að þar er, eins og við vitum, þing og stjórn svo aðskilin. Þar er ekki þingræði eins og hér hjá okkur, og þingið þar vill halda mjög miklu eftirliti með því, sem ríkisstj. á hverjum tíma gerir, ekki sízt vegna þess, að ríkisstj. er ekki háð þinginu eins og hér hjá okkur.

Ég veit, að þó að einhver lög um þetta yrðu samþykkt eða ríkisstj. ákvæðu að breyta nú um og ganga ýtarlegar frá þessum hlutum en verið hefur, verður þar með ekki bætt fyrir það, sem nú þegar kann að hafa glatazt í þessum efnum. Það kann að verða i framtíðinni, þegar hafður verður sá háttur á að fara að reyna að skrifa sögu fyrri hluta þessarar aldar hér á Íslandi, sem vart er byrjað á enn, að menn sakni þess að hafa litlar heimildir um, hvað gerzt hafi eða gerzt hafi ekki eða hvernig slíkt hafi borið að, þegar athugaðar verða heimildirnar a.m.k., sem liggja í stjórnarráðinu frá því fyrir 1950. Og nú þegar er það orðið svo, að það veldur oft nokkrum deilum, hvað gerzt hafi á þessum fundum, t.d. ríkisstjórna, og veit ég ekki, hvort til eru plögg, sem skera úr um það. Hins vegar er allmikið af því fólki lifandi, en þó ekki nærri því allt, sem fjallað hefur um málin, sem gerzt hafa a.m.k. á síðustu þrem áratugum. En bara af því, að við, sem höfum setið lengi hér á Alþingi, höfum fylgzt dálítið með þeim málum þar, eru þegar komin upp nokkur mál, sem ég sakna mjög, að við skulum ekki fá að vita til fullnustu um hér heima og engar skýrslur liggja fyrir um, og eitt af því, sem olli því, að ég bar þetta frv. fram, er einmitt, að ég vildi um leið nota tækifærið, á meðan a.m.k. einhverjir þeirra manna eru enn hér á þingi og enn á lífi, sem fjallað hafa um þau mál, til að vita, hvort þeir kunna nánar að upplýsa ýmislegt af því, sem deilur kunna að vera um, en ég hef frá öðrum stöðum nokkrar upplýsingar um.

Það eru þrjú atriði í því, sem gerðist á árunum 1940—41, sem ég í þessu sambandi vil sérstaklega minnast á. Það er í fyrsta lagi hernámssamningurinn, eins og við höfum kallað hann, sá samningur, sem Ísland gerir við Bandaríkin í júlíbyrjun 1941 um, að Bandaríkin skuli taka að sér hervernd Íslands, og það, sem þá fer fram á milli íslenzku ríkisstj. og fulltrúa ensku ríkisstj. og þeirrar amerísku. Í Bandaríkjunum er nú búið að birta öll þau skjöl og öll þau viðtöl, sem fram fóru á milli þáv. utanrrh., Summer Welles, og þáverandi sendiherra Bretlands í Bandaríkjunum, Halifax lávarðar, þar sem m.a. er komið inn á afstöðu íslenzku ríkisstj. í þessum efnum. Stúdent við einn háskóla í Kaliforníu hefur nýlega skrifað prófritgerð um yfirtöku Bandaríkjanna á hervernd Íslands 1941 og haft aðgang að öllum þessum skjölum, sem nú eru birt í bandaríska þinginu. Þar er sagt frá því, að Halifax lávarður hafi komið til utanrrn. 25. júní með skeyti og skýrt þáv. utanrrh. frá þeirri skýrslu, sem komið hafi til brezka utanrrn. frá fulltrúa þess, konsúlnum hér á Íslandi, og viðtali við hann þann 24. júní. Og þar er tekið fram í þrem liðum um afstöðu íslenzku ríkisstj. til þess máls, sem farið sé fram á. Hann segir þar í fyrsta liðnum, að brezki konsúllinn, eða hvað hann nú hét, hér á Íslandi þá hafi talað við íslenzka forsrh. um nauðsynina á því að fara fram á það, að íslenzka ríkisstj. óskaði eftir, að ríkisstj. Bandaríkjanna tæki að sér vörn Íslands og kæmi í staðinn fyrir brezka hernámsliðið hér.

Síðan segir orðrétt: „Forsrh. hefði svarað, að margir einstaklingar í íslenzku ríkisstj. væru hlynntir því skrefi, sem lagt væri til að taka, en að hann sjálfur, forsrh., væri andvígur því.“ Ég man ekki eftir, að þær upplýsingar hafi nokkurn tíma komið fram hér á Íslandi, að ágreiningur hafi verið innan þáv. ríkisstj., þjóðstjórnarinnar, um þessi mál. En hér segir fulltrúi brezku ríkisstj. í Bandaríkjunum eftir skýrslum frá brezka utanrrn. og það aftur eftir skýrslu síns sendifulltrúa hér í Reykjavík, að þetta hafi komið fram í viðtali við forsrh. Þá segir þar í öðru lagi, að forsrh. hafi sagt, að það hafi verið nokkur hreyfing á Íslandi síðasta haust um að fara fram á þetta við stjórn Bandaríkjanna, en á þeim tíma hafi ameríski konsúllinn, sem hafi farið eftir fyrirskipunum frá Washington, lagzt gegn allri viðleitni í þá átt. Og í þriðja lagi segir svo, að brezki konsúllinn hafi látið í ljós þá skoðun, að það væri mögulegt, að forsrh. eða stjórn hans yrði töluð á það að tilkynna opinberlega, að ríkisstjórn Íslands mundi sætta sig við ameríska hertöku í staðinn fyrir brezka hertöku, en hann efaðist um, að íslenzka ríkisstj. mundi óska eftir eða biðja um slíka hertöku. Þetta var um viðtal við forsrh. Íslands 24. júní.

Daginn eftir átti Halifax lávarður aftur viðtal við utanrrh. Bandaríkjanna og skýrði þá frá því, sem gerzt hafði í þeim efnum, m.a. segir hann eftirfarandi: „Halifax lávarður gaf Welles til kynna, að fyrirskipanir hefðu verið sendar til brezka konsúlsins á Íslandi að sjá um, að íslenzki forsrh. sendi ósk,“ — m.ö.o.: þegar þeir tala þarna sín á milli, Halifax lávarður og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, kemur í ljós, eins og við höfum heyrt ávæning af, að brezka ríkisstj. hafi fyrirskipað sínum fulltrúa hér að sjá um, að íslenzka ríkisstj. fari fram á þessa hervernd.

Eins og allir muna, stendur sérstaklega í samningnum frá 1941, að Ísland geri þetta af frjálsum og fúsum vilja. Ég hef nokkrum sinnum haldið því hér fram og þá ekki haft annað en orðróm að byggja á, sem að vísu var runninn frá háum stöðum, en þarna er það beinlínis staðfest, að það hafi verið gefin fyrirskipun frá Lundúnum um það að sjá um, að íslenzka ríkisstj. gengi að þessu, m.ö.o. knýja hana til þess raunverulega með eins konar úrslitakostum. Þetta eru hlutir, sem við raunverulega eigum kröfu á að fá að vita um, og nú mundi ég vilja spyrja hér á Alþingi, — hér í þessari hv. d. er ekki nema einn maður enn þá, sem átti sæti í þáverandi þjóðstjórn, hv. 1. þm. Austf., — hvað er rétt í þessum hlutum. Bara vegna þeirra skjala, sem ekki eru máske til í stjórnarráðinu, — þó skal ég ekkert fullyrða um það, — er nauðsynlegt fyrir okkur upp á framtíðina að vita um þetta. Þetta er nú orðin saga, og það, sem um ræðir, er aðeins í raun og veru að vita, hvað gerzt hafi. Það hefur alltaf verið mikið á vitorði manna og kom raunar mjög greinilega fram í mörgum þeim grg., sem ýmsir þm. Sjálfstfl. gerðu hér á Alþingi einmitt fyrir sinni afstöðu 1941, þann 9. júli, við nafnakallið um herverndarsamninginn, að þeir væru til þess neyddir, og það er rétt, að það komi alveg greinilega fram hjá okkur. Og í öðru lagi hitt: Var upphaflega í gömlu þjóðstjórninni ágreiningur um þessi mál? Er það rétt, sem þarna er haft eftir brezka sendifulltrúanum eða konsúlnum hér eða hvað hann nú hét, að forsrh. hafi persónulega verið á móti því að biðja um herverndina, en að hinir ráðh. í ríkisstj. hafi verið því hlynntir? Vonandi eigum við ekki eftir að lifa þá hluti, sem við höfum reynt á síðustu 20—30 árum í þessum efnum, en engu að síður, sögunnar vegna og alls réttlætis í því, — það verður víst nógu erfitt að skrifa hana óhlutdrægt samt fyrir þá, sem á eftir koma, — væri æskilegt, að sem bezt upplýstist um þessa hluti, á meðan hér eru enn þeir menn, sem vita rétt um, hvað þar gerðist.

Ég skal til viðbótar taka það fram, að brezki sendiherrann i Reykjavík hafði símað utanrrn. brezka föstudaginn 27. júní svo hljóðandi: „Þrátt fyrir röksemdir mínar og kröfur neitar íslenzka ríkisstjórnin að bjóða ameríska hernum hingað, biðja um hann. Þeirra afstaða er sú, að þegar þing hafi síðast setið, hafi verið mikill meiri hluti í öllum flokkum gegn því að biðja Bandaríkin um vernd. Ráðh. geti þess vegna ekki tekið á sig ábyrgðina á að bjóða Bandaríkjunum hingað án þess að ráðgast við Alþingi. En þeir eru hræddir um, að fyrirætlunin kynni þá að verða að engu.“ Svo segir hann í öðru lagi: „Eftir að við höfum lagt svo mikla áherzlu á hernaðarlega þýðingu Íslands, neita þeir, þ.e. ráðherrarnir, að trúa því, að brezkur her mundi raunverulega fara, ef Bandaríkin kæmu ekki.“

Eins og menn muna, var það yfirvarpið þá, að brezki konsúllinn tilkynnti, að brezki herinn mundi fara héðan burt, sem sé gefið í skyn, að Ísland mundi verða varnarlaust, og þess vegna ráðlögðu Bretar íslenzku ríkisstj. að biðja Bandaríkjamenn um vernd. Hins vegar, eins og allir vita, varð það náttúrlega svo, að brezki herinn var hér kyrr, enda um sama leyti og brezki fulltrúinn í Reykjavík var látinn segja þetta við ríkisstj., að nú yrði brezki herinn að fara, gaf Winston Churchill rétt á eftir þær yfirlýsingar í brezka þinginu, sem ég fylgdist vel með þá, að brezki herinn yrði auðvitað kyrr á Íslandi. Þeir gætu ekkert haft á móti því, að Bandaríkin tækju að sér vernd Íslands. Það væri íslenzka ríkisstj., sem gerði þetta upp á eigin spýtur, og hún væri frjáls og sjálfstæð stjórn. Þetta var yfirlýsingin, sem Churchill gaf þann 7. eða 9. júlí í brezka þinginu, alveg þveröfugt við það, sem brezka ríkisstj. lét sinn sendifulltrúa hérna segja. Þá var Churchill að reyna að afsaka sig gagnvart sínum brezku imperíalistum í þinginu, sínum íhaldsmönnum, að þeir skyldu vera neyddir til þess að afhenda Ísland í hendurnar á Bandaríkjunum, og finna út aðferðirnar gagnvart því, en sjálfir höfðu þeir verið á einn eða annan hátt knúðir til þess að láta af þeim tökum, sem þeir höfðu á Íslandi, vegna þess áhuga, sem Bandaríkin höfðu á að yfirtaka það. En það er nú annað, það snertir ekki þessi mál, sem hér er um að ræða.

Hitt atriðið, sem ég vildi minnast á hér og hefði legið ljóst fyrir, svo fremi sá háttur hefði verið á hafður, sem ég legg nú til með þessu frv., á árinu 1940, það snertir þá afstöðu, þegar

Þjóðviljinn var bannaður í apríllok 1941. Stefán Jóh. Stefánsson fyrrv. forsrh. hefur skrifað minningabók, — hann var ráðh. í gömlu þjóðstjórninni, — þar sem hann segir frá því, það er á bls. 184 eða 185 í þeirri bók, að hann hafi verið hlynntur því, að einhverjar ráðstafanir hann fer ekki nákvæmlega inn á það — yrðu gerðar til þess að hefta starfsemi kommúnista, eins og hann kallar það, sérstaklega að þrengja einhvern veginn að því prentfrelsi, sem Þjóðviljinn nyti. Og hann segist hafa hreyft því innan ríkisstj., að það væri rétt, að íslenzka ríkisstj. gerði slíkar ráðstafanir, og síðan segir hann orðrétt á bls. 185: „En innan ríkisstj. fékk þessi skoðun mín engar undirtektir, einkum var Ólafur Thors henni mótfallinn. Ég man vel, að hann hélt því fram, að ráðstafanir gegn rógi kommúnista gætu orðið til þess að varpa á þá einhverjum píslarvættisljóma og auka fylgi þeirra.“ Og svo rekur hann lengur, hvað hann hafi hugsað.

Nú var það svo, að á þessum tíma, eins og vant er hér, kvisast allt mögulegt, og það var nokkuð vitað svona hjá þeim, sem þekktu til bak við tjöldin, að um það mundi hafa verið rætt í gömlu þjóðstjórninni, hvort annaðhvort ætti að banna Þjóðviljann eða jafnvel banna Sósfl., eða — og það er það, sem Stefán Jóhann gefur í skyn hér — það ætti að gera ýmsar veikari ráðstafanir í þessum efnum. En það hefur verið ágreiningur innan ríkisstj., og þó að þetta standi nú þannig hér, að sérstaklega sé minnzt á Ólaf Thors, minnir mig, að einhvers staðar hafi það komið fram líka, að báðir ráðh. Sjálfstfl. hafi verið þessum ráðagerðum andvígir, og Stefán gerir þeim upp, hvaða hvatir hafi verið þar að verki.

Mér finnst ekki gott fyrir sagnfræðinga framtíðarinnar að hafa þessa hluti ekki nokkurn veginn á hreinu. Hefur komið fram till. t.d. um að banna þá Sósfl.? Hefur komið fram till. um að banna Þjóðviljann? Hefur komið fram till. um að gera einhverjar aðrar ráðstafanir? Hvaða afstöðu hafa hinir ýmsu ráðh. tekið gagnvart þessu? Nú er svo, að báðir ráðh. Sjálfstfl. í þeirri ríkisstj. eru dánir. Hvorugur þeirra er lengur til frásagnar um þetta. Kannske hafa þeir sagt einhverjum frá því, sem þá hafi gerzt. En þetta er orðin saga nú, sem menn eiga að vita og á að liggja fyrir um það, sem gerist í einni ríkisstj., hvað gerzt hafi, og menn eiga ekki að þurfa að deila um það. Það er nóg, að menn rífist um, hvort það hafi verið rétt eða rangt, praktískt eða ópraktískt eða slíkt, en menn ættu ekki að þurfa að deila um, hvort till. hafi komið fram um þetta eða hitt og hvaða afstöðu einstakir aðilar hafi tekið í þessu efni.

Þetta eru hlutir, sem ættu að upplýsast. Það er þýðingarmikið, að menn viti um þetta. E.t.v. mundi t.d. Sjálfstfl. segja: Við vorum svo ákaflega lýðræðissinnaðir á þessum tíma, að við vildum ekki vera að banna flokka eða blöð eða slíkt. Það voru okkar hvatir fyrir þessu. — E.t.v. vilja þeir, sem voru annarrar skoðunar, segja, að það hafi verið einhverjar aðrar hvatir, sem þar lágu til grundvallar. E.t.v. gæti mönnum dottið í hug, ef þeir vildu vera mjög óvinsamlegir í garð Sjálfstfl., að menn hafi haldið sem svo, að ef kommarnir væru nú bannaðir, tækju þeir slæmu menn upp á því að fara að kjósa Framsókn og Alþfl. í staðinn eða eitthvað þess háttar. Það er ýmislegt, sem mönnum getur dottið í hug í pólitískri refskák. En hvernig svo sem slíkt kann að vera, eina heimildin, sem við höfum enn sem komið er á prenti í þessum málum, er álit eins manns, sem var í ríkisstj. og virðist hafa verið á því, að vissar ráðstafanir væru gerðar gegn Sósfl. eða gegn Þjóðviljanum á þessum tíma, og meira vitum við ekki.

Ég kem með þessi dæmi tvö, frá apríl 1941 og frá júnílokum 1941, til þess að sýna fram á, að ef frv. eins og það, sem ég hef hér lagt fyrir, hefði þá verið lög, mundum við ekki þurfa að deila um þessa hluti, þá hefði þetta legið fyrir í rækilega orðuðum gerðabókum ríkisstj. og í þeim minnisatriðum, sem utanrrh. hefði skrifað eða forsrh., ef hann annaðist slíkt, um sín viðtöl við erlenda sendifulltrúa, og þá þyrftum við ekki að fá úr heimildum í Bandaríkjaþingi að vita, hvað íslenzkur forsrh. hefði sagt á því herrans ári 1941 við brezka konsúlinn í Reykjavík. Ég held þess vegna, að þó að við getum kannske ekki gert héðan af nema litla tilraun til þess að bæta úr því, sem glatazt hefur fyrir það, að svona ákvarðanir skuli ekki hafa verið í gildi, nema þá a.m.k. að hverfandi litlu leyti, ættum við héðan af að sjá um, að svo yrði.

Ég vil leggja til, að að lokinni umr. um þetta mál yrði því vísað til 2. umr. og hv. allshn.