07.02.1967
Neðri deild: 36. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (1859)

93. mál, Austurlandsvirkjun

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Þetta frv. um Austurlandsvirkjun á þskj. 184 er um stofnun fyrirtækis til orkuvinnslu og dreifingar á orku á Austurlandi, sem yfirtæki þá þau kerfi og orkuver, sem fyrir eru, með samningum við rafmagnsveitur ríkisins, en bæði orkuverin og fyrirtækin eru nú á þeirra vegum.

Það má segja, að uppi séu a.m.k. tvær stefnur í okkar raforkumálum hér á landi um eignarhald og aðild að orkuverum og dreifikerfum, þ.e. annars vegar, að þetta væri allt saman á vegum ríkisins eða þess opinbera, hvort sem það er ríkisins eða þess, sem við köllum rafmagnsveitur ríkisins, en á hinn bóginn, að það væri á vegum sveitarfélaga eða fyrirtækja þeirra að meira eða minna leyti, t.d. að hálfu, eins og nú er með Landsvirkjun og raunar einnig með Laxárvirkjun, sem þó er að vísu enn að miklu meira leyti eign Akureyrarkaupstaðar, — og á hinn bóginn er svo það, að ríkið eitt eigi og reki fyrirtækin og sjái um orkuöflun og rekstur. Það hefur oft komið fram, að raforkumálastjóri er eindreginn ríkisrekstrarmaður í þessum orkumálum. Á hinn bóginn hafa málin þróazt meir og meir í þá átt, vil ég segja nú um skeið, að það séu fyrirtæki, sem að vísu ríkið á aðild að, en fyrirtæki, sem er stjórnað og eru undir stjórn heimabyggða á stærri eða minni svæðum. Þetta eru í aðalatriðum þessar tvær stefnur, um ríkisrekstur eða rekstur sveitarfélaga og með nánari skilgreiningu.

Ég hef fengið nokkrar upplýsingar frá framkvæmdastjóra Sambands ísl. rafveitna, Hauki Pálmasyni, um, hvernig þessum málum er háttað í nágrannalöndum okkar. Það er nokkuð mismunandi, en þó virðist vera í yfirgnæfandi meiri hluta það fyrirkomulag og þeir hættir, að það sé félagsskapur, ýmist sveitarfélaga eða kannske hlutafélaga, sem annist bæði raforkuvinnsluna og einnig dreifingu raforkunnar.

Ég ætla ekki að fara nánar út í þetta á þessu stigi, og mér er það líka ljóst, að enda þótt það sé ágætt að leiða hugann að því, hvernig þessum málum er skipað í nágrannalöndum okkar, þurfum við fyrst og fremst að miða hér við okkar aðstæður, og það geta verið önnur rök, sem liggja til skipunar mála, hér en þar. En þetta frv., sem hér liggur fyrir á þskj. 184 um Austurlandsvirkjun, byggist á þessari hugsun og þessari skoðun, að rekstur sveitarfélaga og heimabyggða sé æskilegri en ríkisrekstur, og það er ekki af einstrengingslegri andstöðu við ríkisrekstur yfirleitt, heldur vegna þess, að ég álít, að aukin sjálfstjórn og þar með sjálfstæði héraða sé æskileg, því muni fylgja farsæld, aukið sjálfstæði og sjálfstraust, auk þess sem heimastjórnin mun yfirleitt verða gleggri á þarfir og möguleika. Þá er enn fremur ótalið það, sem þó er ef til vill veigamest, að vatnsorkuverin verða tvímælalaust, er tímar líða, ómetanleg eign og að mínu viti mikilvægt, að héruðin eigi þá a.m.k. hluta í þeim fjársjóðum.

Það þarf ekki um það að ræða í þessu sambandi, að það er knýjandi nauðsyn á úrbótum í raforkumálum Austurlands. En vitanlega gætu þær farið fram á fleiri en einn veg. Mér þótti rétt að láta þetta koma fram, þessi höfuðatriði um — ef segja mætti stefnur í þessum málum, áður en ég rek efni frv. sjálfs.

1. gr. frv. kveður á um, að ríkisstj. og sveitarfélög Múlasýslna og Neskaupstaður og Seyðisfjarðarkaupstaður stofni virkjunarfyrirtæki, sem nefnist Austurlandsvirkjun. Og Austurlandsvirkjunin er sameignarfyrirtæki ríkisins og sveitarfélaganna, og á hvor aðili um sig helming fyrirtækisins. Austurlandsvirkjunin skal rekin sem sjálfstætt fyrirtæki með sjálfstæðan fjárhag og reikningshald, og heimili þess á að vera Egilsstaðir. Síðan er svo gengið stig af stigi í nánari skilgreiningu um fyrirkomulag og framkvæmdir og þetta frv. er byggt upp að öllu leyti að fyrirmynd laga um Landsvirkjun og Laxárvirkjun, eftir því sem bezt átti við í hverju einstöku tilfelli. Það er hér t.d. í 6. gr. frv. heimild til handa Austurlandsvirkjun að reisa allt að 12 megawatta orkuver í Lagarfljóti við Lagarfoss ásamt orkuveitu til Egilsstaða. Það er gert ráð fyrir, að það megi færa út það svið, sem upphaflega er reiknað með að Austurlandsvirkjunin nái yfir, sem er núverandi svokallað Grímsársvæði, en vegna þess að því kunna að fylgja ýmsar kostnaðarsamar tengingar á línum, má gera ráð fyrir, að það þurfi að koma til sérstakra samninga við ríkisvaldið í hverju slíku tilfelli. En sem sagt: í frv. felast möguleikar til þess, að þetta megi gera, og það er að sjálfsögðu æskilegast, að sem allra fyrst verði unnt, ef af stofnun þessa fyrirtækis gæti orðið, að láta það ná yfir Austurland allt. Það þarf ekki að fjölyrða mikið um það. Það hefur komið greinilega í ljós nú að undanförnu, að það er mikill áhugi fyrir því á Austurlandi, að unnt sé að koma upp virkjun í Lagarfossi. En þetta frv. slær því þó ekki föstu, að sú leið verði farin. Það skapar aðeins möguleikana, að þegar þetta fyrirtæki er komið á fót, er það stjórn þess, sem hefur aðstöðu til þess að beita sér fyrir, á hvern hátt aukinnar orku verður aflað.

Ég dreg ekki í efa, að það kunni að vera æskilegt og jafnvel nauðsynlegt að gera ýmsar breyt. á þessu frv. Það kynni að vera t.d. æskilegt að gera það ekki svo afgerandi sem það raunar er, að það þyrftu t.d. að koma inn einhver bráðabirgðaákvæði, sem sköpuðu einhvern aðdraganda til þess að skera úr því, hvernig t.d. samningar næðust o.s.frv. Allt slíkt kemur til athugunar við meðferð málsins í n. En það fylgir hér grg. frá tveimur sérmenntuðum mönnum á þessu sviði, sem hafa athugað um rekstrarmöguleika þessa fyrirtækis, ef á fót kæmist, frá þeim Jóhanni Indriðasyni rafmagnsverkfræðingi og Ásgeiri Sæmundssyni tæknifræðingi. Og án þess að ég vilji fara ýtarlega út í þær tölur, sem hér eru birtar, vil ég aðeins vekja á því athygli, að þar sem yfirlit er um rekstrarafkomu héraðsveitna á svæði Austurlandsvirkjunar, virðist þetta sýna allhagstæða útkomu, þannig að í kringum 1980 a.m.k. er þetta fyrirtæki — ég vil segja orðið gott. Nú má auðvitað um það deila, hvort sá grunnur, sem þarna er byggt á, muni standast í öllum efnum. Þetta er byggt á ákveðinni orkuspá, og sérstaklega er það byggt á því, að það sé veruleg aukning í raforkunotkun til húsahitunar. Ég er þeirrar skoðunar, að það þurfi að stefna miklu hraðar að því en hingað til hefur verið gert að nota raforkuna til húsahitunar á Íslandi. Það er með öllu óeðlilegt í þessu mikla orkulandi, að við flytjum inn orkuna í olíu til þess að skaffa okkur hita. Það er miklu raunsærra, að ég held, að gera að veruleika það, sem Einar Benediktsson sagði um Dettifoss, að sníða búning hitans úr jökulklæðum. Þetta frv. byggir á því sem sagt, að það sé unnið markvisst að því, að framleiða með vatnsorkunni orku til húsahitunar. Að þessu er vikið nokkru nánar í grg. Hins vegar, eins og ég hef áður sagt, dreg ég ekki dul á það, að þessi grunnur, sem hér er byggt á, muni þurfa endurskoðunar við, og ég er við því búinn, að það kunni að koma fram ýmsar athugasemdir við þessa útreikninga. En hitt verð ég þá líka að segja, að það verða vitanlega aldrei gerðir útreikningar fyrir slík fyrirtæki, sem ekki eru raunveruleg spá, sem kunna að koma meira eða mínna öðruvísi fram í veruleikanum. En það er þó rétt að benda á það, að í framtíðinni er hægt að hafa veruleg áhrif á það, hvort þessi framkvæmd reynist okkur hagstæð eða ekki. Það er með því að vinna markvisst að því, eftir að orka er fyrir hendi, að hún sé notuð. Ekki er því að leyna, a.m.k. eins og nú er ástatt um orkuna á Austurlandi, sem er að mjög miklu leyti í formi dísilorku, að ekki er ýtt á eftir því af hálfu rafmagnsveitna ríkisins, að orkunotkunin aukist. Miklu frekar má segja, að það sé hamlað á móti því, en slíkt er vitanlega mjög óheppilegt. Við eigum í vatnsorkunni einhver okkar mestu auðæfi, og það er eitt af okkar mestu hagsmunamálum að vinna að því með oddi og egg að nýta þessa orku sem allra mest.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða miklu meira um efni þessa máls, en ég vil víkja svolítið að því, hvernig ég hugsa mér meðferð þessa máls hér fyrir Alþingi. Eins og fram kemur í grg. með frv., hafði frv. ekki verið borið undir þá aðila, sem eiga að gerast þátttakendur í Austurlandsvirkjuninni, sem eru sveitarfélög Múlasýslna, Neskaupstaður og Seyðiðfjarðarkaupstaður, áður en það var lagt fram hér á Alþingi, og ég hef orðið var við, að það hefur verið a.m.k. reynt að deila nokkuð á mig vegna þess að hafa valið þá leið að leggja málið fyrir Alþingi án þess að hafa áður leitað eftir því, hvort sveitarfélögin væru þessu samþykk. Nú skal ég játa, að auðvitað var sú aðferð ekkert óeðlileg, en hinu mótmæli ég ákveðið, að það hafi verið nokkuð sjálfsagt að leita álits heimamanna, áður en málið var lagt fram. Ég tel, og það er auðvitað rétt, að alþingismennirnir eru þjónar fólksins, en þeir verða líka að vera frumkvöðlar og forustumenn, og mér var að verða það sérstaklega ljóst, í þessum raforkumálum Austurlands, að það var mikil nauðsyn að fara að láta koma fram einhverja áþreifanlega hluti, og a.m.k. er það í mínum huga auðveldara og betra fyrir sveitarfélögin á Austurlandi að gera sér grein fyrir þessu máli, eftir að þetta frv. er komið fram.

Ég vil leggja til, að meðferð málsins verði slík hér, að málinu verði vísað til hv. fjhn., en vitanlega er nauðsynlegt, að málið verði sent til umsagnar og þar á meðal og fyrst og fremst kannske til hins nýstofnaða Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi. Það var sem sagt stofnað á s.l. hausti, Samband sveitarfélaga á Austurlandi, og samkv. lögum þess vill það láta sig varða, eins og segir þar: atvinnu-, efnahags-, mennta-, skipulags-, samgöngu- og félagsmál, og þetta heyrir vitanlega þar undir. Nú hafa menn sjálfsagt orðið þess varir, að það var í janúarmánuði haldinn stór fundur á Egilsstöðum að frumkvæði þessa sveitasambands um raforkumálin yfirleitt, en ekki sérstaklega um þetta frv., og þó að samþykkt sú, sem þar var gerð í orkuöflunarmálunum, væri áskorun til ríkisins um Lagarfossvirkjun, vil ég ekki segja, að þar hafi komið fram beint svar við efni þessa frv., og eftir því þarf þess vegna að leita með því að senda þetta frv. beinlínis til umsagnar sveitarstjórnasambandsins. Að sjálfsögðu verður svo leitað eftir umsögn sérfróðra manna um þann grundvöll, sem frv. byggir á um rekstrarafkomu þessa fyrirtækis. En mér þykir bara rétt, — ég vil segja það hér, að mér finnst, að stofnun þessa sveitarstjórnasambands á Austurlandi og stefna sú, sem kemur fram í þessu frv. — að hvort tveggja sé í raun og veru ákaflega hliðstætt. Það er enginn vafi á því, að með stofnun sveitarstjórnasambandsins á Austurlandi vilja sveitarfélögin þar reyna að efla sjálfstæði sitt og aðstöðu og það væri þess vegna mjög í samræmi við þá stefnu að vilja einnig taka á líkan hátt og hér er gert ráð fyrir þátt í raforkumálunum á Austurlandi, taka þau undir stjórn heimafyrirtækis, þar sem þau hafa miklu meira ákvörðunarvald, miklu meira sjálfstæði um framvindu þessara mála en ef þau verða áfram í höndum rafmagnsveitna ríkisina.

Ég held, að ég hafi þá gert grein fyrir því helzta um þetta mál, sem ég vil láta koma fram á þessu stigi. Ég ætla að leiða hjá mér ýmislegt, sem kannske væri ástæða til að tala um og komið hefur fram, ekki hér á Alþingi. Ég ætla að halda mig við málið sjálft, og ég vil vænta þess, að þessu frv. verði tekið vinsamlega og af fullri alvöru af hv. Alþingi. En vitanlega er það grundvallaratriði fyrir þeirri afgreiðslu, sem það hlýtur hér, hver verður endanleg afstaða sveitarfélaganna á Austurlandi til þessa máls. Vilja þau gerast aðilar, leggja nokkuð á sig fyrir aukinn rétt, eða vilja þau það ekkí, vilja þau halda áfram að gera kröfu til ríkisvaldsins, en taka ekki þátt í þessum málum?

Ég vil svo, herra forseti, leggja til, að þessu frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.