09.02.1967
Neðri deild: 39. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (1862)

93. mál, Austurlandsvirkjun

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Þetta frv., sem hér liggur fyrir og flutt er af hv. 3. þm. Austf., Jónasi Péturssyni, og hann hefur mælt fyrir, fjallar um að stofna fyrirtæki til þess að gangast fyrir framleiðslu raforku og dreifingu hennar á Austurlandi og verði þetta fyrirtæki sameign sveitar- og bæjarfélaga á Austurlandi og ríkisins og taki við af raforkuveitum ríkisins, kaupi eignir raforkuveitna ríkisins og gangist fyrir nýjum framkvæmdum í þessu skyni.

Þetta frv. er ekki flutt í samráði við bæjarog sveitarfélög á Austurlandi, eins og hv. flm. tók fram í framsöguræðu sinni, og tel ég það málefni þannig vaxið, að það ætti ekki að taka upp á þessa lund, nema í samráði við bæjar- og sveitarfélögin á Austurlandi.

Mér finnst, að áður en til greina gæti komið að breyta um stefnu í raforkumálum fjórðungsins, eins og þetta frv. ráðgerir, yrði að hafa um það samráð við forráðamenn bæjar- og sveitarfélaganna í fjórðungnum, vegna þess að í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að bæjar- og sveitarfélögin taki að verulegu leyti við þessum málum úr höndum ríkisins, leggi fram fjármuni og taki ábyrgð á viðamiklum rekstri í þessari grein ásamt ríkinu.

Áður en þetta frv. kom fram, var búið að vinna talsvert að því að ýta á nýjar framkvæmdir í raforkumálum Austurlands, og er Austfirðingum þar efst í huga að koma því fram, að Lagarfoss verði virkjaður myndarlegri virkjun. Það hafa verið haldnir fundir um þetta málefni, raforkumálin yfirleitt, sameiginlegir fundir þingmanna og fulltrúa sýslu- og bæjarfélaga, og síðast var haldinn fundur um þessi efni á Egilsstöðum í ágústmánuði s.l., og á þeim fundi var ákveðið að beita sér fyrir því, að ríkið virkjaði Lagarfoss, að raforkuveitur ríkisins létu byggja nýtt orkuver við Lagarfoss. Það var sú stefna, sem mörkuð var á þeim fundi.

Fannst mönnum það að öllu leyti eðlilegast, að ríkið héldi áfram að reka raforkukerfi Austurlands. Ríkið tók við því að sumu leyti úr höndum byggðarlaganna fyrir æðimörgum árum, og þar hafa síðan verið gerðar nokkrar framkvæmdir, þó að þær séu allt of litlar, miðað við þörfina, eins og rækilega hefur verið sýnt fram á. Fannst mönnum eðlilegt, að þar sem ríkið hafði tekið við þessum málum á þann hátt, yrði framhald á því nú í þessa stefnu, að byggja myndarlegt raforkuver við Lagarfoss og ríkið ræki áfram veiturnar. Það var nokkru síðar eða nú fyrir skemmstu haldinn myndarlegur fundur á vegum Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, boðaður af stjórn þessara samtaka, og á þeim fundi mættu þm. Austf. og nokkrir af forráðamönnum rafmagnsveitna ríkisins. Er skemmst af því að segja, og ég vil, að það komi fram hér á hv. Alþingi, að á þeim fundi voru ítrekaðar ákvarðanir um það, að Austfirðingar beittu sér fyrir því, að ríkið virkjaði Lagarfoss, rafmagnsveitur ríkisins virkjuðu Lagarfoss, og síðan kæmu aðrar raforkuframkvæmdir í fjórðungnum í framhaldi af því. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, vegna þess að það verður brotaminnst og styttir þetta mál, að lesa þá ályktun, sem gerð var á þessum fundi og markar stefnuna í málinu, þessi ályktun var samþykkt samhljóða af öllum fundarmönnum. Hún er þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Fundur Sambands sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi, haldinn á Egilsstöðum 24. jan. 1967, telur, að brýn þörf sé orðin á, að raforkumál Austurlands verði leyst með nýrri vatnsaflsvirkjun á Austurlandi. Fundurinn bendir á, að raforkunotkun á Austurlandi hefur aukizt mjög mikið á síðustu árum og hlutfallslega meira en annars staðar á landinu. Allar líkur benda til þess, að áfram muni raforkunotkunin á Austlandi fari hratt vaxandi, enda er nú svo komið, að þýðingarmesti fiskiðnaður landsins hefur miðstöðvar sínar hér eystra. Fundurinn telur, að þar sem fyrir liggur, að hægt sé að gera hagstæða raforkuvirkjun við Lagarfoss, sé einsýnt, að í slíka virkjun beri að ráðast og það sem allra fyrst. Fundurinn er mjög andvígur þeim hugmyndum, sem fram hafa komið um það að fresta enn virkjunarframkvæmdum á Austurlandi, en leysa um skeið raforkumál Austurlanda með því að leggja háspennulínu frá Laxárvirkjun og kaupa síðan nauðsynlega viðbótarorku vegna þarfa Austurlands frá Laxárvirkjun. Fundurinn vill sérstaklega vegna þessarar hugmyndar benda á, að erfitt hlyti að verða með allar viðgerðir raforkulínu, sem lögð yrði frá Laxá til Egilsstaða, yfir eitt mesta hálendi landsins, einkum að vetrarlagi, og ef illa færi, væri mikið í húfi, eins og raforkumálum á Austurlandi er komið. Þá er þess að gæta, að Laxárvirkjun er séreignarfyrirtæki og fyrst og fremst undir stjórn Akureyrar og skiljanlega rekið út frá sjónarmiði eiganda hennar, og er allsendis óvíst, að viðhorf þeirra sé í samræmi við hagsmuni Austurlands eða þeirra, sem þar starfa. Fundurinn álítur, að vissulega komi til greina að tengja saman rafveitukerfi Norður- og Austurlands, en telur, að áður en til slíks kemur, þurfi að ráðast i vatnsaflsvirkjun á Austurlandi, sem sé í samræmi við raforkuþarfir hér eystra og veiti nauðsynlegt öryggi þýðingarmiklum atvinnurekstri og eðlilegt svigrúm til æskilegrar þróunar í atvinnumálum þjóðarinnar. Það er því eindregin ósk fundarins til ríkisstj., að hún ákveði, að ríkið ráðist í virkjun Lagarfoss og leysi á þann hátt raforkumál Austurlands til nokkurrar frambúðar og tryggi á þann hátt eðlilega og hagstæða þróun atvinnumála á Austurlandi og næga og örugga orku fyrir þann stóriðnað í sjávarútvegi, sem á Austurlandi er, svo og þörf landbúnaðarins og annarra atvinnugreina á hverjum tíma.“

Eins og menn heyra á þessu, er þarna stefnan mörkuð þannig, að ríkið ráðist í virkjun Lagarfoss og leysi á þann hátt raforkumál Austurlands til nokkurrar frambúðar. Þannig er stefnan mörkuð í þessu máli í samræmi við það, sem ætið hefur áður verið haldið fram af okkur öllum þm. að austan sameiginlega, og við höfum unnið að málinu á þessum grundvelli, þangað til hv. þm. hefur án samráðs við okkur lagt fram það frv., sem hér liggur fyrir, og sem sagt einnig án samráðs við byggðarlögin heima fyrir.

Þetta vildi ég, að kæmi fram við 1. umr. málsins til íhugunar fyrir þá n., sem hér á hlut að máli, og mun ég ekki sjá ástæðu til að fara lengra út í þetta við þessa 1. umr. Ég vildi, að þessi stefnuyfirlýsing kæmi fram, svo að hv. þm. kynntust henni og gætu íhugað hana, og ég vil mjög eindregið taka undir það, sem kom fram hjá hv. 1. flm., ef ég hef skilið rétt það, sem hann sagði, að það getur ekki komið til mála að gera þetta frv. að lögum nema í samráði eða samvinnu við byggðarlögin á Austurlandi. Ég gat því miður ekki heyrt framsöguræðu hans alla af óviðráðanlegum ástæðum, en mér er sagt, að hann hafi flutt þá uppástungu, að málinu yrði vísað til umsagnar samtaka sveitarfélaganna á Austurlandi, sem síðan yrðu þá að sjálfsögðu að kynna sér viðhorf einstakra byggðarlaga til málsins. Ég vil taka undir, að það ber brýna nauðsyn til að halda þannig á málinu. Ætti að endurskoða þá stefnu, sem fylgt hefur verið á Austurlandi í þessu efni, er margt, sem þarf að skoða ýtarlega, áður en ákvörðun er tekin. Sérstaklega þarf að íhuga mjög vandlega allan fjárhagsgrundvöll í þessu sambandi, skoða það allt upp á nýtt og gera sér grein fyrir þeim byrðum, sem byggðarlögin ættu þá að taka á sig, og svo aftur þeim kostum, sem kynnu að vera því samfara.

En það vil ég segja nú, að það er mjög mikill þröskuldur á þeirri leið, að byggðarlögin á Austurlandi eiga öll óleyst stórkostleg verkefni og eru öll í fjárþröng miðað við það, sem þau þurfa að koma í framkvæmd, og því væri mjög erfitt eða raunar alveg ómögulegt fyrir þau að fara að leggja fram stofnfé í sambandi við nýjar raforkuframkvæmdir. Það mundi verða alveg ókleift.

En sem sagt, ég legg áherzlu á, að þetta mál verði sent hlutaðeigandi til athugunar. En höfuðmálið hlýtur að vera það, og vona ég, að vaki ekki fyrir hv. flm. að slaka neitt á því, að höfuðmálið hlýtur að vera að sameinast um að fá Lagarfossvirkjunina reista, og við verðum að halda okkur við þá stefnu, sem mótuð hefur verið í því efni, þó að þessi hugmynd komi hér fram til skoðunar, sem sé að ríkið byggi raforkuverið og sjái um reksturinn, þangað til eða ef það kæmi til, að byggðarlögin á Austurlandi ákvæðu sjálf að óska eftir því, að annar háttur yrði á. En frá þeim yrði slíkt að koma.