09.02.1967
Neðri deild: 39. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í C-deild Alþingistíðinda. (1863)

93. mál, Austurlandsvirkjun

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Eins og sagt hefur verið í umr. um þetta mál, er gert ráð fyrir því með þessu frv., að tekin verði upp ný stefna í raforkumálum Austurlands, sem mætti þá kannske verða upphaf að nýrri stefnu í framkvæmdum í raforkumálum á miklu fleiri stöðum.

Á Austurlandi hefur háttað þannig til nú um skeið, að rafmagnsveitur ríkisins eiga þau orkuver, sem þar eru fyrir hendi, og í rauninni svo til allt rafveitukerfið, ekki aðeins aðalveiturnar, heldur einnig dreifiveitur á hinum einstöku stöðum. Þessu er nokkuð svipað háttað annars staðar á landinu, t.d. á Vestfjörðum. Þar er þessu nokkuð svipað háttað, og víðar á landinu reka rafmagnsveitur ríkisins allumfangsmikinn rekstur í sambandi við orkuöflun og dreifingu á raforku. En með þessu frv. er lagt til, að tekin verði upp önnur stefna í raforkumálum Austurlands, sem sagt sú, að byggðarlögin á Austurlandi taki raforkumálin þar í sínar hendur, þau myndi með sér sameiginlegt félag, yfirtaki þau mannvirki, sem fyrir eru í rafmagnsmálum þar eystra, yfirtaki orkuverið við Grímsá og aðalrafmagnslínur á Austurlandi og ráðist síðan sameiginlega í nýjar raforkuframkvæmdir og hafi síðan með höndum rekstur rafmagnsmálanna á þessu svæði. Það mundi þýða, að rafmagnsveitur ríkisins hyrfu með öllu út úr þessum rekstri.

Það fer auðvitað ekkert á milli mála, að hér er verið að leggja til að gjörbreyta um stefnu frá því, sem verið hefur, og frá í rauninni yfir lýstri stefnu í raforkumálum í landinu, því að sú stefna, sem greinilega kemur fram í raforkul., er sú, að það skuli vera ríkið fyrst og fremst, sem á hin stærri orkuver og aðalorkuveitur, og það skuli stefnt að því í rauninni, að þetta verði ríkiseign allt saman. Ég veit, að flm. þessa frv. bendir á í þessu sambandi, að það hafi verið talsvert frávik frá þessari meginstefnu með lögum um Landsvirkjun nú fyrir stuttu, og einnig megi segja, að það sé nokkurt frávik frá þessari meginstefnu, það fyrirkomulag, sem er ríkjandi um Laxárvirkjun. Og það er rétt, það var gert talsvert frávik frá þessari meginstefnu með 1. um Landsvirkjun, þó að það væri ekki að öllu leyti ljóst, hvað þar væri á ferðinni, því að a.m.k. benti nafnið til þess, að þar væri verið að stefna að því að koma upp fyrirtæki, sem ætti ekki að vera aðgreint fyrir aðeins tiltekinn hluta af landinu, heldur hefði verið hugmyndin, að yrði fyrirtæki, sem í framtíðinni a.m.k. spennti yfir allt landið. Um Laxárvirkjunina er aftur það að segja, að þar er um að ræða fyrirbæri i þessum skipulagsmálum, sem fyllilega var gert ráð fyrir með setningu raforkulaganna, en það var ákveðin viðurkenning á því, sem fyrir var í raforkumálunum, áður en raforkul. voru sett, þau sem í gildi eru, og var þá gert ráð fyrir því, að ríkið væri eignaraðili að Laxárvirkjun — og yrði það í vaxandi mæli, eftir því sem fram liðu stundir. En það er rétt, að um Laxárvirkjun gilda þó þau sérákvæði, að þar er enn í rauninni ekki um ríkisfyrirtæki að ræða, heldur miklu fremur á því stigi sem hún er, um séreignarfyrirtæki ákveðins svæðis að ræða. En nú leggur flm. þessa frv., hv. 3. þm. Austf., Jónas Pétursson, til, að það verði horfið frá þeirri stefnu í raforkumálum, sem mörkuð var með raforkul. og farin hefur verið á Austurlandi fram til þessa, þar sem ríkið hefur haft þessi raforkumál með höndum. Og nú vill hann, að tekið verði í rauninni upp gamla lagið i þessum efnum, sem hér var að talsverðu leyti í gildi áður, og það verði horfið til baka frá því, sem nú er, og myndað sérstakt fyrirtæki með sveitarfélögum á Austurlandi, sem nefnist Austurlandsvirkjun og yfirtaki þau mannvirki, sem fyrir eru í raforkumálum á Austurlandi, af ríkinu og taki að sér rekstur þeirra og fái síðan aðstöðu til þess að ráðast í frekari framkvæmdir, eftir því sem þörf er á.

Ég vil segja það sem mína skoðun, að ég er í rauninni á móti þeirri stefnu, sem kemur fram í þessu frv. Ég er fyllilega á þeirri stefnu, sem mörkuð var með setningu raforkul., þar sem út frá því var gengið, að að því marki yrði stefnt, að allar aðalorkuveitur í landinu og öll aðalorkuverin yrðu ríkiseign og skipulega unnið að því að tengja orkuveitusvæðin saman, og þannig kæmumst við nær því stigi að geta ráðizt hverju sinni í þær hagstæðustu virkjanir, sem völ væri á til raforkuöflunar. En það er rétt, að það er í rauninni frumskilyrði þess, að hægt sé að vinna þannig að raforkumálunum, að það sé einn aðili, sem á raforkuverin og aðalorkuveiturnar, því að annars er alltaf hætt við því, að séreignarsjónarmiðin komi upp hjá hinum ýmsu aðilum, ef þeir eiga að vinna þar saman.

Ég tel líka, að það sé mjög umhendis að taka nú upp aftur þessa stefnu, sem gengið er út frá í þessu frv., á Austurlandi, eins og raforkumálum þar er nú komið. Það sýnist harla einkennilegt, að eftir að ríkið hefði gengið fyrir nokkrum árum allfast eftir því að yfirtaka rafveitur einstakra kaupstaða og kauptúna og keypt þessar veitur, skuli eiga að fara að stíga skrefið aftur til baka og afhenda sveitafélögunum þessar veitur, sem ríkið hefur yfirtekið og breytt auðvitað í ýmsum greinum, eins og gengur, og svo eigi sveitarfélögin á nýjan leik að fara að taka að sér rekstur þeirra, sem forustumönnum landsins í raforkumálum þótti ekki rétt, að sveitarfélögin hefðu með höndum, fyrir nokkrum árum.

Það fer ekki á milli mála, að flm. þessa frv. er okkur öðrum þm. á Austurlandi sammála um, að það er orðin knýjandi nauðsyn, að ráðizt verði í nýjar raforkuframkvæmdir á Austurlandi. Þar skortir tilfinnanlega raforku, og það fyrirkomulag, sem þar er nú ríkjandi um öflun raforku, fær ekki staðizt, miðað við núverandi aðstæður, það er orðið svo óhagstætt. Hann er því fyllilega okkur öðrum þm. á Austurlandi sammála um, að það þarf hið fyrsta að ráðast í nýja virkjun, t.d. í Lagarfossi eða annars staðar, þar sem hagstætt væri talið á Austurlandi. Það held ég, að við þm. Austurlands séum allir sammála um og allir Austfirðingar. En hann hefur hugsað sér þessa leið, að það verði breytt um stefnu í raforkumálunum á Austurlandi og unnið að virkjun Lagarfoss af þessum nýju samtökum, en horfið frá því að láta ríkið annast þessi mál. En einmitt vegna þess, að nú er orðið svo ástatt, að það er orðin knýjandi nauðsyn að fá nýtt orkuver á Austurlandi, fá stóraukna orku, væri mjög óheppilegt að mínum dómi að fara að fitja upp á þessari stefnubreytingu einmitt nú. Það að taka upp þessa nýju stefnu mundi óhjákvæmilega að mínum dómi skjóta öllum framkvæmdum í raforkumálum á Austurlandi á frest og það um allverulega langan tíma. Sveitarfélögin á Austurlandi hafa nú engin samtök með sér varðandi sameiginlegan rekstur eða eignarhald á slíkum mannvirkjum sem þessum. Þau þyrftu því að vinna að því að mynda með sér sameiginlegt félag. Þau eru dreifð, sveitarfélögin á Austurlandi, og búa við mjög misjafnar aðstæður, og ég hygg, að það mundi taka talsvert langan tíma að koma fyrir stofnun slíkra samtaka, sem ættu að ráðast í jafnumfangsmikið verk og það er, í fyrsta lagi að yfirtaka mannvirki, sem kostar yfir 100 millj. kr. eða eitthvað talsvert á 2. hundrað millj. kr., hygg ég, og í öðru lagi að ráðast í nýjar stofnframkvæmdir, sem kosta mundu a.m.k. jafnmikið. Það er auðvitað engum vafa bundið, að þeir aðilar, sem ætla að atanda að félagi, sem á að ráðast í þetta, þurfa nokkurn tíma til þess að skipa sínum málum, og undirbúningur í þessum efnum hefur enginn farið fram. Ég óttast það því í fyrsta lagi, að sú stefnubreyting, sem felst í þessu frv., mundi leiða það af sér, að framkvæmdum í raforkumálum á Austurlandi yrði óhjákvæmilega að fresta, ef ætti að hverfa að þessu ráði, og þá yrði þar um verulegt tjón að ræða fyrir alla hlutaðeigendur, sem þurfa á raforku að halda á þessu svæði.

Það er eins og hér hefur komið fram, að sveitarfélögin á Austurlandi eru ekki aðili að flutningi þessa máls á neinn hátt og hafa enda þegar lýst því yfir, að þau kjósi fremur aðra leið, þau kjósi, að það verði haldið sér við þá meginstefnu, sem áður hafi verið mörkuð í framkvæmdum á raforkumálum á Austurlandi, og hafa því viljað knýja á ríkið með það, að það ráðist í óhjákvæmilegar og nauðsynlegar framkvæmdir í þessum efnum. Þá er einnig þess að gæta, að rafmagnsmálum Austurlands er þannig komið nú í dag, að það er ekkert hlaupið að því fyrir nýjan aðila að yfirtaka þau mannvirki, sem þar eru, og þann rekstur, sem þar fer nú fram.

Eins og hér hefur áður komið fram í umr., er sem sagt þannig ástatt, að rafveiturnar á Austurlandi eru nú reknar af ríkinu með miklum halla. Vatnsaflsorka er þarna af mjög skornum skammti, langt undir því, sem þörfin kallar á, og það hefur verið reynt af rafmagnsveitum ríkisins að leysa vandann í rafmagnsmálunum á undanförnum árum á Austurlandi á þann hátt að kaupa nýjar og nýjar dísilvélar og reyna að koma þeim fyrir, oftast nær með miklu bráðabirgðafyrirkomulagi og ærnum kostnaði, og afleiðingarnar ern þessar, sem forustumenn rafmagnsmálanna hafa upplýst, að nú er rekstrarhallinn á þessum veitum á Austurlandi um 16 millj. kr. á ári, eins og komið er. Og það sem verra er, upplýsingar eru beinlínis fyrir um það, að rekstrarhallinn fer vaxandi, eftir því sem meiri orka er notuð á Austurlandi. Svo illa er ástatt um orkuöflunina og aðaldreifingu orkunnar á þessu svæði, að það er talið, að tapið vaxi beinlínis með aukinni notkun. Nú er það auðvitað alveg gefið mál, að sveitarfélögin á Austurlandi þurfa að hugsa sig um oftar en einu sinni, áður en þau yfirtaka slíkan rekstur, þar sem svo er ástatt um, sem þarna er um að ræða. Auk þess er það nokkurn veginn gefið mál, að yrði síðan ráðizt í nýja virkjun í Lagarfossi, sem þó er talin mjög hagstæð virkjun, yrði ekki hægt að komast hjá því, að það yrði nokkur hallarekstur á þeirri virkjun fyrstu árin, eins og er allajafna á nýjum virkjunum, þó að þær geti verið út af fyrir sig mjög góð fyrirtæki og átt eftir að skila hagstæðri framleiðslu eftir nokkur ár. Það er því alveg augljóst mál, að það að benda sveitarfélögunum á Austurlandi á það nú, að þau skuli yfirtaka þessar eignir, eins og er ástatt með þær og í því ástandi, sem þær eru nú, og taka að sér þennan rekstur, eins og hann er nú, og ráðast í bráðaðkallandi framkvæmdir, eins og þarna er þörf á, það hlyti að leiða til þess, að allmiklar tafir yrðu á þessu máli, það yrðu tafir í sambandi við framkvæmdir.

Þá er eitt atriði enn, sem ég vildi minnast á í sambandi við þá hreyttu stefnu, sem lýsir sér í þessu frv., galli að mínum dómi. Ég er fyrir mitt leyti á þeirri skoðun, að það sé hagkvæmt að stefna að því, að raforkusvæðið á Austurlandi verði í framtíðinni tengt raforkusvæðinu á Norðurlandi, eins og ég er ekki í nokkrum vafa um, að það ber að stefna einnig að því, að raforkusvæðið á Norðurlandi verði í framtíðinni tengt raforkusvæðinu hér suðvestanlands. Það ber að stefna að þessu. En séreignarfyrirkomulag á raforkusvæðinu fyrir austan og séreignarfyrirkomulag á raforkusvæðinu fyrir norðan mundi gera þetta miklu erfiðara. Ég teldi því miklu heppilegra, einmitt upp á það að stefna að þessu marki í framtíðinni, að það verði haldið áfram þeirri stefnu, sem mörkuð var með raforkulögunum um það, að það verði ríkið, sem eigi orkuverin, t.d. á Austurlandi, og aðalorkuveitur þar og ríkið haldi áfram að yfirtaka aðalorkuverin á Norðurlandssvæðinu með aukinni þátttöku og þannig verði sköpuð bætt aðstaða til samtengingar og samvinnslu. Það er líka hætt við því, ef komið yrði upp séreignarfyrirtæki um framleiðslu og dreifingu á raforku á Austurlandi, að vegna þeirra aðstæðna, sem þar eru fyrir hendi, þar sem vegalengdir eru miklar og dreifbýli er raunverulega mikið, mundu þeir staðir, sem hefðu bezt fjárhagsleg ráð í þessum efnum, fjölbýlustu staðirnir á Austurlandi, þeir sem aðallega eru á miðsvæði Austurlands, vilja draga það eitthvað við sig að leggja háspennulínur langar leiðir, t.d. af Miðausturlandi alla leið norður í Vopnafjörð eða frá Miðausturlandi og suður undir Hornafjörð, þar sem mjög bætt er við því, að það kæmi í ljós, að það yrði nokkuð kostnaðarsamt, og þá litu þessir aðilar, sem aðallega stæðu undir þessu séreignarfyrirtæki, nokkuð á eigin hag og vildu skjóta sér undan þeim vanda að standa undir þessum sérstaka kostnaði. Ég tel hins vegar miklu réttara, að slíkur vandi sé leystur af ríkisheildinni í sambandi við lausn þjóðfélagsins í heild á raforkumálunum í landinu, og þannig verði minni hætta á því, að einstök svæði eins og þessi verði útundan, þegar leysa á þessi raforkumál til frambúðar.

Ég veitti því athygli, að flm. frv. lagði á það nokkra áherzlu, að það væri kostur við þetta fyrirkomulag, sem hann leggur til að tekið verði upp í þessum efnum, að viðkomandi sveitarfélög fengju meira um þessi þýðingarmiklu mál að segja og gera í framtíðinni, ef þau væru eignaraðilar, heldur en ef ríkið hefði þessi mál með höndum. Ég get tekið undir þessa skoðun að vísu, að það yrði á margan hátt æskilegt, að t.d. fulltrúar sveitarfélaganna á Austurlandi gætu haft talsvert um það að segja, hvernig háttað er rekstri rafmagnsmálanna þar í fjórðungnum. En ég álít, að það sé lítill vandi að sjá um með skipulagsatriðum, að sveitarfélögin á Austurlandi geti fengið þessa aðstöðu, jafnvel þó að hér sé um ríkisveitur að ræða. Það væri ofur eðlilegt að gera ráð fyrir því, að það væri sérstök rekstrarstjórn yfir rafveitu Austurlands, þó að ríkið ætti þá rafveitu, og fulltrúar frá sveitarfélögunum í umdæminu gætu verið í slíkri rekstrarstjórn, þó að allt úrslitavald væri eftir sem áður í höndum yfirmanna raforkumála í landinu, sem fjalla um þessi mál í heild, en á þann hátt væri hægt að tengja nokkru betur heimaaðilana við þennan rekstur, við fyrirtækið í heild, þannig að þeir gætu komið fram öllum sínum sjónarmiðum og barizt fyrir sínum málum á eðlilegan hátt, jafnvel þótt hér væri um ríkisrekstur að ræða. En bygging stórra raforkuvera og dreifing raforkunnar eftir aðallínum er þess eðlis, að á því fer langsamlega bezt, að það sé ríkisheildin, sem annist slíkt verk. Mikil uppdeiling í sambandi við slíkt verkefni er óhagkvæm og er röng frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð. Um þetta gegnir mjög svipuðu máli að mínum dómi og með síma eða ýmis önnur slík fyrirtæki. Vitanlega er hægt að hafa þetta í einkaeign og undir stjórn margra aðila. Slíkt er vitanlega hægt og er gert í nokkrum löndum. En það er ekki hagkvæmt. Hitt er miklu hagkvæmara, að það sé einmitt ríkið, sem hefur með þessi mál að gera.

Ég hef hér aðallega rætt í sambandi við flutning á þessu frv. um þá stefnubreytingu, sem það felur í sér, en það er í rauninni aðalatriði þessa frv. að mínum dómi. En það væri auðvitað mjög freistandi að ræða hér einnig talsvert mikið um raforkumálin á Austurlandi, eins og þeim er komið, en ég skal ekki gera það hér að þessu sinni, en legg áherzlu á, að ég veit ekki betur en við þm. af Austurlandi séum þar allir fullkomlega sammála, eins og Austfirðingar eru, að það er orðin mjög brýn nauðsyn á því, að ráðizt verði í byggingu á nýju raforkuveri á Austurlandi, og við teljum, að þær áætlanir, sem þegar liggja fyrir um raforkuver við Lagarfoss, séu mjög hagstæðar og allar aðstæður á Austurlandi séu þess eðlis, að það sé í rauninni ekki bægt að skjóta sér undan þeim vanda lengur en gert hefur verið að ráðast í slíkt orkuver frá þjóðhagslegu sjónarmiði séð, því. að þar er ekki aðeins í þrengstu merkingu um að ræða hagsmuni þeirra, sem búa á Austurlandi, þar á í rauninni öll þjóðin orðið sína hagsmuni við tengda, eins og nú er komið. Við álítum því, áð það eigi að ráðast í slíka framkvæmd og það sem fyrst, og það hefur greinilega komið fram að það er vilji Austfirðinga almennt, að það verði ríkið, sem heldur áfram framkvæmdum í þessum efnum og ráðist í þessa framkvæmd á hinn haganlegasta hátt. En ég held, að menn gætu illa hugsað sér að taka upp þessa nýju stefnu, sem felst i þessu frv., nema þá því aðeins — en þá gæti ég líka hugsað mér það — að ríkið brygðist sínu hlutverki algerlega í okkar rafmagnsmálum, vildi ekki leysa þau eða drægi svo óhæfilega að leysa þau. Þá vitanlega verða Austfirðingar að snúast við þeim mikla vanda, sem þá ber að höndum, og leysa sín mál sjálfir. En ég tel, að það sé mjög óeðlilegt að gera ráð fyrir því, að ríkisvaldið skjóti sér undan þessum vanda, sérstaklega eins og ástatt er um hin þýðingarmiklu atvinnumál nú á Austurlandi.

Ég geri svo ráð fyrir því, að þetta frv. fari til n., og er þá auðvitað aðstaða til að ræða það enn frekar, þegar það kemur frá nefnd.