09.02.1967
Neðri deild: 39. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 226 í C-deild Alþingistíðinda. (1864)

93. mál, Austurlandsvirkjun

Flm. (Jónas Pétursson):

Herra forseti. Hv. samþm. mínir, 1. þm. Austf. og 5. þm. Austf., hafa nú lýst skoðunum sínum á þessu máli, og það hefur komið fram, sem ég raunar vissi fyrir, að þeir eru á öðru máli um þá stefnu, sem fram kemur í frv., sem sé þeirri stefnu, að sveitarfélögin eigi að vera aðilar að fyrirtæki, sem sér um raforkumálin á Austurlandi. Þeir vilja, að ríkið annist þessi mál, eins og verið hefur. Ég vil þó svolítið víkja að því, sem fram hefur komið í ræðum þeirra. Ég er ekki að standa hér upp af því, að ég búist við að hafa áhrif á þeirra skoðanir eða ég muni geta sveigt þá til fylgis við mína stefnu í þessu máli.

Ég vil fyrst víkja að því, sem Eysteinn Jónsson lagði nokkuð áherzlu á og gerði ekki síður á raforkumálafundinum á Austurlandi, að það hefði verið mjög misráðið að flytja þetta mál inn í þingið án samráðs við sveitarfélögin. Ég vék nokkuð að þessu í framsöguræðu minni með málinu, og ég viðurkenni, að það er sjónarmið út af fyrir sig að leita samstarfs og kanna skoðanir á þessu máli, áður en það er flutt. En hitt vil ég segja, sem ég einnig tók fram, að ég tel það engan veginn nauðsynlegt, og ég vil skýra það svolítið nánar, hvers vegna ég valdi þann kostinn að láta málið koma fram á Alþ., áður en það lægi fyrir, hver afstaða sveitarfélaganna mundi verða til þess.

Eysteinn Jónsson rakti lítillega forsögu þessa máls. Við þm. Austurlands höfum á s.l. ári fylgzt mjög náið með þeim ráðagerðum, sem uppi hafa verið um úrbætur í raforkumálum Austurlands. Og eins og hann lýsti, hafa verið haldnir nokkrir fundir um þessi mál, m.a. voru tveir fundir haldnir á Austurlandi í sumar, en hann hljóp yfir eitt atriði eða fyrri fundinn, sem haldinn var í lok júní, en á þeim fundi lagði ég einmitt fram í ákveðnu tillöguformi þessa hugmynd mína um, að það yrði leitað eftir því við sveitarfélögin, hvort þau vildu ekki gerast aðilar og taka frumkvæðið í þessum málum, á líkan hátt og hér er lagt til, með stofnun fyrirtækis með ríkinu á svipaðan hátt og Landsvirkjun og Laxárvirkjun. Jafnframt lagði ég til, þar sem raunverulega vantaði allar upplýsingar, sem slík ákvörðun hlyti að byggjast á, að sveitarfélögin réðu sér sérfróðan fulltrúa til þess að kanna, hverjar rekstrarhorfur væru fyrir slíkt fyrirtæki. Það er ekki að orðlengja um það, að þeir samþm. mínir snerust strax á móti þessari hugmynd, sérstaklega gerði hv. 1. þm. Austf. það þá þegar á þessum fundi. Það má segja um hv. 5. þm. Austf., að hann sló nokkuð meira úr og í, en hallaðist þó frekar á þá sveifina, að ekki væri ástæða að athuga frekar um þessa leið í málinu. Það varð niðurstaðan þá að fá raforkumálastjóra til fundar við okkur ásamt nokkrum fulltrúum á Austurlandi, og sá fundur er haldinn seinni hluta ágúst. Og það má segja, að niðurstaðan af því hafi verið mjög lítil. Raforkumálastjóri skýrði þetta mál nokkuð, hvernig horfði með þær rannsóknir, sem verið væri að gera á helztu möguleikum til úrbóta í raforkumálunum. Það er vitað, að raforkumálastjóri hefur verið eindregið þeirrar skoðunar, að ríkisvaldið ætti að annast þessi mál, þannig að skoðanir hans og skoðanir hv. 1. þm. og 5. þm. Austf. fóru saman hvað þetta snerti.

Þegar hér var komið málum og eftir að ég kom til þings f haust, þóttist ég sjá, að það væri hætt við því, að þetta mál mundi lenda í allmiklu þófi, og ég tók þess vegna það ráð þá að afla mér sjálfur þeirrar sérfræðilegu aðstoðar, sem ég hafði áður lagt til að sveitarfélögin öfluðu sér, til þess að gera athugun á því, hvort það væri rekstrargrundvöllur fyrir því að setja á stofn slíkt virkjanafyrirtæki á Austurlandi, sem gerði hvort tveggja að yfirtaka þau mannvirki, sem voru til fyrir, sem eru Grímsárvirkjun, dísilstöðvarnar og veitukerfin, og ráðast jafnframt í þær aukningar, sem nauðsynlegar voru í vatnsaflsvirkjun til að koma þessum málum í sæmilegt horf. Ég þarf ekki að fjölyrða mikið um þetta. Ég vænti, að það sé bæði þessum hv. þm. ljóst svo og öllum öðrum, sem hafa athugað þetta frv. mitt, að á þessari athugun byggist flutningur þess. Þeir hafa því miður báðir gengið að mestu fram hjá því að tala um þann grunn, sem þetta frv. byggist á, sem er sú rekstraráætlun, sem frv. fylgir, unnin af þeim Jóhanni Indriðasyni og Ásgeiri Sæmundssyni. Og ég man það vel, og ég get sagt það hér einnig, að ef þessi áætlun hefði sýnt svo slæma útkomu, að það væri vonlaust að reka slíkt fyrirtæki með því raforkuverði, sem nú gildir í landinu, hefði ég ekki treyst mér til að flytja þetta frv. Hins vegar er öllum ljóst, sem þessa grg. athuga, að það er fjarri því, að svo sé, því að eins og ég gat um í minni framsöguræðu, er þegar fyrir 1980 orðinn álitlegur rekstrarafgangur hjá þessu fyrirtæki, byggt á þeim áætlunum og þeirri notkun, þeirri orkuspá, sem lögð er til grundvallar. Tel ég alveg nauðsynlegt, að menn átti sig á þessu.

Ég skal játa, að það hefur komið hér fram og kannske hálfpartinn deilt á mig fyrir það, að ég hafi ekki leitað samstarfs við samþingismenn mína um flutning á þessu frv. fyrir jólin. En ég verð að segja það eins og er, að með þá vitneskju að baki, sem ég hafði fengið í umræðum um þessi mál um afstöðu þeirra til þessarar hugmyndar, taldi ég ekki líkur á, að slíkt samstarfsboð um flutning þessa frv. mundi bera nokkurn árangur. Það er að vísu rétt, að það hafði ekki fram að þessu legið fyrir sú athugun, sem þetta frv. byggist á, en þetta var samt sem áður mitt mat, að ég taldi ekki líklegt, að þeir mundu vilja hverfa til samstarfs um flutning þessa frv., eins og málin stóðu. Hitt var ákveðin skoðun mín, eins og raunar hv. 5. þm. Austf. lagði áherzlu á, að allur dráttur í þessu máli er að verða mjög slæmur. Hann héfur að vísu látið það í ljós, að flutningurinn á þessu frv. kunni að verða til þess að tefja fyrir þessu máli á einhvern hátt. Ég er alveg gagnstæðrar skoðunar. Ég tel alveg hiklaust, að með þeirri undirbúningsvinnu, sem unnin hefur verið og er grunnur þessa frv., og með því að leggja málið fram í þingi hafi verið keyrt fram á við. Það liggur fyrir i nýju og áþreifanlegu ljósi, og það er miklu auðveldara að gera sér grein fyrir málinu eftir flutning þessa frv. en áður. Ég skal ekki fara nánar út í þessi atriði, hvers vegna ég kaus að flytja málið einn, en taldi þó rétt og nauðsynlegt, að þetta kæmi hér fram.

Svo gerist það, eins og hv. samþingismenn mínir hafa vikið að, að það var haldinn stórfundur um þetta mál á Egilsstöðum, ekki um þetta frv. út af fyrir sig, heldur um raforkumálin í heild — stórfundur um raforkumálin í heild á Egilsstöðum í janúarmánuði, og hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, las þá samþykkt, sem þar var gerð og var fyrst og fremst um það að gera kröfu til ríkisins um að virkja Lagarfoss og ráða bót á raforkuskortinum. En vegna þeirra, sem ekki sátu fundinn, vildi ég samt sem áður segja það, að ég þóttist finna, að þessi hugmynd mín ætti þar meiri hljómgrunn en kannske ókunnugir mundu ætla eftir þeim samþykktum, sem þaðan bárust. Mér þykir líka rétt, að það komi fram, að þetta sveitarstjórnasamband á Austurlandi hafði á sínum fyrsta fundi í haust, sem var haldinn á Norðfirði í byrjun október, löngu áður en mitt frv. var komið fram, gert samþykktir um raforkumálin, þar sem það er ekki á nokkurn hátt dregið inn í samþykktina, að það verði aðeins ríkið, sem standi að þessum framkvæmdum. Þar er lögð áherzla aðeins á það, að þessar framkvæmdir þurfi að koma.

Það er alveg rétt hjá hv. 5. þm. Austf., Lúðvík Jósefssyni, að það má segja, að það sé ný stefna i raforkumálunum, að nokkru leyti ný stefna, sem kemur fram í þessu frv., a.m.k. ný stefna á Austurlandi, ekki ný stefna almennt í þjóðfélaginu, vegna þess að það byggist á lögunum um Landsvirkjun og Laxárvirkjun. Hann dró ekki dul á það, hv. þm., að hann væri fylgjandi ríkisrekstri í raforkumálunum, og hann sagði eitthvað á þá leið, að með þessu frv. væri verið að stíga skref til baka, þar sem áður hefði ríkisvaldið yfirtekið sveitarfélagaveitur, sem komnar voru á laggirnar á Austurlandi.

Ég þarf ekki að taka það fram, að ég tel, að með þessu sé verið að stíga skref fram á við. Ég vék aðeins að því áðan, að hv. þm. Lúðvík Jósefsson var að tala um, að þetta mundi verða til þess að tefja fyrir framgangi orkuöflunar á Austurlandi. Ég álít þetta algeran misskilning, og ég vil enn á ný segja það, að fyrst og fremst flutti ég þetta mál, af því að mér fannst vera of mikið þóf í þessum málum og það svífa of mikið í lausu lofti, og það er ekki hægt að bera á móti því, að eins og málið er í þessu frv., er það komið í áþreifanlegt form. Hitt er svo annað mál, hvort allir þeir útreikningar, sem byggja grunninn undir Austurlandsvirkjunina, fá staðizt. Og það mun væntanlega verða við athugun málsins i hv. fjhn. tekið nánar til athugunar, þeir útreikningar settir undir smásjá.

Þeir hafa báðir komið að því, hv. samþingismenn mínir, að það væri mikill halli á rekstri rafmagnsveitnanna á Austurlandi, og eins og kom fram hjá rafmagnsveitustjóra, taldi hann, að hann hefði verið um 16 millj. kr. árið 1965. Mér þykir rétt að leggja áherzlu á, að það var árið 1965 og að sá halli, sem þarna er um að ræða, mun vera yfir svæðið allt, Hornafjörður meðtalinn og Vopnafjörður, sem eru sérstök dísilvélasvæði, en mitt frv. byggir á því, að í fyrstu lotu nái Austurlandsvirkjunin yfir það sem nú er kallað Grímsársvæði. En eins og margoft hefur verið bent á, er rekstur dísilvélanna mjög óhagkvæmur til raforkuframleiðslu, og á þeim svæðum, þar sem raforkan er eingöngu framleidd með dísilorku, má ætla, að hallinn sé meiri, þannig að þetta dæmi lítur allmikið öðruvísi út, ef maður miðar við árið 1966, annars vegar vegna þess, þegar tekið er tillit til þess, að þarna er um stærra svæði að ræða en Austurlandsvirkjuninni er ætlað að ná yfir í upphafi, og á hinn bóginn vegna þess, að það var gerð á árinu veruleg hækkun á sölutaxta rafmagnsveitunnar, og eftir því sem mér er tjáð, nam hún 34%, þannig að miðað við sama rekstrarkostnað á árinu 1966 og á árinu 1965 hefði þessi upphæð lækkað sennilega a.m.k. um helming. En hinu er ekki að neita, að það ber nokkuð í milli um þennan rekstrarhalla samt sem áður, eftir þeim upplýsingum, sem nú hafa komið fram, og eftir því, sem lagt er til grundvallar í þessu frv., sem verður að athugast nánar við meðferð málsins, hvernig liggur í.

Mér skildist á hv. þm., að þetta væru svona hálfgerð Lokaráð til sveitarfélaganna, ef þeim væri att út í stofnun svona fyrirtækis. En ég vil þá enn benda á, að það verður að grundvalla slíka skoðun á þeim útreikningum um afkomu fyrirtækisins, sem hér fylgja, og það er, eins og ég hef áður sagt, í raun og veru allt annað, sem þar kemur í Ijós.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson kom nokkuð að tengingu rafmagnskerfanna í landinu, m.a. samtengingu Austurlands og Norðurlands, sem lengi hefur verið á dagskrá, og hann taldi, að það mundi frekar torvelda framgang þess máls, ef slíkt séreignarfyrirtæki væri sett á stofn á Austurlandi. Ég er honum ekki sammála um þetta, vegna þess að það er séreignarfyrirtæki á Norðurlandi, sem um er að ræða. Það mætti segja það, ef þetta væru ríkisfyrirtæki á báðum stöðum. Ég hefði haldið, að það mundi greiða fyrir lausn á því máli, ef það væru hliðstæðir aðilar, sem stæðu að samningum um slíkt.

Þá var hv. þm. Lúðvík Jósefsson enn fremur með bollaleggingar um, að það mundi ganga erfiðlega að sameina sveitarfélögin á Austurlandi um það, hvernig þau ættu að standa að þessu fyrirtæki. Það er alveg rétt, að þetta er kannske ekki alveg einfalt mál. En ég verð bara að segja það, að ég held, að það væri ákaflega mikils virði og beint þroskandi, það mun almennt vera þroskandi að taka á slíkum viðfangsefnum fyrir sveitarfélög hvar sem er, því að það er sannarlega ekki lítils virði, að minni og stærri heildir í byggðarlögunum temji sér það að geta starfað saman. Ég ætla ekki að vera með neinar hrakspár um það, að þessi hnútur mundi ekki verða leystur. Það er hins vegar alveg rétt, að það er ekki alveg einfalt mál, hvernig frá þeim samningum yrði gengið.

Hann var einnig með bollaleggingar um, að það kynni að koma upp einhver metingur á milli þeirra, sem fjarlægari eru. Þetta er líka hugsanlegt. En ég held, að það sé ákaflega nauðsynlegt að láta þá reyna á það, hvort sá félagsþroski er ekki fyrir hendi, sem þarf að vera til þess að ná fram árangri af þeim félagsanda, sem óhjákvæmilega verður að ríkja t.d. í samtökum eins og sveitarstjórnarsamtökum.

Hv. þm. Lúðvík Jósefsson viðurkenndi, að það væri vinningur að aukinni íhlutun heimamanna í stjórn raforkumálanna. Hann viðurkenndi það, og mér þykir út af fyrir sig vænt um að fá þá viðurkenningu. En það er líka atriði, sem ég veit að fjöldi manna á Austurlandi leggur talsvert mikið upp úr sem kosti við það að stofna slíkt fyrirtæki, sem hér er talað um. Það eru allt of mörg dæmi þess, að ýmis mistök hafi átt sér stað um stjórn raforkumálanna, þegar þeim er stjórnað svona úr fjarlægð. Menn kunna um það mörg dæmi, og það er áreiðanlega í sumum tilfellum eðlilegt, að þau eigi sér stað. En enda þótt það megi sjálfsagt leysa að einhverju leyti þennan vanda um aukna sjálfsstjórn með óbreyttri yfirstjórn, held ég, að það liggi alveg ljóst fyrir, að það verður miklu auðveldara og heppilegra með því, að slíkt fyrirtæki væri staðsett í fjórðungnum.

Hv. þm. nefndi það einnig, að hann taldi það vera rangt frá þjóðhagslegu sjónarmiði að deila þessum fyrirtækjum niður á stjórnsvæði, heildarstjórninni. Ég er honum ekki sammála í þessu efni. Það er að vísu alveg rétt, að það eru takmörk fyrir því, hvað litlar stærðir geta komið til greina t.d. sem raforkufyrirtæki, það eru takmörk fyrir því, hvað litlar þessar stærðir mega vera til þess að sýna sæmilega hagstæða útkomu. En það eru líka takmörk fyrir því, hvað þau mega vera stór, til þess að það fari ekki að vera óhagkvæmt og allt of þungt í vöfum. Og það er með engu móti betur hægt að tryggja hana en með því, að héruðin sjálf fái yfirstjórn þessara mála.

Það mætti sjálfsagt ýmislegt fleira um þetta ræða. Ég hef lagt áherzlu á það í minni framsöguræðu, sem báðir hv. þm. hafa einnig tekið fram og líka er alveg sjálfsagt, og það er það, að sveitarstjórnarsambandið og sveitarfélögin á Austurlandi verða að fá að segja sitt álit á þessu máli, á meðan það er í athugun í n., og ég sagði það á fundinum á Egilsstöðum, að vitanlega væri það með öllu tilgangslaust að samþykkja slíkt frv. hér, ef sveitarfélögin neituðu að gerast aðilar að þessu fyrirtæki. En ég tel ekki, að þau hafi enn sagt sitt síðasta orð. Þetta mál er engan veginn einfalt í skoðun, og ég ber það traust til þeirra forustumanna margra, sem um þetta mál munu væntanlega fjalla, að þeir líti hleypidómalaust á það á allan hátt og meti bæði kosti þess og galla.

Það hefur komið hér greinilega fram og verið tekið fram af okkur öllum, að það er brennandi áhugi á því á Austurlandi, að Lagarfoss verði virkjaður, og það er ekki bara vegna þess, að Lagarfoss er á Austurlandi, heldur fyrst og fremst vegna þess, að þar er um að ræða eitthvert allra hagstæðasta orkuver, sem hægt er að reisa hér á landi, bæði hvað það snertir, að það er ódýrt, ef svo má segja, tiltölulega ódýrt á virkjað afl, virkjað kw., en þó sérstaklega vegna þess öryggis um orkuframleiðslu, sem það mundi búa við gegnum þessa miklu vatnsmiðlun í Leginum. Við erum sem sagt allir sammála um þetta. En ég verð að segja það, að mér finnst það liggja í augum uppi, að það er miklu auðveldara að hafa sterk áhrif á það, á hvern hátt aukinnar raforku er aflað, ef það er gert í krafti heimafyrirtækis. Það er miklu auðveldara að geta haft áhrif á það með því móti, og það er alveg skiljanlegt, það sem hv. þm. Lúðvík Jósefsson lagði hér áherzlu á, að ef reikningsleg útkoma sýnir, að þjóðfélagslega sé hagkvæmara að afla raforkunnar á annan hátt, verði mikil tilhneiging til þess af forsvarsmönnum rafmagnsveitnanna, ef þær bera að öllu leyti ábyrgð á þessu máli. Þetta tel ég meginatriði. Ég tel alveg tvímælalaust, að það sé miklu auðveldara að koma fram þessu sameiginlega áhugamáli Austfirðinga, Lagarfossvirkjun, með því að stofna til þessa fyrirtækis, taka á sig nokkrar byrðar í upphafi, — ég skal ekki draga fjöður yfir það, að það kunni að vera nokkrar byrðar. Þær eru þó ekki hvað stofnkostnað snertir meiri í þessu frv. en svo, að það ætti að leggja fram 5 millj. kr. af heimaaðilum í byrjun. En á hinn bóginn mundi sennilega einnig verða að taka á sig einhvern rekstrarhalla fyrstu árin. En mér þykir rétt að taka það fram, að samkv. þessu frv., sem ég vænti þó að menn hafi veitt athygli, er ekki gert ráð fyrir, að Austurlandsvirkjunin taki að sér rekstur rafmagnsveitnanna á Austurlandi, fyrr en nýtt orkuver, t.d. í Lagarfossi, taki til starfa, sem gjörbreytir þeim rekstrargrundvelli, sem fyrir er þar eystra.

Ég held, að ég hafi tekið fram það helzta, sem mér finnst ástæða til, og ég vil enn leggja áherzlu á það, að þetta mál verði vandlega athugað, og sérstaklega treysti ég á það, að sveitarfélögin á Austurlandi hraði því ekki um of að neita þessu, þau endurskoði þá afstöðu, sem virtist koma fram á fundinum á Egilsstöðum. Þar var að vísu ekki mættur nema allverulegur hluti af forsvarsmönnum sveitarfélaganna á Austurlandi, og það hefur ekki heldur, eins og sú samþykkt bar með sér, sem hv. þm. Eysteinn Jónsson las hér upp og kom frá fundinum, verið beinlínis hafnað þeirri hugmynd, sem er í mínu frv.