13.12.1966
Neðri deild: 27. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 302 í B-deild Alþingistíðinda. (187)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Á fundi í landbn, í dag, þar sem þetta frv. var til meðferðar, hafði ég orð á því að gefnu tilefni, að mér sýndist hæpið, að ákvæði 1. mgr. 3. gr. fengi staðizt, úr því að ætlunin væri að verja 20 millj. af fé framleiðnisjóðs á þann hátt, sem hér hefur verið lýst yfir að mundi verða, og mér sýnist enn, að svo sé, að það sé hæpið. Og ég hef satt að segja gengið út frá því, þó að þessu væri ekki breytt í nefndinni, að það mundi verða athugað, áður en málið kæmi til umr., og það mundi koma brtt. um þetta atriði inn í málið að tilhlutun hæstv. landbrh. Nú hafa orðið nokkrar deilur um þetta mál hér á fundinum, og ætla ég ekki að taka frekar þátt í þeim, en ég vildi aðeins mælast til þess, að menn létu þessar deilur niður falla á þessum fundi og að það gæfist tími til þess að athuga þetta atriði á milli 2. og 3. umr. Ég hef sjálfur samið brtt., sem mér virðist að þarna gæti komið að gagni, en ég mundi óska eftir því á milli umr., að þetta yrði nánar athugað í nefndinni og þá í samráði við hæstv. landbrh. Það sýnist mér réttara heldur en að halda áfram að deila um þetta atriði. En ég fæ ekki betur séð, eins og ég sagði áðan, en það sé mjög hæpið, að ákvæði þessara tveggja greina samrýmist, þó að einhverjir lögfræðingar kunni e.t.v. að hafa í fljótheitum litið svo á, að svo væri. Ég efast um, að þeir hafi athugað samhengið í frv. nógu vel, er þeir hafa gefið út álit um þetta, sem hér var minnzt á áðan. En þó að þetta kunni kannske að orka einhvers tvímælis, er réttara að hafa það í lögum, sem ætlazt er til að framkvæmt verði. Eins og hv. 5. þm. Norðurl. v. minntist á hér áðan, munum við flytja brtt. við 3. umr., og skal ég ekki ræða það nánar nú.