06.03.1967
Neðri deild: 49. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 236 í C-deild Alþingistíðinda. (1876)

104. mál, Stéttarsamband og Kjararannsóknarstofa bænda

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég fara nokkrum orðum um aðdraganda þess, að ég tók að vinna að samningu þessa frv., sem hér er nú til umr.

Haustið 1965 skipaði landbrh. 7 manna n. til að endurskoða lög um framleiðsluráð landbúnaðarins o.fl. Flm. þessa frv. var meðal þeirra, sem til þess voru kvaddir að starfa í þeirri n. Það varð sem kunnugt er niðurstaða meiri hl. í 7 manna n. svokölluðu, að hið svokallaða 6 manna nefndar kerfi skyldi endurvakið á ný, en hins vegar tryggt með nýjum lagaákvæðum, að það gæti ekki orðið óvirkt, en svo hafði einmitt farið á árinu 1965, þegar Alþýðusambandið ákvað að eiga ekki lengur aðild að 6 manna n. kerfinu, og hið sama hafði einnig áður komið fyrir.

Samkv. framansögðu lagði ríkisstj. á seinasta þingi fram frv. til nýrra framleiðsluráðslaga, sem reisa skyldi 6 manna n. upp frá dauðum, þó þannig, að ef bændasamtökin notuðu ekki rétt sinn til að tilnefna menn í n., skyldi landbrh. tilnefna manninn. En ef samtök neytenda, í þessu tilfelli Alþýðusambandið, fengist ekki til að nota tilnefningarrétt sinn, skyldi félmrh. tilnefna mann í 6 manna n. Með þessum ráðherratilnefningum átti að koma í veg fyrir, að kerfið gæti orðið bráðkvatt, eins og það hafði tvívegis áður orðið. Aðrar breytingar stjfrv. frá gildandi l. rýrðu hag bænda heldur en hitt, enda hefur óánægja magnazt með framleiðsluráðsl., svo sem berlega hefur komið fram á mörgum fundum bænda að undanförnu.

Með þessum breytingum og einkum þó ráðherratilnefningunni í n. var orðið miklu augljósara en áður, að 6 manna n. kerfið var ríkisstjórnartæki til verðlagningar á landbúnaðarvörum, eins konar hlífðarsvunta ráðh. til þess að firra hann óvinsældum af ákvörðunum í þessu viðkvæma máli. Ég var því algerlega andvígur í 7 manna n., að 6 manna n. kerfið væri hresst við aftur eða neitt reynt til þess að lappa við það. Ég taldi það þegar hafa gengið sér til húðar og bæri því að skipa verðlagningarmálum landbúnaðarins á nýjan veg, þannig að Stéttarsamband bænda fengi með lögum óskoraðan samningsrétt fyrir hönd bændastéttarinnar gagnvart ríkisvaldinu um afurðaverð landbúnaðarins, launakjör bóndans og önnur hagsmunamál bændastéttarinnar. Taldi ég og tel enn rangt með öllu að slíta verðlagningu landbúnaðarvaranna úr öllum tengslum við aðra þætti hagsmunamála bændastéttarinnar.

Allir í 7 manna n. virtust viðurkenna, að þeim upplýsingagrundvelli, sem 6 manna n. byggði starf sitt á, væri mjög ábótavant. Af því dró ég þá ályktun, að það gæti ekki leitt til annars en mjög tilviljunarkenndrar niðurstöðu, þegar byggja skyldi samningaþóf á allsendis ófullnægjandi upplýsingum og gagnasöfnun. Slíkt kerfi stæði vitanlega á brauðfótum og hlyti að falla, áður en nokkurn varði.

Það, sem mér hafði þó lengi verið ógeðfelldast við 6 manna n. kerfið, var sú forsenda þess, að stéttarsamtök erfiðismanna í bæjum og kauptúnum skyldu vera lögskipaðir samningsaðilar á móti erfiðismannastétt dreifbýlisins, bændunum. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm.: Fyndist þeim það eðlilegt, að verkamenn ættu fulltrúa við samningaborð á móti opinberum starfsmönnum eða hið gagnstæða, að fulltrúum bænda eða opinberra starfsmanna væri með 1. skipað að samningaborði á móti verkamönnum til þess að hafa þar áhrif á launakjör þeirra til lækkunar? Nei, ég treysti svo mikið á sanngirni hv. þm., að ég hygg, að þeir teldu slíkt vera fráleitt með öllu. Og svo mikið er víst, að slíku og þvílíku mundu verkamenn a.m.k. sjálfir vísa á bug sem hreinni fjarstæðu. Auk þess eru þau rök, sem miðstjórn Alþýðusambandsins færði á sínum tíma fyrir því, að það vildi ekki lengur eiga aðild að 6 manna n., jafngóð og gild nú eins og þegar þau voru fyrst fram borin, en efnislega voru rök Alþýðusambandsins fyrir brottför sinni úr 6 manna n. þessi :

Í fyrsta lagi: Stöðug hækkun á verðlagi landbúnaðarvara er að mestu leyti bein afleiðing af verðbólgustefnu stjórnarvalda og þá þróun getur 6 manna nefnd engin áhrif haft á með starfi sínu.

Í öðru lagi: Högum bænda er nú svo komið, að því fer víðs fjarri, að unnt sé á réttlátan hátt að leysa ýmis brýnustu vandamál þeirra, sízt af öllu hinna smærri bænda, með verðlagningu landbúnaðarvaranna einni saman. En 6 manna n. hefur ekkert vald til að fjalla um stefnuna í landbúnaðarmálum í heild.

Í þriðja lagi: Munurinn á verði því, sem bændur fá fyrir framleiðsluvörur sinar, og því verði, sem neytendur verða að greiða, er svo stórkostlegur, að ógerlegt er fyrir fulltrúa neytenda að bera ábyrgð á söluverði landbúnaðarvara, nema rannsakað sé ofan í kjölinn, hvernig þessi verðmunur verður til. Það var því ákveðin krafa Alþýðusambandsins, að ýtarleg og hlutlaus rannsókn yrði látin fara fram á öllum vinnslu-, sölu og dreifingarkostnaði landbúnaðarvara og það sérstaklega kannað, hve mikill hluti hans stafaði af fjárfestingarframkvæmdum milliliða og hvað af beinum og óhjákvæmilegum sölu- og dreifingarkostnaði við landbúnaðarvörur. En einhvern veginn hefur það verið svo, að slík rannsókn befur ekki fengizt.

Fjórða röksemd Alþýðusambandsins var þessi: Undir 6 manna n. kerfinu er því alls ekki til að dreifa, að framleiðendur eða neytendur hafi úrslitaáhrif á verðákvörðun landbúnaðarvara. Í þeim efnum ræður ríkisvaldið öllum úrslitum. Í verðlagsmálunum á því ríkisvaldið eðli málsins samkv. að bera fulla ábyrgð gagnvart bændastéttinni.

Miðstjórn Alþýðusambandsins vildi með framangreindum rökum gera það ljóst, að hún teldi hvorki rétt né eðlilegt, að Alþýðusambandið héldi áfram aðild að hinu margnefnda sex manna n. kerfi. Persónulega vil ég bæta því við, að mér finnst 6 manna n. kerfið byggt á nokkurri hugsanavillu. Bændunum er skipað annars vegar, verkalýðssamtökunum hins vegar sem umboðsaðila andstæðra hagsmuna. Þetta tel ég rangt með öllu, því að hagsmunir bænda og verkamanna eiga í flestu samleið. Hið rétta er, að annars vegar er framleiðslustéttin, bændurnir, og hins vegar þjóðin öll sem neytendur, og fyrir hana er enginn aðili sjálfsagðari né eðlilegri en ríkisstj. á hverjum tíma. Tel ég það sízt mæla gegn ríkisstj. sem samningsaðila gagnvart bændum, þótt henni sé jafnframt skylt að gæta hagsmuna framleiðslustéttanna. Ég minni líka á það, að ríkisstj. er samningsaðili gagnvart opinberum starfsmönnum og hefur sjálf mótað það fyrirkomulag með löggjöf. Hví þá ekki beina samningsaðild ríkisstj. gagnvart bændastéttinni með sama hætti? Mér þætti fróðlegt að heyra rökin fyrir því fyrrnefnda og á móti því síðarnefnda. En hvað um það, í þessu frv. er lagt til, að verðlagsmálum landbúnaðarins sé skipað með beinum samningum milli Stéttarsambands bænda og ríkisvaldsins, og þykist ég þar vera á troðnum slóðum, sem ríkisstj. hljóti að kannast við.

Nú skal ég þessu næst leitast við að skýra efni sjálfs frv., en í því eru ýmis nýmæli.

Í 1. gr. frv. er ákveðið, að Stéttarsamband bænda fari að lögum með fyrirsvar bænda um verðlagsákvörðun landbúnaðarvara, samninga varðandi þau mál gagnvart ríkisvaldinu, svo og um önnur kjara- og hagsmunamál bændastéttarinnar. Á sama hátt er ákveðið í gr., að landbrh. skuli fara með fyrirsvar ríkisins varðandi samninga um verðákvarðanir á framleiðsluvörum bænda og um önnur kjara- og hagsmunamál þeirra. Þetta hlutverk getur ráðh. samkv. gr. falið sérstakri n. og sé hún þá jafnfjölmenn og sú n., er Stéttarsambandið kynni að fela samningsumboð af sinni hendi.

Hingað til hefur það þótt sjálfsagt, að allir þættir landbúnaðarmála heyrðu undir landbrh. En með þeirri verkaskiptingu stjórnvalda, sem nú er talin sjálfsögð og nauðsynleg, eins og á flestum öðrum sviðum þjóðlífsins, verður mjög að draga í efa, að slíkt fyrirkomulag sé hið heppilegasta. Í þessu frv. er lagt til, að gerð sé framleiðsluáætlun fyrir landbúnaðinn, og skal hún að sjálfsögðu heyra undir landbrh. Einnig skal útflutningsráð landbúnaðarins heyra undir hann. Hins vegar skal kjararannsóknarstofnun bænda heyra undir þann ráðh., sem Efnahagsstofnunin og hliðstæðar stofnanir heyra undir. Eðlilegast þykir, að rannsóknar- og eftirlitsnefnd með vörudreifingu landbúnaðarins og dreifingarkostnaði á landbúnaðarvörum heyri undir þann ráðh., sem fer með verðlagsmál á hverjum tíma. Á sama hátt þykir eðlilegt, að ákvarðanir um útflutningsbætur á landbúnaðarvörum og niðurgreiðslu þeirra á innlendum markaði heyri undir fjmrh. Þá er í frv. ákvæði um, að ákvarðanir um innflutning á landbúnaðarvörum skuli heyra undir þann ráðh., sem með verðlags- og viðskiptamál fer á hverjum tíma. Það er skoðun mín, að þetta geti tæpast talið óeðlileg verkaskipting.

Næstu 5 gr. frv. fjalla um stéttarleg skipulagsmál bændastéttarinnar. Það getur tæpast óeðlilegt talizt, að svo sem stéttasamtökum verkamanna er stakkur skorinn, réttindi og skyldur lögfestar, en svo er gert með l. um stéttarfélög og vinnudeilur, sé réttargrundvöllur hliðstæðra samtaka bændastéttarinnar einnig ákveðinn í l. Ég veit ekki, hvort menn hafa hugsað út í það, að Stéttarsamband bænda er alls ekki félagsleg yfirbygging á landsmælikvarða yfir stéttarfélög bænda. Slík félög eru nefnilega engin til. Það er ekkert stéttarfélag bænda til. Ætli mönnum þætti ekki Alþýðusambandið vera nokkuð sérkennilegt stéttarsamband á landsmælikvarða, ef ekkert verkalýðsfélag væri til?

Samkv. 3. gr. frv. eiga bændur rétt á að stofna stéttarfélög í þeim tilgangi að vinna að sameiginlegum hagsmunamálum bændastéttarinnar. Þetta er hliðstætt réttarákvæði við rétt verkafólks samkv. ákvæðum vinnulöggjafarinnar. Samkv. þessari gr. er hver sá talinn bóndi, sem er ábúandi á lögbýli og hefur að meiri hl. framfæri sitt af landbúnaði. Þetta kann að þykja óþarft að taka fram, en svo er þó ekki. Fram til þessa hefur skilgreining á hugtakinu bóndi verið mjög á reiki og menn alls ekki á eitt sáttir nm það, hverja skuli telja til bændastéttarinnar. Í því efni eru álitamálin mörg og margvísleg. Á að telja hinn fjölmenna hóp kauptúna- og kaupstaðabúa, sem búfjárrækt stunda í smærri eða stærri stíl, til bænda eða ekki? Á að telja garðyrkjumenn, sem framleiða mikið magn grænmetis og garðávaxta, til bænda? Ekki væri það óeðlilegt í ýmsum tilfellum. Á að telja þá, sem alifuglarækt reka, bændur eða ekki o.s.frv.? Þannig eru vafaatriðin fjöldamörg, enda ber framámönnum landbúnaðarsamtakanna sjaldan saman um það, hver sé tala bænda i landinu. Niðurstaðan veltur á því, hvernig hugtakið „bóndi“ er skilgreint.

Í frv. þessu er sýslumönnum og bæjarfógetum ætlað að semja skýrslur um fjölda bænda í umdæmum sínum. Úr ágreiningsatriðum í þessu efni skera stéttarsamtök bænda. Sérhvert stéttarfélag bænda skal vera opið öllum bændum á félagssvæðinu, og er það hliðstætt ákvæðum l. um stéttarfélög og vinnudeilur gagnvart verkalýðsfélögunum.

5. gr. er um félagssvæði stéttarfélaga bænda, en 6. gr. um kosningu fulltrúa á þing Stéttarsambands bænda, sem hafa skal æðsta vald í félagsmálum stéttarinnar. Nú eru fulltrúar á þing Stéttarsambands bænda kosnir af kjörmannafundum eða búnaðarsamböndum, sem eru þó einingar í allt öðru félagakerfi, sem aðallega fjallar um ræktunarmál, nefnilega í Búnaðarfélagi Íslands.

Í 7.—13.gr. frv. er fjallað um kjararannsóknarstofnun bænda. Henni er ætlað að taka við yfirstjórn búreikningaskrifstofunnar, en aðalhlutverk kjararannsóknarstofnunar bænda á að vera að rannsaka kjör bænda, aðstöðu þeirra og aðbúnað, vinnutíma þeirra og skylduliðs þeirra, einnig vinnutíma aðkeypts vinnuafls, raunverulegan framleiðslukostnað landbúnaðarvara og allt, sem varðar verðlagningu framleiðsluvara bændanna og stuðlað gæti að réttlátri og sanngjarnri verðlagsákvörðun þeirra. Kjararannsóknarstofnun bænda skal vera sjálfstæð og hlutlaus ríkisstofnun, vera eins konar alhliða hagstofnun landbúnaðarins. Hún skal því eiga greiðan aðgang að öllum þeim skýrslum hagstofunnar og Efnahagsstofnunarinnar, sem landbúnaðinn varða. Skylt skal einstaklingum og fyrirtækjum að láta kjararannsóknarstofnun bænda í té allar þær upplýsingar, sem hún krefst og nauðsynlegar eru vegna starfs hennar. Árlega skal hún birta skýrslur um störf sín, einkum varðandi allt það, sem orðið gæti bændum til leiðbeiningar um aukna hagkvæmni og framleiðni á sviði landbúnaðarframleiðslunnar.

Eins og ég hef áður vikið að, hefur einn veikasti hlekkurinn í 6 manna n. kerfinu verið sá, að upplýsingagrundvöllinn hefur að mestu vantað. Úr þessu er kjararannsóknarstofnun bænda ætlað að bæta, svo að samningar geti verið byggðir á traustari grunni og leitt til skynsamlegri niðurstöðu. Helzt af öllu ætti verðlagsákvörðun landbúnaðarvara að vera að langmestu leyti niðurstaða úr reikningsdæmi, en alls engin ágizkun eða slumpreikningur, eins og verið hefur.

Auk þess, sem nú hefur verið sagt, er kjararannsóknarstofnun samkv. frv. ætlað að safna upplýsingum um ástand allra byggðra býla í landinu, um ræktunarmöguleika þeirra, aðstöðu til samgangna, aðstöðu til að fá rafmagn, síma o.s.frv. Þá er henni einnig ætlað að rannsaka, hvaða bústærð sé hagkvæmust í hverri búgrein og hvort sérhæfing búskapar sé æskileg á vissum landbúnaðarsvæðum, einnig hvað gera megi til þess að auka hagkvæmni í búrekstri. Nú kemur í ljós við rannsókn, að einstakar jarðir, sem í ábúð eru, hafa ekki framtíðarskilyrði til hagkvæms búrekstrar, og getur kjararannsóknarstofnun bænda þá hlutazt til um, að búrekstri á slíkum jörðum verði hætt, en gera skal eigendur eða ábúendur slíkra jarða skaðlausa af þeim ráðstöfunum og þeir studdir til búskapar við hagkvæmari skilyrði, ef þeir óska þess. Þetta ákvæði er í 11. gr. frv. og er samhljóða ákvæði, sem var í frv. því, sem ég flutti á seinasta þingi. Nú sé ég, mér til mikillar ánægju, að hæstv. ríkisstj. hefur tekið þessa hugmynd upp og flutt hana í frv: formi á þessu þingi, og er það frv. nú hér á dagskrá í dag. Samkv. stjfrv. um jarðeignakaupasjóð ríkisins er sjóði þessum heimilt að kaupa jörð, sem ekki selst með eðlilegum hætti, ef eigandi hennar verður að hætta búskap vegna aldurs eða vanheilsu. Sjóðnum er líka heimilt að kaupa jörð, sem hefur óhagstæð búskaparskilyrði, og hið sama jörð, sem er afskekkt og liggur illa við samgöngum. Þá er jarðeignakaupasjóði samkv. stjfrv. heimilt að veita bónda, sem verður að yfirgefa slíka jörð, sem að ofan greinir, en vill þó halda áfram búskap, lán til kaupa á jörð með góð búskaparskilyrði með tilliti til landgæða, samgangna og annarra skilyrða. Eins og menn sjá er hugsunin nákvæmlega hin sama í stjfrv. og í mínu frv. Þannig hefði hæstv. stjórn helzt átt að taka allt mitt frv. upp á sína arma, ekki bara þetta eina atriði, og gera málið þannig að sínu máli og tryggja því framgang. Við það hefði ég vel getað unað. En það hefur hún því miður ekki kunnað við, og er þó betra en ekki, að hún sjái hið rétta í þessu eina atriði.

Þá er komið að þýðingarmiklum kafla frv., en hann fjallar um rannsóknar- og eftirlitsnefnd með dreifingarkerfi og dreifingarkostnaði landbúnaðarvara. Þessi þáttur málsins er að mínu áliti jafnþýðingarmikill fyrir bændur sem neytendur. Raunar skiptir það þjóðina alla miklu máli, að öllum dreifingar- og sölukostnaði landbúnaðarvara sé stillt í hóf. Nú fer öll þessi víðtæka viðskiptastarfsemi fram án samkeppni og einnig án eftirlits, og það er of losaralegt, að ekki sé meira sagt. Það er einmitt á þessu sviði, sem ég tel sjálfsagt að launþegasamtök og bændur eigi náið samstarf, en alls ekki um sjálf launamál bændastéttarinnar, eins og 6 manna n. kerfið ætlast til og byggist á. Um þetta er fjallað í 13. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir skipun 7 manna n. Hún skal hafa nána samvinnu við kjararannsóknarstofnunina og rannsaka og hafa eftirlit með öllu dreifingarkerfi og öllum dreifingarkostnaði landbúnaðarvara. Samkv. frv. skal þessi n. skipuð einum fulltrúa frá hverju eftirtalinna samtaka: Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, og svo þremur mönnum tilnefndum af Stéttarsambandi bænda. Þarna eru þrír frá hvorum, framleiðendum og neytendum, og sjöundi maðurinn, tel ég eðlilegt, að verði forstöðumaður kjararannsóknarstofnunar bænda, og eðlilegt, að hann gegni formennsku í nefndinni. Þessi n. á að hafa það hlutverk að hafa eftirlit með því, að vinnsla og dreifing og sala landbúnaðarvara sé sem hagkvæmust og ódýrust, þannig að milliliðakostnaður alls konar, sem leggst á landbúnaðarvöru, frá því að framleiðendur skila henni af hendi og þar til hún kemst í hendur neytenda, sé sem allra lægstur. Kjararannsóknarstofnun bændanna og rannsóknar- og eftirlitsnefnd dreifingarkerfisins eiga að láta samninganefndum ríkisstj. og Stéttarsambands bænda í té allar skýrslur, athuganir sínar og ábendingar, sem gætu leitt á einhvern hátt til réttlátrar verðákvörðunar á landbúnaðarvörum.

Um hvað á svo að semja? Samningarnir um verðlagningu landbúnaðarvara og önnur kjara og hagsmunamál bændastéttarinnar eiga að hef jast árlega upp úr miðjum júní. Að því skal stefnt að ná heildarsamkomulagi um landbúnaðarmál, m.a. um eftirtalin atriði: Í fyrsta lagi um verðlagningu landbúnaðarvara og breytingar verðs í samræmi við aðrar verðlagsbreytingar, sem orðið kunna að hafa á samningstímabilinu. Í öðru lagi ráðstafanir til þess að auka hagkvæmni og framleiðni í samræmi við þarfir hins innlenda markaðar. Í þriðja lagi ráðstafanir til aukinnar neyzlu innanlands, t.d. með lækkuðum dreifingarkostnaði, auknum vörugæðum og hagkvæmri dreifingu. Í fjórða lagi skulu samningarnir snúast um reglur um innflutning vissra landbúnaðarvara, m.a. til samanburðar við verð og gæði innlendrar framleiðslu. Og í fimmta lagi um opinbera aðstoð og styrkveitingar, svo og hagkvæmar lánveitingar til landbúnaðar, þó sé þess alveg sérstaklega gætt, að opinber aðstoð til landbúnaðarins verði ekki til þess að auka umframframleiðslu, sem síðar verði að styrkja með útflutningsbótum.

Hvað gerist nú, ef ekki nást samningar? Jú, náist ekki samningar um verðlagningu landbúnaðarins, skal ágreiningurinn fara til sáttasemjara ríkisins og sæta þar meðferð samkv. ákvæðum 1. um stéttarfélög og vinnudellur, eftir því sem við getur átt. Strandi sáttaumleitanir sáttasemjara, gerir frv. ráð fyrir, að forsrh. geti skipað sáttanefnd, og beri starf hennar ekki heldur árangur, skal bændum heimilt að ákveða sölustöðvun á landbúnaðarvörum, að uppfylltum þeim skilyrðum og takmörkunum, sem sett eru stéttarfélögum verkamanna um verkföll í þeim tilgangi að vinna að framgangi krafna í vinnudeilum til verndar rétti sínum. Svo gagngerar sáttatilraunir sem hér er gert ráð fyrir, eftir að samningar hafa strandað, eiga að tryggja það, að bændur grípi alls ekki til sölustöðvunar nema í ýtrustu neyð, tæpast nema þeim sé sýnd svo mikil óbilgirni, að traðkað sé eiginlega á rétti þeirra. En þá virðist mér líka sjálfsagt, að bændur njóti sömu mannréttinda og aðrar stéttir með frjálsum samningum, óskoruðum samningum um lífskjör sin. Allar sáttatill. skulu að sjálfsögðu leggjast fyrir samtök bænda, fyrir stéttarfélög bænda til samþykktar eða synjunar, á sama hátt auðvitað eins og slíkar till. ganga undir atkvæði í stéttarfélögum verkamanna.

Í 17. gr. frv. er svo ákvæði um, að kjararannsóknarstofnun bænda skuli árlega gera framleiðsluáætlun fyrir landbúnaðinn á komandi verðlagsári og einnig fyrir lengri tíma, ef unnt þætti. Það virðist vera fyrirhyggjulítið í atvinnugrein eins og landbúnaðinum að reyna ekkert til þess að gera slíkar áætlanir, svo að menn standi ekki frammi fyrir orðnum hlut um offramleiðslu eftir á.

Tilgangurinn með þessum áætlunum er auðvitað sá að reyna að beina þróun landbúnaðarframleiðslunnar inn á þær brautir, sem bezt fullnægi neyzluþörfum þjóðarinnar á hverjum tíma.

Útflutningsráði landbúnaðarins, en um það er rætt í 18. gr. frv., er ætlað það hlutverk að vinna að öflun markaða erlendis fyrir íslenzkar landbúnaðarvörur á viðunandi verði. Tel ég, að þar sé um að ræða þýðingarmikið svið, sem mjög hafi verið vanrækt að sinna, heldur hafi eiginlega þau málefni verið látin þróast án nokkurra aðgerða frá opinberri hálfu eða frá hendi stéttarsamtaka bændanna. Náist ekki sama verð til bænda fyrir nautgripa- og sauðfjárafurðir á erlendum markaði og framleiðendur fá fyrir þær greitt innanlands, má að hámarki greiða 10% af heildarverðmæti þessara afurða viðkomandi verðlagsár sem útflutningsbætur. En á hverja sérgreinda vörutegund mega þær bætur aldrei vera hærri en 100% miðað við innanlandsverð til framleiðenda. Enn er í frv. gert ráð fyrir því, að hámark útflutningsbóta úr ríkissjóði skuli lækka um a.m.k. 10 millj. kr. á ári næstu 5 árin. En heimilt er að verja úr ríkissjóði allt að 10% af upphæð áætlaðra útflutningsbóta til markaðsöflunar erlendis, einkum vegna þeirra landbúnaðarvara, sem útflutningsbóta njóta samkv. þessum 1. Þá er að lokum kveðið svo á í frv., að mismuninum á lækkandi útflutningsbótum samkv. þessu frv. og þeirri upphæð, sem greiða beri samkv. núgildandi l., skuli varið til þess að jafna og bæta aðstöðu bænda til hagkvæmari búrekstrar og aukinnar hagkvæmni í landbúnaðarframleiðslu, þannig að bændur missi einskis í, sem varðar fjárframlög úr ríkissjóði til landbúnaðarins, frá því, sem nú er ákveðið í lögum.

Þá hef ég lýst í eins stuttu máli og mér er unnt því kerfi, sem ég ætlast til, að komi í staðinn fyrir 6 manna n. kerfið, leysi það af hólmi og sinni þó miklu fleiri sviðum landbúnaðarmála en það kerfi gerir. Að sjálfsögðu er gert ráð fyrir, verði þetta frv. að l., að þá falli öll ákvæði framleiðsluráðslaganna og annarra laga, sem kynnu að brjóta í bága við þessi lög, úr gildi.

Þó að það sé rétt, að þessu frv. sé fyrst og fremst ætlað að leysa 6 manna n. kerfið af hólmi og veita bændunum fullan samningsrétt gagnvart ríkisvaldinu, og má vel segja, að það sé meginefni þess, þá er þó þetta frv. miklu viðtækara. Það fjallar um stéttarlega skipun og hagsmunamál bændastéttarinnar. Það fjallar um framleiðslumál landbúnaðarins, verðlagningu landbúnaðarvara, útflutnings- og markaðsmál landbúnaðarvara og lætur þannig fæst vandamál bænda, önnur en þau, sem beint heyra undir ræktunarmálin og þá málaflokka, sem yfirleitt heyra undir Búnaðarfélag Íslands og félagakerfi þess, til sín taka. Þetta hef ég gert vegna þess, að ég tel það rangt, eins og ég sagði í upphafi míns máls, að taka verðlagsmálin ein út úr,, slíta þau úr öllu lífrænu sambandi við önnur vandamál landbúnaðarins, eins og gert hefur verið með 6 manna n. kerfinu.

Herra forseti. Ég vænti þess, að þetta frv., sem vissulega hefur vakið verðskuldaða athygli meðal bændástéttarinnar, fái góða og vandaða athugun f n. og góða afgreiðslu á þessu þingi. Ég legg svo til, að því verði að umr. lokinni vísað til 2.. umr. og hv. landbn.