07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 253 í C-deild Alþingistíðinda. (1880)

104. mál, Stéttarsamband og Kjararannsóknarstofa bænda

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Þegar ég lauk framsöguræðu minni í gær fyrir þessu frv., kvaddi sér hljóðs hv. 3. þm. Norðurl. e. og ræddi nokkuð málið. Hann gerði ekki veigamiklar athugasemdir við þetta frv., heldur virtist mér sem hann væri því samþykkur í allmörgum meginatriðum. Hann tók þó fram, að hann hefði ekki kynnt sér frv. sem skyldi, hvorki í fyrra né núna, en þó var sýnilegt, að hann hafði athugað málið nokkuð.

Hann sagði, að ég teldi það hlálegt, að verkamenn skyldu sitja við samningaborð gagnvart bændum og hafa það hlutverk að eiga þar að standa á móti kröfum bænda og vinna þar með að því að rýra þeirra kjör, en reyndi að skýra þetta, sagði, að þetta væri vegna þess, að í lögum væri ákvæði um, að bóndinn ætti að bera svipaðar tekjur úr býtum og aðrar vinnandi stéttir. Rétt er það, að þetta er í lögum. En þetta ákvarði finnst mér engan veginn eiga að skipa verkamönnum í andstæðingaraðir bænda um þeirra lífskjör. Til þess að ganga úr skugga um, að bóndinn beri þetta úr býtum, á auðvitað að byggja á opinberum skýrslum og engu öðru, og það þarf ekkert að setja verkamanninn hinum megin við samningaborð á móti bóndanum til þess að fullnægja þessu lagaákvæði. Þarna er bezt að láta opinberar skýrslur tala og byggja á þeim, og það gæti ríkisvaldið svo sannarlega gert, ef það væri samningsaðili við bændastéttina um hennar kjör. Þetta réttlætir því á engan hátt það að byggja upp 6 manna n. kerfið á þann hátt, að verkamannasamtökin skuli vera samningsaðili á móti bændum, sem er mér ógeðfellt, eins og ég hef rökstutt margsinnis. Það er jafneðlilegt og að fulltrúar frá opinberum starfsmönnum væru settir við samningaborð á móti verkamönnum til að knýja þeirra laun niður eða að verkamenn væru settir við samningaborð á móti opinberum starfsmönnum til þess að þjóna ríkisvaldinu í því að þoka þeirra launakjörum niður á við, og allt þetta væri af því illa og jafnfáránlegt frá mínu sjónarmiði.

Ein var sú athugasemd, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði við frv., og það var, að í upphafi þess eru ekki öll málefni landbúnaðarins látin heyra undir landbrh., heldur viðskiptalegu þættirnir látnir heyra undir viðskmrh., söluþáttur afurðanna látinn heyra undir viðskmrh., og vissir þættir, sem eru beint fjármálalegs eðlis, heyra undir fjmrh. Þetta tel ég vera eðlilega skiptingu, sem sjálfsagt sé, að landbúnaðurinn gangi undir, alveg eins og aðrar greinar þjóðarbúskaparins. Ég tel alveg úrelt fyrirkomulag, að allir þessir þættir varðandi landbúnaðinn heyri undir landbrh., og er það þó ekkert meginatriði fyrir mér, en þetta taldi ég réttara, og því setti ég það þannig upp í frv.

Þá er það ein meginathugasemd, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. gerði við frv. Það var þetta, að því væri haldið fram, að Stéttarsamband bænda væri þannig uppbyggt landssamband, að þar væru engin stéttarfélög bænda til. Þannig er það. Það eru engin stéttarfélög bænda til. Hreppabúnaðarfélögin eru vissulega til, eins og hv. þm. vék að, en þau eru bara undirstöðufélagseiningar í allt öðru félagakerfi bændastéttarinnar, í Búnaðarfélagi Íslands. Búnaðarfélag Íslands er byggt upp yfir hreppabúnaðarfélögin og búnaðarsamböndin og það félagakerfi, sem fyrst og fremst hefur með höndum ræktunarmál bændastéttarinnar. Af hverju var Stéttarsamband bænda stofnað við hliðina á Búnaðarfélagi Íslands? Af því að Búnaðarfélag Íslands skipulagslega og faglega rækti ekki launamál bændastéttarinnar, og þess vegna töldu þeir nauðsynlegt að stofna Stéttarsamband bænda. En það voru aldrei stofnuð nein stéttarfélög bænda, þá undirbyggingu vantar alveg. Þess vegna er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að bændastéttin eigi rétt á því að stofna stéttarfélög í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum bændastéttarinnar. Þetta er orðalag hliðstætt því, sem er í lögum gagnvart verkalýðsstéttinni, að verkalýðsstéttinni er heimilt að stofna stéttarfélög í þeim tilgangi að vinna sameiginlega að hagsmunamálum verkalýðsstéttarinnar.

Hv. síðasti ræðumaður, 2. þm. Sunnl., hélt, að samtök bændastéttarinnar mundu molna niður og verða ákaflega losaraleg, ef það væri aðeins heimilt að ganga í stéttarfélög, stéttarfélög bændastéttarinnar, og það væri ekki skylt. Vitanlega er félagafrelsi í landinu. Ég efast um, að það samræmist ákvæðum stjórnarskrár að skipa mönnum með lagaboði í félög. Það verður að vera þeirra réttur að fara í félög. Þannig er það með öll verkalýðsfélög, að það er ekki lögbundið. Verkamaðurinn er ekki skyldugur að lögum að vera í verkalýðsfélagi, en hann á rétt á því að taka þátt í því að stofna verkalýðsfélag, og það er lögbundið, að stéttarfélagið skal vera opið fyrir hvern þann í stéttinni, sem sækir um inngöngu í það. Og alveg hliðstætt ákvæði því er í þessu frv. Stéttarfélög bænda skulu vera opin öllum í bændastéttinni, en úrskurð um það, hver sé bóndi, skulu samtök bændanna eiga og enginn annar. Ég held, að það sé að sjá draug í hverju horni að halda, að þessi ákvæði um félagslega skipulagningu bændastéttarinnar séu þannig úr garði gerð í þessu frv., að það þröngvi þeirra kosti. Þar væru bændurnir alveg settir á bekk með verkamönnum, hefðu sams konar rétt og sams konar skyldur til þess að byggja upp sin félagssamtök, og það tel ég eðlilegt. Þegar ég samdi frv., fannst mér þetta vera nauðsynleg forsenda fyrir því, að hægt væri að fara þá leið, sem margir bændur hafa talið æskilegt að farin yrði, þegar samningar strönduðu, hvort sem það væri í gegnum 6 manna n. kerfið eða við ríkisstj., hvað ætti að gera, þegar samningar strönduðu. Þá hafa sumir sagt: Það á að fara til sáttasemjara, og þannig er það í lögum nú. En til þess að hægt sé að setja till. sáttasemjara undir atkv., verður bændastéttin að vera skipulögð í stéttarfélögum. Atkvgr. verður að fara þar fram, alveg eins og hjá verkamönnum. Þegar sáttasemjari hefur látið frá sér fara sáttatillögur, verða þær að fara til atkvgr. í stéttarfélögum viðkomandi stétta. Og þá dugir ekki að hafa það eins losaralegt og nú er, að atkvgr. fari fram bara í búnaðarfélögunum, sem fjalla um allt önnur mál og hafa ekki launamál bændastéttarinnar á sinni stefnuskrá. Nei, það er engan veginn hugsað svo, að það sé verið að svipta bændastéttina neinum rétti eða gera tilraun til að mylja niður samtök þeirra á nokkurn hátt með ákvæðunum um það, að stéttarfélagakerfi bænda skuli byggt upp með svipuðum hætti og stéttarfélagakerfi verkamanna, til þess að koma þar við með sama hætti og eftir sömu aðferðum sáttatill. um verðlagningu þeirra afurða og þar með þeirra kjör.

Ég held, að það hafi leitt margt gott af því, að bændur létu sér ekki nægja Búnaðarfélag Íslands, heldur stofnuðu sitt stéttarsamband til þess að fást við stéttarmálin og fjalla um þau. En ég held, að þeir séu ekki búnir að byggja upp það félagakerfi, ég held, að þá vanti stéttarfélögin enn sem undirstöðu undir Stéttarsambandinu og þeir séu þannig aðeins hálfnaðir með sitt verk. Það má vel vera, að bændur séu ekki búnir að koma auga á þetta enn, en ég er alveg sannfærður um það, að augu þeirra eiga eftir að opnast fyrir því, að til þess að Stéttarsambandið sé í lífrænu sambandi við bændurna sjálfa og starf þess í launamálum bændastéttarinnar geti borið fullan árangur, þurfa þeir að hafa sin eigin stéttarfélög neðan frá sem undirstöðu undir Stéttarsambandinu. Ég sagði í framsöguræðu minni í gær, að ég byggist við, að menn teldu það furðulegt Alþýðusamband Íslands, ef ekkert verkalýðsfélag væri til í landinu. Ég held, að það þætti furðufiskur.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. viðurkenndi undir lok ræðu sinnar í gær, að það væru mjög skiptar skoðanir meðal bænda um þetta fyrirkomulag, 6 manna n. fyrirkomulagið, og margir bændur hefðu látið það í ljós, að þeir vildu heldur samningsaðild við ríkisvaldið beint, krókalaust. Og þetta er rétt, því að innan Stéttarsambands bænda hafa þessar skoðanir stangazt á og nálega skipzt til helminga. Þeir, hafa verið nálega jafnmargir, sem hafa verið þeirrar skoðunar, að 6 manna n. kerfið væri úrelt, búið að ganga sér til húðar, eins og ég og margir aðrir hafa orðað það, og að heppilegra væri, að bændur hefðu sína samninganefnd, sem ætti beina samningsaðild við ríkisvaldið, sem hefur alla hagsmunaþræði þessarar stéttar sem og annarra í sinni hendi og gæti þess. vegna tekið til samninga við bændastéttina, ekki bara verðlagsmál stéttarinnar, verðlagsmál afurðanna, heldur hvert annað hagsmunamál bændastéttarinnar, sem samningsaðilum kæmi saman um að ræðast við um og semja um, og það væri miklu viturlegra, því að það er oft og tíðum hægt að gera ýmislegt til hagsbóta einni stétt á fleiri sviðum en bara að því er snertir launamál hennar í krónum og aurum. En stakkur 6 manna n. er næsta þröngt skorinn, og þar er ekki mikið svigrúm til að ræða um annað en þessi ákveðnu verðlagningarmál eftir föstum reglum. Ég er sömu skoðunar og þeir bændur, sem innan stéttarsamtaka bænda hafa haldið því fram, að 6 manna n. kerfið eigi að leggjast niður og annað kerfi eigi að taka upp eða a.m.k. reyna, og þá er ekki annað nærtækara en bein samningsaðild við ríkisvaldið, eins og gert er í flestum okkar nágrannalöndum.

Ég hef með því, sem ég nú hef sagt, svarað hv. 2. þm. Sunnl. varðandi það fyrsta atriði, sem hann vék að í ræðu sinni áðan, þegar hann sagði, að grundvöllur Stéttarsambandsins væri rifinn niður, ef bændur gætu verið utan við stéttarfélögin, sem stofnuð yrðu. Því hef ég svarað. Ég tel, að það mundi tæpast standast fyrir stjórnarskránni, ef sagt væri í lögum, að bændur skyldu vera í stéttarfélögunum. Þeim á einungis að standa það opið, og það skal vera skylt, að félögin standi opin sérhverjum bónda. Annað held ég, að samrýmist ekki félagafrelsinu í landinu. Og ég óttast það ekki, að neitt los kæmi á samtök bændastéttarinnar fyrir það, þó að í lögum væri þeim einungis heimilaður réttur til þátttöku í félögunum, en það væri ekki á þeim félagsskylda. Ég er alveg viss um, að þeir mundu rækja þau réttindi og ganga í þessi félög til þess að undirbyggja sitt stéttarsamband og gefa því þrótt og líf frá fólkinu sjálfu.

Hv. ræðumaður talaði um, að bændasamtökin gætu klofnað, ef þetta ráð yrði tekið upp. Ég held, að það sé alveg fráleitt. Hins vegar liggur við, að samtök bændanna séu nú klofin niður í rót um það, hvort 6 manna n. kerfið skuli gilda og á því byggja hagsmunabaráttu þeirra eða taka upp frjálsan samningsrétt við ríkisvaldið. Það hafa gengið svo hátt öldurnar þar á stundum,að það hefur legið við, að Stéttarsambandið klofnaði á þessu atriði.

Ég fæ vart skilið, hvers vegna hv. 2. þm. Sunnl. var svo andvígur kjararannsóknarstofnun bænda. Það er rétt, að ýmislegt, sem nauðsynlegt er að upplýsa vegna þjóðfélagshagsmuna, er hægt að fá vitneskju um hingað og þangað, en ég held, að það væri stórkostlegur ávinningur fyrir bændastéttina, ef stofnun eins og kjararannsóknarstofnun bænda, með því hlutverki, sem henni er ætlað í þessu frv., væri til, því að hún er hugsuð sem eins konar hagstofnun bændastéttarinnar. Slík hagstofnun er ekki til. Við kynntumst því allrækilega í hinni svokölluðu 7 manna n., og það var viðurkennt af öllum í 7 manna n., að allur upplýsingagrundvöllur varðandi landbúnaðinn væri mjög í molum og þar væri varla hægt að fá hinar bráðnauðsynlegustu upplýsingar.

Hagstofustjóri upplýsti, að sá rammi, sem hagstofan starfaði eftir, væri svo þröngur, að það væru aðeins viss upplýsingasvið, sem hann gæti tekið fyrir í hagskýrslunum, og hann hefði ekki fengið fjárhagslega rýmkun fyrir sína stofnun til þess að geta vikkað það svið út eins og æskilegt væri.

Það er alveg rétt, hún á að hnýsast í margt, þessi kjararannsóknarstofnun bændanna, en það á sízt að vera þeim til óþurftar, að hægt sé að gefa upplýsingar um allt landbúnaðinn varðandi. Það á að vera hennar öflugasta stoð og hagsmunalegt tæki, einmitt til að undirbyggja sínar réttmætu kröfur í þjóðfélaginu og búa um sig þannig, að þjóðfélaginu sé sem bezt þjónað með starfsemi bændastéttarinnar. Hann minnti á einmitt, að eitt af verkefnunum væri að komast að niðurstöðu um það, hvaða bústærð væri hagstæðust í hverri búgrein og hvort sérhæfing búa, t.d. sauðfjárrækt eða nautgriparækt eða matjurtarækt, væri æskileg á vissum landbúnaðarsvæðum. Sérstaklega dvaldi hann við fyrsta atriðið, að komast að niðurstöðu um, hvaða bústærð væri hagkvæmust. Á þessu hafa verið gerðar nokkrar athuganir og menn hafa komizt að niðurstöðu um það, að viss bústærð gæfi yfirleitt þessa útkomu. Menn hafa hingað til haldið því fram, að búin gæfu því betri útkomu sem þau væru stærri, en það hefur athugun sýnt, að sum stærstu búin gefa miklu lakari útkomu og ætti þannig ekki að verðlauna þau með síhækkandi greiðslum úr ríkissjóði til þess að freista þeirra bænda til þess að stækka búin enn þá meira í óhagkvæmari stærð. En með 6 manna n. kerfinu og öllu, þar sem miðað er við framleiðslueiningu um greiðslur úr ríkissjóði, útflutningsuppbætur og niðurgreiðslur, fer allt eftir lítrum í mjólk og kjötkg. þá eru það einmitt þeir, sem stærstu búin hafa, þó að þau séu kannske þjóðhagslega óhagstæðust, sem eru hvattir til þess að stækka þau enn meir. Vitlausara fyrirkomulag er varla hægt að hugsa sér. Hins vegar gera aðrar þjóðir miklu meira en íslenzka þjóðfélagið að því að stuðla að stækkun búa, þegar búin eru of lítil, upp að þeirri stærð, sem hagkvæmust þykir. Þetta er gert að því er snertir ræktunina. En að því er snertir uppbótakerfið eru smábændurnir olnbogabörn kerfisins, og það er stuðlað að því að halda þeim í kyrkingi, halda smáu búunum smáum áfram og þannig í þeirri óhagkvæmu stærð, sem þau eru. Þegar búið væri að komast að niðurstöðu um það, hvaða bústærð væri hagkvæmust, þá ætti auðvitað að stuðla að því, að sem flest bú þokuðust upp í þá stærð, með þjóðfélagsaðstoð, eins og unnt væri, en ekki haldið áfram að stækka búin umfram þá stærð, sem hagkvæmust er, og þar með stuðla að því, að þau verði óhagkvæmari, með stórum fjárframlögum úr ríkissjóði. En því getur enginn neitað, að í niðurgreiðslur og útflutningsuppbætur fara milljónatugir og stærsta fúlgan af öllu því fé fer ekki til hinna mörgu smáu bænda í landinu, heldur til nokkur hundruð stærstu bændanna, sem ýmsir mundu kannske telja að væru ekki mikils styrks þurfi.

En hvað sem þessu líður, er það víst, að varðandi kjararannsóknarstofnun bænda, eins og um hana er búið í þessu frv., er til þess ætlazt, að hún sé rannsóknartæki í þjónustu bændanna, í þjónustu landbúnaðarins, en ekki til þess að vera neinn njósnari um þeirra hag og þannig tæki þeim til óþurftar. Og það er alger misskilningur, ef hv. ræðumaður heldur, að þetta sé eitthvað viðsjárvert fyrir bændurna sjálfa, því að hér er kjararannsóknarstofnun bændanna hugsuð sem ámóta tæki og kjararannsóknarnefnd verkalýðsins er til þess að undirhyggja tölulega réttmætar kröfur verkalýðsfélaganna í kjaradeilum, og sú stofnun er sameiginleg þeim og vinnuveitendasamtökunum. Við höfum yfirstigið alla tortryggni í þeim málum og höfum þarna sameiginlega stofnun til þess að vinna að tölulegum grundvelli fyrir báða aðilana á vinnumarkaðinum. En þessi stofnun á eingöngu að þjóna landbúnaðinum, og ætti þess vegna engin tortryggni út af henni að koma til greina.

Eitt af því, sem hv. þm. taldi alveg óþarft, að kjararannsóknarstofnunin væri að athuga, var, hvernig símasambandsmöguleikar væru við sveitabýli eða samgönguaðstaða. Þessi atriði hvor tveggja eru svo þýðingarmikil, að þau gætu ráðið úrslitum um það, hvort jörð á að vera í byggð eða ekki. Og ef jörð er þannig, að hún hafi ekki möguleika til þess að vera framtíðarbýli, hafi möguleika til þess að framfleyta fjölskyldu með sómasamlegum hætti, og þangað þyrfti að leggja dýra vegi, þangað þyrfti að leggja dýrar símalínur, þangað þyrfti að verja of fjár til þess að tengja býlið raforkuveri, þá á það opinbera að láta fara fram mat á því, hvort þessi jörð sé framtíðarbýli eða ekki, og síðan á að veita aðstoð til þess, að ábúandinn geti flutt sig um set eða skipt um atvinnu, og um það er ákveðið í þessu frv., og hæstv. ríkisstj. hefur nú flutt sérstakt frv. einmitt um það atriði.

Ég fæ ekki séð það út úr þessu frv., að bændum sé ætlað að lúta neinum herradómi ríkisvaldsins samkv. því. Ég álít, að þetta frv. miði allt að því að tryggja betur rétt og hag bændastéttarinnar og það sé ekki verið að gera bændur að neinum ríkisþrælum með neinu ákvæði í þessu frv., því mótmæli ég alveg.

Ég þurfti að vísu að víkja mér frá í síma undir ræðu hv. 2. þm. Sunnl., en ég heyrði, þegar ég kom inn í salinn aftur, að hann var að minnast á ákvæði frv. um rannsóknar- og eftirlitsnefnd með dreifingarkerfi og dreifingarkostnaði landbúnaðarvara, sem hér er sagt í 13. gr., að starfa skuli í náinni samvinnu við kjararannsóknarstofnun ríkisins. Honum fannst alveg óþarft að vera að rannsaka dreifingarkostnaðinn á landbúnaðarvörunum. En sannleikurinn er sá, að munurinn á því verði, sem bóndinn fær fyrir landbúnaðarvörur, og því verði, sem neytandinn í kaupstað verður að greiða fyrir landbúnaðarvörur, er svo mikill, að oft hefur þetta vakið tortryggni. Þessari tortryggni er bezt að eyða, og bændur þurfa ekkert að óttast athugun á þessum málum, ef þarna er eins vel haldið á og dreifingarkostnaðinum er haldið eins mikið niðri og unnt er. Við vitum, að hann verður alltaf talsverður. En ef hann er eins lítill og mögulegt er, þurfa bændur ekki að óttast neitt athugun á þessu. En því verður ekki neitað, að viðskiptin í landinu með landbúnaðarvörurnar fara fram án samkeppni og án eftirlits, og þetta eru viðskipti upp á hundruð millj. og varða miklu í þjóðarbúinu. Hví ekki að láta þessi viðskipti vera undir reglum og vera undir eftirliti? (Forseti: Ég vil spyrja hv. ræðumann, hvort hann eigi ekki eftir langt mál af ræðu sinni, og ef svo er, mundi ég fresta umr., en annars halda fundinum áfram.) Nei, ég held, að ég geti lokið þessu á 7—10 mín. og kannske skemur.

Mér þykir það leitt, ef hv. 2.þm. Sunnl. telur, að þetta sé einhvers konar rannsóknarréttur á bændastéttina. En þarna er um að ræða fyrirtæki, sem velta hundruðum millj. Stjórn þeirra er að vísu beint eða óbeint kosin af samtökum bændanna, en ákaflega held ég nú samt að tengsli þessara stofnana sumra séu orðin veik við fólkið sjálft. En það, sem mestu máli skiptir, er, að þessi miklu viðskipti í þjóðfélaginu fara fram samkeppnislaust og eftirlitslaust og það er of losaralegt. Bændastéttin ætti engu að kvíða, ef þarna er eins vel haldið á málunum og unnt er. Og þá yrði engin breyting þar á heldur.

Hv. 2. þm. Sunnl. hnaut um ákvæði frv. um samninga milli ríkisvaldsins og bændastéttarinnar, sem síðan ættu að enda, ef samningar tækjust ekki, í sáttatilraunum af hendi sáttasemjara ríkisins. Sáttasemjari ríkisins á svo, ef hann nær ekki sáttum, að geta skipað sáttanefnd eða ríkisvaldið að setja sáttanefnd, og ef það heldur ekki leiðir til sátta, þá eiga bændur að öðlast rétt til sölustöðvunar. Það er úrræði, sem þeir sjálfir margsinnis hafa haft við orð að beita og eiga að beita, ef væri verið að misbjóða þeim. Þeir færu varla að beita slíkum aðgerðum, nema því aðeins að þeir teldu sér misboðið hreint og beint. Þess vegna eru ákvæði um hinar ýtarlegu sáttatilraunir á undan: sáttasemjara, sáttanefndar og síðast atkvgr. auðvitað um miðlunartill. í stéttarfélögum bændanna, alveg eins og sáttatilraunir í vinnudeilum ganga til stéttarfélaganna í viðkomandi stéttargreinum. Ég tel ekki bændastéttinni á nokkurn hátt misboðið með því að þurfa að lúta sams konar réttarmeðferð og verkalýðsstéttin lýtur, og tel sjálfsagt, að hún njóti sams konar mannréttinda og verkalýðsstéttin nýtur, og sölustöðvun er alveg hliðstæð verkfallsréttinum.

Þá var það að síðustu, að hann sagði réttilega, að ákvæði væri i frv. um það, að útflutningsuppbætur ættu að lækka um 10 millj. kr. á ári næstu 5 árin. Þetta er rétt. Þetta stendur í frv. Mér finnst þessi upphæð, útflutningsbótaupphæðin, vera orðin ískyggilega há, þ.e.a.s. umframframleiðslan í landbúnaðinum er orðin ískyggilega mikil og kostar þjóðfélagið mikið, hundruð milljóna. Það kemur að því fyrr eða síðar, að þarf að spyrna þarna við fótum. Hví þá ekki að gera það nú? Þetta á að lækka um 10 millj. kr. á ári næstu 5 árin. En hvað á að gera við þetta fé? Á að taka þetta af bændunum? Nei, þarna á að stöðva, en þessu fé má verja skv. ákvæðum, sem þarna eru sett á eftir, í 19. gr., þar segir: „Upphæðin skal fara til þess að jafna og bæta aðstöðu bænda til hagkvæmari búrekstrar og aukinnar framleiðni í landbúnaðarframleiðslu, þannig að bændur missi einskis í, að því er varðar fjárframlög úr ríkissjóði til landbúnaðar, frá því, sem nú er.“ Spurningin er bara um það: Er þessum fjárfúlgum, sem hér er um að ræða, 10 millj. á ári næstu 5 ár, verr varið sem hagræðingar- og framleiðniaðstoð heldur en að verja því í vaxandi útflutningsuppbætur og ýta þannig á, að umframmagn afurðanna haldi áfram að vaxa? Ég held, að það sé betra að verja því til aukinnar framleiðni í landbúnaði og af því veitti ekki. Þessi seinasta athugasemd var því, eins og mér finnst ýmsar athugasemdir hv. þm., byggð á nokkrum misskilningi, af ótta um það að lítt athuguðu máli, að hér væri verið að stíga á strá bændastéttarinnar, þrengja hennar hag og kjör og minnka hennar réttindi og jafnvel eyðileggja samtök stéttarinnar með því, að samkeppnin verði frjáls, en ekki lögbundin. Allt þetta er ástæðulaust að óttast.