16.02.1967
Neðri deild: 42. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 289 í C-deild Alþingistíðinda. (1902)

116. mál, uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Það er af ýmsu ljóst, að hv. 3. þm. Reykv. er nú að undirbúa sína pólitísku erfðaskrá, ef svo má segja. Hann lýsti því hér fyrir nokkrum vikum yfir, að því er menn skildu, að þetta væri hans síðasta þing, og ýmiss konar tillöguflutningur síðan bendir til þess, að hann vill láta sína brottför verða eftirminnilega. Það má segja, að nærri samtímis hafi komið frá hans hendi tvær till., önnur um það efni, sem hér um ræðir, og hins vegar til1. til þál., þar sem Íslendingum er ætluð forusta í því að bjarga öðrum þjóðum og þó einkanlega Norðmönnum frá einokunarklóm auðhringanna.

Till. er merkileg í sjálfu sér og grg. ekki síður, því að þar kemur ljóst fram, að hv. þm. telur sjálfan sig hafa mun betur vit á því, ekki einungis hvað íslenzku þjóðinni henti, heldur einnig hvað norsku þjóðinni henti, heldur en forustumenn Norðmanna sjálfra. Hann talar þar um það, að norska þjóðin hafi orðið fyrir búsifjum af tilteknum einokunarhring og hafi orðið að fallast á nauðungarsamninga við hann. Sannleikurinn er sá, að norska Stórþingið samþykkti með yfirgnæfandi meiri hluta, svo að segja samhljóða, þá samningsgerð, sem þar um ræðir, vegna þess að þessi meiri hluti taldi norsku þjóðinni samningsgerðina hagkvæma. Og því var lýst yfir m.a. og ekki sízt af aðalmanni stjórnarandstöðunnar, Gerhardsen, fyrrv. forsrh., að hann teldi rétt, að norska stjórnin og norska ríkið semdi við þennan erlenda auðhring, ef svo má að orði komast, á meðan samningsaðstaðan enn væri styrk, en síðar gæti hún orðið miklu veikari, ekki vegna ágengni þessa auðhrings, heldur vegna breyttra aðstæðna í heiminum. Gerhardsen færði þessi rök og ýmis önnur fyrir því, að eðlilegt væri, að samningurinn væri staðfestur af norska Stórþinginu, sem og gert var. Þessi samtök höfðu áður átt og eiga enn vinsamleg samskipti við norska ríkið og norska verkamenn ekki sízt, enda var það síður en svo, að þarna væri um að ræða það, að norska ríkið væri að afsala sér einhliða rétti. Það öðlaðist einnig mjög sterk ítök í þessum samtökum, sem hv. þm. kallar auðhring.

Ég drep á þetta hér vegna þess, að það sýnir, hversu hv. þm. í raun og veru ætlar sér stóran hlut. Hann lætur sér ekki nægja að halda yfir okkur hér föðurlegar áminningarræður og veita okkur ýmiss konar fræðslu, heldur er nú kominn á það stig,að verða eins konar alheimskennari og hafa betur vit á innanríkismálum annarra þjóða en kjörnir fulltrúar þeirra sjálfra. Þetta lýsir nokkuð þeim hugarheimi, sem hv. þm. lifir í. Það var einnig mjög athyglisvert, hversu glompótt var sú saga af varnarmálunum og áhrifum þeirra varðandi Ísland, sem hv. þm. rakti hér áðan. Hann talaði fyrst og fremst um þau eins og þar hefði birzt ágengni Bandaríkjastjórnar í garð íslenzku þjóðarinnar, sem hefði sýnt staðfastan vilja hennar, sennilega allt frá upphafi, til að öðlast hér fastar herstöðvar, a.m.k. í 99 ár, og vildi skýra viðhorf bæði Bandaríkjastjórnar og Íslendinga út frá þessu sjónarmiði.

Hann gleymdi þá að geta þess m.a., að það var ekki Bandaríkjastjórn, heldur var það hans eigin lærifaðir, sjálfur Lenín, sem strax um 1920 varð fyrstur alþjóðlegra eða frægra stjórnmálamanna til þess að hafa orð á hernaðarþýðingu Íslands. Góður vinur hv. þm., nú látinn heiðursmaður, Hendrik Siemsen Ottósson, hefur sagt frá í einni af bókum sínum, að Lenín hafi á alþjóðaþingi kommúnista gert hernaðarþýðingu Íslands að sérstöku umræðuefni og hún mundi koma fram í síðari stórstyrjöld og einkanlega lýsa sér varðandi kafbáta og flugvélar. Í þessu reyndist Lenín sannspár, og það verður að færast honum til viðurkenningar, einnig af okkur, sem teljum, að hans meginkenningar í stjórnmálum, sem hv. 3. þm. Reykv. hérlendis hefur einkum gerzt talsmaður fyrir, hafa að mestu leyti reynzt rangar. Þá verður það; eins og ég segi, að viðurkennast, að í þessum efnum reyndist Lenín sannspár.

Hv. þm. gleymdi einnig að geta þess, að af öllum þm., ég held bæði núlifandi og þeim, sem horfnir eru, varð hann sjálfur fyrstur allra til þess að benda á, að hlutleysisyfirlýsingin, sem gefin var 1918, væri sáralítils virði. Hv. þm. sá þetta fyrir strax fyrir 1939, og ég hygg, að einmitt þá og á þeim árum fyrir 1939 hafi hv. þm. gefið Íslendingum þá ráðleggingu, að við ættum að leita hernaðarverndar hjá sjálfum Bandaríkjunum. Það munu að vísu vera fleiri aðilar, sem hv. þm. nefndi, en Bandaríkin voru þar forustuþjóðin, sem átti að veita okkur þá hernaðarvernd, sem hv. þm. nú telur, að fráleitt sé, að Íslendingar þurfi á að halda. Þetta gerðist fyrir 1939, fyrir alla þá stóratburði, sem þá hófust og síðan hafa haft úrslitaþýðingu fyrir sögu Íslands.

Hv. þm. talaði mikið um staðfestu Bandaríkjanna í ásókn sinni á Íslendinga og nokkuð breytilegt viðhorf annarra til þeirrar ásóknar. Nú er það alveg rétt, að Íslendingar yfirleitt hafa haft, flestir, töluvert breytilega afstöðu í varnarmálunum, en engir þó fremur en hv. 3. þm. Reykv. og hans flokksbræður. Það lýsir sér ekki einungis í þessu, sem ég gat um, að hann skyldi verða upphafsmaður þess að stinga upp á hernaðarvernd Bandaríkjanna á hlutleysi landsins eða á sjálfu Íslandi, heldur einnig í þeirra framkomu, á meðan á stríðinu stóð. Það eru ekki margir dagar, síðan hv. þm. stóð í þessum ræðustól og talaði vægast sagt mjög blekkjandi um aðdraganda herverndarsamningsins frá 1941 og vildi þá mistúlka ummæli í erlendu riti, sem hann hafði komizt yfir, á þann veg, að þáv. forsrh. hefði verið þvingaður til þess að fallast á samningsgerðina. Þau orð, sem hv. þm. notaði til þess að reyna að gefa þetta í skyn, áttu hins vegar einungis við deilu um það, hvort Íslendingar ættu að lýsa því yfir, að þeir óskuðu sérstaklega eftir hinni nýju skipan eða ekki. Þetta er mál fyrir sig. Hitt er eftirtektarverðara, að einnig hans eigin flokkur var mjög tvístraður í þessum efnum. Það er kunnugt, að hann fjandskapaðist mjög gegn komu Breta til landsins vorið 1940, sem endaði með brottflutningi hans af hálfu Breta á árinu 1941. En í umr. um herverndarsamninginn 1941 á Alþ. lýsti flokksbróðir hv. þm., þáv. þm. Brynjólfur Bjarnason, yfir því efnislega, að ef það yrði til þess að hjálpa Sovét-Rússlandi f baráttunni gegn innrás Hitlers, sem þá hafði hafizt fyrir fáum vikum, mætti skjóta á Íslandi. Þetta stendur skýrum stöfum í Alþingistíðindunum frá 1941. Þá taldi hv. þm. Brynjólfur Bjarnason það tilvinnandi, þó að skotið yrði á Íslandi, ef það yrði til hjálpar Sovétstjórninni. Eftir þetta varð einnig allt annað hljóð í strokknum almennt hjá þeim flokksbræðrum heldur en áður hafði verið, því að það, sem áður hafði verið kölluð landráðavinna, var nú skoðuð af þeim félagsbræðrum sem landvarnavinna, sem styrkja bæri og halda yrði uppi, til þess að Íslendingar legðu af sinni hálfu það fram, sem þeir gætu, i baráttunni gegn Hitler.

Aldrei kom þetta þó skýrar fram en vorið 1945, þegar hv. þm. og hans flokksbræður héldu um það margar ræður, — að vísu á lokuðum fundi hér í Alþ., svo að það er ekki skráð, en það er engu að síður í minnum okkar, sem þar vorum staddir, hversu ríka áherzlu þeir lögðu á það, að Íslendingar ættu að lýsa því yfir, að landið væri í stríði við Þýzkaland og Japan, annað hvort ríkið eða bæði. Það er að vísu rétt, og ég þykist vita, að hv. þm. muni skjóta sér undir það, að þetta var á lokuðum fundi og umr. ekki skráðar. En svo vill til, að það eru engu að síður til gögn fyrir afstöðu hv. þm., og það er í gerðabókum utanrmn. Þar kemur þessi skoðun hv. þm. glögglega fram. Þá var ákefð hans í stuðningi við Sovétveldið og undir því yfirvarpi, að við ættum að fá að gerast aðilar Sameinuðu þjóðanna, stofnaðilar, svo eindregin, að hann vildi, að við lýstum því yfir, að við værum beinir stríðsaðilar. Ég hef ekki vitað neina aðra Íslendinga hér á Alþ. gerast málsvara þessa heldur en þennan hv. þm. og hans nánustu flokksbræður í Sameiningarflokki alþýðu, Sósfl., eins og þeirra flokkssamtök munu þá hafa nefnzt.

Úr þessu varð ekki. En það er óneitanlega dálítið fróðlegt að átta sig á því vegna frv., sem einmitt var lagt fram hér í dag af hálfu þeirra flokksbræðra, að nú á að lögskylda það, að allir þingflokkar fái fulltrúa á þingi Sameinuðu þjóðanna. Þegar við gengum í Sameinuðu þjóðirnar 1946, var gefinn á því kostur. Sameiningarflokkur alþýðu, Sósfl., var þá einn af stjórnarflokkunum og átti þess kost að senda fulltrúa á þing Sameinuðu þjóðanna ásamt öðrum, en þá neitaði þessi virðulegi flokkur þeirri þátttöku, nema því aðeins að Íslendingar sætu hjá um allar atkvgr., ef þeir væru ekki sammála um, hvernig greiða ætti atkv. Við, sem þekktum skoðanir hv. þm. og þeirra félagsbræðra, vissum, að þetta merkti í rauninni það, að Íslendingar máttu þá greiða atkv., ef svo vildi til, að við værum allir sammála því, sem Sovét-Rússland legði fram, en yrðum að vera hlutlausir, sitja hjá í öllum þeim málum, þar sem meiri hl. okkar væri á móti skoðun Sovét-Rússlands, af því að það vissum við fyrir fram, eins og reynslan síðan hefur sýnt, að slíkt mundi sjaldan eða aldrei við bera, að hv. þm. og flokksbræður hans greiddu atkv. á alþjóðavettvangi öðruvísi en Sovétstjórnin óskaði eftir. Það má segja, að það er ekki beint þetta atriði, sem nú er um að ræða, en það varpar þó mjög einkennilegu og skýru ljósi á hina föðurlegu ræðu hv. þm. hér áðan.

Þá var það og athyglisvert, þegar hv. þm. talaði um gerð Keflavíkursamningsins, að hann gleymdi meginorsökinni til þess, að rétt þótti, að sá samningur væri gerður. Hún var sú, að meðan ekki fengjust friðarsamningar við Þýzkaland, hvíldi sú skylda á Bandaríkjunum að halda þar herliði, og þess vegna var eðlilegt, að þau vildu tryggja samgönguleið sína loftleiðina til Þýzkalands, og þar var, eins og þá stóð, Ísland eðlilegur áfangastaður á leið. En á hverjum stóð og stendur um friðarsamningsgerð við Þýzkaland. Þar stendur einmitt á Sovét-Rússlandi. Það er Sovét-Rússland, sem með kröfunni um tvískiptingu Þýzkalands, neitun á viðurkenningu þess, að lýðræði skuli ráða í öllu Þýzkalandi, sem enn, rúmum 20 árum eftir að bardagar hættu í Evrópu, gerir það að verkum, að friðarsamningar fást ekki gerðir. Sú efnislega ástæða, sem leiddi til þess, að Keflavíkursamningurinn var gerður, var þannig ekki áform Bandaríkjanna um það að hafa hér stöðugar herstöðvar, heldur hindrun Sovét-Rússlands á því, að eðlileg skipan kæmist á mál Evrópu með gerð friðarsamninga, eins og tíðkanlegir hafa verið eftir stórstyrjaldir hingað til. Nú má það að vísu til sanns vegar færa, að það hefði engum verið til góðs, að friðarsamningar hefðu verið gerðir við Þýzkaland mjög skömmu eftir ófriðarlok, meðan menn voru enn í heiftarhug. En það skiptir ekki máli um hitt, að nú, meira en 20 árum síðar, stendur það á þessu volduga ríki, Sovét-Rússlandi, að gera þessa samninga.

Þá var það einnig meira en lítið — ég vil segja: skoplegt að heyra hv. þm. tala aftur um það sem sérstætt dæmi um ágengni Bandaríkjanna, að þau hefðu beitt sér fyrir Marshall-hjálpinni. Það vita allir, að Marshall-samstarfið var höfuðlyftistöng Evrópu eftir stríðslok, og hin skjóta, ég vil segja ótrúlega uppbygging, sem þar hefur átt sér stað, og það, að ekki hefur skapazt nýtt kreppuástand, eins og varð eftir ófriðinn 1918, með þeirri upplausn og heift, sem slíku fylgir, eiga m.a. verulega rætur sínar að rekja til Marshall-samstarfsins. Það er að vísu rétt, að ég gerði ráð fyrir því í fyrstu, þegar við gerðumst aðilar að Marshall-samstarfinu, að við þyrftum ekki á beinum fjárstyrk samkv. því að halda. Við vorum þá á fyrstu árum eftir hina miklu nýsköpun atvinnuveganna, og gerðum ráð fyrir að geta notið hennar eins og vonir okkar allra hennar fylgismanna höfðu staðið til, þ. á m. bæði mínar og hv. 3. þm. Reykv. En þarna urðu aðrir örðugleikar og meiri en við höfðum séð fyrir. Það varð mikið verðfall á íslenzkum afurðum á þessum árum, svo sem við bæði fyrr og síðar höfum reynt, og það varð algert síldarleysi, en verulegum hluta fjármagnsins, sem varið hafði verið til nýsköpunar, hafði einmitt verið varið til þess að búa sig undir mikla síldveiði. Hér skapaðist því allt annað ástand en við höfðum gert ráð fyrir, og það er vafalaust, að þó að við sæjum það ekki fyrir, þurftum við frekar á Marshall-samstarfinu að halda heldur en ég hafði sagt, þegar ég gerði grein fyrir því máli í upphafi á Alþ. Enda varð raunin sú, að Marshallsamstarfið varð hér til margháttaðrar uppbyggingar og til þess að gera okkar hag betri en ella. Nægir t.d. að vitna í svo augljósar framkvæmdir eins og bæði nokkurn hluta af virkjunum Sogsins og áburðarverksmiðjuna, og ýmislegt fleira mætti telja, ef tími gæfist til. En það er ekki einungis Ísland og Evrópa, sem hefur notið mikils góðs af þeirri hugmynd, sem lýsti sér í Marshall-samstarfinu. Í minna mæli hefur hið sama átt sér stað víða um heim, bæði fyrir forgöngu Bandaríkjanna, einstakra ríkja og að nokkru leyti Sameinuðu þjóðanna. Og í fyrra gerðist það, að hv. 3. þm. Reykv. hélt hér hverja ræðuna eftir aðra um það, að Íslendingar ættu að beita sér fyrir stórauknum framlögum í þessa átt, til þess að rétta við hag hinna vanþróuðu þjóða. Þá taldi hann ekki, að slik hjálp eins og samkv. Marshallsamstarfinu væri til þess að arðræna þær þjóðir, sem fyrir því yrðu, eða leggja á þær hlekki, heldur taldi hann, að allt of hægt væri farið í sakirnar og þar yrði að leggja miklu meira af mörkum en gert hefði verið. Og hv. þm. þóttist sjá sérstaka leið til þess, að Íslendingar gætu haft um þetta forustu, og vildi, að við tækjum þar upp kennarastarf gagnvart umheiminum, svipað eins og hann hefur nú sjálfur tekið sér í sinni þáltill., sem ég áður ræddi um varðandi Norðmenn. Um þetta þagði hv. þm. nú, þegar hann var að tala um Marshall-samstarfið.

Hann sagði einnig mjög villandi frá aðdraganda þess, að varnarsamningurinn var gerður 1951. Það er algerlega rangt, að þm. hafi verið neyddir til þess að gera þann samning, eftir að hingað var komið lið, og gert hann í skugga af byssum eða undir áhrifum byssustingja, eins og helzt var að skilja af ummælum hv. þm. Sannleikurinn var sá, að það var leitað samstarfs og samþykkis allra flokka þingsins um þessa samningsgerð, áður en henni var lokið, meðan á henni stóð og þegar hún lá fullgerð fyrir, það var leitað til allra nema þeirra, sem við vissum, að vitanlega voru á móti, af því að þeir voru erindrekar annars veldis, það er að segja hv. þm. og hans flokksbræður. (EOI: Hvað segir forsrh. sjálfur sem prófessor um, hvort hafi lagalegt gildi samþykkt þm.?) Alþ. sjálft samþykkti þessa samninga athugasemdalaust, strax og það kom saman. (EOI: Í hersetnu landi, já.) Þá var staðfest það, sem hv. þm. höfðu af frjálsum vilja samþ. og óskað eftir, að gert yrði, áður en varnarliðið kom hingað. Og það var einmitt að vilja og óskum hv. þm., að þessi háttur var hafður á. Nú veit ég að vísu ekki, hvort þeir tala saman flokksbræðurnir, hv.þm. Hannibal Valdimarsson og hv. 3. þm. Reykv. En hann gæti a.m.k. skrifað Hannibal bréf og fengið það upplýst, hvort það sé ekki rétt, að Hannibal hafi verið einn af þeim, sem voru búnir að samþykkja þetta, áður en liðið kom, og hann vissi þá ofur vel, að þessi aðferð yrði höfð. Þetta er á allra vitund, og hvort sem menn telja eða ekki, að samningurinn hefði haft endanlegt stjórnskipulegt gildi án samþykkis Alþ., er það óumdeilanlegt, að Alþ. staðfesti samninginn, strax og það kom saman, og það voru engir aðrir á móti þeirri staðfestingu en þeir, sem fyrir fram var vitað, að voru á móti málinu, ekki vegna raka eða nauðsynjar, heldur vegna þess, að það voru önnur sjónarmið, sem þeirra aðgerðum réðu. Um þetta verður ekki deilt, og hv. þm. á ekki að vera að espa sig upp út af jafnalvituðu atriði. En hann kemst ekki hjá því, að þetta sé rifjað upp, úr því að hann í sínu útgönguversi hefur ekki dug til þess að hafa frásögnina heilli, ýtarlegri og sannleikanum samkvæmari en hann gerði hér áðan.

Nú er það raunar óumdeilanlegt, að hv. þm. hefur síðar tekið fulla ábyrgð á varnarsamningnum með öðrum. Hann var einn af öruggustu stuðningsmönnum vinstri stjórnarinnar 1956. Sú stjórn var að vísu mynduð til þess að koma varnarliðinu úr landi. Þá var svipað og nú með framsóknarmenn. Þeir eru þó ekki með eins yfirlætismiklar till. um málið nú, en við skulum láta það vera, hvað þeir meina með þeim, við skulum tala um það við þá. Ég efast hins vegar ekki um það, að hv. þm. ætlaðist til þess, að þeirri samþykkt yrði fylgt eftir, að varnarliðið færi, þegar hann gerðist stuðningsmaður vinstri stjórnarinnar sumarið 1956. En það leið ekki fullt hálft ár, þangað til stjórnin gerði samning um það að afturkalla alla tilburði um það að segja varnarsamningnum upp. Þetta gerði vinstri stjórnin með vitund og þar með á stjórnskipulega ábyrgð allra ráðh., bæði hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar og Hannibals Valdimarssonar. Hv. þm. Lúðvík Jósefsson, 5. þm. Austf., hefur að vísu sagt frá því, að hann hafi gert þetta vegna þess, að hann hafi verið svo hræddur við óróalýð hér á götunum, að menn hafi ekki mátt um frjálst höfuð strjúka marga mánuði, svo að hann hafi bara ekki þorað annað en hafa hægt um sig og samþykkja að láta liðið vera, sennilega hefur liðið átt að passa hann fyrir Heimdallarstrákunum. (Gripið fram í.) Já, við skulum gá að því, ég skal sýna honum þetta með ánægju. Það liggur allt fyrir í prentuðum skjölum og heimildum.

Þeir samþykktu þennan samning, — þeir lýstu því að vísu yfir, um leið og þeir samþykktu hann, í Þjóðviljanum: „Silfurpeningarnir eru alltaf 30“. Það fylgdi nefnilega með, að þá var samið um það, að Bandaríkjamenn áttu að veita lán, sem í fyrstu var sagt, að væri 30 millj. dollarar, en reyndist eitthvað töluvert minna, en hv. þm. vissi ósköp vel, að þarna var verið að kaupa stjórnina til þess að falla frá sinni ákvörðun, og hann hélt áfram að styðja stjórnina allan tímann. Það verður að segja alveg eins og er, að það var ekki vegna þess, að þessi hv. þm. snerist móti stjórninni, að hún loksins féll, vinstri stjórnin. Nei, það var Framsfl., sem af allt öðrum ástæðum vildi ekki lengur hafa þennan þm. í meðábyrgð með sér eða í samfylgd, sem stjórnin fór frá. Og það var ekki fyrr en alveg sömu dagana og stjórnin hrökklaðist frá, þá hét það víst orðið Alþb., að það mannaði sig til og sagði, að ef ekki yrði eitthvað gert í varnarmálunum, kæmi kannske að því einhvern tíma seinna, að það yrði að slíta stjórnarsamstarfi af þessum sökum. Nú skilst mér að vísu, að á nýlegum fundi um þetta mál, hafi einn hv. þm. þessa flokks lýst því yfir, að auðvitað yrði ekki seta varnarliðsins gerð að skilyrði fyrir stjórnarsamvinnu. Það er miklu betra að lýsa þessu yfir strax, því að við vitum það, að auðvitað dettur þeim ekki í hug að gera þetta að skilyrði, frekar en Framsókn að fylgja eftir því, sem hún er nú að samþykkja. Þetta er allt gert í annarlegum tilgangi. Hv. þm. heldur, að hann undirbúi betur kosningastöðu síns flokks, — hann var að tala um kosningar hér áðan, og svo átti þetta að vera, eins og ég sagði, einn þáttur í hans pólitísku erfðaskrá og hans svanasöng hér á Alþ. Og mér þykir auðvitað leitt að þurfa að trufla þann fagra söng, en það verður þó að láta það koma fram, sem rétt er.

Nú er það svo, að það er síður en svo hv. þm. til hnjóðs, þó að hann hafi þarna um nokkurt skeið stutt rétt og gott mál og tekið ábyrgð á vörnum landsins og þátttöku okkar í Atlantshafsbandalaginu. Það er auðvitað enginn vafi á því, að Atlantshafsbandalagið á meginþátt í því, að nú horfir mun friðvænlegar í þessum heimshluta en nokkru sinni fyrr um mjög langt tímabil. Hv. þm. gerði mjög mikið úr því, hversu það horfði miklu friðvænlegar, kalda stríðið væri úr sögunni o.s.frv. Margt af því get ég tekið undir. En ég vil þó minna hv. þm. á, að um þetta hafa menn nokkuð misjafnar skoðanir, því að einkavinur og skjólstæðingur hv. þm., ritstjóri Þjóðviljans, hefur gert það að sérstöku árásarefni á mig, að ég hafi haldið því fram í orðum, sem ég sagði á gamlársdag, að nú væri friðvænlegar en áður. Hann taldi þetta vera merki um mína fáfræði, vegna þess að hann vildi telja, að það hefði sjaldan verið eins uggvænlegt í heiminum og einmitt nú, og studdi hann þá kenningu við þann mikla ágreining, sem er kominn upp milli Sovét-Rússlands og Kína. Ég held, að ég hafi sagt frá því hér áðan, að á sínum tíma sagði Macmillan við Ólaf Thors, þegar þeir áttu viðtal hér úti á Keflavíkurflugvelli, að sá tími kynni að koma, að Sovét-Rússland óskaði inngöngu í Atlantshafsbandalagið til verndar gegn Kína-kommúnistum. Þetta var sagt, eftir því sem ég skildi frásögn ólafs, meira í hálfkæringi. En öllu gamni fylgir nokkur alvara. Og óneitanlega er það tímanna tákn og fróðlegt að athuga, að það skuli gerast nokkurn veginn sömu dagana, að það er hrækt, ekki einungis á fullorðna karlmenn af rússnesku kyni austur í Peking, heldur á konur og börn, sem þar verða að flýja sendiráð og land undan sínum kommúnistísku flokksbræðrum, og þau látin krjúpa frammi fyrir óaldarmönnum, áður en þau komast upp í sinn farkost, og brúðumyndir af forustumönnum Sovétrússa verða fyrir misþyrmingu af menningarbyltingarmönnunum kommúnistísku austur í Kína og ýmislegt fleira í þá veru, — að sömu dagana og þetta á sér stað, gengur forseti Sovét-Rússlands á fund páfans. Það var sú tíð, að valdamesti maður í Rússlandi, Stalín, spurði í háði: Hvað hefur páfinn mörg herfylki? Með því gaf hann til kynna, að hann teldi ekki mikið upp úr því leggjandi, hvoru megin páfinn væri, úr því að hann hefði ekki yfir vopnuðum hersveitum að ráða. Stalín var sem sagt sömu skoðunar og Mao er, eftir því sem sagt er, að hann hafi að orðtaki, að valdið liggi í byssuhlaupinu. En núverandi valdamenn í Sovét-Rússlandi hafa talið það gott að vingast við hinn herfylkjalausa páfa. Og Kosygin fer til Bretlands, bandamanns þeirra, sem eru að dómi hv. þm. og raunar Sovétstjórnarinnar líka beinir árásarmenn í Suður-Víetnam. Hann fer til Bretlands, og hann lætur sér ekki nægja að tala við verkalýðinn. Nei, hann situr, eins og hefðarmönnum ber, boð hjá sjálfri drottningunni og lýsir því yfir, að sér muni verða alveg sérstök ánægja að því, ef Bretadrottning heimsækti Sovét-Rússland.

Það er satt, að þetta hvort tveggja gefur til kynna töluverða hugarfarsbreytingu, svo og það, að Kosygin lýsti því yfir á blaðamannafundi, hvort það var á sama fundinum og hann lýsti ánægjunni yfir því, ef Elísabet kæmi í heimsókn til öreiganna þarna austur frá, veit ég ekki, — að það væri illþolandi ágengni einræðisherranna austur í Peking. Þá er farið að velja alræði öreiganna austur í Peking sama nafnið og Hitler sálugi hafði þann tíma, sem þeir voru óvinir, stundum voru þeir vinir, Stalín og Hitler, eins og þegar þeir komu sér saman um að hleypa seinni heimsstyrjöldinni af stað. Nú viðurkenni ég, að þetta er góðs viti, og ég trúi því, að það sé margt, sem horfi til betri vegar í Sovét-Rússlandi. Ég er sannfærður um það, að greindir og gegnir menn, mikilhæfir menn eins og forystumenn Kommúnistaflokksins í Sovét-Rússlandi, geta ekki farið með völdin áratugum saman án þess að læra mikið og sannfærast um það, að meginhlutinn af þeirra kreddum séu fjarstæður, sem ekki eiga neina stoð í veruleikanum. Hins vegar hef ég óttazt og óttast enn, að þessi þróun muni taka langan tíma, og enn skulum við hafa í huga, að það er minna frelsi í Sovét-Rússlandi í dag en var í Rússlandi á keisaradögunum. Þá þótti zardæmið rússneska vera ímynd hins svartasta afturhalds og þess, sem frjálsum mönnum bæri að forðast og fordæma. En ef skoðað er, þá er minna frelsi, meiri kúgun, meira ósjálfræði í Sovét-Rússlandi í dag en var á dögum zaranna. Það er þess vegna enn löng leið, sem Sovét-Rússland á eftir að fara, þangað til þar kemst á slíkt lýðræði, sem er bezta öryggið fyrir varanlegum friði.

Ég vil sannarlega trúa á hugarfarsbreytingu, sem orðið hafi hjá hinum mikilhæfu valdamönnum í Sovét-Rússlandi, og auðvitað eru þeir menn, sem nú fara þar með völd, á engan hátt sambærilegir við Stalín eða hans félaga. En það er einnig rétt að hafa í huga, að mjög mikilsverðir og reyndustu stjórnmálamenn, sem nú eru uppi, hafa látið uppi, að menn skyldu trúa hugarfarsbreytingunni varlega, vegna þess að vel kynni svo að vera, að þetta væri einungis herbragð, sú vingun við vesturveldin, sem nú virðist eiga sér stað, einungis herbragð til þess að tryggja sig gegn árás að baki, ef Kínverjar réðust að þeim framan að, ef svo má segja, að þeir vilji forðast tveggja hliða stríð, sem vitanlega er og t.d. hv. 3. þm. Reykv., jafngóður sagnfræðingur og hann er, ef hann vill láta sinn betri mann ráða, kannast við, að var plága Þjóðverja löngum, Bismarcks og hans skynsamari eftirmanna, að það sé til þess að koma sér frá því að verða þannig inniklemmdir á milli fjandsamlegra aðila, sem Rússar hafi nú breytt um taktik, en þeirra stefna sé ekki breytt. Um þetta skal ég ekkert segja. Ég vonast til þess og vil trúa því, að þarna sé raunveruleg hugarfarsbreyting. Enn vitum við það ekki. Við verðum að bíða og sjá, hvað reynslan kennir okkur í þessu. Við vitum, að Atlantshafsbandalagið og þátttaka Íslands á einum úrslitastað í vörnum bandalagsins hefur átt mjög verulegan þátt í því að friða þennan heimshluta, og það, að Sovétstjórnin sýnir vesturveldunum þá vinsemd, þá virðingu, sem hún nú gerir, kemur af því, að hún virðir samheldni þeirra og vald. Þess vegna væri það hið mesta fjandskaparbragð við friðinn, við framfarir, við heill almennings, við framtíð heimsins, ef menn nú ryfu þessi samtök og hættu að vilja leggja fram þann skerf, sem þarf til þess, að öruggum friði verði vonandi náð, áður en yfir lýkur, og tryggja það öryggi, sem nú hefur skapazt.

Það er einnig algerlega villandi, sem hv. þm. segir um stöðu Frakka í þessum efnum. Við getum haft mismunandi skoðanir á því, hversu heppilegar ýmsar aðgerðir de Gaulles séu. Ég efast mjög um, að það sé allt rétt, sem sá aldni herforingi tekur ákvarðanir um. En það er a.m.k. víst, að hann vill ekki, að Frakkland fari úr Atlantshafsbandalaginu, og þó að hann hafi sagt sig úr því, sem er kallað hernaðarstofnun innan bandalagsins, NATO í þrengri merkingu, þá leggur hann ríka áherzlu á, að bandalagið eigi að halda áfram, og vitanlega vill hann samhæfa varnir Frakklands við aðgerðir þessarar hernaðar- eða varnarstofnunar flestra hinna aðildarríkjanna. Við getum ekki sagt, að við séum eiginlegir þátttakendur í þeirri varnarstofnun, segja má, að bæði við og Frakkar höfum í þessu sérstöðu. En þó að við séum ekki beinir aðilar í varnarstofnuninni, höfum við notið góðs af henni. Með því að varnir séu á Íslandi, tryggjum við varnir bandalagsins í heild, alveg eins og de Gaulle telur, að franski herinn og hans nýju kjarnorkuvopn tryggi varnir bandalagsins eins vel eða betur en þátttaka í þessari varnarstofnun af hálfu Frakka mundi gera. Það er þess vegna síður en svo og algerlega villandi að tala á þann veg, að Frakkar eða Frakkland hafi sagt sig úr varnarbandalaginu. Þeir eru enn í Atlantshafsbandalaginu, og síðast í gær eða fyrradag var birt yfirlýsing frá þeirra fulltrúa um það, að þeir teldu, að bandalagið ætti að halda áfram, eftir að það verður 20 ára að tveimur árum liðnum. Nú getur hv. þm. sagt: Það er sitt hvað, hvað við gerum um Atlantshafsbandalagið og hvað við gerum um varnarsamninginn við Bandaríkin! Það er út af fyrir sig rétt, þetta eru tvö mál, að nokkru leyti sitt hvort málið, en eins og hann einnig tók fram, verða þau að skoðast í samhengi. Ekki verður hjá því komizt, að svo sé gert. Nú vonum við allir, að það takist fyrr en síðar að friða heiminn, svo að það sé óhætt að láta Ísland vera óvarið. Þetta verður að metast á hverjum tíma. Einmitt þess vegna er varnarsamningurinn gerður með þeim tímafrestum og einhliða uppsagnarrétti, rétti, sem Íslendingar fengu settan inn í samninginn og var algerð forsenda fyrir samningsgerðinni, vegna þess að við gerðum okkur ljóst, að ekki er hægt að sjá nema skammt fram í tímann. Þetta verður að metast af þeim, sem ábyrgð bera á stjórn landsins á hverjum tíma, eftir því sem þeirra sannfæring og þekking segir til um hverju sinni, þó að auðvitað of skjótar og of tíðar breytingar á þessu séu óhyggilegar og raunar óframkvæmanlegar.

Aðstaðan er að ýmsu leyti orðin mjög breytt frá því, sem áður var. Ég held, að það séu engar ýkjur, þó að við segjum, að Ísland sé nú ámóta sett og það væri suður í Mið-Evrópu. Það er svo mikil umferð af alls konar farartækjum, í lofti, á hafinu og í hafinu umhverfis landið, að ef menn kynna sér það, er það svipaðast eins og maður væri staddur í fjölmennum umferðarstað í stórborg, ef svo má segja. Við komumst þess vegna ekki hjá því, að meðan hættuástand er í heiminum, og það er ótvírætt, að svo er enn þá, þá eru það fjörráð við íslenzku þjóðina að skilja landið eftir varnarlaust.

Hitt er svo allt annað mál, hvernig menn vilja koma þeim vörnum fyrir, hvort menn telja á vissu stigi, að varnarábyrgð Atlantshafsbandalagsins ásamt vissum framkvæmdum og aðgerðum hér innanlands sé nóg til þess, að við þurfum ekki að hafa erlent varnarlið. Þetta er atriði, sem sjálfsagt er að skoða og kynna sér til hlítar. En ég legg áherzlu á hitt, að meðan við þurfum á raunverulegum vörnum að halda, þá skulum við ekki vera að reyna að blekkja sjálfa okkur eða aðra með því að halda, að þær varnir hætti að vera hernaðarlegar, þó að við skírum mennina, sem eiga að taka við störfum, upp og köllum þá sérfræðinga. Það, sem við verðum að gera okkur ljóst, er: Viljum við hafa varnir? Teljum við að varnir séu nauðsynlegar, ekki vegna annarra, heldur vegna okkar sjálfra? Ef við teljum, að svo sé, verðum við að hafa kjark til að segja það og framkvæma það. Þá verðum við annaðhvort að semja við aðra um það eða taka að okkur varnirnar sjálfir. En við komumst ekki hjá því með því að stinga höfðinu í sandinn eða með því einfalda ráði að fara að kalla þá, sem eiga að annast störfin, sérfræðinga, ef við Íslendingar förum að taka upp varnarstörf, hernaðarstörf, og kalla það, að við séum búnir að fá svo og svo marga sérfræðinga, sem þetta eigi að annast. Nei, ef við teljum, að Ísland verði eins og önnur þjóðlönd að hafa varnir, verðum við að hafa manndóm til þess að segja: Annaðhvort tökum við varnirnar sjálfir, og þá getið þið farið, herrar mínir, eða við verðum að semja við þann, sem víð treystum til þess að annast varnirnar. Hitt liggur svo auðvitað fyrir, að meta einnig á hverju stigi sem er: Er það óhætt vegna heimsástandsins, vegna þeirra horfa, sem eru á friði á hverjum tíma, er óhætt að láta landið vera alveg varnarlaust? Eins og ég segi, einmitt vegna þess, að við vildum áskilja okkur rétt til þess að geta kveðið á um þetta einhliða, eru þessi ákvæði í varnarsamningnum. Ekki er nema gott um það að segja og nauðsynlegt, að málið sé rætt opið og hreint öðru hverju. Þess vegna taldi ég ekki rétt að láta hv. þm. mælast hér einan við, bæði vegna þess, að málefnið sjálft þarfnast umræðna og skýringa, og einnig að vísu vegna þess, að hv. þm. hallaði mjög réttu máli í ræðu sinni.