02.03.1967
Neðri deild: 48. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í C-deild Alþingistíðinda. (1906)

116. mál, uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna

Flm. (Einar Olgeirsson) [frh.] :

Herra forseti. Ég hafði komið þar ræðu minni, sem ég hafði nokkuð rætt um Marshall-aðstoðina svonefndu, reynsluna af henni úti í Evrópu og þau áhrif, sem hún hafi haft hér heima, sérstaklega hvað snerti afskipti valdastofnana í Bandaríkjunum af íslenzku efnahagslífi. Ég held ég hafi lokið þeim hluta með nokkurri tilvísun um þá baráttu, sem háð var í kringum 1950, til þess að Íslendingar fengju frelsi til þess að byggja íbúðir, og hvernig fulltrúar og erindrekar þess bandaríska peningavalds höfðu skipt sér af því með það fyrir augnm að hindra, að samþ. yrðu lög á Alþ., sem gæfu Íslendingum nokkurt frelsi í þessum efnum, og hefði tekizt að koma í veg fyrir, að lagafrv., sem samþ. hafði verið í Nd. og viðkomandi n. í Ed. hafði einróma lagt til að samþykkja, var stöðvað og fékk ekki fram að ganga á því þingi. Ég skal ekki ræða ýtarlegar en ég hafði gert um þau áhrif, sem ameríska peningavaldið þannig hafði á okkar mál. Ég rifjaði þetta aðeins upp vegna þess, hve einhliða hæstv. forsrh. hafði rætt þessi mál.

Þá kom hæstv. forsrh. að því, hvernig hernámið 7. maí 1951 hefði gerzt, og vildi bera á móti því, sem ég hafði haldið fram, að þar hefði verið ólöglega að farið og Alþingi Íslendinga hefði staðið frammi fyrir gerðum hlut og það hefðu verið brotin lög á Alþingi. Hæstv. forsrh, varði sig með því, að það hefðu verið teknar ákvarðanir þá um vorið, kringum 7. maí, af ýmsum þm. og þar með hefði það í raun og veru legið fyrir, að Alþ. væri samþykkt þessari framkvæmd, sem þarna væri um að ræða, og þessum samningi. Nú vil ég taka það fram og styðja það rökum, sem ég vonast sérstaklega til að hæstv. forsrh. taki gild, að sú samkoma þm., sem kom saman um það leyti, í maíbyrjun 1951, og lýsti sig samþykka þeim aðgerðum, sem þarna var verið að gera, hún er stjórnarfarslega og lagalega séð alger markleysa og hefur ekkert gildi, ekki nokkurt gildi. Þegar þm. þannig koma saman, einhverjir utan þings, ég lýsa því yfir, að þeir séu með þessu eða móti hinu, þá er þetta bara rétt eins og einhverjir menn úti í bæ lýsi yfir sinni pólitísku skoðun um hinn og þennan hlut. Ég vil styðja þetta, — og það vona ég, að hæstv. forsrh. taki nokkuð gilt, — áliti manns, sem einu sinni var prófessor við Háskóla Íslands, prófessor í lögum, og hefur gefið út ágrip af íslenzkri stjórnlagafræði, og vil leyfa mér að vitna í það, sem hann segir þar. Það er hæstv. núv. forsrh., Bjarni Benediktsson, sem reit ágrip af íslenzkri stjórnlagafræði, sem gefin var út með nokkrum breytingum af Ólafi Jóhannessyni, gefin út í handriti í Reykjavík 1948. Ég býst við, að sá hluti sé óbreyttur frá því, sem hæstv. þáv. forsrh. og þáv. lagaprófessor hafði samið, enda mjög skynsamlega mælt, en þar standa á bls. 17 eftirfarandi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Áhrif þingslita eru fyrst og fremst þau, að ályktanir .þm., sem gerðar eru eftir það, en áður en þing kemur saman á ný, eru markleysa, þótt gerðar væru með sama hætti og á löglegu þingi. Með þessu er auðvitað ekki sagt um pólitískt gildi slíkra ályktana, en formlegt gildi þeirra er ekki neitt.“

Þetta sýnir, að hæstv. forsrh. hefur sem lagaprófessor haft þá mjög svo réttu skoðun, að lagalega og stjórnarfarslega séð séu slíkar yfirlýsingar þm., sem gerðar eru, þegar Alþingi situr ekki, markleysa. Hins vegar er það náttúrlega alveg hárrétt, þær koma til með að hafa seinna meir sín pólitísku áhrif, ef slíkir menn að einhverju leyti skipta ekki um skoðun. Því er það, sem ég hélt fram, að þegar Alþ. kemur saman og þm. setjast á rökstóla í krafti þess valds og þeirrar ábyrgðar, sem þeim ber, þegar eftir að Alþingi hefur verið sett, þá er ástandið þannig, að Alþ. stendur frammi fyrir gerðum hlut. Þá er amerískur her kominn inn í landið, þannig að aðstaðan er orðin gerbreytt frá því, sem ella hefði verið, ef þm. hefðu átt að taka ákvarðanir um þetta, áður en þetta gerðist. Þá er sem sé um það að ræða að sætta sig við orðinn hlut. Það er nákvæmlega sama og 7.—9. júlí 1941, þegar Alþingi er kallað saman, eftir að herinn er þegar kominn í land samkvæmt úrslitakostum, sem settir höfðu verið. Í þessum tilfellum liggur það raunverulega vald í byssustingjunum, eins og hæstv. forsrh. var að vitna í eftir ákveðnum manni. Og þegar Alþ. kom hér saman haustið 1951, lýsti ég því yfir einmitt sem þáverandi formaður þingflokks Sósfl. í upphafi þings, að ég liti þannig á, að aðgerðir Alþingis í þessum efnum væru ekki bindandi vegna þeirrar aðstöðu, sem búið væri að setja Alþingi í. Ég þykist sem sé hafa mjög góð rök í þessu máli, þar sem ég hef sjálfan hæstv. núv. forsrh. sem lagaprófessor til þess að vitna í.

Hæstv. forsrh. fór svo í þessu tilfelli að ræða um það, að einmitt núv. formaður Alþb., hv. 5. þm. Vestf., hefði verið með þessu þá. Hann var með einhverjar áhyggjur út af því, hæstv. forsrh., að það færi ekki vel á með okkur. Ég get huggað hann með því, að það er allt í bezta lagi þar, og ég vona, að það sé eins innan hans flokks, svo að þetta gangi allt saman vel hjá okkur, hvors á sínu sviði. Hv. 5. þm. Vestf. var ekki þá á þingi, hann var utanlands, og hann er kominn heim aftur núna, en er nú ekki viðstaddur, og maður veit ekki, hve langar þessar umr. verða eða hvað mikið þær koma yfirleitt aftur, en hv. 5. þm. Vestf. hefur í mjög ríkum mæli til að bera hugrekki og hreinskilni, og hann var alveg óhræddur við að taka til endurskoðunar þá ákvörðun, sem hann var með í að gera 1951. Ég er ekkert hissa á því, þó að hans pólitísku andstæðingar reyni að nota þetta á móti honum. Ég varð var við það strax í kosningunum 1956, að þetta var rétt. Og ég var einmitt staddur með honum á fundi í Hafnarfirði, þar sem því var skotið fram í, þegar hann var að halda ræðu, hvernig hefði staðið á því, að hann hefði greitt atkvæði 1951 með þessum málum. Og hann svaraði úr ræðustólnum, snöggur upp á lagið, eins og hans er vandi sem ræðumanns: Það er bezt að segja hvern hlut eins og hann gerist. Ég var þá of talhlýðinn við Alþfl. — Hann var nógu hreinskilinn og nógu hugrakkur til þess að viðurkenna, hvernig þetta hefði gerzt. Og ég vona, að þegar hæstv. forsrh. seinna meir fer að athuga alla þessa hluti og hans afstöðu í þessum málum, komist hann líka einhvern tíma að þeirri niðurstöðu og geti svarað því, þegar skotið yrði fram í til hans: Ja, þegar ég gerði þetta, var ég of talhlýðinn við Ameríkanann. — Ég vona, að þeir hv. þm., sem hafa að einhverju leyti tekið ábyrgð á þeim hlutum, sem gerzt hafa á þessum tíma, eigi eftir að sjá það, að þeir hafi þá vegna ýmissa upplýsinga og vegna ýmiss áróðurs, sem þeir hafa orðið fyrir, gert hlut, sem var rangur, en það þarf enginn maður að verða minni fyrir það að sjá seinna meir, að sér hafi skjátlazt.

Þá kom hæstv. forsrh. inn á það, að núverandi ástand og hve erfiðlega gengi að koma á friðarsamningum væri orsökin til þess, að það væri nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að hafa enn þá her í okkar landi. Þá erum við komnir alveg að nútímanum, eftir að hafa farið út í þessa löngu sögulegu rannsókn, sem hæstv. forsrh. gaf mér að vissu leyti líka tilefni til, en ég að vissu leyti líka dró á langinn. Hæstv. forsrh. sagði, að það væru ekki enn þá undirskrifaðir friðarsamningar í Evrópu og það væri höfuðástæðan til þess, að landið mætti ekki vera varnarlaust. Það, að ekki væru enn þá undirskrifaðir friðarsamningar í Evrópu, væri fyrst og fremst Sovétríkjunum að kenna. Ég er á annarri skoðun en hæstv. ráðh. um þetta efni. Ég held, að þegar við athugum ástandið í Evrópu í dag, sé það fyrst og fremst eitt ríki, sem ber ábyrgð á því, að ekki hefur enn verið hægt að undirskrifa friðarsamninga, og það ríki er Vestur-Þýzkaland. VesturÞýzkaland er nú sem stendur eina ríkið í Evrópu, sem gerir kröfur til landamærabreytinga, sem vill landamærabreytingar, sem vill ekki sætta sig við þau landamæri, sem að forminu til voru til bráðabirgða ákveðin með vopnahléssamningunum. Það eru sem stendur tvö þýzk ríki í Evrópu, eins og við köllum venjulega Vestur-Þýzkaland og Austur-Þýzkaland, eða Sambandsríkið VesturÞýzkaland og Alþýðulýðveldið, eins og það er stundum kallað, og í sambandi við þessa hluti kemur þarna spurningin um landamæri á milli Austur-Þýzkalands og Póllands. Það að fást ekki til að viðurkenna, að það séu tvö þýzk ríki í Evrópu, er eina atriðið, sem stendur enn raunverulega í veginum fyrir, að hægt sé að gera friðarsamninga. Í Vestur-Þýzkalandi hafa í mjög ríkum mæli komizt aftur til valda þær stéttir, sem áttu sökina á því, að Þýzkaland hefur tvisvar sinnum lagt út í heimsstyrjöld, þær stéttir stóriðjuhölda, sem með pólitíska ævintýramenn í broddi fylkingar hafa leitt Þýzkaland út í þessi tvö stríð, sem endað hafa svo hræðilega fyrir það ríki. Og menn taka eftir því og menn óttast það nokkuð, að ekki aðeins er þarna í þeim hópnum, sem telst þó ábyrgur um ríkisstjórn, mjög mikill áróður um hefndarþorsta og endurskoðun þessara landamæra, endurreisn þess gamla og volduga Þýzkalands, og jafnframt utan þeirra flokka, sem ábyrgð bera á ríkisstjórn, vaxandi nazismi, vaxandi tilhneiging til þess að vekja aftur þann gamla draug. Sökin á því, að friðarsamningar eru ekki undirskrifaðir enn, liggur fyrst og fremst í því, að í Vestur-Þýzkalandi er stjórn við völd, sem fæst ekki enn til þess að viðurkenna tilveru tveggja þýzkra ríkja og Oder-Neisse-landamæranna. Hæstv. forsrh. orðaði þetta svo, að það væri Sovétríkjunum að kenna. Ég veit ekki, hvernig ég á að skilja slíkt, hvort hann meini t. d., að það væri sjálfsagður hlutur af hálfu Sovétríkjanna að láta strika yfir tilveru þýzka alþýðulýðveldisins og láta færa þau takmörk, sem nú eru um Oder-Neisse-landamærin, láta færa þau austur á bóginn. Ég trúi því ekki, að hæstv. forsrh. líti þannig á þessi mál, vegna þess að það væri vissulega miklu óraunsærra en ég hef nokkra ástæðu til þess að álíta að hans skoðanir séu, heldur sé frekar hitt, að það búi nokkuð í honum frá tímum kalda stríðsins enn þá, að allt, sem illt sé, hljóti að vera komið frá Sovétríkjunum. Ég álit, að orsökin til þess, að friðarsamningar hafa ekki verið gerðir enn, sé fyrst og fremst þessi öfuguggaafstaða Vestur-Þýzkalands.

Þá kemur það spursmál upp, hvort afstaða Vestur-Þýzkalands sé hins vegar að einhverju leyti svo hættuleg, að þess vegna væri nauðsynlegt fyrir okkur að hafa hervarnir hér í landinu. Það væri tvennt til í sambandi við það: Í fyrsta lagi það, að menn álitu, að Vestur-Þýzkaland væri á núverandi stigi svo hættulegt, að af því gæti stafað hætta fyrir Ísland. Ég álít, að svo sé ekki. Ég álit, að þrátt fyrir ýmsar slæmar tilhneigingar, sem vart verður við, sérstaklega í hægri armi Kristilega demókrataflokksins, þrátt fyrir það, að nazistískum flokki hafi aukizt mjög fylgi þarna í Þýzkalandi, sé það ekki komið á neitt slíkt stig, að við gætum með neinni sanngirni talað um, að Íslandi stafaði bein hætta af Vestur-Þýzkalandi, þannig að þess vegna væri nauðsynlegt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að hafa hér her. Það er svo ákaflega langt frá því, að VesturÞýzkaland sé komið á það stig, sem t. d. Þýzkaland var á eftir valdatöku Hitlers. Svo verðum við að athuga hitt alveg raunsætt, að ef um eitthvað slíkt yrði að ræða, væri náttúrlega alveg fjarri lagi, að það væri einhver bót að því fyrir okkur að vera í hernaðarbandalagi við þetta Vestur-Þýzkaland. Ef við álítum, að hættan fyrir Ísland stafaði frá því, þá væri það náttúrlega alveg stórhættulegt og gæti bókstaflega þýtt að dragast inn í ævintýri með því.

Ég held, að þarna hafi aðeins eimt eftir af gömlum áhrifum frá áróðri kalda stríðsins hjá hæstv. forsrh., það geti vart verið hans meining t. d., að Íslandi stafi í dag hernaðarleg hætta af Sovétríkjunum. Ef hann væri þeirrar skoðunar, væri hann einn af þeim alfáu stjórnmálamönnum í Evrópu, sem litu þannig á, og það væri mjög illa farið, ef röksemdir þess gamla kalda stríðs væru svo ríkar í honum enn. Ég held þess vegna, að við verðum að ganga út frá því sem sjálfsögðum og eðlilegum hlut, að jafnvel þó að friðarsamningar séu ekki undirskrifaðir enn þá, sé sú hætta á ófriði í Evrópu, sem ýmsir vildu álfta mjög ríka, við skulum segja fyrir 10—15 árum, ég tala nú ekki um fyrir 20 árum, ekki lengur fyrir hendi og sé ekki heldur nein röksemd frá þeirra manna sjónarmiði, sem álíta hana einhverja röksemd fyrir því að hafa her hér á landi. Ég hef hins vegar margtekið það fram og þarf ekki að gera það einu sinni enn, að ég álít ákaflega fjarri, að svo sé. Ef slík stríðshætta væri, eins og atómvopnin hafa þróazt síðan síðasta stríði lauk, þá væri þvert á móti aðeins hætta fyrir Ísland fólgin í því að hafa hér herstöð, en engin vernd.

Þá kem ég að síðustu spurningunni, síðasta vandamálinu, sem ég vil ræða að sinni í þessu sambandi, og það er þegar hæstv. forsrh. segir, að það væri fjandskaparbragð við friðinn og við framtíð heimsins o.s.frv. og segir meira að segja, að það væri fjörráð við íslenzku þjóðina að skilja landið nú eftir varnarlaust. Mér finnst bókstaflega liggja í þessum orðum hjá honum, að hann vilji ganga út frá því, að á Íslandi eigi að vera svo að segja að eilífu amerísk herstöð eða a.m.k. eins langt og við sjáum fram nú. Við vitum það ósköp vel, hve órólegur sá heimur er, sem við lifum í. Við vitum hins vegar jafnframt, að meginið af þeim óróa, sem getur leitt til stríðs, fer fram í þeim nýja heimi, og eins og þróunin hefur orðið í Evrópu og Norður-Ameríku, munu vart nokkrir ábyrgir stjórnmálamenn reikna með því lengur, að þeim ríkjum, sem þar eru voldugust, eigi eftir að lenda saman í stríði.

Hins vegar þykir manni ekki líklegt, að eftir þá reynslu, sem Evrópa hefur haft af imperíalistískum tilhneigingum í Vestur-Þýzkalandi og Þýzkalandi yfirleitt, verði þróunin látin verða slík, að aftur geti orðið hætta á því, að Vestur-Þýzkaland efni til styrjaldar í Evrópu. Ég held, að áður en til slíks kæmi, yrðu mynduð slík samtök þar, að það væri vonlaust fyrir Vestur-Þýzkaland að hugsa til slíks. Hins vegar er gefið mál, að hún getur tekið mjög langan tíma, sú þróun að verða á friðsamlegan hátt að sætta þær þjóðir og þau ríki, sem eru í Mið-Evrópu, við það, að þau landamæri, sem nú hafa verið í rúm 20 ár, haldi áfram, þannig að við vitum ekkert, hvenær slíkir friðarsamningar yfirleitt verða gerðir, formlegir friðarsamningar, og ef ætti þess vegna að nota það áfram sem átyllu, — það getur vafalaust dregizt önnur 20—25 ár, — þýðir það bókstaflega, að við göngum út frá, að hér eigi að vera um ófyrirsjáanlega framtíð amerísk herstöð. Ég held þess vegna, að þetta, sem þarna kom fram hjá hæstv. forsrh. í þessu efni, sé mjög alvarlegt mál. Vera má, að hann sé í ríkari mæli haldinn enn af áhrifum kalda stríðsins heldur en ýmsir aðrir stjórnmálamenn, og væri það mjög slæmt. Það væri ákaflega nauðsynlegt fyrir okkar land, ef einmitt hæstv. forsrh. með þeim völdum og þeirri aðstöðu, sem hann hefur, endurskoðaði mjög rækilega, eins og flestir aðrir stjórnmálamenn Evrópu hafa gert, sinn hug í þeim efnum. Ég held, að hæstv. forsrh. gerði mjög rétt í því að setja sig ekki á eins háan hest og hann gerði í sinni ræðu til mín. Ég held, að honum sé alveg óhætt í fyrsta lagi að athuga þann hlut mjög raunsætt, að Ísland þurfi að losa sig við þær amerísku herstöðvar, og þau rök, sem hann hafi fært fram, séu ekki lengur í gildi í þeim efnum. En sérstaklega vildi ég þó mælast til, af því að hann byrjaði sína ræðu með því, að hann reyndi ekki að gera gys að því hjá okkur Íslendingum, að við gætum reynt að vera að einhverju leyti aflögufærir með hugmyndir á alþjóðavettvangi. Ég held, að við eigum ekki að líta svo smátt á okkur. Án þess að fara yfir í nokkurt stærilæti eða nokkuð slíkt, held ég, að við sem smáþjóð höfum okkar hlutverki í þessum efnum að gegna. Það er nú einu sinni svo, rétt eins og með barnið, sem ljóstraði upp um nýju fötin keisarans, að það er oft, að þeir smáu geta leyft sér að segja þá hluti, sem þeir stóru í heiminum geta ekki, m.a. vegna þess, hve stórveldin í heiminum hafa ákaflega ríka tilfinningu fyrir sínu valdi, og það, sem gæti að einhverju leyti orðið þeim þannig til minnkunar eða slíkt, hefði svo óskapleg áhrif á þeirra álit út á við. Við getum miklu frekar leyft okkur, smáþjóðirnar, að segja það, sem okkur býr í brjósti. Þó að stundum kynni það að vera rangt, hefði það engin afskapleg áhrif. En það gæti líka alveg eins verið, að smáþjóðirnar kæmu fram með hluti, sem hefðu mikið gildi fyrir mannkynið.

Hæstv. forsrh. hafði sérstaklega gert að umtalsefni till., sem ég hafði flutt, bæði nú á þessu þingi, sem ekki er komin til umr., eins og ég tók fram í byrjun minnar ræðu, um alþjóðlegt samstarf gegn alþjóðlegum auðhringum, og hins vegar till. um samstarf þeirra rændu þjóða gegn þeim ríku. Ég vil minna hæstv. forsrh. á, að einmitt fyrir okkur Íslendinga sem gamla nýlenduþjóð eða þjóð, sem hefur orðið að þola öll kjör nýlenduþjóðar, þó að hún hafi aldrei viljað viðurkenna, að hún væri nýlenda, er ekkert óeðlilegt að taka slíka hluti upp á alþjóðavettvangi. Þegar ástandið er orðið þannig í heiminum, að t.d. Bandaríkjaþjóðin ein, sem telur 6% af íbúum jarðarinnar, ræður yfir 60% af öllum auðæfum heimsins, er vissulega tími til kominn, að þjóðir heimsins athugi, hvernig er með skiptingu gæða jarðarinnar á milli þeirra, eða hins vegar, þegar 14% af mannkyninu neyta um 80% af allri neyzlu mannkynsins, en 86% af mannkyninu eiga að búa við 20% af allri neyzlunni, þá sjáum við, hvað slík misskipting er orðin hættuleg, svo að það er ekkert óeðlilegt, þó að við, sem höfum þá reynslu í þessum efnum úr okkar sögu, einmitt þá reynslu, sem núna brennur hvað sárast á baki gömlu og nýju nýlenduþjóðanna, við látum til okkar taka á þessum vettvangi. Það hefur gerzt síðan við vorum í þessum deilum okkar síðast, hæstv. forsrh. og ég, að einmitt einn af fremstu fulltrúum Bandaríkjaþings hefur heimsótt okkur hér á Íslandi, öldungadeildarmaðurinn Fulbright, formaður utanrmn. öldungadeildarinnar og meðlimur í þeirri utanrmn, síðustu 20 ár og meira, undir stjórn bæði Roosevelts, Trumans, Eisenhowers Kennedys og Johnsons, einn af virtustu fulltrúum Bandaríkjaþjóðarinnar á alþjóðavettvangi, maður, sem bar gæfu og hafði hugrekki til þess, þegar þing Bandaríkjanna sökk dýpst í áróðri út af kalda stríðinu og MacCarthyisminn var harðvítugastur þar, þá var það senator Fulbright, sem einn i öldungadeildinni greiddi atkv. á móti þeim heimildum, sem MacCarthy og hans stefnu voru gefnar og óamerísku nefndinni. Og hvaða boðskapur var það alveg sérstaklega, sem þessi einn af beztu fulltrúum Bandaríkjaþjóðarinnar flutti okkur hér á Íslandi, þegar hann talaði til okkar hér í háskólanum nú nýlega? Hann varaði annars vegar stórveldi heimsins við þeim hroka og yfirlæti, sem valdi þeirra fylgdi, og hefur einmitt sjálfur skrifað bók, sem hann kallar Hroka valdsins, þar sem hann alveg sérstaklega ræðir ekki sízt utanríkismálin á síðustu árum.

Ég veit ekki, hvort ég geri hæstv. forsrh. rangt til, þegar ég segi við hann, að ég álíti, að honum hætti til að gera of mikið úr og meta of mikils þannig hlutverk valdsins, ekki vegna þess að ég viðurkenni ekki, hve mikið valdið sé og hrottalegt. En hins vegar öll tilhneiging til þess að dýrka valdið, það er eitt af erfiðustu vandamálum, sem við höfum við að berjast í heiminum nú sem stendur, og það er það, sem ekki sízt fyrir okkur, sem tilheyrum þeim smáu í heiminum, kemur alltaf til með að standa í mótsetningu við það, sem við álítum höfuðatriðið að vinna að, það að skapa meiri hamingju á meðal mannanna, gera mennina betri og annað slíkt. Þarna á milli verður í sífellu sú mótsetning, sem mun koma fram í öllum atriðum, þegar verið er að ræða þessi mál.

Ég veit, að Bandaríkin eru sterk, og ég þykist vita, að okkar stjórnendur hafi mjög ríka hugmynd um það vald. Og vissulega erum við alveg máttvana gagnvart því valdi. Það eina, sem við höfum á móti slíku valdi, er skírskotun til eiginleika, sem eru af allt öðru sauðahúsi en valdið, skírskotun til mannréttinda, til réttlætis, til annarra eiginda, sem máske stundum mega sín ekki mikils gagnvart valdinu, en þegar öllu er á botninn hvolft, eru æðri og nauðsynlegri fyrir mennina, og sérstaklega er nauðsyn á, að mennirnir kunni að meta þær eigindir hærra en valdið. Ég held, að einmitt það erindi, sem Fulbright öldungadeildarmaður átti til okkar hvað þetta snertir, að benda okkur á þann hroka, sem stórveldin fylltust stundum vegna þess valds, sem þau hafa, þessi ábending hans hafi verið í samræmi við annað, sem var höfuðþátturinn í hans ræðu, og það var skírskotunin um hlutverk smáþjóðanna. Í þeirri ræðu, sem hann hélt í háskólanum, sagði hann um þessa hluti, með leyfi hæstv. forseta, — það var því miður ekki á íslenzku, og það verður þess vegna meira endursögn en nákvæm þýðing, — hann segir þar á einum stað, að smáþjóðirnar, sem finni til sinnar smæðar, hafi tilhneigingu til þess að vanmeta það vald, sem þær hafa, og afhendi þannig — og geri villu þar með — stórþjóðunum valdið, en stórþjóðirnar hafi einmitt tilhneigingar til þess að gera of mikið úr sínu eigin valdi eða ábyrgð, eins og þær vilja kalla það, þær taki á móti þessari gjöf smáþjóðanna eins og einhverju, sem þeim beri. Og hann fjölyrðir síðan nokkuð um, hve slæmt þetta sé, talar um, að einmitt á meðal smáu landanna, þar sem margir af leiðtogunum séu meðal reyndustu, bezt hæfileikum búnu og raunsæjustu stjórnmálamanna heimsins, hafi þeir ekki þau áhrif á þróunina í heiminum, sem þeir voru færir um.

Ég held, að hæstv. ríkisstj., alveg án tillits til þess, sem við kunnum að deila um, og þeirrar pólitísku andstöðu, sem á milli okkar er, eigi að líta þannig á, að einnig hún hafi hlutverki að gegna á alþjóðlegu sviði, einnig frá henni eigi að geta komið till., sem geti orðið að gagni fyrir alþjóð manna, t.d. á þingum Sameinuðu þjóðanna.

Fulbright öldungadeildarþm. sagði enn fremur í sinni ræðu, að fulltrúar smáþjóðanna litu oft svo á, að þeir gætu ekki hagað sér sjálfstætt, vegna þess að þeir ættu á hættu, að það yrðu gerðar gegn þeim pólitískar, efnahagslegar eða aðrar ráðstafanir. Hann sagði, að í mörgum tilfellum hefði hið stóra land ekki einu sinni þurft að koma fram með neina hótun, bara sú staðreynd, að það kynni að gera eitthvað óvinsamlegt, væri nægileg til þess að fá lítinn nágranna þess til þess að gera það, sem hann héldi, að væri þeim stóra helzt að skapi. Og síðan segir hann orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég hef ekki mikla samúð með svona afstöðu af hálfu smáþjóða. Fyrir utan þá staðreynd, að þetta er ekki hugrakkt, er það heldur ekki rétt. Á síðustu árum hafa smáríki, sem hafa farið sína eigin leið eða jafnvel staðið uppi í hárinu á stórveldum, þá sögu að segja, að þau hafa komizt áfram með það. Og ég tek sem dæmi Mexíkó, Júgóslavíu, Rúmeníu, Kúbu, Kambodíu, og ég vona, að ég megi bæta Íslandi við.“

Ég held, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki fengið öllu betri áskorun og eggjan til þess að sýna verulegt sjálfstæði á sviði alþjóðamála heldur en frá þessum formanni utanrmn. Bandaríkjaþings í þessari ræðu. Og enn segir þar áfram, með leyfi hæstv. forseta:

„Það er samt sem áður ekki endilega með því að ögra hinum miklu löndum, hinum stóru löndum, þó að það geti líka verið nytsamlegt, heldur með því að hafa þau góðu og raunsæju áhrif þeirra, sem eru lausir við mikillætið, að smátt ríki eins og Ísland getur haft áhrifamiklu hlutverki að gegna í heimsmálum.“

Og síðan telur hann upp ýmislegt í því sambandi og minnist þar m.a. á, að smáþjóð eins og Íslendingar gæti haft forustu, sem stórveldin vegna innbyrðis andstöðu sinnar og keppni eru útilokuð frá að veita. Hann undirstrikar það nú, ég skal ekki halda því áfram, líka vegna þess að sú ræða, sem hann flutti, var það góð, flutt á það góðu máli, að hún ætti sízt að vera þýdd, án þess að hægt væri að liggja yfir því, hún verðskuldar að þýðast á íslenzku öll á verulega gott mál, en mér fannst, að einmitt þessi hvöt, sem þarna kom fram til okkar, væri okkur lærdómsrík og væri svo að segja orð í tíma töluð. Fulbright öldungadeildarþm. sagði í ræðu sinni enn fremur, að smáu ríkin gætu hjálpað til að skapa samfélag í heiminum með því að yfirvinna vanmáttartilfinningu sína, stórveldin gætu hjálpað til hins sama með því að yfirvinna sinn hroka. Og hann hélt þannig áfram, og ég skal ekki fara að rekja það lengra, hélt áfram þessum aðvörunum, sem eru til sérstaks heiðurs fyrir mann, sem sjálfur á sæti og það eins hátt sæti og hann á hjá voldugustu þjóð heimsins, og þá er það alveg sérstaklega ánægjulegt fyrir okkur að fá slíka eggjun til þess að reyna, þó að smáir séum, að láta til okkar taka í samfélagi þjóðanna.

Ég held þess vegna, að hvernig sem okkur gengur nú að koma okkur saman um þetta mál, sem hér liggur fyrir, — ég býst við, að það verði kannske ekki á þessu þingi, — ættum við þó að geta komið okkur saman um hitt, sem eftir er að ræða hér, að það sé siður en svo fráleitt, heldur þvert á móti æskilegt, að við Íslendingar gætum lagt eitthvað af mörkum til heimsmálanna, ekki sízt þegar helztu vandamálin í þeim málum eru orðin andstæða milli þeirra mörgu fátæku þjóða heims og hinna fáu ríku. En ef við eigum að geta gert slíkt, er ég hræddur um, að eitt af því fyrsta, sem við verðum þó að hafa manndáð til, sé að gera hreint fyrir okkar eigin dyrum, sýna það, að við séum alveg ósmeykir við það, sem hin voldugu Bandaríki kynnu að hugsa, og segja þeim, að nú séu þeir búnir að hafa sínar herstöðvar hér nægilega lengi, þær forsendur, sem þeirra eigin fulltrúar hafa álitið, að væru fyrir hendi, þegar þeir fóru fram á þessar herstöðvar og knúðu þær fram, séu nú fyrir löngu brott fallnar, og það sé komið svo friðsamlegt ástand í Evrópu, að það sé engin ástæða fyrir Íslendinga lengur til þess að hafa af því þann baga, sem við höfum að hafa þessar herstöðvar.