13.12.1966
Neðri deild: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (191)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Hv. 5. þm. Norðurl. v. gat þess við 2. umr. þessa máls, að við mundum við 3. umr. flytja brtt. við þetta frv., þar sem þess yrði freistað að fá nokkuð hækkað það framlag til sjóðsins, sem gert er ráð fyrir í frv. Þessar till. höfum við nú flutt á þskj. 155, og eru þær við 4. gr. Er í þessum brtt. okkar gert ráð fyrir, að 50 millj. framlagið, sem gert er þar ráð fyrir, stofnframlagið úr ríkissjóði til framleiðnisjóðs, verði hækkað úr 50 millj. kr. upp í 70 millj., þannig að fjármagn sjóðsins til framleiðnilána og framleiðnistyrkja verði 50 millj. kr., þó að teknar hafi verið 20 millj. til annarra nota. En við gerum jafnframt ráð fyrir því, að þetta framlag skiptist á fleiri ár en gert er ráð fyrir í frv., þannig að það verði greitt á 5 árum í stað þriggja, árunum 1967–1971. Hv. 5. þm. Norðurl. v. hefur að öðru leyti gert grein fyrir því, hvers vegna við flytjum þessa till., og skal ég ekki hafa um þetta fleiri orð.