16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 349 í C-deild Alþingistíðinda. (1916)

116. mál, uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna

Flm. (Einar Olgeirsson) [frh.] :

Herra forseti. Ég var kominn að lokum ræðu minnar, þegar ég varð að gera hlé síðast. Það atriði, sem ég átti fyrst og fremst eftir að ræða við hæstv. forsrh., var það, sem hann kom inn á, að við fulltrúar Alþb. hefðum tekið ábyrgð á vörnum landsins með setunni í vinstri stjórninni 1956—1958. Ég verð nú að segja það, að með þeirri virðingu, sem ég ber fyrir lögfræðikunnáttu hæstv. forsrh., má það vera alveg rétt, á því hefur hann miklu betur vit en ég, að frá ströngu lagalegu sjónarmiði kunni þetta svo að vera. En ég verð að segja það, að svo framarlega sem því er þannig háttað, að í hvert skipti sem einhver aðili situr í ríkisstj. taki hann þar með ábyrgð á öllu því ástandi, sem fyrir er í þjóðfélaginu, þegar hann sezt í ríkisstj., þá verður allundarlegt það, sem út úr því kemur. Við sósíalistar og aðrir, sem nærri okkur standa í stjórnmálum, höfum langa lengi barizt fyrir því að breyta ýmsu í auðvaldsskipulaginu, sem við köllum svo. Við höfum barizt á móti vissu ranglæti og öðru slíku, sem þar er í. Á að kalla, að í hvert einasta skipti, sem slíkir aðilar taka þátt í ríkisstj., taki þeir líka ábyrgð á þessu öllu saman, þó að þeir einmitt fari í ríkisstj. til þess að reyna að breyta þessu? Ég held, að þrátt fyrir mikla virðingu fyrir lögspeki og slíku verði maður að álíta þetta næstum því orðhengilshátt, eða þá hitt, ef þetta er lögfræðilega séð alveg rétt, sem ég skal alls ekki endilega mótmæla, verður maður bara að gera lítið úr því, hvað þessi lagabókstafur hafi að þýða fyrir mann. Það nær náttúrlega ekki nokkurri átt að taka þá afstöðu í einum stjórnmálaflokki, að menn þori aldrei að vera í ríkisstj., ef þeir fá ekki allt í gegn, ef við viljum breyta því þjóðfélagi, sem finnast í hinir og þessir gallar. Vissulega var þetta til einnig í þeirri sósíalistísku hreyfingu og eimir nokkuð eftir af því enn þá, að menn mættu helzt aldrei fara í ríkisstj. án þess að geta þurrkað burt allt, sem væri óréttlátt í þjóðfélaginu. En það er satt að segja löngu horfið. Það eru engir, sem halda slíku áfram, og hvort sem það hefur við einhvern lagaskilning að styðjast eða ekki, hefur það í raun og veru hverfandi litla pólitíska þýðingu.

Alþb. gerði það alveg upp við sig á sínum tíma, það var samið um það, að herinn skyldi látinn fara úr landi burt, þegar stjórnin væri mynduð. Þeir tveir flokkar, sem við mynduðum stjórnina með, breyttu þarna um skoðun og álitu, að það væri ekki hægt fyrir þá að framkvæma það. Það var þannig með fleiri atriði í þeim samningi. Við höfðum líka samning — og Alþfl. stóð ekki síður að honum en við — við Framsfl. um, að þeir skyldu breyta kjördæmaskipulaginu. Við vorum ekki heldur búnir að fá því framgengt, áður en vinstri stjórnin var sprengd af hálfu Framsfl. Og stjórnmálalega séð hlýtur maður, hvernig sem lagalega hliðin kann að líta út, alltaf að meta þetta út frá því, með hverju móti maður getur gert sinni stefnu og sínu landi mest gagn eftir því, hvort menn sitja í ríkisstj. áfram eða ekki. Það, sem gerði útslagið 1958 hjá okkur í þessum efnum, var, að við vorum að berjast um annað stórt sjálfstæðismál þjóðarinnar, það var landhelgismálið. Og við vildum ekki hlaupa frá því máli, heldur reyna að koma því máli í gegn. Við hefðum raunverulega, ef við hefðum hlaupið úr ríkisstj. þá, á vissan máta brugðizt því sjálfstæðismáli, þannig að við urðum að gera þetta upp við okkur og gerðum það hreinlega upp. Það er alveg rétt, hæstv. forsrh. vitnar í það, við hlutum ýmsar ádeilur fyrir þetta. Það hlýtur maður alltaf, þannig að þarna verður maður bara sem stjórnmálamaður og stjórnmálaflokkur að meta á hverjum tíma, hvað manni finnst rétt í slíkum efnum.

Svo að lokum viðvíkjandi því máli, sem hér er um að ræða. Að mínu áliti eru meira að segja forsendurnar, sem sjálfir forsvarsmenn þessa hernámssamnings höfðu 1951, brostnar, þannig að meira að segja frá þeirra sjónarmiði ætti að geta orðið samkomulag um að láta herinn fara af landi burt. Ég verð að segja, ef menn halda því fram, að það sé ástæða til að hafa amerískan her á Íslandi í dag, hvenær álíta menn þá ástæðu til þess, að hann sé ekki? Þegar Atlantshafssamningurinn var gerður 1949, var því lýst yfir, að þetta þýddi alls ekki, að það yrði her hér a.m.k. á friðartímum. Og ég man jafnvel ekki betur en þáv. forsrh. segði, að ef það væri um það að ræða að láta herstöðvar í té með þessum samningi, þyrfti ekkert að ræða meira um þennan samning, hann kæmi ekki til samþykktar hér. Ég er hræddur um, að ef menn eru inni á því, að það sé nauðsyn á að hafa ameríska herinn hérna í dag, komi menn til með að verða fylgjandi því að hafa hann hér um marga áratugi enn þá. Við skulum ekki búast við, að það verði miklu rólegra úti í þeim stóra heimi heldur en er í dag, því miður. Þess vegna er ég hræddur um, að ef Ameríkanar eiga að geta treyst á það, að stjórnarvöld á Íslandi standi með því, að herinn sé hér eins og nú standa sakir, geti þeir nokkurn veginn treyst á að fá herstöðvarnar hér til 99 ára, eins og þeir ætluðu sér 1945. Þess vegna held ég, að tími sé kominn nú til þess að segja þessum samningi upp, og legg eindregið til, að þessi hv. d. samþykki okkar frv. þar um.