16.03.1967
Neðri deild: 55. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í C-deild Alþingistíðinda. (1917)

116. mál, uppsögn varnarsamnings milli Íslands og Bandaríkjanna

Forsrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég geri ráð fyrir, að þingheimur undri sig á því, af hverju ég hef þreytt þessar kappræður við hv. 3. þm. Reykv., enda er það ljóst, að áhugi manna á hans máli og þá svari við því er hér ekki ýkjamikill, svo sem skiljanlegt er. En það kemur tvennt til. Annars vegar, að hv. þm. er nú að eigin sögn að kveðja Alþ., og mér sýnist þess vegna eðlilegt að sýna honum nokkra virðingu undir lokin, og þá ekki síður hitt, að það mál, sem hér um ræðir, er eitt af hans helztu kappsmálum, og þar reynir hann að tefla fram allri sinni snilld í málssókn og þeirri þekkingu, sem hann oft hampar, að hann hafi umfram aðra þm. Við höfum oft heyrt hann í orðræðum bregða öðrum mönnum um vanþekkingu og þeir hefðu ekkí næga almenna menntun til þess að standa í deilum við svo fjölfróðan mann sem hv. þm. telur sjálfan sig. En einkanlega hefur þetta þó komið í ljós, þegar tal hefur borizt að sagnfræði. Hann er sjálfur lærður sagnfræðingur að mennt og hefur óspart hampað þeirri þekkingu sinni og brugðið bæði mér og öðrum um það, að við hefðum ekki mikið að gera við að sækja í klærnar á sér, þegar talið bærist að þeim hlutum. Einmitt þess vegna hefur mér þótt og þykir enn ástæða til þess að rekja sagnfræðina, sem hv. þm. hampar svo mjög, nokkru rækilegar en hann hefur sjálfur gert, því að þar kemur þá fram allt önnur mynd og allt aðrar staðreyndir en hv. þm. vill vera láta.

Hv. þm. byggði mjög mál sitt á því, að ekki væri mikið að marka það, þó að hann hefði breytt um skoðun á varnarmálum, það sýndi ekki, að hann teldi hlutleysisyfirlýsinguna í sjálfu sér ómerka eða gagnslausa, það hefði einungis verið algerlega tímabundið ástand, frá því að Hitler tók við völdum, þangað til veldi hans var eytt, sem það hefði átt við, sú kenning, þær fullyrðingar, sem ég vitnaði hér til áður, um það, að Ísland yrði að vera í varnarbandalagi, einmitt við þau lönd, sem nú eru aðaluppistaða Atlantshafsbandalagsins. Hv. þm. sagði, að þangað til Hitler komst til valda hefðu menn trúað á þingræði og lýðræði, haldið, að það væri orðið grunnmúrað og ekkert að óttast og því væri m.a. óhætt að fylgja hlutleysisstefnunni, sem hefði verið óhögguð í gildi.

En það er nú svo, að einnig í þessum efnum fer hv. þm. með mjög villandi fullyrðingar. Ég skal ekki rekja það, sem flokksmenn hv. þm. hafa um þetta sagt fyrr og síðar almennt, heldur einungis vitna í nokkur af hans eigin ummælum, sem ég tel þess virði að geymist einnig í þingtíðindum.

Þannig var það, að 1927, löngu áður en Hitler kom til valda, þá skrifaði hv. þm. grein, sem birtist í 1. og 2. hefti Réttar 1927, á bls. 214—215, þar sem hv. þm. segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Rússneska byltingin er upphaf heimsbyltingar. Síðan 1917 er heimurinn klofinn í tvær hersveitir, sem andvígar standa hvor annarri og munu berjast, unz yfir lýkur, annars vegar verkalýður heimsins með alþjóðasamband kommúnista í broddi fylkingar og Ráðstjórnarríkin sem öruggasta vígi, hins vegar auðvald heimsins með Bandaríkin sem bakhjarl. Róstum og skærum, er öðru hvoru verða að skaðræðisstríðum, mun ekki linna milli þessara tveggja afla, fyrr en annað hvort ber sigur úr býtum. Aðalskylda allrar alþýðu er nú að búa sig undir þessa orrahríð, og þar má margt af rússnesku byltingunni læra.“ Í sömu grein segir hann enn fremur:

„Verkalýðurinn verður að vera sterkur, samtök hans verða að vera þroskuð í ótal eldraunum, verkföllum, kosningum, smáskærum. Verkalýðurinn verður að þekkja vald sitt, hafa samtök til að nota það og þora að beita því vægðarlaust: `

Í þessari sömu grein segir hv. þm. enn fremur nokkru síðar:

„Styrjöld er óhjákvæmileg, á meðan auðvaldið er ekki brotið á bak aftur.“

Þetta var skoðun hv. þm. löngu áður en Hitler náði nokkrum teljandi áhrifum í Þýzkalandi og áður en menn bjuggust við, að þingræði og lýðræði væri í nokkurri hættu í þessum hluta heims, a.m.k. af hálfu skoðanabræðra Hitlers. En það var í hættu af hálfu annarra, því að hv. 3. þm. Reykv. skrifaði í Rétt, sem birtist á árinu 1928, með leyfi hæstv. forseta:

„Þingræðið með öllu masi þess og þvaðri, hrafnafundum og hrossaprangi er stofnun, sem fáir munu telja vænlegan grundvöll til sigurs voldugum hugsjónum.“

Og hann heldur áfram:

„Út um lönd er þingræðið nú hin síðasta blekking auðvaldsins.“

Það var ekki svo, að Hitler væri upphafsmaður fjandskapar við þingræðið á þessum tímum. Aðalfjandskapurinn við þingræðið hófst 1917 með áhrifum kommúnista í Rússlandi, og hv. þm. gerði sig fremsta talsmann fordæmingar á þingræðinu hér á landi löngu áður en nazistar náðu völdum. Og það var síður en svo, að hv. þm. þyrfti að læra gildi valdbeitingarinnar af nazistum, því að í Rétti sem kom út 1930, 1. hefti,. á síðu 60—61, segir Einar Olgeirsson, með leyfi hæstv. forseta:

„Ólíklegt er, að íslenzkir alþýðumenn séu nú orðnir slíkir ættlerar og vesalingar, að þeir ekki þyrðu að grípa til þess eina vopns, sem þeim var eftirskilið til að ná rétti sínum, gripa til valdsins. Ekkí hikuðu fornmenn þeir, er órétti voru beittir á þingi eftir Njálsbrennu, að grípa til vopna, þegar lagaleiðin ekki dugði, til að ná rétti sínum.“

Þetta er ekki boðskapur Hitlers, þetta er boðskapur Einars Olgeirssonar. Hann stendur óhagganlega skráður í þessu tímariti, sem hv. þm. hefur skrifað svo mikið í. Hv. þm. var þarna fyrir löngu búinn að missa trúna á vopnleysi og hlutleysi og því, að styrjaldir væru úr sögunni, eða þingræði væri lausn allra mála. Hann var einmitt fyrstur og öflugastur talsmaður þess á Íslandi, að styrjaldir væru óhjákvæmilegar, að valdbeitingin, en ekki þingræðið, ætti að skera úr, því að á þingræði væri ekki fremur að byggja en hverju öðru þvaðri og masi, eins og hv. þm. kemst svo smekklega að orði. Sumum finnst nú, að hann hafi töluvert lýst sínum eigin þingferli, þegar hann talar um masið sem aðalinnihald þess, sem gerist á þingfundum.

Það er einnig rétt hér að vitna til þess, sem hv. þm. skrifaði síðar um þessi mál. Þá var Hitler að vísu kominn til valda, en hann hafði engu breytt um skoðun hv. þm., að því er glögglega kemur fram í því, sem ég nú skal lesa, heldur einungis staðfest það, sem hv. þm. taldi sig ætíð hafa vitað. Í grein, sem hv. þm. skrifaði í Þjóðviljann og birtist hinn 3. september 1937, segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar Ísland fékk sjálfstæði sitt, lifðu menn víðast hvar í vímu hins nýfengna friðar. Ísland lýsti yfir eilífu hlutleysi. Draumsjónir Wilsons yfirgnæfðu veruleikann, sem undir bjó, og menn héldu, að síðasta stríð væri búið, héðan af yrði ekki skoríð úr málum með vopnum og ofbeldi. Þjóðabandalag, réttur smáþjóða, afvopnun, voru orðin, sem hljómuðu í allra eyrum. Á þessum alþjóðagrundvelli fagurra orða var sjálfstæði Íslands reist. Á traustinu á því, að engin þjóð gerðist slíkur níðingur að ráðast á vopnlaust land, var hlutleysi Íslands byggt. Og eina raunhæfa tryggingin var brezki flotinn, traustið á því, að Bretland mundi ekki láta aðra taka Ísland frá sér.“

Í þessari grein lagði hv. þm. sérstaka áherzlu á það, sem nú skal segja:

„Nú er þessi grundvöllur hruninn. Á fögrum orðum „þjóðaréttar“ byggir enginn heilvita maður raunhæfa pólitík.“

Þetta sagði hv. þm. 1937. 10. marz 1939 segir hv. þm. í Þjóðviljanum, með leyfi hæstv. forseta: „Það er rétt eins og Íslendingar líti svo niður á land sitt, að þeim finnist sem það væri ekki þess vert, að nokkurt stórveldi ágirntist það.“ Þessa grein kallaði hv. þm. „Í sælu fáfræðinnar og yfirdrepskaparins“. Þegar menn heyra túlkun hv. þm. á þessum atburðum nú, verður maður að segja, að hann lýsir býsna vel sínum eigin ferli með þessum orðum, þ.e.a.s. síðara orðinu. Það er ekki hægt að gruna hv. þm. um fáfræði í þessum efnum. Hann gerði sér strax ljóst, að hlutleysið var einskis virði, að styrjaldir voru enn yfirvofandi. Hann segir að vísu nú: Við vorum eingöngu hræddir við nazista-Þýzkaland. — En eins og ég segi: Þær yfirlýsingar, sem ég las áðan, voru allar gefnar löngu áður en nazistar tóku við völdum.

Og það hafði — og ég fullyrði: með vitund hv. þm. — löngu áður komið fram áhugi allt annars stórveldis á Íslandi heldur en Þýzkalands. Ég skal ekkert efast um það, að nazistar hefðu gjarnan kosið að ná yfirráðum á Íslandi, en það var einvaldsherra í öðru stórveldi, sem óumdeilanlega fyrstur hafði bent á hernaðarþýðingu Íslands. Hv. þm. minntist ekki nú í sinni löngu ræðu á tilraunirnar til þess að gera lítið úr frásögn hans látna vinar, Hendriks Ottóssonar, sem hann var þó að burðast við í fyrri ræðum sínum. Nú sleppti hann því, og sýnir það vissa hófsemi í málflutningi, meiri en í fyrri ræðunni. En það eru fleiri en Hendrik Ottósson, sem hafa haldið þessu fram. Þetta var enginn síðari tíma tilbúningur Hendriks Ottóssonar, þessi fullyrðing. Í Þjóðviljanum 20. maí 1938, þegar Einar Olgeirsson er ritstjóri, er þar sagt frá grein, sem hafi birzt í Dagens Nyheter um Ísland, og segir þar m.a.:

„Þá heldur blaðið því fram, að þýðing Íslands sem flug- og flotastöð fyrir önnur herveldi sé alveg augljós.“ Og síðar: „Og meira að segja Lenín hafði í ritum sínum haft opið auga fyrir þessari þýðingu Íslands.“

Frá þessari staðreynd segir Þjóðviljinn strax 1938, þegar hv. þm. var ritstjóri þess blaðs. Það er þess vegna gersamlega marklaust, þegar hv. þm. er nú að láta svo sem Hendrik Ottósson hafi ímyndað sér löngu seinna, að þessi ummæli í hinni „frægu ræðu“ Leníns hafi átt sér stað. Það er Ijóst af þessu, að blaðið Dagens Nyheter í Svíþjóð, eitt helzta blað á Norðurlöndum, hefur haft hugmynd um þessa „frægu ræðu“ Leníns, „frægu ræðu“ að mati Hendriks Ottóssonar. Og það er a.m.k. alveg víst, að ræðan hefur verið mjög kunn í kommúnistahópnum á Íslandi alla tíð frá 1920, eftir að hún var haldin, og kommúnistar fylgt þeirri kenningu, sem þar kom fram.

Hv. þm. hafði raunar ekki rétt eftir mér það, sem ég hafði sagt um München-sáttmálann. Látum það eiga sig. Það stendur skrifað, hvað ég sagði í minni ræðu, og ég stend fyllilega við þau orð. En hv. þm. benti mér á, að ég skyldi lesa það, sem Churchill, hinn mikli stjórnmálaskörungur, hefði um þessi efni ritað. Ég fór að ráði hv. þm. og fletti upp í bókum Churchills um viðhorf hans til Hitlers fyrr og síðar og þá sérstaklega til þess manns af hálfu Breta, Chamberlains, sem bar ábyrgð á München-sáttmálanum. Í ritgerð, sem birtist eftir Churchill í ritinu „Miklir samtíðarmenn“, og sú tilvitnaða ritgerð, sem ég hér vitna til, er sögð í ritinu skrifuð árið 1935 og heitir Val Hitlers eða eitthvað á þá leið, segir, með leyfi hæstv. forseta, m.a. í lauslegri íslenzkri þýðingu:

„Ekki er unnt að fella réttlátan dóm um stjórnmálamann, sem tekizt hefur að ná jafnógnarlegu valdi í sínar hendur sem Adolf Hitler, fyrr en við getum virt allt lífsstarf hans fyrir okkur. Enda þótt engar pólitískar aðgerðir siðar meir geti réttlætt illvirki, sem unnin hafa verið, segir sagan þó frá ótalmörgum mönnum, sem risið hafa til valda með því að hafa í frammi harðar, greypilegar og jafnvel hræðilegar baráttuaðferðir, en eigi að síður hafa hlotið þann dóm, þegar lífsstarf þeirra var allt, að teljast til mikilmenna, sem auðgað hafa sögu mannkynsins. Þannig getur einnig farið fyrir Adolf Hitler. Slíkt lokamat er engan veginn öruggt nú í dag. Við getum ekki sagt fyrir um það nú í dag, hvort Hitler sé sá maður, sem enn á ný muni verða til þess að steypa heiminum út í aðra styrjöld, er muni ríða heimsmenningunni að fullu, eða hvort sagan muni telja hann þann mann, sem færði hinni miklu þýzku þjóð aftur heiður og hugarró og skapaði henni nýjan sess í fremstu röð Evrópuþjóða sem hugprúðri, hjálpfúsri og traustri þjóð. Það er þessi gáta framtíðarinnar, sem sagan verður að leysa og leggja dóm sinn á. Það nægir að taka það fram, að nú á þessu augnabliki eru báðir möguleikarnir fyrir hendi. Ef við neyðumst nú til þess að staldra við hinar dimmari hliðar í starfi hans og kenningum, sökum þess að sagan hefur ekki enn runnið skeið sitt á enda, sökum þess að örlagaríkustu kaflar hennar eru svo sannarlega enn þá óskráðir, megum við aldrei gleyma því eða hætta að vona, að bjartari möguleikinn geti orðið að veruleika.“

Þarna segir Churchill, sem satt var, að það voru allmörg ár, þangað til menn áttuðu sig á hinu sanna eðli Hitlers og hvað fyrir honum vakti. Og út af fyrir sig er það alveg jafnfráleitt að skamma einhvern mann fyrir það, þó að hann á vissum tíma hafi ekki gert sér grein að fullu fyrir eðli Hitlers eða hvað fyrir honum vakti, eins og það er ástæðulaust að skamma unga menn fyrir það, þó að þeir á æskudögum, óreyndir, hafi trúað á kenningar kommúnista. Það eru margir ágætir menn í þessu þjóðfélagi, sem voru kommúnistar á sínum yngri dögum, og engum kemur til hugar að bregða þeim um þá yfirsjón. Það, sem mönnum þykir furðulegt og er sorgarleikur hv. S. þm. Reykv. og raunar sorgarleikur íslenzku þjóðarinnar einnig, vegna þess að hún hefur þar farið á mis við mjög mikla og góða hæfileika þessa hv. þm., sem hafa snúizt íslenzku þjóðinni til miklu minni gæfu en ella hefði orðið, það er, að hann skuli alla sína ævi og jafnvel nú á sinum efstu dögum enn hafa sömu blindu trúna á villukenningum hinna kommúnistísku lærifeðra, eins og hann lét í bjartsýni, en fáfræði æskunnar telja sér trú um. — Churchill heldur áfram og segir síðar í þessari grein:

„Hinn mikli árangur Hitlers, já, sjálf tilvist hans sem pólitísks valdamanns hefði ekki verið möguleg án sofandaháttar og heimsku frönsku og brezku ríkisstj., frá því stríðinu lauk og þó einkum á undanförnum þremur árum“ (þ.e.a.s. 1932—1935). „Engin einlæg tilraun var gerð til þess að koma til móts við þær ýmsu hóglátu ríkisstj., sem fóru með völd í Þýzkalandi, meðan þingræði var þar enn við lýði. Um langt skeið trúðu Frakkar á þá bjálfalegu blekkingu, að þeir gætu heimtað stórkostlegar skaðabætur úr höndum Þjóðverja til þess að bæta þeim upp það afhroð, sem þeir urðu fyrir í styrjöldinni. En ekki aðeins Frakkar, heldur og Bretar ákváðu upphæðir stríðsskaðabóta, sem áttu ekki vitund skylt við þær aðferðir, sem kunnar eru eða nokkru sinni var hægt að viðhafa um flutning auðmagns frá einu þjóðfélagi til annars. Til þess að þvinga fram hlýðni við þessar fjarstæðukenndu kröfur hernámu franskir herir aftur Ruhrhéruðin árið 1923. Til þess að ná jafnvel aðeins 1/10 hluta af því, sem upphaflega var krafizt, var sérstök nefnd bandamanna undir forsæti Bandaríkjamanns, sem er hinn hæfasti maður, látin fara með yfirstjórn fjármála Þýzkalands um árabil. Þetta varð auðvitað til þess að endurvekja og ala á hinni hatrömmustu beískju meðal hinnar sigruðu þjóðar. Ávinningurinn varð auðvitað í raun réttri enginn annar en að valda óþarfa áreitni, því að enda þótt bandamönnum hafi tekizt að hafa út úr Þjóðverjum eignir, sem námu 1000 millj. sterlingspunda, veittu Bandaríkin og einnig Bretland, þótt í minna mæli væri, Þjóðverjum samtímis lán, sem námu samtals 2000 millj. sterlingspunda. Þrátt fyrir það þótt bandamenn létu fjármuni sína þannig streyma inn í Þýzkaland til þess að treysta fjárhag þess og blása nýju lífi í þýzkan efnahag og iðnað, varð árangurinn enginn annar en síaukin andúð og tap á fjármunum. Jafnvel meðan Þýzkaland naut gagns af þeim lánum, sem því voru þannig veitt, sótti hreyfing Hitlers með viku hverri aukinn styrk og stuðning fyrir tilstilli þeirrar ertni og sárinda, sem bandamenn ollu.“

Enn segir Churchill:

„Ég hef ávallt fylgt þeirri kenningu, að finna þurfi fyrst lausn á þeim ágreiningsatriðum, sem hinn sigraði þykist hafa yfir að kvarta, áður en hafizt er handa um afvopnun sigurvegarans. Lítið var gert til þess að finna lausn á þeim ágreiningsatriðum, sem fólust í friðarsamningnum frá Versölum og Trianon. Í baráttu sinni fyrir völdum gat Hitler sífellt bent á ýmis minni háttar ágreiningsatriði og óréttláta skiptingu Evrópu eftir kynþáttum og þjóðarbrotum, en það var einmitt þetta, sem skaraði að þeim eldum, sem hann og hreyfing hans ornaði sér við og lifði á. Samtímis þessu tókst afvopnunarsinnum í Bretlandi með stuðningsmenn sína í Ameríku að baki sér að þröngva fram afvopnun í síauknum mæli.

Án minnsta tillits til þess, hver raunveruleikinn í málefnum heimsins var, vann afvopnunarnefndin ár eftir ár að því að gera óteljandi áætlanir um aukna afvopnun af hálfu bandamanna, sem ekkert land nema Bretar framkvæmdi af nokkurri einlægni. Á meðan Bandaríkin prédikuðu um afvopnun, héldu þau áfram að vinna að skipulagningu og búnaði landhers síns, flota og flughers. Frakkland, sem nú naut ekki lengur þeirrar tryggingar og ábyrgðar, sem Bandaríkin höfðu lofað, stóð andspænis þeim möguleika, að Þýzkaland með allan sinn fjölda hermanna, er snúið höfðu aftur heim, kæmi sér smám saman aftur upp skipulögðum herjum og neitaði því auðvitað að afvopnast nema að því marki, sem öruggt mátti teljast. Ítalía jók vopnabúnað sinn af öðrum ástæðum. Einungis England reif niður varnir sínar til lands og sjós langt fram yfir það, sem áhættulaust gat talizt, og virtist ekki gera sér hina minnstu grein fyrir þeirri nýju hættu, sem landinu stafaði úr lofti.“

Og enn segir Churchill:

„Hvers konar maður er hann þá,“ — og á við Hitler, — „þessi myrka vera, sem hefur komið öllu þessu í kring og leyst þessi illu öfl úr læðingi? Ber hann enn þá sjálfur í brjósti þær tilfinningar, sem hann hefur skarað eld að hjá öðrum? Finnur hann enn til þess haturs og þeirrar heiftar, sem einkenndi baráttu hans, nú þegar hann stendur hrósandi sigri í fullu skini valdsins sem leiðtogi hinnar miklu þjóðar, er hann hefur endurreist úr duftinu, eða mun hann kasta frá sér þessum tilfinningum eins og brynju og bitrum vopnum baráttunnar, þegar sigur hefur verið unninn og mýkjandi áhrif viðgangs og ríkulegs árangurs láta til sín taka? Þetta er að sjálfsögðu brennandi spurning, sem sækir á hug hvers og eins, hvar í landi sem er.

Þeim, sem hafa hitt herra Hitler augliti til auglitis og átt við hann viðræður, hvort heldur er við stjórnarstörf sín eða önnur tækifæri, hefur hann komið þannig fyrir sjónir, að hann sé mikilhæfur og fremur íhugull valdsmaður, sem fylgist vel með atburðum, framkoma hans sé viðkunnanleg, brosið mjög traustvekjandi, og fáir hafa getað staðizt það að verða fyrir mjög ísmeygilegum og seiðmögnuðum persónulegum áhrifum. Og ekki stafa þessi áhrif einungis af blindandi ljósgeislum valdsins. Allt frá því fyrsta, jafnvel þegar auðna hans virtist sem allra minnst, urðu félagar hans fyrir þessum mögnuðu áhrifum af persónuleika Hitlers.

Þannig lifir heimurinn í þeirri von, að hið versta sé um garð gengið og Hitler muni eiga eftir að birtast honum sem viðfelldnari og blíðlegri vera á hamingjusamari tímum. En á meðan heldur hann ræður fyrir þjóð sína, sem stundum einkennast af hreinskilni og hófsemi. Nýverið hefur hann flutt heiminum mörg orð hughreystingar, sem hljómað hafa sem bjöllukliður í eyrum þeirra, sem svo hrapallega hefur skjátlazt, þegar Þýzkaland hefur átt í hlut á fyrri árum.“

Ég las þetta upp vegna þess, að það er mjög lærdómsríkt, sem Churchill, sá sem kom Hitler á kné að lokum, segir um hann á þessum árum. Hann gerir sér fulla grein fyrir því, að Hitler hófst til valda einungis af því, að vesturveldin, lýðræðisríkin, höfðu ekki skilning til samheldni til þess að halda uppi því valdakerfi, er hindraði slík ósköp sem síðan skullu á. Þetta sá Churchill strax fyrir 1935, og hann sá líka og sagði, að Hitler náði völdunum af því, að menn gættu þess ekki, að þýzka þjóðin hefði fengið leiðréttingu sinna mála, áður en lýðræðisríkin í vestri yrðu máttlaus. Þess vegna var það, að ofbeldismaðurinn náði völdum og beitti þeim síðan á þann veg, sem glögglega kom fram síðar, er Hitler rauf München-sáttmálann. Það fór aldrei á milli mála, að Churchill væri andvígur München-sáttmálanum. Hann var hans helzti andstæðingur allt frá upphafi. En eftir að Chamberlain, sem gerði þennan sáttmála, var látinn, hélt Churchill ræðu, sem verður að teljast meðal snilldarverka þess mjög mælska manns. Þar segir hann m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar við vottum merkum manni, sem horfið hefur úr okkar hóp, virðingu og lotningu, er enginn neyddur til þess að breyta þeim skoðunum, er hann hefur myndað sér eða látið í ljós varðandi málefni, sem nú heyra sögunni til. En þegar að sáluhliðinu kemur, megum við allir gjarnan bregða eigin hegðun og eigin dómum undir sjóngler gagnrýninnar. Mannlegum verum er ekki gefinn sá eiginleiki að sjá fyrir eða spá að nokkru verulegu leyti um framgang atburða, og má slíkt teljast til heilla, því að að öðrum kosti yrði lifið okkur óbærilegt. Á einn hátt virðast menn hafa rétt fyrir sér. Á annan hátt virðist þeim hafa skjátlazt. En svo líða nokkur ár. Innsæið í fjarvist tímans hefur dýpkað, og þá birtist allt í öðru ljósi. Ný viðmiðun hefur skapazt. Matið verður annað. Sagan með flöktandi ljós á lampa sínum staulast eftir vegi fortíðarinnar og leitast við að endurskapa leiksvið sín, endurvekja bergmál sitt og kasta daufri skímu á þjáningar liðinna daga. Og hvers virði er þetta allt? Eina vísbendingin um gildi eins manns er hans eigin samvizka. Eina vörnin, sem minning hans á sér, er hlutvendni og einlægni hans eigin gjörða. Það er mjög óvarlegt að ganga gegnum lífið án þess að bera fyrir sér þennan skjöld, því að það ber oft við, að brostnar vonir hafa okkur að spotti og áætlanir okkar reynast rangar. En hvernig sem örlögin snúast, göngum við þó ævinlega undir merkjum sæmdar og heiðurs, ef við berum þennan skjöld fyrir okkur. Það var hlutskipti Neville Chamberlains að lenda í mótsögn við framgang viðburðanna á einhverri mestu hættustund, sem yfir þennan heim hefur dunið, að verða fyrir því að sjá vonir sínar bresta og vera blekktur og svikinn af vondum og fyrirlitlegum manni. En hverjar voru þær vonir, sem brustu? Hverjar voru þessar óskir, sem hann fékk ekki framgengt? Hvert var það traust, sem níðzt var á? Allt hlýtur þetta þó að teljast til þeirra eiginleika, sem göfugastir eru og ástúðlegastir hverju mannlegu hjarta: Friðarástin, baráttan fyrir friði, leitin að friði, jafnvel með því að leggja allt í sölurnar og sannarlega án þess að skeyta minnstu vitund um vinsældir eða hylli. Hvað sem sagan kann annars að segja um þessi voðalegu, ógnþrungnu ár, getum við verið þess fullvissir, að Neville Chamberlain lét ávallt stjórnast af fullkominni einlægni og eftir því sem samvizkan bauð honum og hann leitaðist við af öllum sínum kröftum og valdi — og hvort tveggja var mikið — að bjarga heiminum frá þeirri skelfingu og ofsafengnu baráttu, sem við nú etjum. Þetta eitt mun verða honum til mikils stuðnings, þegar kveðinn verður upp sá úrskurður, sem nefndur er dómur sögunnar. En það er einnig landi okkar og öllu heimsveldi okkar til trausts og stuðnings og sömuleiðis heiðvirðum lífsvenjum okkar, hversu lengi sem þessi barátta kann að standa og hversu dimm sem þau ský kunna að verða, sem bólstrast yfir leið okkar, að engin óborin kynslóð enskumælandi þjóða, — því að það er sá dómur, sem við endanlega skírskotum málum okkar undir, — mun nokkru sinni efast um það, að jafnvel þótt það hafi kostað okkur ógrynnin öll í tæknilegum undirbúningi, vorum við saklausir af því blóðbaði, ógnum og eymd, sem hefur dunið yfir svo mörg lönd og þjóðir og leitar enn nýrra fórnardýra.“

Þetta var dómur Churchills, þegar Chamberlain var látinn. Í honum felst það, sem ég sagði um München-sáttmálann, að það versta við þann sáttmála var, að hann var svikinn. Við skulum ekki eftir á láta svo sem deilan milli Þjóðverja og Tékka hafi verið algerlega út í bláinn og eingöngu Þjóðverjum að kenna. Tékkóslóvakía var eitt af þeim ríkjum, sem voru stofnuð eftir ófriðinn 1914—1918. Vissulega hljótum við sjálfir, sem urðum að þola aldalanga kúgun, að fagna því, að hin ágæta tékkneska þjóð fékk sitt frelsi. En hún hafði áður verið undir yfirstjórn Þjóðverja, og Þjóðverjar höfðu tekið sér bólfestu þar í landamærahéruðum í heilsteyptum byggðum, sem að vísu Tékkar töldu að væri nauðsynlegt að hafa innan sinna landamæra, vegna þess að annars væri ríki þeirra illverjandi. En þessar heilsteyptu byggðir Þjóðverja, margfalt fleiri menn en lifðu þá eða nú á Íslandi, undu þarna mjög illa sínum hag. Og viðleitnin hlaut fyrir þá, sem friðinn elskuðu, að vera að finna lausn á þessu vandamáli. Það var sú lausn, sem Chamberlain ímyndaði sér, að hann hefði fundið haustið 1938. Eftir á sjáum við, að sá samningur var ekki heilbrigður, og eins og ég segi, þá er hið versta, að hann var svikinn við fyrsta tækifæri, þannig að það fékk aldrei að reyna sig, hvort þarna hefði fundizt raunveruleg lausn á vandamáli eða ekki. En Tékkar sjálfir viðurkenndu eftir stríðið, að þetta var vandamál, sem yrði að leysa með því að reka þá Þjóðverja burtu eða menn af þýzkum ættum, sem enn lifðu í þeirra landi. Eftir upphaf ófriðarins og eftir það, sem með ófriðnum gerðist, hygg ég, að sanngjarnir menn verði að játa, að þessi ráðstöfun Tékka var eðlileg. En hún var harkaleg lausn á miklu vandamáli, lausn, sem heimurinn hefði ekki sætt sig við nema eftir þá glæpi, sem Þjóðverjar höfðu framið undir yfirstjórn Hitlers. Vandamálið var þarna, og gallinn var sá, eins og Churchill sagði strax 1935, að slík vandamál voru ekki leyst friðsamlega, meðan það voru friðsamir menn og velviljaðir, sem réðu ríkjum í Þýzkalandi, eins og lengst af var frá 1918 þangað til 1933.

Þess vegna stendur það óhagganlegt og er fullkomin ástæða til þess að leggja ríka áherzlu á það, að ef lýðræðisríkin hefðu þá haft öflug samtök sín á milli, ef hin voldugu Bandaríki hefðu ekki dregið sig inn í sína eigin skel, ef Bretland eða Frakkland hefðu haft minnsta skilning á hlutskipti Þjóðverja á þessum árum, hefðum við ekki staðið frammi fyrir þeim ósköpum, sem síðar gerðust. Og þó að við segjum, að Chamberlain hafi haft rangt fyrir sér, þá er það algerlega rangt, sem hv. þm. segir, að í München hafi verið samið um að hleypa herskörum Þýzkalands austur á við og gera árás á Rússland. Því fer svo fjarri, að strax og það kom í ljós, að Hitler stóð ekki við sinn samning, þá brugðu Bretar við og tóku ábyrgð, sem þá var orðin lítils virði, á Póllandi og raunar fleiri löndum, ábyrgð, sem Bretar reyndust eftir á með öllu ómegnugir til þess að standa við, bæði gagnvart þeirri stjórn, sem þeir tóku hana, þótt það yrði formlegt upphaf seinni heimsstyrjaldarinnar, og gagnvart pólsku þjóðinni, sem nú verður að una því að vera eins konar leppríki Sovétstjórnarinnar. En sá, sem hleypti stríðinu af stað, sá, sem kallaði yfir sig árásina á Rússland, var Stalin og enginn annar en Stalín með samningunum, sem hann gerði við Hitler í ágústlok 1939 og höfðu staðið allt frá því að það var ljóst, að Bretar höfðu ekki í huga að hleypa Hitler austur á við, heldur vildu taka ábyrgð á ríkjunum, sem voru á milli Rússlands og Þýzkalands. Þetta eru þær óhagganlegu staðreyndir.

Hv. þm. fer oft ýmsum háðulegum orðum um Bandaríkin, þeirra yfirgang og annað slíkt, og hélt m.a. langa ræðu um það hér í fyrradag. Ég verð nú að segja, að þær ásakanir koma úr hörðustu átt, því að ef nokkur okkar, sem hér er inni, á Bandaríkjunum virkilega mikið upp að inna og þeirra frelsishug, er það þessi hv. þm. Við skulum ekki gleyma því, að Bandaríkin komu hingað sumarið 1941, og þá sagði Brynjólfur Bjarnason, sálufélagi hv. þm., þessi eftirminnilegu orð að efni til, að það mætti skjóta á Íslandi, ef það yrði Rússum til hjálpar. En þá hafði áður verið búið að flytja hv. þm. Einar Olgeirsson úr landi með ofbeldi af Bretum, setja hann í fangelsi í Bretlandi, vegna þess að hann var af Bretum talinn hafa spillt fyrir þeirra baráttu gegn hinu nazistíska ógnarveldi. Ekki grunaði nokkur hv. þm. í sjálfu sér um vináttu við Hitler, mér hefur aldrei dottið það í hug. En hann hafði ekki meiri skilning á heimsmálunum þá en þann, að hann hélt, að friðnum yrði bezt borgið með því að spilla sem mest fyrir baráttu Breta, meðan þeir stóðu einir í hörðum ófriði við Hitler. En 1941 setti íslenzka stjórnin það sem eitt af skilyrðunum fyrir því, að samningurinn við Bandaríkin yrði gerður, að þessi hv. þm. væri leystur úr herleiðingunni og fengi að koma heim. Það gerðu sömu þm. og áður höfðu gengið af fundi með samtökum, þegar hv. þm. var að verja árás Rússa á Finnland og önnur slík glæfraverk. En þó að meginhluti þm. væri hv. þm. gersamlega andstæður í skoðunum, vildu menn ekki una því eða gera neina samninga við þessar þjóðir, nema þessu ofbeldisverki yrði aflétt. Það sýndi þann lýðræðishug, sem með íslenzku þjóðinni bjó. Þetta skilyrði var sett fram, Bandaríkjamenn gengu að því strax og það var sett fram, þeir töldu það eðlilegt og sjálfsagt.

Þeir hafa vafalaust haft nokkrar spurnir af hv. þm. og vitað, að hann var á andstæðum meiði við þá. En þeir telja það sjálfsagðan hlut lýðræðis, að menn hafi rétt til frjálsra skoðana og málfrelsi til að halda fram því, sem þeirra eigin stjórnvöldum kemur illa, alveg eins og nú kemur harðasta andstaðan gegn Víetnamstríðinu fram hjá Bandaríkjamönnum sjálfum. Einn harðasti andstæðingur Bandaríkjaforseta í því máli er sjálfur formaður utanrmn. öldungadeildar Bandaríkjaþings. Það er þessi meginmunur á lífsviðhorfum hinna frjálsu lýðræðisþjóða, sem hv. þm. vill stundum gera gabb að, að ég noti, og þeirra kenningakerfa, sem hv. þm. trúir á og vill koma á hér.

Ég hygg, að það megi segja með nokkrum sanni, að þó að við dáumst mikið að mörgum tæknilegum framförum, sem orðið hafa í Rússlandi að undanförnu, er það í raun og veru ekkert sérstakt fyrir rússneska stórveldið. Þar keppa Rússar og Bandaríkjamenn, og þó að Rússar séu fremri í sumu, er það flestra manna mál, að yfirleitt séu tækniframfarir meiri í Bandaríkjunum. Látum það eiga sig. En ég segi: Það lýsir meira stjórnarháttum í þessum tveimur löndum, að dóttir Stalíns hefur flúið Rússland og beðið um landvistarleyfi í Bandaríkjunum, heldur en hitt, hvort það verða Rússar eða Bandaríkjamenn, sem fyrr senda mann til tunglsins. Það er tæknilegt atriði. Hitt er glöggt dæmi upp á stjórnarhætti og hvernig fer annars vegar fyrir afkomendum þeirra, sem mestri harðýðgi hafa beitt og kennt sinni þjóð þá stjórnarhætti, og hins vegar fyrir þeim, sem virða mannréttindi á svipaðan veg og Bandaríkin sýndu sig að virða, þegar þau féllust á það skilyrði íslenzku stjórnarinnar, að hv. þm. Einar Olgeirsson skyldi leiddur úr sinni herleiðingu.

Nú er það vafalaust svo, og um það er ég hv. þm. sammála, að það er að ýmsu leyti mun friðvænlegra í þessum hluta heimsins heldur en löngum áður. Hv. þm. sagði, að ég hefði talað um, að Rússar hefðu hætt sinni ágengni. Ég nefndi Rússa ekki í því sambandi. En það var eins og bóndinn fyrir norðan, sem kvartaði yfir því, að nágranni sinn hefði komið með byssu og sagt: „Skjótið þið helvítis hundinn“ — „og hann átti við mig“, að hv. þm. taldi víst, að þegar talað var um ágengni, væri átt við Sovétstjórnina. Það er hans dómur, en ekki minn. En þó að sagnfræðin vilji vera ærið brokkgeng hjá hv. þm., veit hann auðvitað, hverjir hafa haft í frammi ágengni.

Við getum ekki neitað því, að frá því að Atlantshafsbandalagið var stofnað, hefur orðið mun friðsamlegra í þessum hluta heimsins heldur en áður, mun friðsamlegra, og það er ekki sízt vegna þess valdajafnvægis, sem hefur skapazt með myndun og starfi Atlantshafsbandalagsins. Nú hefur hv. þm. að mínu mati mjög rangar hugmyndir um árásarvilja t.d. vestur-þýzku stjórnarinnar. En segjum sem svo, að eitthvað væri til í þeim ásökunum, sem hv. þm. hefur í frammi, skilur hann þá ekki, að það er mjög til þess að leggja hömlur á þann árásarhug og hindra þær árásarfyrirætlanir, ef þýzki herinn er undir sameiginlegri stjórn lýðræðisríkjanna í vestanverðri Evrópu og í Norður-Ameríku? Er þetta ekki svo augljós staðreynd, að þó að ekki væri annað, ætti að halda við þessu bandalagi, með sama hætti og ef við metum sjálfstæði Íslands og það að halda Íslandi utan ófriðar, er það alveg ljóst, að frumskilyrðið er það, að Atlantshafsbandalagið haldi áfram, vegna þess að meðan það er í núverandi mynd eða eitthvað svipaðri, hefur Ísland tiltölulega litla hernaðarþýðingu, þó að hún sé mikil og verði ekki fram hjá henni komizt. En ef Ísland yrði — við skulum segja óvarið, án bandalags, á milli annars vegar Sovétsamveldisins eða einhvers annars herveldis á meginlandi Evrópu og hins vegar þeirra, sem yfirráðin hafa í NorðurAmeríku, þá er ljóst, að hernaðarþýðing Íslands yrði meiri en nokkru sinni fyrr. Þá er óhjákvæmilegt, að um leið og kjarnorkustyrjöld brytist út, yrði mikill áhugi á því, hver Ísland hefði. Það er alveg ljóst, að slíkt mundi verða til þess að beina skeytum að Íslandi frekar en nokkuð annað. Þessu verða menn að gera sér grein fyrir. Þetta verða menn að skilja. Þetta er bezt að tala um alveg opinskátt. Þess vegna er það nytsamt, að hv. þm. skuli halda hér fram sinum villukenningum, því að það gefur tilefni til þess að rifja upp þessar augljósu staðreyndir.

En þar til viðbótar kemur svo, að við höfum enga vissu, — ég vil segja sem betur fer, — fyrir því, að kjarnorkuvopnum verði beitt í styrjöld. Hv. þm. byggði allan sinn málflutning nú síðast á því, að Ísland væri svo þýðingarmikið og í mikilli hættu, ef kjarnorkustríð yrði, að við yrðum að stinga höfðinu í sandinn og láta eins og þessi hætta væri ekki til. En það er búið nú að vera að berjast svo að segja látlaust í heiminum á ýmsum stöðum allt frá stríðslokum 1945. Við getum nefnt tvær stórstyrjaldir, Kóreustríðið og styrjöldina í Víetnam. Það er búið að vera að berjast þarna látlaust svo að segja a.m.k. frá 1950. Enn hefur kjarnorkuvopnum ekki verið beitt, og menn mega ekki halda, að þó að kjarnorkuvopnin séu til og þó að það sé viðbúið, að þeim verði beitt, og við verðum einnig að reikna með þeim möguleika, þá skulum við bara líta á staðreyndirnar og átta okkur á því, að styrjaldir hafa átt sér stað og eiga sér stað, eftir að kjarnorkuvopnin komu til, þar sem ekki hefur verið talið ráðlegt að beita þeim, þó að annar aðilinn í þeirri styrjöld og stundum báðir, eins og í Kóreu, hefðu yfir þessum vopnum að ráða. Við vissum það vel, og hv. þm. man það jafnvel og ég, að á millistríðsárunum töldu menn alveg víst, að þrátt fyrir alla samninga yrði eiturgasi beitt í nýrri styrjöld. Menn töluðu þá um nýja styrjöld með sams konar hrolli, m.a. vegna eiturgassins, eins og menn tala nú um kjarnorkustyrjaldir. Raunin varð sú, að eiturgasið var of hættulegt vopn til þess, að því yrði beitt, of tvíeggjað, bitnaði um of á báðum, alveg eins og menn beita ekki kjarnorkuvopnum, vegna þess að þeir vita, að það muni á báðum bitna.

Það er löngum sagt, að þessi ógnarvopn muni leiða til algerrar friðunar. Við skulum vona, að svo verði. En það á því miður langt í land. Og hvernig fara þeir að, sem betur vita nú um þessi mál heldur en við báðir, ég og hv. 3. þm. Reykv.? Hinn 11. marz birtist í New York Times grein eftir mann að nafni Raymond H. Anderson, sem er skrifuð í Moskvu hinn 10. marz. Ég ætla að leyfa mér að lesa hana upp, með leyfi hæstv. forseta:

„Sovétríkin vinna nú að því að styrkja hernaðarviðbúnað íbúanna í þeim Kyrrahafshéruðum, sem liggja að landamærum Rauða-Kína. Málgagn sovézka varnarmálaráðuneytisins, Krasnaja Svetsna“ — eða hvernig sem það er nú borið fram - „gerði uppskátt um það í dag, að 12 ára gamlir unglingar væru látnir læra vopnaburð undir stjórn liðsforingja hersins og hermanna í varðsveitum við landamærin. Fjöldi sérstakra sumarbúða er starfræktur á þessum slóðum, og auk þess sem unglingarnir fá þar tilsögn í vopnaburði og öðru því, er að hernaði lýtur, njóta þeir þarna sérstakrar kennslu, sem miðar að því að efla ættjarðarást þeirra og búa þá undir að fórna sér fyrir föðurlandið. Krasnaja Svetsna lætur þess einnig getið, að skipulagðir hafi verið herklúbbar í öllum skólum héraðsins, og hafa liðsforingjar í landher og flota umsjón með þeim. Blaðið bætir því við, að Kyrrahafsflotinn, sem hefur aðalbækistöð sína á þessum slóðum, hafi skipulagt sérstaka skipasveit til þjálfunar drengja á aldrinum 12—17 ára í sjóhernaði.

Þá er þess getíð í Krasnaja Svetsna, að skipulagðir hafi verið umfangsmiklir hernaðarleikir og sé það einkar vinsæl og áhrifarík aðferð til þess að laða unglinga til herþjálfunar. Meira en 35 þús. unglingar tóku þátt í slíkum leikjum á s.l. ári, segir blaðið. Þetta strandhérað, sem er strjálbýlt, en hefur mjög mikla hernaðarlega þýðingu, er hluti enn stærra landssvæðis innan Sovétríkjanna, sem Kína gerir tilkall til. Heyrzt hefur, að á undanförnum mánuðum hafi komið til átaka við hin umdeildu landamæri, en ekki hafa þær fréttir fengizt staðfestar í Moskvu.

Skipulagning þessara æskulýðssveita í strandhéraði þessu er hliðstæð svipuðum ráðstöfunum í öðrum héruðum Sovétríkjanna, sem liggja að Kommúnista-Kína. Á s.l. hausti hófst skipulögð barátta fyrir því að efla hernaðarvígbúnað almennra borgara í ríkjunum Kazakstan, Taskikistan og Kirgisíu í Mið-Asíu. Í þessum þremur ríkjum var komið á fót sérstökum þjóðræknisherskólum til þess að veita unglingum þjálfun til starfa sem stórskotaliðsmenn, skriðdrekahermenn, útvarpsvirkjar og landamæraverðir. Svo virðist þó sem slík þjálfun væri brýnni nauðsyn í strandhéruðunum en ríkjum Mið-Asíu. Strandhéruð þau, sem hér um ræðir, mynda einangraða framlengingu á landssvæðum Sovétríkjanna í meira en 400 mílur suður á bóginn meðfram landamærum Kína. Hin mikilvæga flota- og verzlunarhöfn, Vladivostok, liggur nálægt suðurenda þessa héraðs.

Krasnaja Svetsna lét þess getið, að Komosomol, æskulýðsfylking kommúnista, hefði komið á fót sérstakri miðstöð, sem hefði því hlutverki að gegna að samræma og hafa eftirlit með hernaðarlegri og þjóðræknislegri þjálfun meðlima sinna í þessu héraði. Í greininni er hins vegar kvartað yfir því, að þessi starfsemi sé hins vegar á eftir áætlun sökum þess, að ekki séu fyrir hendi nægilega margar skotæfingastöðvar, flugklúbbar og aðrar æfingamiðstöðvar.

Þarna segir eftir þessu hernaðarblaði í Moskvu um viðhorf Sovétstjórnarinnar, að nú sé farið að leggja kapp á að æfa börn, 12—17 ára, til beinnar „hermennsku“.

Þetta eru mennirnir, sem hv. 3. þm. Reykv. og allar friðardúfurnar hér leita til sem fyrirmynda, trúa á blint og halda, að séu helztu málsvarar friðarins í heiminum. Nú erum við hv. 3. þm. Reykv. trúlega sammála um það, þó veit ég það ekki með vissu, að auðvitað er Sovétstjórnin miklu fremri og friðsamari heldur en ráðamenn í Kína. Ég gruna ekki Sovétstjórnina um það, að hún hafi árás í huga á Kína, þó að það sé undir kommúnistískri stjórn. En hún telur svo mikið liggja við að halda uppi friði, að koma í veg fyrir ófrið á þessum slóðum, að þess vegna er gripið til þessara ráða. Og það er alveg rétt, að þó að það sé sjaldgæft og raunar algerlega óþekkt, nema þá e.t.v. að einhverju marki hjá nazistum nú á dögum, að unglingar séu æfðir til hermennsku á þennan veg, þá er það ekki sérstakt einkenni Sovétstjórnarinnar til að halda uppi friði, að bezta vörnin fyrir friði sé nægilegt vald til þess að standa á móti hugsanlegum árásaraðila. Það er reynsla mannkynsins frá örófi vetra, reynsla, sem á jafnt við um Ísland eins og önnur lönd, reynsla, sem við verðum að beygja okkur fyrir, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Með því er ekki sagt, eins og ég hef tekið fram áður, með hverjum hætti við eigum að tryggja öryggi og varnir Íslands. En það er vandamál, sem ekki verður með neinu móti hægt að skjóta sér undan, vandamál, sem okkur öllum ber skylda til að sinna. Og enginn hefur betur sýnt fram á, að hlutleysið er gagnslaust til þeirra hluta, heldur en einmitt hv. 3. þm. Reykv. Hann byrjaði að sýna fram á þetta, strax og hann hóf afskipti af íslenzkum stjórnmálum, og hélt því áfram allt þangað til það ástand skapaðist í heiminum, að hann telur nú, að það ríki, sem hann metur umfram öll önnur, hafi af því hagsmuni, að Ísland sé varnarlaust. Ég veit, að hv. þm. gerir þetta af því, að hann telur Íslandi fyrir beztu, að þær kenningar, sem þar ráða, ráði einnig á Íslandi. En við hinir, sem erum annarrar skoðunar og viljum halda uppi friði í heiminum og trúum því ekki, að styrjaldir séu óumflýjanlegar, eins og hv. þm. hefur marghaldið fram, að þær séu á núverandi sögustigi, við viljum leggja fram hinn litla skerf Íslands til þess að koma í veg fyrir styrjöld. Það er það, sem fyrst og fremst greinir á milli mín og hv. þm., að ég tek rökréttum afleiðingum af staðreyndunum. Hv. þm. tekur ekki rökréttum afleiðingum af því, sem hann heldur fram. Hitt má líka raunar vera rétt, að hann taki rökréttum afleiðingum af staðreyndunum, ef það er rétt, að hann sé enn svo blindur í sinni barnatrú, að hann haldi, að það sé heiminum fyrir beztu, að kommúnisminn verði allsráðandi. Ég hef verið þeirrar trúar, og þrátt fyrir það, sem ég hef sagt í þessari ræðu, þá vil ég enn trúa því, að hann, gamall maðurinn, vitkist svo á sínum efstu árum, að hann kasti frá sér þessum villukenningum og taki upp sams konar lýðræðistrú og hann stundum þykist vilja bregða fyrir sig, en hefur lengst af brugðizt í sínu lífi.