13.12.1966
Neðri deild: 28. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í B-deild Alþingistíðinda. (194)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er sjálfsagt að vera þakklátur fyrir allar þær ábendingar, sem mega verða þessu frv. til bóta, og það er enginn vafi á því, að þessi löggjöf verður alveg sérstaklega vel vönduð, þegar frá henni hefur verið gengið til fullnustu. En það vill nú svo til, að formaður Stéttarsambands bænda og annar stjórnarmeðlimur Stéttarsambandsins voru með í að semja frv. Þeir vita áreiðanlega, við hvað er átt. Það er átt við Stéttarsamband bænda. En hér er ekki um annað að ræða heldur en það, að þarna er prentvilla, sem má leiðrétta án þess að bera fram brtt. Þetta er prentvilla, það getur ekki verið annað.