23.02.1967
Neðri deild: 45. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 400 í C-deild Alþingistíðinda. (1940)

126. mál, launaskattur

Sverrir Júlíusson:

Herra forseti. Sízt skal ég þræta við lögfræðinginn, annan flm. þessa frv., sem hér liggur fyrir, þar sem það er staðfest af 1. flm. einnig, að í 2. gr. hafi verið átt við alla fiskvinnslu, og það breytir vissulega lítils háttar því máli, sem ég sagði, en þó ekki að öllu leyti, því að ef þessir menn væru það kunnugir þessum rekstri, ættu þeir að vita, að mjög mörg önnur vinna fellur til við fiskvinnslustöðvarnar en beinlínis vinna við fiskverkunina sjálfa, svo að það yrði þá að halda þessu aðskildu, og það mundi þá fara að verða þannig, að það yrði að vera margs konar bókhald.

Ég endurtek það, að ég álit, að það sé vanhugsað að flytja frv., sem enginn grundvöllur er fyrir að nái fram að ganga til þess að þjóna atvinnuvegunum. Og það er þetta, sem skilur á milli. Ég stend alveg jafnréttur fyrir ásökunum beggja flm. um kjarkleysi og hugleysi og þeim árásum, sem blað þessara þm. hefur mjög látið í skína á undanförnum vikum vegna samþykkta ýmissa útvegsmannafélaga. Nei, það er það, sem er um að ræða raunverulega, að ég hef tamið mér í þau rösklega 20 ár, sem ég hef verið í forsvari fyrir útvegsmenn, að reyna að semja um hlutina við viðkomandi ríkisvald og ríkisstjórn, hver sem í hlut hefur átt, og hefur það tekizt oft mjög giftusamlega, þó að vissulega hafi menn sjaldnast eða aldrei verið ánægðir. En það að setja fram þetta frv., ég endurtek, að það er vanhugsað, því að hvað er annað en vanhugsað að henda fram frv., sem gæti leitt til þess, ef samþ. væri, að það væri litið á það sem brot á samningum á milli vinnuveitenda og vinnuseljenda, sem mundi leiða til þess, að kaupskriðan gæti farið af stað aftur? Ég veit, að hv. þm. gera sér fulla grein fyrir því, að verðstöðvunin byggist á því, að það verði jafnvægi í kaupgjalds- og verðlagsmálum, að það verði ekki meiri kaupbreytingar eða hækkanir en atvinnuvegirnir geta staðið undir. En yrði farið inn á það með löggjöf að svíkja það samkomulag, sem gert var í júní 1964, mundi að mínu viti verða þar mjög mikill óleikur gerður einmitt undirstöðuatvinnuvegunum, sem byggja á framleiðslu, sem er háð útflutningsverði sérstaklega og geta ekki velt sínum byrðum yfir á aðra.

Hv. 4. þm. Reykn. bauðst til þess að verða meðflm. að þeim breyt. er ég minntist á, en hv. 1. flm. sagði, að L.Í.Ú. hefði aldrei samþykkt þær, þau væru ekki í samræmi við samþykktir, er L.Í.Ú. hefði gert, þessi orð, sem ég sagði. En það er einmitt það, sem gert var. Þegar verið var að undirbúa lögin um launaskattinn, fór L.Í.Ú. einmitt fram á þetta, eins og ég sagði áðan, og einmitt var óskað eftir því, að það væri kannað, hvort launatollurinn hefði verið áætlaður það hár, að hægt væri að ná samningum um þetta og að þá yrði miðað við kauptryggingu, því að vissulega var fullkomlega þörf á því, að þannig yrði gert. Nei, ég fullyrði það, þótt það sé talað um, að 8% meðalhækkun á fiskverði í ár sé lítil og ónóg, mundi það verða verra, ef allt launajafnvægi raskaðist og allt hækkaði, eins og gerði t.d. í ársbyrjun 1964, þegar samkomulag varð um 6% fiskverðshækkunina og síðar urðu fiskverkendur og aðrir atvinnurekendur að semja um hækkað kaupgjald, sem síðan lenti á hráefninu. Það er m.a. þetta, sem ég á við, þegar ég tel, að það sé vanhugsað og þá kannske bein sýndarmennska að henda fram frv., sem ekki er grundvöllur fyrir. Það fer eftir skapferli manna, hvort þeir telja, að það sé ástæða til að vera að sýna frv. og samþykktir, sem ekki er grundvöllur fyrir að nái fram að ganga. Og ég vil segja við hv. 4. þm. Reykn., sem býðst til þess að bera fram brtt. með mér, ef þetta verður fellt, sem ég fagna, — þá vil ég segja við hann: Er hann þá tilbúinn, — ég spyr hann að því, — er hann þá tilbúinn til þess að bera fram frv. um leiðréttingu á þeim ósanngjörnu lögum, sem sett voru eða endanlega samþ. 8. apríl 1963, um slysa- og veikindabætur? Honum er það kunnugt, að ég í sjútvn. hef orðað þetta í samningum og viðtölum við stjórnvöldin. Ég og fleiri forsvarsmenn útvegsins höfum verið að fara fram á, að þetta óréttlæti, sem fór í gegnum þingið, — því að raunverulega viðurkenna allir, að lög þessi séu ósanngjörn, — verði leiðrétt. Og ég vil spyrja hann um það, ef það fer nú þannig, að ekki náist samkomulag á þeim grundvelli, sem nú er verið að ræða um og hv. fyrri flm. þessa frv. sagði, að hæstv. sjútvmrh. hefði í gær hliðrað sér hjá að svara, en það er verið að rannsaka þetta, — hvort hægt er að koma þessu inn í þingið og veita því brautargengi. Ég vil spyrja hann að því, hvort hann vilji vera meðflm. minn að frv., sem verði leiðrétting á því, en ekki nema það sé tryggt, að málið fari í gegn. Það er alveg rétt, sem hv. flm. þessa frv. sagði, að þetta er mikið réttlætismál og kemur mjög illa við marga menn, þegar dæmi eru til þess, að menn hafa orðið að greiða allt upp í hálfa millj. kr. fyrir þessar bætur, og það er talið, að misnotkun eigi sér stað. (Gripið fram í.) Vélbátanefndin mælir með því, en það er mjög loðið, og við skulum sjá, hvað þeir gera í sjútvn. En dæmi eru um það, að það hafi verið upp í hálfa millj., sem útvegsmaður hefur orðið að greiða. Þetta getur stöðvað báta, ef mikil óhöpp eiga sér stað. Þetta á ekki hliðstæðu í nokkru landi. T.d. í Noregi eru þetta 900 norskar kr. á mánuði, ef um veikindi er að ræða. Ég tel ekki, að ég hafi nokkurn tíma viljað níðast á sjómönnum, enda stend ég of nærri þeim til þess að vilja gera það. En þetta óréttlæti, sem á sér stað í þessu, það er mikil þörf á því, að Alþ. sýni þann manndóm að leiðrétta þá villu, sem það gerði endanlega 8. apríl 1963.

Það er ýmislegt, sem ég er sammála 1. flm. þessa frv. um. Ég sagði það hér í fyrra eða hittið fyrra, einmitt í sambandi við afgreiðslu á málum, að mér finnst eðlilegt, að það væri eitthvert hámark í sambandi við orlof, því að orlof er hugsað þannig, að það sé til þess að menn með lægri tekjur og miðlungstekjur geti tekið sér hvíld og fengið sitt orlof. En þegar þetta nær til þess, að menn komast á aðra millj. kr. í árstekjur og ekkert hámark er fyrir hendi, er þetta orðin fjarstæða.

Hv. fyrri flm. þessa frv. talaði einnig um hlutaskiptin. Við erum í mörgum tilfellum mjög sammála um þetta, en það vita allir, hvað hlutaskiptin á síldveiðiflotanum og ekki hvað sízt gagnvart yfirmönnunum eru fjarstæðukennd. Um það veit ég, að við erum sammála, að það er ábyggilega meiri vinnutrygging fyrir þessa menn, að meira verði eftir hjá framleiðslunni en verður, heldur en það fari í opinber gjöld, eins og það gerir nú, þegar þetta er komið upp í þær háu tekjur, sem nú eru.

Ég sem sagt skal ekki hafa þessi orð fleiri, en ég vonast til þess, að hv. 4, þm. Reykn. sýni bæði manndóm og kjark til þess að standa með í að leiðrétta það, sem viðurkennt hefur verið að væri ósanngjarnt. En ég óska ekki eftir því, að það sé komið með það sem sýndarfrv. fram á Alþingi, aðeins til að þóknast nokkrum mönnum, heldur til að fá því framgengt.

Vextina minntist fyrri flm. á. Það vildi nú einmitt þannig til, að bæði í gærmorgun og í morgun hef ég verið að vinna að lausn á ýmsum vandamálum, sem hér voru til umr. í gær, og þess vegna hafði ég ekki tíma til að kynna mér nægilega þessa merku ræðu hv. flm. til þess að geta svarað henni lið fyrir lið, því að víða var komið við og margt var merkilegt í henni, en ég endurtek þó, að ég stend við þær athugasemdir, sem ég hef tekið fram í sambandi við þetta frv.