28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 405 í C-deild Alþingistíðinda. (1944)

126. mál, launaskattur

Eðvarð Sigurðsson:

Herra forseti. Ég hafði kvatt mér hljóðs, þegar þetta mál var til umr. s.l. fimmtudag, en það var ekki til þess að ræða efnahagsmál almennt eða erfiðleika sjávarútvegsins sérstaklega, en það fannst mér efnið í ræðum þeim, sem þá höfðu verið fluttar varðandi þetta mál. Ég vildi hins vegar með nokkrum orðum koma að efnisatriðum þessa frv., en efni þess er það í stuttu málí, að fella beri niður launaskatt í einstökum atvinnugreinum á vélskipum allt að 150 tonnum og í fiskiðnaðinum. Mig langar til í þessu sambandi aðeins að geta þess, hvernig launaskatturinn er til kominn.

Eins og fram hefur verið tekið, var það einn af þáttum júní-samkomulagsins 1964. Húsnæðismálin hafa löngum verið ein af allra erfiðustu málum launþeganna og má segja alls almennings og jafnframt verið einn erfiðasti þátturinn í okkar efnahagslífi. Það er ekki neinum blöðum um að fletta, að einmitt þessi þáttur, húsnæðismálin og hvernig þau hafa þróazt, hefur átt mjög mikinn þátt í því, hvernig dýrtíðin hefur vaxið og þá ekki síður hvernig launakröfur hafa aukizt til þess að reyna að standa undir sífellt dýrara og dýrara húsnæði. Mér hefur oft fundizt mikið á bresta, að atvinnurekendur reyndu að skoða þetta mikla vandamál í réttu ljósi. Og ég held, að flutningur þessa frv. sé í raun og veru enginn velgerningur við atvinnuvegina.

1964 var svo komið, að verkalýðshreyfingunni fannst bráðnauðsynlegt og brýn nauðsyn á því, að í þeim samningum yrðu húsnæðismálin sérstaklega tekin til meðferðar. Það má að vísu deila um það, hvort rétt sé í kjaradeilum eins og þá voru háðar og verið hafa bæði fyrr og síðar að taka þá til meðferðar og afgreiða í raun og veru mál, sem óumdeilanlega eru löggjafaratriði og ætti í rauninni að leysa á annan veg en þá var gert og hefur verið gert bæði um þetta mál og önnur skyld. En þegar nauðsynin er jafnbrýn og þá var, töldum við í verkalýðshreyfingunni, að það bæri að fórna jafnvel nokkru til þess að fá úrlausn þessara mála á betri veg en þau voru þá stödd. Launaskatturinn var þá einn þáttur í lausn þessara mála. Það voru einnig önnur atriði í júní-samkomulaginu, sem snertu húsnæðismál. Og launaskatturinn er þannig, að það er greitt sem svarar 1% af öllum útborguðum launum, og þessi skattur er lagður á atvinnurekendurna. Okkur var fullkomlega ljóst, þegar við gerðum júní-samkomulagið, að launaskatturinn m.a. skerti möguleika okkar til þess að hækka launin að sama skapi. Þetta var okkur ljóst. Það var einnig um það rætt á vissum stigum þessa máls, að fyrirkomulagið yrði annað, þ.e.a.s. að launþegarnir sjálfir greiddu þetta framlag beint til byggingarsjóðs ríkisins, en þangað rannur launaskattur, einmitt til þess að efla þann sjóð, svo að hann sé bærari um að standa undir hærri lánum til almennings varðandi húsnæðismálin heldur en áður var, enda var það einn liður samkomulagsins, að lánin hækkuðu verulega. Það má segja, að það sé meira fyrirkomulags- eða hagræðingaratriði, að skatturinn er innheimtur á þann hátt, sem nú er, en i eðli sinu er hann í raun og veru hluti af launum fólks. Og það er einmitt þetta eðli launaskattsins, sem ég tel, að jafngildi því, að ef þetta frv., sem hér er til umr., yrði að lögum, væri það í raun og veru jafngildi þess, að laun væru lækkuð á lögbundinn hátt. Eðli málsins er það. Alveg sama mundi ég segja, ef flm. hefðu haft þetta víðtækara og tekið fleiri atriði, sem þeir virðast renna hýrum augum til í þessu sambandi, t.d. atvinnuleysistryggingasjóðinn, — nákvæmlega sama eðlis.

Hv. 2. flm. þessa frv., 4. þm. Reykn., Jón Skaftason lögmaður, taldi hér í ræðu sinni, að júnísamkomulagið væri úr gildi vegna þess að það hefði ekki verið endurnýjað. Nú er það svo bæði með júní-samkomulagið og ýmislegt annað, sem gert hefur verið í þessum efnum fyrr og síðar, að sumt er fest í samningum og er þá þar þangað til aðilar koma sér saman um annað. Annað hefur verið fest í lög, og ég vildi einnig segja: er þá þar, þangað til aðilar koma sér saman um annað. En ekki er að efast um, að báðir þættirnir, það, sem stendur skrifað í samningum, og það, sem sett hefur verið í lög, er jafngilt og í jafnföstu gildi. Ég vil minna á, að í júní-samkomulaginu var einnig samið um, að verðlagsuppbót skyldi greidd á laun. Þetta var lögfest á Alþ. og er nú í lögum. Ég vildi nú mega spyrja, hvort hv. lögmaðurinn, alþm., teldi það ekki jafngilda samningsbrotum, ef verðtryggingin á kaupið væri numin úr lögum. Það væri enginn launþegi 3 landinu í vafa um það.

Í grg. fyrir þessu frv. tala hv. flm. um kjósendahræðslu. Ef þetta frv. ber ekki greinilega með sér öll merki kjósendadekurs, að ég ekki segi lýðskrums, þá kann ég ekki mörk að þekkja.