28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 406 í C-deild Alþingistíðinda. (1945)

126. mál, launaskattur

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Það er nú ekki miklu að svara. Ég veit ekki, hvort það hefur komið eitthvað markvert fram hjá hv. 3. landsk. þm. (EðS), áður en ég kom inn, en það er ekki mjög miklu að svara þeim atriðum, sem komu fram hjá honum eftir það.

Það er í fyrsta lagi, að það jafngildi launahækkun, ef launaskatturinn yrði afnuminn. Ég veit nú ekki til, að blessað fólkið fái þetta prósent. Það er lagt í húsbyggingasjóð, fólkið fær svo aftur lán úr þeim sjóði, en í frv. okkar eða grg. er gert ráð fyrir, að það sé bætt á annan hátt, að það sé bankakerfið, sem sjái fyrir þessum lánum, en útgerðarmenn séu ekki skattlagðir. Ég reikna ekki með, að þetta verði að lögum núna, við reiknum yfirleitt ekki með því í stjórnarandstöðunni, að það fljúgi í gegn, þó að við komum með einhver frv. Þetta er sérstaklega gert til að skýra málin. Það er nefnilega þannig, að þegar menn eru að bæta þessum sköttum á atvinnuveg eins og sjávarútveginn, er það gert yfirleitt af mönnum, sem fást ekki víð sjávarútveg og hafa ekki nokkra einustu hugmynd um, hvað þeir eru að gera. Svo er bætt skatti ofan á skatt, og ég dró þetta saman, þetta allt saman, til að sýna fram á, hvað þetta gerði allt saman mikið, en þetta er allt annað en laun til fólksins.

Það er bara verðbólguhítin, sem gleypir þetta, það fer ekki annað, og mikið af þessum peningum hefur lent hreinlega í vasa milliliðanna, sem eru að byggja húsin og selja þau. Þeir fá þeim mun meira greitt. Við álítum, að bankakerfið eigi að sjá fyrir þessu, en ekki skattleggja atvinnuvegina.

Það, sem farið hefur verið inn á nú seinni árin, er það, að það hefur verið farið að skattleggja atvinnuvegina til að geta útvegað rekstrarfé, í staðinn fyrir að ef fjármálapólitíkin væri heilbrigð, þá gæti bankakerfið annazt skattana. Það er enginn að tala um að lækka laun. Hitt leiðir af sjálfu sér, að þegar laun verða óeðlilega há og atvinnuvegirnir bera sig ekki, ef um samningsatriði er að ræða, en ekki lög, semja náttúrlega atvinnurekendurnir við launþegana. Og menn geta ekki endalaust borgað meira en þeir afla. Ég vil ekki verja það. Ég álít, að fjárfesting í sjávarútvegi hafi verið vægast sagt dálitið ógætileg núna síðari árin og það hefði átt að hafa betra eftirlit með henni. Ég tók það fram um daginn, að þeir, sem græða mest á síldarútgerð t.d., ég tel þá gera of mikið af því, þeir fara undireins með það fjármagn, sem þeir hafa afgangs, og kaupa ný og ný tæki. Þetta getur gengið, meðan mikið aflast, en þegar aflinn bregzt, standa þessir menn uppi og geta ekkert borgað.

Alveg sama er með atvinnuleysistryggingarnar. Við ætlum ekki að skerða kjör eins einasta manns, þó að við minnumst á það að afnema þær. Við meinum auðvitað að létta byrðarnar. Þetta er tekið af bæjarfélögum, þetta er tekið af atvinnufyrirtækjum. Það gefur auga leið, að eftir því sem atvinnufyrirtækin eru skattlögð meira til einhverra sjóða, geta þau borgað lægra kaup. Hvaðan ætli peningarnir séu teknir, sem bæjarfélögin taka? Af fólkinu. Launþegarnir eru skattpíndir núna með útsvörum, svo að það tekur engu tali, og þó að sjómennirnir hafi töluverðar tekjur, er þetta kroppað miskunnarlaust af þeim í opinber gjöld. Þetta verða þessir herrar að athuga, sem eru að semja fyrir fólkið, að fólkið borgar þetta allt saman. Og það er ekki endilega víst, að það komi á þá, sem ríkastir eru. Þeir hafa kannske einhver ráð til að smeygja sér undan því. Hverjir eru þeir, sem græða? Ætli það séu ekki þeir, sem hafa milliríkjaverzlunina fyrst og fremst?

Ég get bara sagt ykkur það ævintýri, að ég var að koma neðan úr banka núna. Ég mætti einum saklausum vinnandi skipstjóra, sem sagðist eiga 32 tonna bát, 12 þús. falla í gjalddaga í haust hjá stofnlánadeildinni, og sagði hann, að væri búið að auglýsa bátinn af lögfræðingi, sem heitir Björn Ólafs og er fyrir þennan æðsta banka landsins. Þetta er ekki neitt leyndarmál. Svona er farið að. Þessum fuglum er sigað á þessa menn, sem bera hita og þunga dagsins. Svona er með þá farið. Maðurinn skuldar 200 þús. í bátnum, undireins beðið um uppboð. Það er verið að reyna að stöðva hjá flotanum í heild núna, vegna þess að það er í gegnum aðra stofnun, fiskveiðasjóðinn, sem er raunar búið að gera þannig núna, að það er varla skiptandi við hann, með því að leggja hann inn í þrjá banka. Það er þetta kúgunarvald. Svo koma þessir herrar á eftir og hlaða skatti á skatt ofan á þessa menn, ekki að það renni beint til fólksins, til þess að það geti keypt sér mat og föt og menntað börn sin. Nei, ónei, það er lagt í sjóði, ekki í einn sjóð, heldur tvo, heldur þrjá, heldur fjóra. Verðtrygging á kaupi er allt annað atriði, það fer til fólksins. Það er kaup, enda tökum við það ekki þarna upp í þessari grg. Það fær fólkið greitt fyrir hækkandi verð þeirrar vöru, sem það þarf að kaupa, og það er allt annars eðlis. Og það er í raun og veru sanngirniskrafa. Aðalatriðið er bara að reyna að halda þessu í skefjum.

Viðvíkjandi kjósendadekri held ég, að það sé ekki rétt, að það sé neitt kjósendadekur í þessu, heldur alveg þvert á móti. Við þorðum þarna að taka atriði, sem aðrir hafa forðazt að tala um og hæstv. forsrh. vill ekki tala um, því að hann fer út, þegar ég ætla að fara að tala um þetta mál. Hann vill ekki ræða málið, af því að í hjarta sínu veit hann, að það er allt satt, sem við segjum. Hann vill ekki ræða það. Nei, það er nefnilega dálítið hættulegt, þegar menn, sem ekki reka þennan atvinnuveg, fara að stjórna honum og hlaða byrðum á hann. Það væri ekki svo vitlaust að ákveða það, að sjútvmrh. gerði út einn fiskibát og færði reikningana sjálfur og borgaði þá, svo að hann hefði eitthvert vit á, hvað hann væri að gera. Ég held, að það væri vel til fundíð og borgaði sig, jafnvel þó að ríkið borgaði leiguna eftir bátinn, ef hann lærði eitthvað á því. En það er ekkert verið að spyrja að því, þegar ráðh. eru skipaðir í einhvern ráðherrastól, hvort þeir hafa vit á hlutunum eða ekki. Nei, ónei, það er bara flokkabraskið og pólitíkin. Og það er mikið mein, að við skulum ekki velja menn í ráðherrastólana meira þannig, að þeir hafi vit á hlutunum, sem þeir eiga að stjórna, heldur en þeir geti skrifað eitthvað í blað eða smjaðrað fyrir kjósendunum, því að það er auðveldast. En það var nefnilega ekki kjósendasmjaður í því, sem við sögðum. Það var bara blákaldur sannleikurinn.

Ég skal játa það, að þeir, sem hafa verið í þessu síldarævintýrí og eru heppnastir með það, hafa haft peninga. Þeir hafa það, meðan síldin veiðist. Nú er ekki gert ráð fyrir því, að þessi mikli síldarafli verði nema eitt ár enn, og þá verður þar meira hrun en á þessum fiskibátum. Í ofanálag á þetta allt saman verða þessir menn, sem ekki hafa fiskverkunina, að borga alla þessa skatta. En þeir, sem hafa verkað fiskinn, hafa haft hagnaðinn, meðan hann var að hækka, þannig að við þá, sem hafa gert út bátana, hefur verið klippt og skorið. Þeir, sem hafa verið duglegir menn, hafa rétt sloppið, en ekki getað safnað neinum varasjóði. Og meðferðin er svo eins og ég gat um og þessi skipstjóri sagði mér, sem ég hitti núna á leiðinni hérna inn. Það var beðið um uppboð á bátnum, sagði hann mér, af því að það voru 12 þús. kr. í vanskilum frá í haust. Þessi aðferð hefur raunar ekki verið notuð í fiskveiðasjóðnum, en þannig hefur þetta verið notað í stofnlánadeildinni, meðan Seðlabankinn réð yfir henni og lögfræðingurinn Björn Ólafs. Það er rétt, að það heyrist, þegar svona aðferðir eru notaðar. Í staðinn fyrir að tala við manninn, er bara beðið um uppboð. Þetta er gert með skattana. Ég veit ekki betur en aðstöðugjöldin, sem við erum að borga af töpunum, og þessi launaskattur og allt hella klabbið, ef þetta er ekki borgað, á bara að ganga að bátunum. Menn borga ekki með því, sem þeir hafa ekki til.

Það væri ágætt, að þessir herrar, sem alltaf eru að hlaða skatti ofan á skatt á þessa menn, sjómenn og útgerðarmenn, sem framleiða það, sem við lifum á, framleiða verðmæti þess, sem fólkið eyðir, sem er nú að ferðast í lúxusskipum, eins og Íslendingar gera mikið að núna og eyða mörg hundruð millj. í ferðalög á ári, það er ágætt, ef þessir herrar vildu bara gera út bát, gera út fiskibát. Þá vissu þeir, hvað þeir væru að segja. Og eins og ég tók fram um daginn, er það annaðhvort gagnvart atvinnuvegunum, að atvinnurekendurnir semji við launþegana og þeir ræði um þetta skynsamlega, og launþegar eru ekki það blávatn, að þeir, sem vinna hjá fyrirtækjunum, viti ekki nokkurn veginn, hvernig þeim liður, og ríkið sé ekkert að skipta sér af því, eða þá að ríkið ákveði kaup launþega allra í landinu, jafnt bænda, sjómanna og annarra, auðvitað með aðstoð sérfróðra manna og eftir hagfræðilegum skýrslum. En það er ekki skynsamlagt að semja um eitthvað út í loftið, alveg að órannsökuðu máli, bæta skatti ofan á skatt, þangað til menn gefast upp og geta ekki borgað, eins og fiskibátarnir eru raunar búnir að núna. Það yrði sennilega meiri hl. af þeim seldur, ef það yrði innheimt hver skuld hjá fiskveiðasjóði, sem ég vil taka fram, að hefur verið rekinn af fullkominni sanngirni og skilningi gagnvart útvegsmönnum, því að þetta er ágætismaður, sem honum hefur stjórnað, en hann sagði mér, að hann ætlaði að fara að fara, svo að þá lagast þetta allt saman. Þessir herrar, sem alltaf eru að gera endalausar kröfur á atvinnuvegi, sem ekki geta staðið í skilum, þyrftu að vita dálítið, hvað þeir væru að gera. Þeir ættu að vera í þessum atvinnurekstri sjálfir. Þá vissu þeir, hvað þeir væru að semja um og hvaða kröfur þeir væru að gera. En ég hef aldrei talið eftir þá aura, sem fólkið fær. Ég hef tekið það fram hér, að ég hef aldrei séð eftir peningum, sem hásetarnir hafa fengið, þeim veitir ekkert af þeim. En hitt hef ég tekið líka fram, að yfirmennirnir á skipunum, m.a. skipstjórarnir á síldarskipunum, þeir hafa það há laun, að það er ekki eðlilegt, að nokkur atvinnuvegur í nokkru landi geti borið það uppi á heilbrigðan hátt. Og þessir viðbótarpinklar, sem er svo verið að læða á þessa menn, sem bera þyngstu byrðarnar, eru gersamlega óþolandi og eru algerlega að sliga okkur.