28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 413 í C-deild Alþingistíðinda. (1955)

130. mál, olíuverslun ríkisins

Flm. (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Með frv. þessu er lagt til, að sett verði á stofn nýtt ríkisfyrirtæki, Olíuverzlun ríkisins. Gert er ráð fyrir því í frv., að Olíuverzlun ríkisins taki í sínar hendur allan innflutning á olíum og olíuvörum til landsins og hafi ein með höndum alla heildsölu á þessum vörutegundum. Þá er einnig gert ráð fyrir í frv., að þessi ríkisverzlun taki að mestu leyti í sínar hendur alla smásölu á olíu og annist dreifingu olíuvara um landið.

Eins og kunnugt er, hefur um alllangan tíma sú skipan verið á olíuverzlun hér á landi, að þrjú stór olíufélög hafa haft með olíuverzlunina að gera. Þessi þrjú olíufélög eiga svo að segja allar birgðastöðvar fyrir olíuvörur, sem til eru í landinu, og þau eiga einnig þær dreifistöðvar, sem talið er að þurfi við þessa vörusölu, og svo að segja allt það flutningakerfi, sem notað er hér innanlands í sambandi við dreifingu á þessari vöru. Hins vegar hefur það verið þannig nú um nokkurra ára skeið, að ríkið hefur gert samninga við erlenda aðila um innkaup á olíum til landsins. En þessir samningar, sem ríkið hefur gert um innkaup á olíum, hafa síðan verið afhentir þessum þremur stóru olíufélögum til framkvæmda, og á þann hátt hafa olíufélögin í rauninni fengið einokunaraðstöðu með verzlun í landinu á þessum vörum. Olíufélögin þrjú hafa því haft aðstöðu til þess í gegnum þetta skipulag að meina öðrum að komast að til þess að taka þátt í olíuverzluninni, jafnt í heildsölu sem í smásölu.

Við vitum, að þetta skipulag hefur leitt til þess, að þessi þrjú olíufélög hafa byggt upp þrefalt dreifingarkerfi um allt land, því að út af fyrir sig starfa þessi olíufélög sjálfstætt þannig, að hvert þeirra um sig telur sig þurfa að byggja upp sínar aðalbirgðastöðvar og dreifistöðvar og hafa sitt sérstaka starfslið í sambandi við olíusöluna. En þó að þessi þrjú olíufélög hafi á þennan hátt byggt upp æðikostnaðarsamt skipulag og haldi uppi mjög kostnaðarsömu dreifingarkerfi, þá er nú ekki því að heilsa, að þau reki nokkra teljandi samkeppni sín á milli í sambandi við sölu á olíuvörum. Þessi þrjú félög hafa um langan tíma komið sér saman um það, hvaða verðkröfur þau skuli gera varðandi útsöluverð á olíum, en þau hafa um alllangan tíma þurft að sækja undir verðlagsyfirvöldin í landinu um það, hvað útsöluverð á olíuvörum mætti vera, og í þeim tilfellum hafa þessi félög alltaf komið fram gagnvart verðlagsyfirvöldum landsins eins og um einn söluaðila væri að ræða. Þau hafa þá sett fram sameiginlega sínar kröfur til verðlagsyfirvaldanna um þóknun eða álagningu sér til handa, og siðan hafa þau staðið mjög fast að því, að sams konar söluskilmálar skyldu vera í gildi hjá öllum félögunum varðandi þessa verzlun. Þetta hefur gengið svo langt, að þó að ýmsir opinberir aðilar hafi leitað eftir tilboðum varðandi kaup á allmiklu magni af olíu og olíufélögin þrjú hafi leitað eftir samningum í þeim efnum, hefur það jafnan komið fram, að öll hafa olíufélögin boðið viðskiptin með nákvæmlega sömu kjörum. Það hefur því ekkert farið á milli mála, að þessi þrjú olíufélög hafa með sér viðtækt samstarf varðandi verðlagninguna á olíuvörum. Þessi samstaða þeirra varðandi verzlunarreksturinn hefur einnig komið fram t.d. gagnvart olíusamlögum, sem viða hafa verið mynduð samkvæmt lögum. Það höfðu ýmsir aðilar, sem þurfa mikið á olíuvörum að halda, myndað með sér olíusamlög á samvinnugrundvelli, m.a. höfðu útvegsmenn gert það í mörgum tilfellum. Þessi samlög hafa ekki átt þess kost að geta fengið olíuvörur keyptar af þessum þremur stóru olíufélögum á eðlilegu heildsöluverði. Um ekkert slíkt hefur verið að ræða. Olíufélögin hafa aðeins gefið þessum olíusamlögum kost á því að kaupa af sér olíu á hinu almenna útsöluverði, en þó veitt tiltekinn smáafslátt, sem hefur átt að duga fyrir beinum útlögðum dreifingarkostnaði þessara samlaga, sem annazt hafa þá smásöluna hvert á sínum stað. Þannig hafa þessi olíufélög í gegnum þá aðstöðu, sem ríkisvaldið hefur fengið þeim, komið í rauninni í veg fyrir það, að þau olíusamlög, sem starfandi eru í landinu, skv. lögum frá Alþingi, gætu rekið starfsemi sína á þeim grundvelli, sem þeim var ætlað að gera. Áður en olíufélögin þrjú fengu þessa aðstöðu í gegnum samninga við ríkisvaldið, var það þó svo, að ýmis olíusamlög í landinu höfðu aðstöðu til þess að kaupa olíu ýmist beint erlendis frá og ná þannig í olíuna á heildsöluverði eða í sumum tilfellum gátu þau keypt olíu frá birgðastöðvum, sem ríkið réð sjálft yfir og voru þá til hér í landinu, en þegar þessi olíusamlög höfðu þessa aðstöðu, sýndu þau það í verki, að þau seldu olíuna á miklum mun lægra verði en stóru olíufélögin gerðu almennt til landsmanna. En í þeim samningum, sem olíusamlögin hafa þurft að gera nú við olíufélögin þrjú, verða þau að skuldbinda sig til þess að halda uppi sama útsöluverði, hvar sem er á landinu, og olíufélögin gera.

Það er vitað mál, að olía er ein af brýnustu nauðsynjavörum landsmanna. Við notum hér tiltölulega mjög mikið af olíu. Okkar atvinnurekstri er þannig háttað, og aðstöðu okkar til þess að afla okkur hitagjafa er þannig varið, að við þurfum mjög mikið á olíu að halda, enda flytjum við árlega inn mjög mikið magn af olíu. Ég veit ekki nákvæmlega um það, hvað hér er um mikið magn að ræða, en ég veit, að það mun liggja á milli 3 og 4 hundruð þús. tonna á ári, sem innflutt er af olíu, og aðeins innflutningsverðið mun vera nokkuð yfir 400 millj. kr. á ári. Það fer því ekkert á milli mála, að það skiptir miklu máli, jafnt fyrir atvinnureksturinn í landinu og fyrir allan almenning í landinu, hvernig verðlagið er á þessari brýnu nauðsynjavöru. En verðlagið fer auðvitað mjög eftir því, hvernig staðið er að sölumeðferð á þessari vörutegund.

Ég efast ekki um það fyrir mitt leyti, að sá stofnkostnaður, sem olíufélögin hafa lagt í að byggja upp sitt olíudreifingarkerfi um allt land, er langtum meiri en þörf er á fyrir þarfir landsmanna. Ég efast ekki heldur um það, að sá mannafl, sem þessi þrjú olíufélög telja sig þurfa að hafa og hafa í sinni þjónustu í sambandi við þessa verzlun, er mun meiri og kostnaðarsamari en hann þyrfti að vera. Afleiðingarnar af þessu þrefalda dreifingarkerfi olíufélaganna koma svo fram í óeðlilega háu olíuverði hér á landi. Það hefur lengi verið svo, að verðmunur á olíuvörum hér á landi og í nágrannalöndum okkar er óheyrilega mikill, og þessi mikli verðmunur stafar af því, að allur kostnaður við þetta þrefalda kerfi er úr hófi fram. Og einnig hefur það verið svo um langan tíma, að olíufélögin hafa tekið til sín allt of mikinn hagnað af þessari starfsemi. En þetta skipulag leiðir það af sér, að olíukostnaður t.d. útgerðar í landinu, frystihúsanna og annarra þýðingarmikilla greina í atvinnulífi okkar, — olíukostnaðurinn þar verður allt of mikill. Sama er að segja, að við notum nú mikið af olíu til þess að framleiða raforku á ýmsum stöðum á landinu, og ríkið sjálft gerir það í stórum stíl. Þannig er fullur helmingur af þeirri raforku, sem framleidd er á Austurlandi nú á vegum ríkisins eða rafmagnsveitna ríkisins, einmitt framleiddur með olíuorku. En þetta of háa verð, sem ég tel vera á olíu hér á landi, kemur vitanlega fram í allt of háu rafmagnsverði eða beinlínis í hallarekstri hjá rafmagnsveitum ríkisins. Sama er að segja um þann mikla kostnaðarlið heimilanna víða um landið í sambandi við upphitun húsa. Þegar olíuverðið er of hátt, er hér um óþarfa skattlagningu á heimilin í landinu að ræða. Hið sama er einnig að segja um allar þær olíuvörur, sem ökutæki landsmanna þurfa á að halda á hverju ári. Þessi allt of mikli kostnaður við sölu og dreifingu á þessum vörum kemur fram í allt of háu verði á þessum vörum til ökutækjanna, en það bitnar á landsmönnum almennt.

Megintilgangur þessa frv., sem hér er flutt, er því sá að reyna að koma í veg fyrir þá óþarfaeyðslu og það ranga skipulag, sem á sér stað í sambandi við dreifingu og sölu á olíuvörum í okkar landi og sýnist engin ástæða vera til að halda uppi lengur en verið hefur. Nú um þessar mundir er mikið um það talað, að það þurfi að koma við meiri hagræðingu á hinum ýmsu sviðum í okkar rekstrarkerfi, það þurfi að koma við bagkvæmari rekstri. Einmitt þessa dagana eru fulltrúar ríkisvaldsins að leggja fram till. um, að það þurfi t.d. að taka til sérstakrar endurskoðunar rekstrarkerfi frystihúsanna í landinu, og bent hefur verið á það af aðalsérfræðingum ríkisstj. í efnahagsmálum, að það mundi mega leggja niður allmörg frystihús, til þess að koma þar við meiri hagkvæmni í rekstri. Vel má vera, að þetta sé hægt, og ég efast í raun og veru ekkert um, að það kunni að vera hægt f vissum tilfellum að skipa þeim málum betur og hagkvæmar en nú er gert. En um þetta er rætt nú, þegar það ber að, að um hallarekstur er að ræða hjá þessum þýðingarmikla atvinnuþætti, frystiiðnaði landsmanna, þá þarf að taka hann til endurskoðunar, breyta þar rekstrarskipulagi og hika jafnvel ekki við að leggja niður fyrirtæki eða sameina þau öðrum. En skyldi þá ekki vera kominn tími til einnig að athuga nokkuð um rekstrarfyrirkomulagið hjá ýmsum þeim fyrirtækjum í landinu, sem eiga bein viðskipti t.d. við frystihúsin og aðra þætti atvinnulífsins og ráða miklu um verðmyndunina í landinu? Er minni ástæða til þess að athuga t.d. um það skipulag, sem við búum við varðandi olíusölumálin í landinu? Ef hægt er að koma þar fram hagkvæmari rekstri en nú er, er þá ekki jafnmikil nauðsyn á því og að taka til endurskoðunar t.d. rekstur frystiiðnaðarins? Kemur það út af fyrir sig ekki að jafnmiklu gagni, ef hægt er að koma fram á þann hátt, með lækkuðu olíuverði, lækkun í rekstrarkostnaði jafnt fiskibáta sem frystihúsa, eins og þó að hægt væri að ná nokkru meiri árangri í breyttu skipulagsformi þessa iðnaðar út af fyrir sig? Ég tel, að það hafi í rauninni dregizt allt of lengi að taka þessi mál til rækilegrar athugunar varðandi olíusöluna í landinu. Við Alþb.-menn höfum sett fram okkar stefnu í þessum málum margsinnis áður og flutt hér frv. í þessa sömu átt og við gerum með þessu frv., sem ég stend að, en þessi frv. hafa ekki náð fram að ganga til þessa. Fyrir stuttu veitti ég því athygli, að form. Alþfl. lýsti því yfir á blaðamannafundi, að Alþfl. styddi þá hugmynd, sem felst í þessu frv. okkar um það að taka olíusölumálin til endurskoðunar og stefna að því að taka þar upp ríkisrekstur á þessari þýðingarmiklu vöru. Ég fagna því, að þessi yfirlýsing kom fram frá hálfu Alþfl., og vil þá vænta stuðnings hans við þetta frv., sem hér liggur fyrir.

Ég skal ekki ræða þetta mál í miklu lengra máli að þessu sinni, enda er fundartími hér á þrotum. En vil aðeins benda á, að það er jafnþýðingarmikið fyrir afkomu atvinnuveganna í landinu að skapa þeim með breyttu skipulagsformi, t.d. í sambandi við olíusöluna í landinu, aðstöðu til að fá sina notavöru á lægra verði, eins og að láta atvinnuvegina fá beina styrki frá ríkinu. Það er líka raunverulega bein kjarabót fyrir mikinn hluta almennings í landinu, ef olíuverð yrði lækkað, því að hér er um óhjákvæmilegan útgjaldalið hjá flestum heimilum í landinu að ræða. Það er því tvímælalaust brýn þörf á því að taka þessi mál fyrir, eins og vandamálum atvinnulífsins er nú orðið háttað og vandamálunum í sambandi við hið allt of háa verðlag er varið, og því er það, að það er full þörf á því, að horfið yrði nú að ráðum okkar Alþb: manna og olíuverzlunin í landinu tekin þeim tökum, sem lagt er til í þessu frv.

Herra forseti. Ég legg svo til, að að lokinni þessari umr. verði þessu frv. visað til fjhn.