28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 420 í C-deild Alþingistíðinda. (1962)

136. mál, sementsverksmiðja

Flm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Það getur út af fyrir sig ekki verið ágalli á þessu frv., að ekki sé þar talað um aðra vinnustaði eða fleiri verksmiðjur, vegna þess að þetta er frv. um breyt. á l. um sementsverksmiðju, og það er ekki hægt að setja í það frv. ákvæði um stjórn annarra fyrirtækja. Segja má, að það væri æskilegt að koma þessu fram á fleiri stöðum, en reynslan hefur, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, sýnt, að till. hafa ekki komizt ýkjalangt enn þá, og er því ekkert á móti því að fara hægt í sakirnar. Ég hef valið þann kost að byrja á einu fyrirtæki.

Ég vil útskýra það fyrir hv. síðasta ræðumanni, að ef þetta frv. væri samþ., væri l. um sementsverksmiðju þar með breytt. Mundu þau lög gilda, þangað til Alþ. breytir þeim aftur. Tilraunin mun því standa eins lengi og Alþ. sjálfu sýnist, og það dæmir og metur, eftir að tilraunin hefur staðið einhvern tíma, hvort ástæða sé til að breyta þessu ákvæði aftur eða ekki.