28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í C-deild Alþingistíðinda. (1966)

139. mál, skipulagslög

Axel Jónsson:

Herra forseti. Það er rétt, að skipulagsmálin eru ákaflega þýðingarmikil einmitt fyrir sveitarfélögin og sveitarstjórnirnar. Mér er það fullkunnugt, að einmitt á því svæði, sem hér um getur, þ.e. sem samtök sveitarfélaga úr Reykjaneskjördæmi ná yfir, er þetta ákaflega brýnt verkefni, og því er ekki að neita, að oft og tíðum hefur þótt ganga of hægt að fá unnin tiltekin verk í þessu efni. En ég vil þó láta það koma fram, svo að það geti ekki valdið neinum misskilningi, að það er mín skoðun, eins og kom fram á þeim fundi, sem hér er vitnað til í grg., að það, sem þessu veldur, er ekki fyrst og fremst skipulag þessara mála, ekki, hvernig er með fjárreiður. Við þekkjum það Kópavogsbúar, við höfum reynt að auglýsa hvað eftir annað eftir sérfróðum manni til skipulagsstarfa og engan fengið, og ástæðan fyrir því, hversu hægt gengur, er fyrst og fremst sú, að það skortir hæfa menn til að framkvæma þessi verk. Þar mun höfuðástæðan liggja fyrir því, hversu of hægt hefur gengið að sinna skipulagsmálum sveitarfélaganna. Það er a.m.k. alveg skýlaus reynsla bæjarstjórnar Kópavogs, að það er fyrst og fremst það, sem á stendur, að fá hæfa menn til starfanna, en ekki að stjórn þessara mála er þannig upp byggð og nú er eftir gildandi lögum né heldur hvernig er varið með skipulagsgjöldin. — Ég vildi aðeins, herra forseti, að þetta kæmi ljóst fram. Þetta kom fram á þeim fundi, sem hér er vitnað til, þó að það sé ekki vikið að því í grg. með frv.