28.02.1967
Neðri deild: 47. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 425 í C-deild Alþingistíðinda. (1969)

139. mál, skipulagslög

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins nokkur orð, sem mig langar til að segja út af samsetningu skipulagsstjórnar. Það er alveg rétt, sem hv. 2. landsk. þm. sagði hér áðan, að þegar frv. um breyt. á l. um skipulagsstjórn var borið fram 1964, voru til umr. svipaðar til1. og hér eru fram bornar. Og það er náttúrlega sjálfsagt og eðlilegt mál, að í n. komi fram sjónarmið bæði manna með verkfræðikunnáttu og sem eru arkitektar, og skal ég sízt lasta það. En það eru í n. þegar bæði verkfræðingar og arkitekt, þó að það séu embættismenn, vegamálastjóri og vitamálastjóri, sem báðir eru verkfræðingar, og húsameistari ríkisins, sem er arkitekt, og allir þessir menn hafa mikla og alhliða þekkingu á einmitt þeim málum, sem koma fyrir til afgreiðslu í skipulagsstjórn. Auk þess var svo bætt inn í stjórnina, þegar breyt. á skipulags1. var til umr. 1964, því ákvæði, að þar skyldi vera einn maður frá Sambandi ísl. sveitarfélaga og annar, sem væri skipaður af ráðh. án tilnefningar. Og ég vildi segja það, vegna þess að það kom í minn hlut að ákveða, hver skyldi vera í skipulagsstjórninni án tilnefningar, að ég ákvað einmitt að setja þann mann í skipulagsstjórnina, sem bæði er verkfræðingur og arkitekt, þannig að arkitekta- og verkfræðingasjónarmiðin í þessu falli eru mjög rækilega virt. Og þetta er eini maðurinn hér á þessu landi, sem er bæði verkfræðingur og arkitekt, og auk þess hefur hann sérstaklega kynnt sér skipulagsmál, þannig að þó að Verkfræðingafélag og Arkitektafélag færu að tilnefna sérstaklega, er ég ekkert viss um, að það yrði betur séð fyrir þessu máli en nú er með þeirri skipun, sem er á þessu máli, og með þeirri útnefningu, sem gerð var 1964 eða 1965, ég man ekki, hvort árið það var, eftir að l. komu til framkvæmda, þar sem ákveðið var, hverjir í skipulagsnefnd skyldu sitja og ekki væru bundnir í lögum.

Þetta vildi ég aðeins, að kæmi fram, og tel ég, að a.m.k. að óbreyttri núverandi skipan sé ekki þörf á frekari teknískri tilnefningu frá Arkitektafélagi eða Verkfræðingafélagi. En hvað viðvíkur því að fjölga sveitarstjórnartilnefndum mönnum úr einum í tvo, er kannske einhver ástæða til þess, en ég tel hana þó ekki mikla. Ég vildi aðeins, að þetta kæmi fram, svo að menn vissu það, að auk þessara þriggja embættismanna, sem hér eru nefndir og bundnir, er þarna tilnefndur af ríkisstj. maður, sem uppfyllir bæði skilyrðin, sem gerð eru í frv. um sérfræðiþekkingu af hálfu verkfræðinga og arkitekta.