14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 305 í B-deild Alþingistíðinda. (198)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Frv. þetta hefur verið samþ. í hv. Nd. að mestu óbreytt frá því sem það var lagt fram.

Snemma á s.l. sumri fóru viðræður fram milli mín og fulltrúa bænda í sex manna nefnd og Stéttarsambands bænda um það, hvort ekki væri heppilegt að reyna að koma því fram á hv. Alþingi, að framleiðnisjóður væri stofnaður fyrir landbúnaðinn. Í tilefni af því voru í júlímánuði fengnir tveir menn til þess að semja drög að slíku frv., þeir Ólafur Björnsson prófessor og Sveinn Tryggvason framkvstj. framleiðsluráðs. Þeir skiluðu frv. í ágústmánuði um framleiðnisjóð landbúnaðarins, sem síðan var til athugunar. En í septembermánuði var enn rætt um stofnun framleiðnisjóðs í sambandi við það, þegar verðlag á búvörum var ákveðið. Var samkomulag um, að stofnaður skyldi framleiðnisjóður með 30 millj. kr. stofnframlagi, en 20 millj. skyldu greiðast fyrir n.k. áramót til vinnslustöðva landbúnaðarins vegna endurbóta, sem gerðar hefðu verið á árinu 1966: Í tilefni af því þótti eðlilegt að skipa enn nefnd til þess að athuga það frv., sem fyrir lá, og voru 5 menn skipaðir í þessa. nefnd: Gunnlaugur E. Briem ráðuneytisstjóri, sem var form. nefndarinnar, Ólafur Björnsson prófessor, Jón Þorsteinsson alþm., Gunnar Guðbjartsson form. Stéttarsambands bænda og Kristján Karlsson fyrrv. skólastjóri. Var samkomulag í nefndinni og samkomulag nefndarinnar við ríkisstj. um, að stofnframlag framleiðnisjóðs skyldi ekki vera 30 millj., eins og áður hefur verið talað um, heldur 50 millj., og kom nefndin sér saman um það frv., sem hér liggur fyrir að mestu óbreytt, þó var ein breyting, sem gerð var á frv., eftir að nefndin hafði skilað því, og sumir nm. höfðu lagt talsvert upp úr, að það ákvæði væri í frv. og gert að lögum, en það var það, að ef ekki þyrfti að nota allar útflutningsuppbæturnar, sem heimilaðar eru samkv. lögum, sem mega nema 10% árlega af heildarverðmæti landbúnaðarins, þá skyldu 0.25% af því, sem af gengi, ganga í framleiðnisjóð. En nm. tóku það jafnhliða fram í grg. með frv., að ekki væru líkur til, að þetta ákvæði gæfi sjóðnum tekjur á næstu árum, og því var ég sammála, því að ólíklegt má telja, að ekki verði not fyrir allar útflutningsuppbætur fyrst um sinn, þannig að á næstu árum hefði þetta ekki orðið neitt hagkvæmt fyrir framleiðnisjóðinn. En vissulega er tækifæri til þess að athuga tekjuöflun fyrir framleiðnisjóðinn í framtíðinni, og yrði sennilega þá að gera það með virkari og raunhæfari hætti en aðeins með þessu ákvæði. En mér þykir rétt að minnast á það hér, þannig að hv. Alþ. viti um það, að ýmsir í nefndinni, þ. á m. form. Stéttarsambands bænda, lögðu nokkuð upp úr því, að þetta væri tekið inn í lögin.

Eins og sjá má, þá er verkefni sjóðsins markað í þessu frv. Það er að stefna að aukinni framleiðni í landbúnaðinum og styrkja rannsóknir og framkvæmdir, sem miða að lækkun framleiðslu- og dreifingarkostnaðar, eins og kveðið er á í 1. gr. frv. Þá er ákveðið, að skipuð verði stjórn fyrir sjóðinn, sem skipuð yrði 5 mönnum, að Búnaðarfélag Íslands tilnefni 1, Stéttarsamband bænda 1, ráðh. skipi 2 án tilnefningar og forstöðumaður Efnahagsstofnunarinnar verði form. sjóðsstjórnarinnar. Þá er gert ráð fyrir því, að ekki megi veita styrki úr sjóðnum nema 1/3 af því fé, sem ráðstafað sé árlega, en 2/3 skuli vera veitt sem lán, að undanskildu því, sem veitt er úr sjóðnum nú fyrir næstu áramót, 20 millj. kr., það er ætlazt til, að það verði óafturkræft framlag, sem ráðstafað er af stjórn sjóðsins að fengnum till. framleiðsluráðs.

Að öðru leyti skýrir þetta frv. sig sjálft, með því að það sé lesið, og tilgangur frv. er tvíþættur, eins og sjá má og gerð hefur verið grein fyrir áður.

Það er von þeirra, sem sömdu þetta frv., og það er von ríkisstj., að framleiðnisjóður landbúnaðarins geti orðið lyftistöng fyrir landbúnaðinn, geti átt nú og í framtíðinni stóran þátt í því að skipuleggja landbúnaðarframleiðsluna við hæfi og þörf þjóðarinnar og einnig í þá átt, að helzt verði framleiddar þær vörur, sem bezt borgar sig að flytja út, að framleiðnisjóður geti orðið til þess að stuðla að minni framleiðslukostnaði og hagkvæmari vinnubrögðum í landbúnaðinum. Og þótt nú sé talað um að stofna framleiðnisjóð, sem hefði það verkefni að auka framleiðni og hagkvæmni, þá er ekki þar með verið að viðurkenna það, að framleiðniaukning í landbúnaðinum hafi ekki verið mikil á undanförnum árum. Það vita allir, sem til þessara mála þekkja, að framleiðniaukning í landbúnaðinum hefur verið mjög mikil síðustu árin. Það er vitað mál, að bændum hefur fækkað og því fólki, sem að landbúnaðarframleiðslu vinnur, en framleiðslan hefur eigi að síður vaxið ár frá ári. En framleiðsluaukningin hefur því miður verið frekar á þeirri búvöru, sem sízt hefur borgað sig að flytja út, heldur en t.d. þeirri, sem er miklu nær því að gefa hagstætt verð á erlendum markaði heldur en mjólkurvörur, og framleiðnisjóður vill stuðla að því; að hverju sinni verði framleitt það, sem er hentugast og borgar sig bezt, ekki aðeins fyrir bændur, heldur er hagkvæmast fyrir þjóðarheildina.

Ég sé ekki ástæðu til að fara nú seint á þessu kvöldi að flytja langa ræðu í sambandi við þetta frv. Ég geri ráð fyrir því, að það fái svipaðar viðtökur í þessari hv. d. og í Nd. En það er meiningin að fá þetta lögfest nú fyrir þinghlé, m.a. til þess að greiða fyrir því, að þær 20 millj., sem um er að ræða, geti verið borgaðar út, helzt núna fyrir jólin, til þess að framleiðsluráð og stjórn sjóðsins geti ráðstafað því eins og ætlazt er til.

Herra forseti. Ég legg til, að þessu frv. verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.