10.03.1967
Neðri deild: 52. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 454 í C-deild Alþingistíðinda. (1984)

144. mál, Fiskimálaráð

Lúðvík Jósefsson:

Herra forseti. Það voru aðeins fá orð. Hv. 11. landsk. þm. lét sem hann hefði skilið orð mín þannig, að ég teldi, að stærri fiskiskip gætu ekki veitt meira en minni, og hann vildi mótmæla slíkri kenningu og kallaði hana skiljanlega mjög vitlausa. Auðvitað hafði mér aldrei dottið í hug að segja neitt í þessa átt. Það, sem ég sagði og ég ætla, að sé líka auðvelt að fá hann til þess að viðurkenna, var það, að aflamagn á báta og skip fer ekki í réttu hlutfalli við tonnastærðina. Ég býst ekki við því, að hann vilji halda, að svo sé. Ég held, að hann hljóti að hafa meiri reynslu en svo. Ég skal t.d. segja honum það, af því að hann var að minnast á síldarbáta, að við eigum á Norðfirði síldarbáta, sem eru 260 tonn, og einn sem er 350 tonn, og það fer mjög fjarri því, að þessi stærri veiði í réttu hlutfalli meira en hinir, og vitum við þó, að það er alltaf gott að hafa stór skip. Það er nefnilega miklu fleira, sem hér kemur inn í. Og það var þetta sem ég var að benda á, að þessi útreikningsaðferð, sem þarna hafði verið gerð, fær ekki staðizt og enn þá síður þegar dæmið er svo stækkað með því að færa þetta yfir á allt aðrar aðstæður en eru hjá okkur Íslendingum. En hinu hafði mér vitanlega ekki dottið í hug að halda fram, að það mundu ekki vera nokkrir möguleikar á því að veiða eitthvað meira á stærri skip en þau minni.

Hann þurfti ekki heldur að leiðrétta neitt hjá mér í sambandi við það, sem ég sagði um þá skýrslu, sem hér var lögð til grundvallar. Hún var miðuð við aflamagníð 1960—1964 og sérstaka rannsókn á þessu tímabili, sem alþjóðahafrannsóknaráðið lét framkvæma, og ég hef sjálfur skoðað mjög ýtarlega hjá forstöðumanni fiskideildarinnar þær tölur, sem þarna liggja til grundvallar, og það var út frá löndun á fiski á þessu tímabili, sem þessar ályktanir voru dregnar f hans grein, sem ég fyrir mitt leyti vil ekki fallast á og ég er ekki einn um að vilja ekki fallast á. Mig grunar það líka, að þegar hv. 11. landsk. þm. kynnir sér þetta, muni hann ekki vilja vitna mikið í þessa útreikninga, þegar hann er búinn að kynna sér þá. En það er margt annað í þessari skýrslu, sem er ágætt frá hálfu fiskifræðinganna og réttmætt að taka fyllilega til greina.

Hv. 11. landsk. þm. lét orð að því liggja, að ég mundi hafa viljað vera flm. að þessu frv. Nei, því fer mjög fjarri. Ég hefði ekki viljað vera flm. að þessu frv. vegna þess, eins og ég hef lýst hér mjög greinilega, að ég tel, að það fjalli að vísu um mikið nauðsynjamál, eins og ég sagði. (MB: Meinarðu þetta?) Já, það fjallar um mikið nauðsynjamál. En það tekur þannig á nauðsynjamálinu, að það fær litlu um breytt. Það þarf að gera á allt annan veg, eins og ég minntist á áðan. Og viðvíkjandi peningaleysinu, sem ég hafði minnzt á hjá þessu fjölmenna fiskimálaráði, þó að 1. flm. frv. bendi nú á það, að það sé gert ráð fyrir því, að fiskimálasjóður eigi að borga eitthvað, þá vitum við það í fyrsta lagi, að fiskimálasjóður er orðinn gömul stofnun og hefur haft þessar tekjur um árabil og hefur haft það verkefni samkv. lögum að sinna þessum málum, og hann hefur verið í fjárþröng allan þennan tíma, því að honum eru ætluð ýmis verkefni, og ég býst við því, að það mundi ekki geta dropið mikið úr þeim sjóði til þess að standa undir þessum verkefnum, ef eitthvað ætti að sinna þeim. Ég er ekki í neinum vafa um það, að ástæðan til þess, að fiskimálasjóður hefur að litlu leyti getað gefið sig að ýmsum þeim verkefnum, sem honum eru falin með lögum, er einmitt sú, að hann hefur allt of litla getu til þess. Hann getur ekki haldið uppi þeirri stofnun, sem þyrfti að vinna að framkvæmd á slíkum málum, eins og t.d. að vinna eitthvað að ráði í markaðsmálunum.

Hv. 11. landsk. þm. vildi eiginlega ekki viðurkenna það, að Sjálfstfl. væri með öllu á móti áætlanagerð um þróun atvinnuveganna, og benti á þær áætlanir, sem núv. ríkisstj. hefur látið gera, og m.a. á þær framkvæmdaáætlanir, sem ríkisstj. lætur nú gera um framkvæmdir á vegum ríkisins og nú er jafnvel fyrirhugað einnig á vegum sveitarfélaga frá ári til árs. Nú veit þessi hv. þm. það vel, að þó að ríkisstj. hafi fallizt á það að gera slíkar áætlanir sem þessar um framkvæmdir á vegum ríkisins og geti jafnvel hugsað sér, að þessar áætlanir nái einnig til framkvæmda á vegum sveitarfélaga, þá fellst hún ekki á það, að hliðstæðar áætlanir séu gerðar varðandi framkvæmdir á vegum einstaklinga og félaga f landinu. Það þýðir því lítið að vitna til áætlanagerðar af þessu tagi varðandi sjávarútvegsmálin í landinu. Sjávarútvegurinn í landinu er nú að langsamlega mestu leyti rekinn af einstaklingum og hlutafélögum eða samvinnufélögum og öðrum slíkum aðilum. Ríkisreksturinn á þessu sviði er ekkert ýkjastór og ekki heldur rekstur bæjarfélaganna. Hér er vitanlega spurningin um það, bæði viðvíkjandi sjávarútvegi og öðrum atvinnuvegum í landinu: Á að gera áætlanir um framkvæmdir í atvinnugreininni sem heild, til þess að hafa áhrif á þá þróun, sem þar er talin vera æskileg? Á að gera áætlanir varðandi framkvæmdir einstaklinganna og rekstur atvinnugreinarinnar sem heild, og á að gera ráðstafanir til þess að sjá um það, að þær áætlanir séu framkvæmdar? Þetta hefur ríkisstj. ekki viljað fallast á, jafnvel þótt hún hafi nú fallizt á að setja það upp í töflu og kalla það framkvæmdaáætlun, það sem Alþ. er búið að langsamlega mestu leyti að samþykkja eða ákveða gegnum fjárlög. Nei, hér þarf vitanlega að koma til miklu víðtækari áætlanagerð, ef á að hafa áhrif á þróun sjávarútvegsins í heild, heldur en gerð hefur verið til þessa.

Ég get tekið undir það með hv. 11. landsk. þm., sem sagði hér, að það er ekkert æskilegt, að Íslendingar selji allar sínar sjávarafurðir til Austur-Evrópulanda og Bandaríkjanna og skágangi aðra markaði í heiminum. Ég er honum sammála um þetta. En slíkt ástand hefur aldrei verið ríkjandi hjá okkur og hefur enginn haldið neinu slíku fram, svo að mér sé kunnugt. Sannleikurinn er sá, að við höfum selt okkar vörur til Vestur-Evrópulanda, eins og mögulegt hefur verið, á undanförnum árum, og það hefur verið lagt í allmikinn kostnað til þess að reyna að byggja aðstöðu okkar upp til að selja okkar sjávarafurðir. En það hefur ekki gengið of vel. En hitt aftur liggur alveg greinilega fyrir, að það hefur verið opinber boðskapur, að það væri nauðsynjamál að reyna að losna við markaðina í Austur-Evrópu, það fer ekkert á milli mála. Ég veit, að þessi hv. þm. hlýtur að hafa lesið Morgunblaðið svo vel, að hann hafi tekið eftir því þar, að þar er lögð á það áherzla, að það sé þýðingarmikið, að Íslendingar þurfi sem minnst á þessum mörkuðum að byggja, m.a. til þess að þeir hafi ekki neina erfiðleika af því að samlagast ýmsum markaðsbandalögum í V.-Evrópu. Ég er aftur á þeirri skoðun, að við eigum að reyna að halda i alla þessa markaði, eftir því sem við getum og okkur er hagkvæmt. Ég efast ekkert um það, að einmitt í A.-Evrópu eru eðli málsins samkvæmt einhverjir þýðingarmestu framtíðarmarkaðir einmitt fyrir sjávarafurðir. Þær þjóðir margar standa verr að vígi en aðrar við að ná sér í sjávarafurðir. En þjóðirnar í V.-Evrópu, sem vissulega þurfa líka á sjávarafurðum að halda, eru nú flestar talsvert miklar sjávarútvegsþjóðir, og margar þeirra eru einmitt keppinautar okkar á fiskmörkuðum, þær flytja út sjávarafurðir í allstórum stíl, og því hefur okkur reynzt heldur erfitt að byggja þar upp trausta markaði. En vitanlega eigum við að kappkosta það, eins og við eigum að kappkosta að reyna að halda í okkar markaðsmöguleika í Bandaríkjunum. En það á ekki að gera það að stefnumáli að reyna að brjóta niður þýðingarmikla markaði, sem hefur tekizt að byggja upp, og markaði, sem hafa skilað okkur meiri og betri verðmætum en aðrir markaðir hafa gert. En það hefur verið unnið að því á undanförnum árum alveg tvímælalaust.

Nú ég skal ekki þreyta umræður lengur að þessu sinni varðandi þetta mál. Aðalatriðið er það, sem ég hef sagt, hér er verið að fjalla um veigamikið mál, en á mjög ófullnægjandi hátt. Það þarf að gera hér allt aðrar ráðstafanir til að leysa þann vanda, sem hér er um að ræða. Við þurfum meira en einhverja ráðgefandi viðræðunefnd, sem ekki hefur úr neinu fjármagni að spila. Sú stofnun, sem á að gefa sig að því að reyna að leysa þennan vanda, verður að fá eitthvert vald. Hún verður að hafa einhverja aðstöðu til þess. Og það verður þá líka að marka þá heildarstefnu í atvinnumálum landsins, sem gefur svigrúm til þess að koma hér fram umbótum í þessum efnum. En til þess þyrfti að taka hér upp nýja stefnu.