14.12.1966
Efri deild: 26. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (199)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja umr. hér að þessu sinni, en það er aðeins ein fyrirspurn til hæstv. landbrh., sem væri æskilegt að fá svarað við þessa umr.

Það er rétt, sem hæstv. landbrh. gat um, að þetta mál er í raun og veru ávöxtur af iðju Stéttarsambands bænda og þeim samningum, sem gerðir voru á s.l. hausti, og í búnaðarblaðinu Frey eru endurprentaðar þær yfirlýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf í sambandi við verðlagssamningana á s.l. hausti, og þar stendur, með leyfi hæstv. forseta, í 4. lið þeirrar yfirlýsingar, sem hæstv. ráðh. gaf: „Ríkissjóður leggi fram hagræðingarfé að upphæð 30 millj. kr., sem nota mætti sem stofnfé hagræðingarsjóðs, en verksvið hans verði ákveðið með lögum. Af þessari upphæð greiðist 20 millj. kr. fyrir 31. des. 1966 sem framlag til vinnslustöðva landbúnaðarins vegna endurbóta á þeim.“ Þarna stendur í yfirlýsingu hæstv. ráðh., að 20 millj. skuli vera framlag, sem sagt óafturkræft framlag, og þann skilning leggur a.m.k. formaður Stéttarsambands bænda og stjórn Stéttarsambandsins í þessa yfirlýsingu. Hins vegar hef ég verlú að leita eftir því í því frv., sem hér liggur fyrir, hvort það væri þar fram tekið, í sjálfu frv. eða greinargerðinni, en hef ekki fundið. Þess vegna er það, að það væri æskilegt að vita, hvort það liggur ekki ljóslega fyrir, að þessar 20 millj. kr., sem þarna er um talað, eigi að vera óafturkræft framlag, enda þótt um það sé talað, að stofnfé sjóðsins skuli vera 50 millj. Þetta stangast nokkuð á, því að um leið og búið er að veita 20 millj. af þessum 50 millj. sem óafturkræft framlag, þá eru ekki eftir nema 30, og ég verð að játa það, að þetta frv. kann að hafa talsverða þýðingu í framtíðinni, ekki sízt ef tekst að bæta við fjáröflunarmöguleika. Það liggur ljóslega fyrir nú, að verði ekki hægt að auka tekjumöguleika framleiðnisjóðs, þá getur hann ekki til lengdar sinnt því hlutverki, sem honum er ætlað, því að svo víðtækt er það verkefni, En eigi að síður ber að þakka það, að þetta mál er fram komið, og það kann að gera sitt gagn í bili. enda þótt það kunni ekki lengi að þjóna sínu hlutverki, nema það sé verulega um bætt. En á þessu stigi málsins ætla ég ekki að ræða þetta mál frekar, en ég æski þess, að hæstv. ráðh. geti sagt skýrt og skorinort um þessar 20 millj., hvort beri ekki að skilja það svo, að þær verði óafturkræft framlag, eins og yfirlýsing hans var gefin um á sínum tíma.