07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í C-deild Alþingistíðinda. (1990)

146. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég ætla, að frv. það, sem flutt er á þskj. 289 af tveim hv. þm., stefni í rétta átt að því leyti, sem þar er gert ráð fyrir því, að hækkuð verði framlög ríkissjóðs til hafnargerða og lendingarbóta. Hins vegar vil ég gera þá aths. við þetta frv. og gerð þess, sem að sjálfsögðu er hægt að athuga nánar, að ég ætla, að skipting sú, sem er í núgildandi hafnarlögum í hafnargerðir og lendingarbætur, sé að nokkru leyti úrelt orðin og að þar af leiðandi sé ekki heppilegt að miða mismunandi framlög úr ríkissjóði til slíkra mannvirkja við það, hvort hlutaðeigandi mannvirki heyri samkv. gildandi hafnarlögum undir hafnargerð eða lendingarbætur. Það hafa svo miklar breytingar orðið, síðan hafnarl. voru sett hér á hinu háa Alþ. fyrir rúml. 20 árum. Þetta er að sjálfsögðu hægt að athuga í n., en hitt orkar ekki tvímælis, að mikil þörf er á því, að þetta mál sé tekið til meðferðar og að breytt verði þeim ákvæðum, sem nú eru um framlög til hafnarmannvirkja, því að eins og kunnugt er, er fjárhagur margra hafnarsjóða, eins og eðlilegt er, mjög slæmur. Um það hefur verið rætt við önnur tækifæri, t.d. við afgreiðslu fjárlaga.

En það, sem ég vildi sérstaklega minnast á hér í tilefni af því, að þetta frv. er tekið til umr., er það, að við fluttum snemma á þessu þingi, 7 þm. þessarar hv. d., frv. á þskj. 31 um ríkisframlag til hafnargerða og lendingarbóta. Þessu frv. var ekki löngu eftir að það kom fram vísað til hv. sjútvn., og aðan hefur enn ekki komið álit um þetta mál. Ég vil nota tækifærið til þess að fara þess á leit við hæstv. forseta, að hann gangist fyrir því, að hv. n. afgreiði það mál, og ef svo fer, eins og flm. þessa frv. gerir ráð fyrir, að einnig þessu frv. verði vísað til þeirrar n., er auðvitað sjálfsagt að hafa það til hliðsjónar við afgreiðslu málsins á þskj. 31, sem þegar er búið að liggja svo lengi í nefnd.

Ég skal, úr því að ég er farinn að tala um þessi mál, rifja upp lauslega og vænti, að hæstv. forseti hafi ekkert við það að athuga, hver voru meginatriði í frv., sem við 7 þm. fluttum á þskj. 31. Meginatriðin voru þau, að hafnar- og lendingarbótastöðum öllum, sem tilgreindir eru í l. frá 1946, skyldi skipta í þrjá flokka, A-flokk, B-flokk og C-flokk, og skyldu framlög ríkisins til mannvirkja í þessum flokkum vera 50% í lægsta flokknum, 60% í miðflokknum og 70% í hæsta flokknum. Allt eru þetta hækkanir frá því, sem nú er, og þó auðvitað mestar í hæsta flokknum. Gert er ráð fyrir því, að þessi skipting sé við það miðuð, að hafnarsjóðir, eins og það er orðað, hafi sem jafnasta fjárhagslega aðstöðu til að koma upp undirstöðumannvirkjum hafnargerðar. Í öðru lagi var gert ráð fyrir því í þessu frv. á þskj. 31, að vitamálastjóri geri rökstudda till. um skiptingu hafnarstaðanna í þrjá flokka, sem siðan sé lögð fyrir Alþ. til samþykkis á sama hátt og vegáætlun, og nægði þá þál. til þess að framkvæma þessa skiptingu á grundvelli tillagna vitamálastjóra. Enn fremur var í þessu frv. lagt til, að vitamálastjóra skyldi eftir gildistöku l. ætlað að gera tveggja ára áætlanir um framkvæmdir, þ.e.a.s. tveggja ára framkvæmdir, og fjármagnsþörf vegna þeirra, og að till. um slíka tveggja ára áætlun yrði lögð fyrir Alþ. samhliða til1. um flokkaskiptingu. Enn fremur var lagt til, að gert yrði skylt að veita á fjárl. fé til að standa skil á ógreiddum framlögum fyrri ára til hafnarsjóða, þannig að þeim greiðslum yrði að fullu lokið á þremur árum eftir gildistöku laganna.

Þetta eru ákvæði þessa frv., sem hv. sjútvn. hefur nú haft til athugunar nokkuð lengi, um skiptingu hafnarmannvirkjanna í þrjá flokka og mismunandi framlög til flokkanna, þó að alls staðar væri gert ráð fyrir hækkun frá því, sem nú er, um tveggja ára áætlun í hvert sinn um hafnarframkvæmdir og um, að ríkið greiði upp halann, sem myndazt hefur vegna vangreiðslna til hafnarsjóðanna.

Þetta vildi ég rifja upp hér fyrir hv. dm., um leið og ég tek undir ummæli hv. fyrri flm. frv. á þskj. 289 um brýna þörf og aðkallandi á því að koma fram endurbótum á fjárhag hafnarsjóðanna.