07.03.1967
Neðri deild: 50. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 462 í C-deild Alþingistíðinda. (1993)

146. mál, hafnargerðir og lendingarbætur

Gísli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég tel rétt að láta hér fáein orð falla út af ummælum hv. 2. þm. Vestf. áðan. Hann lét þess getið, hv. þm., að frá því hefði verið skýrt, að ríkisstj. ynni að endurskoðun hafnarl. nú í vetur, og sagðist treysta því, að stjfrv. um þetta efni, sem gengi í svipaða átt og þau frv., sem núna liggja fyrir þinginu, yrði lagt fram og að því yrði tryggður framgangur á Alþ. því, er nú situr.

Ég minnist þess, að skömmu eftir að frv. okkar 7 þm. á þskj. 31 var lagt fram í þessari d., snemma á þingi þessu, var það gefið í skyn af hálfu ríkisstj., að slík endurskoðun, sem hv. þm. talaði um, mundi fara fram. Og vera má, að þetta vilyrði hafi haft áhrif í þá átt á hv. sjútvn. þessarar d., að hún hafi dregið afgreiðslu frv. á þskj. 31, sem ef eðlilegur gangur hefði verið á meðferð málsins, hefði átt að vera afgreitt frá n. fyrir löngu. Nú verð ég að segja það, að þó að hv. 2. þm. Vestf. treysti ríkisstj, til þess að láta verða af því að ljúka endurskoðun hafnarl. og leggja fram stjfrv. til nýrra hafnarl. og tryggja framgang málsins á þessu þingi, tel ég mig því miður ekki hafa ástæðu til þess að treysta því fullkomlega, að úr því verði. Má vera, að það sé af því, að ég sé því ekki eins kunnugur, sem fram hefur farið í þessu máli í vetur, eins og hv. þm., en ég hef það þá m.a. í huga, að undanfarin ár, þegar ég o.fl. hafa verið að flytja frv. um þetta efni, svipað frv. á þskj. 31, þá hefur jafnan verið látið í veðri vaka á vegum ríkisstj., að rétt væri að bíða átekta, því að ríkisstj. hefði þetta mál í sínum höndum og frv. mundi verða lagt fram frekar fyrr en síðar. Af því hefur ekki orðið á undanförnum þingum. Og miðað við þá reynslu get ég því miður ekki treyst því fullkomlega, að af því verði heldur á þessu þingi, þó að vel megi vera, að svo verði. Ég veit, að ríkisstj. er búin að hafa þetta mál á milli handanna undanfarin fimm ár og að það hefur vafizt fyrir þeim, sem að þessu vinna þar, að láta verða árangur af þeirri athugun, sem þar hefur farið fram. Þetta er að sjálfsögðu örðugt mál viðfangs, en það er líka búið að taka svona langan tíma.

Nú eru þessi orð, sem ég hef hér látið falla, inngangur að því, sem ég vildi segja í lok þessarar ræðu, að ég vil þrátt fyrir þau ummæli, sem fram hafa komið frá hv. 2. þm. Vestf., endurtaka þau tilmæli mín til hæstv. forseta, að hann hlutist til um, að frv. um ríkisframlag til hafnargerða og lendingarbóta á þskj. 31 verði afgreitt nú næstu daga frá hv. sjútvn. Þá er vel, ef íhlutun hæstv. forseta um það mál gæti orðið til þess að hraða því, að stjfrv. þess efnis kæmi fram, ef það er þá komið það áleiðis, að af því gæti orðið. En ég vil sem sé ítreka þessi tilmæli mín til hæstv. forseta og benda á það í því sambandi, að frá hendi hæstv. sjútvmrh. eða þess ráðh., sem fer með hafnarmál, hefur nú nýlega engin yfirlýsing komið fram um þetta stjfrv., sem rætt var um að kæmi fram.