06.04.1967
Neðri deild: 59. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 464 í C-deild Alþingistíðinda. (1997)

165. mál, vinnuvernd

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef áður gert grein fyrir þessu frv. allrækilega og skal því að þessu sinni vera mjög stuttorður.

Frv. er í 8 köflum, og vil ég aðeins drepa á efni þeirra. Fyrsti kaflinn fjallar um holl og góð vinnuskilyrði á vinnustað. Annar kaflinn er um vinnutíma og vinnutilhögun. Á þeim kafla eru gerðar allverulegar breytingar, frá því að ég flutti frv. síðast. Mun ég á eftir fara örfáum orðum um þær breytingar. Þriðji kaflinn er um sérstök ákvæði um vinnu kvenna, aðallega ráðstafanir til öryggis vegna móðurhlutverks konunnar, sem gengur að störfum í atvinnulífinu. Fjórði kaflinn er um sérstök ákvæði um vinnuvernd barna og unglinga. Þar er meginatriðið það, að hámarksvinnutími barna skuli ekki vera meira en 4—6 stundir á dag og algert bann við barnavinnu við áhættusaman atvinnurekstur, einkanlega atvinnurekstur, sem slysahætta geti fylgt eða sé óhollur fyrir börn. Fimmti kaflinn er um greiðslu vinnulauna og ýmislegt í sambandi við það, sjötti kaflinn um uppsagnarfresti og sjöundi kaflinn um refsiákvæði varðandi brot á lögunum. Áttundi kaflinn er svo eingöngu um gildistöku þessa frv.

Breytingarnar, sem eru í 2. kafla frv., eru einkum þær, að gert er ráð fyrir 5 daga vinnuviku og sé vinnuvikunni lokið eftir 40 unnar stundir. Þá er gert ráð fyrir, að það séu 2 helgidagar, og ef hægt er að koma því við, þá séu helgidagarnir samfelldir, þ.e.a.s. að það séu sunnudagur og mánudagur eða laugardagur og sunnudagur. Breyting er einnig í þessum kafla að því er varðar vinnutíma í námum og jarðgöngum, og er svo kveðið á í 10. gr. frv., að við vinnu í jarðgöngum og námum skuli einungis vera 36 stunda vinnuvika. Sama gildir um vinnu, sem unnin er að nóttu til ag á sunnu- og helgidögum. Þá skal vinnuvikunni lokið eftir 36 unnar vinnustundir.

Ég hafði hugsað mér að flytja þetta frv. miklu fyrr á þinginu, en var hálft í hvoru að gera mér vonir um, að samkomulag tækist um flutning á vinnuverndarfrv., sem þá fengi afgreiðslu á þessu þingi, með því að fyrir liggja allskilmerkileg vilyrði fyrir því, sem nú eru orðin nokkuð gömul, að afgreiða slíka löggjöf. Var það einu sinni samkomulagsatriði í sambandi við gerð vinnusamninga. Þetta hefur nokkuð dregizt enn og ekki tekizt að fá samkomulagsgrundvöll um slíka lagasetningu. En þegar ekki tókst samkomulag á þessu þingi um slíka löggjöf, endurflutti ég frv. mitt á ný og vil vænta þess, að nú styttist óðum í það, að við Íslendingar getum sett hjá okkur slíka löggjöf, sem ég tel mikla þörf á.

Ég legg svo til, herra forseti, að frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. heilbr: og félmn.