17.10.1966
Efri deild: 4. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (20)

3. mál, gjaldaviðauki

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Á síðasta þingi var samþ. heimild handa ríkisstj. til að ábyrgjast lán vegna kaupa Flugfélags Íslands á þotuflugvél. Í þeim l. var gert ráð fyrir, að almennum reglum væri fylgt við ábyrgðarveitingu þessa, og hefur þá almennu lögskýringu, að það væri talið, að þar væri átt við einfalda ábyrgð. Aðallánveitandi Flugfélagsins í sambandi við kaup á umræddri þotu mun væntanlega verða Export-Import bankinn í Washington, en samkv. reglum hans er ekki um að ræða, að hann geti veitt lán, nema til komi sjálfskuldarábyrgð. Með hliðsjón af öllum atvikum málsins þykir því rétt að leggja til við Alþ., að það heimili ríkisstj. að veita sjálfskuldarábyrgð, en þó aðeins á því láni, sem Export-Import bankinn veitir. Það kunna að verða fleiri lánveitingar í sambandi við þessi kaup, og tel ég ekki geta komið til mála að veita sjálfskuldarábyrgð á slíkum lánum fremur en almennum lántökum og viðskiptalánum, sem tekið hefur verið af að veita sjálfskuldarábyrgð fyrir.

Í sambandi við þetta mál er rétt að vísa til þess, sem ég skýrði frá, þegar frv. um ábyrgð fyrir Flugfélag Íslands var lagt fyrir síðasta þing, að það hefði verið gert með ákveðnum skilmálum, annars vegar þeim, að hlutafé Flugfélagsins yrði aukið að vissu marki, óg hafa nú verið gerðar ráðstafanir til þess, og í öðru lagi, að gengið væri út frá því með umrædda þotuvél, að hún yrði gerð út frá Keflavíkurflugvelli. Vegna ummæla, sem fram hafa komið síðar af hálfu Flugfélagsins, þar sem forráðamenn þess virðast gera ráð fyrir því, að frá þessu skilyrði verði fallið, sé ég ástæðu til þess að taka það fram, að af hálfu ríkisstj. stendur ekki til að falla frá þessu skilyrði, þannig að það stendur áfram sú ákvörðun, að þessi þotuflugvél verði gerð út frá Keflavíkurflugvelli, ef til kemur að veita þá aðstoð ríkisins, sem gert er ráð fyrir í sambandi við ríkisábyrgðina.

Ég sé ekki ástæðu til, herra forseti, að orðlengja frekar um málið. Það er einfalt í sniðum, og efnislega hafði Alþ. áður fallizt á að veita ábyrgðina, og sé ég því ekki ástæðu til að ræða í einstökum atriðum kaupin á þessari vél. En ég leyfi mér að leggja til, að frv. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. fjhn.