14.04.1967
Neðri deild: 67. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í C-deild Alþingistíðinda. (2034)

187. mál, sveitarstjórnarlög

Flm. (Jón Ísberg):

Herra forseti. Ég hef ekki haft tækifæri til þess að sitja hér á þingi áður, og ég er auðvitað þakklátur hæstv. forseta fyrir að taka þetta frv., sem ég flyt hér á þskj. 434, á dagskrá, svo að ég fái tækifæri til að flytja mína jómfrúræðu, þó að ég hefði óskað eftir því, að það yrði virðulegra mál en þetta, en hann hefur ekki viljað láta mig fara sem virgo intacta frá Alþingi, og er ég þakklátur honum fyrir.

Þetta mál þarf ekki skýringar við, það er flutt sem brtt. við sveitarstjórnarlög og nánast í sambandi við framkvæmd þeirra laga. Það kemur fram í greinargerð, — og vísa ég til hennar að verulegu leyti, — að sýslusjóðsgjald er lagt í þrennu lagi á fasteignir, á samanlagða nettóeign og nettó-tekjur og í þriðja lagi á tölu verkfærra manna. En það eru engin lög núna um, að það eigi að skrá verkfæra menn. Þau ákvæði voru í 12. gr. laga nr. 34 frá 1947, og þau lög eru numin úr gildi með nýju vegalögunum. Þar að auki þarf að kippa þessu í lag. Ég hef haft samband við félmrn., og það ætlaði sér á sínum tíma að koma þessu í kring, en þá var snemma sumars og svo hefur það gleymzt.

Ég sýndi hæstv. félmrh. þessa brtt., og hafði hann ekkert við hana að athuga, svo að é vænti þess, að alþm. geti fallizt á þessa till. Ég veit, að það verður ekki hægt í þetta sinn, en ég vona, að einhverjir góðir menn verði til þess að taka þetta upp á hausti komanda. Svo vil ég leggja til, að þessu frv. verði vísað til heilbr.- og félmn.umr. lokinni.