16.12.1966
Efri deild: 30. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 314 í B-deild Alþingistíðinda. (206)

88. mál, Framleiðnisjóður landbúnaðarins

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. — Ég tel ekki ástæðu til að ræða landbúnaðarmál yfirleitt hér við þetta tækifæri, það eru ákaflega margþætt mál og væri hægt að taka langan tíma til umr. um þau frá öllum hliðum. En út af þeim umr., sem hér hafa farið fram um búnaðarmálin í heild og afstöðu hæstv. landbrh. til þeirra, vil ég taka það fram, að það er álit bænda almennt í landinu, jafnt framsóknarbænda sem annarra bænda, að núverandi landbrh. hafi staðið mjög vel í sinni stöðu. Þetta væri að sjálfsögðu hægt að rökstyðja á margan hátt, en ég tel enga ástæðu til að fara út í það hér.

En um þetta frv., sem hér liggur fyrir, og þær brtt., sem við það hafa komið fram, vil ég segja það, að mér finnst oft hafa borið meira á yfirboðstill. í sambandi við frv. heldur en nú, og ég tel, að þetta sé ekkert óhóflega fram borið eða lagt til af hálfu stjórnarandstöðunnar miðað við það, sem oft hefur verið áður. Það er nú raunar ekki annað en það að framlengja 10 millj. kr. framlag á ári um 2 ár, þ.e.a.s. 1970–1971, í stað þess að frv, gerir ráð fyrir því, að þetta framlag nái aðeins til 1969. Ég segi ekkert um það, hvort kunni að vera þörf á þessu og jafnvel miklu hærri upphæðum, þegar betur er séð, hvernig þetta mál leiðist út, þegar til framkvæmda kemur. En ég álít, að það sé alveg ónauðsynlegt að binda þetta lengur aftur í tímann en þessi 3 ár nú. Það má alltaf taka málið upp aftur, hvenær sem er, og ég hef enga vantrú á Framsfl., ef hann kemst í stjórn, að hann láti þar við sitja, að þetta framlag nái aðeins til 1969. Mér þykir hann ákaflega líklegur til að framlengja þetta og hækka jafnvel stórlega, miðað við þann mikla áhuga, sem framsóknarmenn sýnast hafa á landbúnaðarmálum yfirleitt. Og ég get bætt því við, að framsóknarmenn hafa margt gert vel fyrir landbúnaðinn, meðan þeir höfðu aðstöðu til.

Um lánsheimildina finnst mér eiginlega alveg óþarft að tala, því að það er ekki tímabært að fara að gera ráð fyrir lánsheimildum nú, meðan allt er jafnóljóst um þetta mál eins og enn er. Það er alltaf hægt að taka hana upp, þegar þörf er á. Þess vegna tel ég, að það sé engin þörf á að samþ. þessar tillögur.