28.11.1966
Efri deild: 19. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í C-deild Alþingistíðinda. (2081)

70. mál, rafvæðing Vestur-Skaftafellssýslu

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fyrir mér er það ekkert nýtt, þótt sagt sé, að hv. Alþ. vilji, að landsmenn fái rafmagn sem allra fyrst. Ég er alveg handviss um það, að allir hv. þm. eru þannig þenkjandi, að þeir vilja það, og þá verða Skaftfellingar alls ekki undanskildir þar. Allir hv. alþm., held ég, að vilji, að landsmenn fái rafmagn sem allra fyrst, sem enn eru án þess. Þess vegna er þetta út af fyrir sig ekkert nýtt í mínum huga. En ég hygg, að hv. 6. þm. Sunnl. (HB) hafi kannske haldið eitthvað annað. (Gripið fram í.) Já, þetta er efst í mínum huga, og ég trúi því, að allir þm. hugsi þannig. Og í öðru lagi er það, að raforkumálastjóri staðfestir það fyrir fjvn., að mér er sagt, að líkur séu til þess mjög miklar, að allir landsmenn verði búnir að fá rafmagn 1970, og að þessu er stefnt og að þessu er unnið, eins og hv. alþm. vita.

Hv. flm. talaði um, að það væri sennilegt, að það væri hægt að fá niðurstöður frá n. fyrr, og gaf í skyn, að vísu með hógværð, að ég mundi geta ýtt betur á þetta. En ég vil taka það fram, að þegar ég skipaði í n., tók ég það fram í bréfinu, bréfið endar með því, það er nefndarskipunin, en síðasta línan í þessu bréfi er þannig, með leyfi hæstv. forseta,: „Rannsókn þessari óskast lokið svo fljótt sem unnt er.“ Ég hef nú rætt við raforkumálastjóra um þetta og ég hef enga trú á því, að þingnefndin, með allri virðingu fyrir henni, ýti fastar á þetta en ég, en að sjálfsögðu getur n. talað við alla þessa nm. En með fullri virðingu fyrir nefndarmönnum hef ég enga trú á því, að hún ýti fastar á þetta en ég.

Hv. 6. þm. Sunnl. upplýsti það, að hann hefði greitt atkv. með þáltill., sem ég nefndi. Því trúi ég vel. Vitanlega hefur hann gert það. En borið saman við þá ræðu, sem hann flutti hér áðan, hefði maður nú haldið, að hann hefði setið hjá og álitið þáltill. alveg óþarfa. En með því að greiða atkv. með till. lýsti hann því óbeint yfir, að það væri þörf á athuguninni og að það væri kannske ekki alveg ljóst, að það væri bezt að leggja línu austur. Ég hygg, að jafnvel þótt það verði niðurstaðan, að það væri bezt að fá línuna, sé nauðsynlegt að fá rannsóknina og niðurstöðuna til þess að geta fengið fjármagn til framkvæmda. Þá vita hv. alþm., hvaða kostur er beztur, og þetta er tiltölulega dýrt fyrirtæki, og það verður vitanlega krafa ríkisvaldsins og fjárveitingavaldsins, að það sé gert, sem heppilegast er. Mér dettur ekki í hug að neita því, að það geti komið til greina, að þetta sé það bezta, en ég veit það ekki, fyrr en niðurstaðan liggur fyrir.

Hv. flm. nefndi hér tvo ágæta menn, Siggeir í Holti og Jón í Seglbúðum, sem skrifuðu bæði mér og sennilega öllum þm. Sunnlendinga í fyrra. Það er allt rétt, sem flm. sagði um það. En ég hef talað við a.m.k. annan og ég held báða þessa menn, a.m.k. annan, og hann taldi mjög eðlilegt, að þetta væri athugað, og af þeim upplýsingum, sem raforkumálastjóri sagði mér, var þeim fagnað mjög, þegar þeir komu þarna austur, af hreppstjórunum og oddvitunum, og þeim fannst eðlilegt og ágætt, að þetta væri kannað og það væri rannsakað af þekkingu, hvað væri auðveldast í þessum málum. Ég held, að þessir ágætu oddvitar og hreppstjórar hafi áttað sig á því, að það væri nauðsynlegt, að slík könnun og rannsókn lægi fyrir, áður en farið væri að óska eftir fjárveitingu til framkvæmda. Og ég leyfi mér að fullyrða, að sú meðferð, sem þetta mál hefur fengið hér, sé í samræmi víð vilja Skaftfellinga, og ég held, að það hefði verið eðlilegt, að hv. 6. þm. Sunnl. hefði beðið með að flytja frv. þetta í annað sinn, þangað til þessi rannsókn lá fyrir. Ég er ekkert að setja út á það sérstaklega, þó að ekki væri beðið eftir því, en það væri út af fyrir sig eðlileg málsmeðferð, úr því að þessi athugun er í gangi.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta. Þetta mál fer til n. og fær sína þinglegu meðferð, og hv. n., sem fær málið, getur talað við þessa 3 ágætu nm., sem hafa málið til frekari meðferðar.