06.02.1967
Efri deild: 34. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 508 í C-deild Alþingistíðinda. (2092)

98. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Alfreð Gíslason):

Herra forseti. Á þskj. 193 flyt ég frv. til l. um breyt. á l. um tekjustofna sveitarfélaga. Breytingin er þess efnis, að bætur almannatrygginga, aðrar en fjölskyldubætur, skuli undanþegnar útsvarsálagningu. Á þskj. 194 flyt ég sams konar till., þar legg ég til, að bætur almannatrygginga, aðrar en fjölskyldubætur, skuli draga frá tekjum, áður en tekjuskattur er á þær lagður.

Í gildandi l. um tekjustofna sveitarfélaga finnst heimild til þess að undanþiggja bætur almannatrygginga útsvarsálagningu, en þar er aðeins um heimild að ræða og annað ekki, heimild, sem ef til vill er notuð einhvers staðar i sveitarfélögum, en annars staðar alls ekki. Engin tilsvarandi heimild finnst í l. um tekjuskatt og eignarskatt. Það er sem sagt höfuðatriði míns máls, að bætur almannatrygginga, aðrar en fjölskyldubæturnar, skuli vera undanþegnar útsvari og tekjuskatti.

Ég skal játa, að þegar ég hugleiði þetta mál, er mér alltaf ofarlega í huga gamla fólkið. Mér finnst það einhvern veginn umkomulausast allra í þjóðfélaginu, jafnvel enn þá umkomulausara en aðrir öryrkja og örkumlamenn. Eins og kunnugt er, eiga vissir hópar örkumla fólks sér málsvara í eigin félögum og félagasamböndum, en einhvern veginn held ég, að gamalmennin hafi orðið útundan, þau eigi sér í raun og veru engan málsvara. Þau eru dreifð um allt landið, og til þeirra er lítið tillit tekið.

Mér finnst rétt að láta skoðun mína koma fram hér á Alþingi, skoðun, sem byggist á 30 ára reynslu minni í starfi sem læknir í Reykjavík, en hún er á þá leið, að þjóðfélagið beiti gamalmenni sín illri meðferð, eins í dag og fyrir 100 árum eða meira. Við skulum hugleiða, að við erum skeytingarlausir um velferð gamals fólks. Við gefum vandamálum þess lítinn gaum og höfum ekki áhuga á að bæta aðstöðu þess í samfélaginu. Vegna þessa skeytingarleysis og áhugaleysis þykjumst við aldrei hafa ráð á því peningalega áð styðja og styrkja gamalmennin. Afleiðingin verður ill meðferð á gamalmennum í landinu, og óneitanlega er það leiður löstur í fari okkar Íslendinga. Það er talsverð tilhneiging hjá einstaklingum til þess að víkja gömlu fólki af heimilum sínum. Gamalmenni hafa enn í dag litla aðstöðu til að búa að sínu á eigin heimilum. Þessi tilhneiging gerir vart við sig, tilhneigingin til að hrekja gamalmennin burt af heimilunum, og þetta er gert, án þess að samfélagið eða einstaklingarnir sjái gamla fólkinu fyrir sómasamlegum samastað. Þetta kalla ég illa meðferð. Ég kalla það líka illa meðferð að reka mann frá starfi fyrir þær sakir einar, að hann hefur náð vissum aldri. Þetta er gert. Það er einnig ill meðferð að skammta gamalmenni svo naumt, að ógjörningur sé að lifa á því, en þetta er gert, og þetta er einmitt það, sem mál mitt snýst um í dag.

Vissulega hafa margir komið auga á og skilja þá niðurlægingu, sem gamalmenni verða að þola hér á landi, og það hefur allmikið verið rætt um nauðsyn úrbóta. En það hefur furðulega lítið verið aðhafzt í þessu efni. Hver skyldi orsök athafnaleysisins vera? Ég hygg, að hún sé fyrst og fremst sú, að menn blátt áfram tíma ekki að sjá af peningum, sem til slíkrar úrbótar þarf, menn telja þá eftir. Ellilífeyrir — og einnig örorkulífeyrir — er mjög skorinn við nögl. Þessu neitar enginn. Hann þyrfti að vera tveim til þrem sinnum hærri til þess að vera lífvænlegur. Þess vegna kemst gamalt fólk ekki af þrátt fyrir ellilífeyri, nema með því að hafa úti einhver önnur spjót. Annaðhvort verður það að reyna af sínum veika mætti að afla sér viðbótartekna með vinnu eða þiggja ölmusu. Það á við áreiðanlega um langmestan hluta gamalmenna, að þau eru ekki aflögufær, jafnvel þó að þau hafi einhverjar tekjur, t.d. atvinnutekjur.

En gamalmennum, sem má segja að séu komin að fótum fram, er alls ekki hlíft við hina ströngu skattheimtu ríkis og sveitarfélaga. Þeir aðilar víla það sannarlega ekki fyrir sér að fara ofan í vasa gamla fólksins og draga til sín hvern pening, sem nokkur kostur er að ná í frá því, eins og raunar gildir um aðra borgara. En ég held, að hér ætti að gera mun á. Einn liðurinn í aðstoð við gamla fólkið er auðvitað sá að hjálpa því fjárhagslega, hlífa því við miklum fjárhagslegum blóðtökum, þótt öðrum og sterkari borgurum sé ekki hlíft.

Þetta, sem ég hef nú sagt um gamla fólkið, gildir vissulega að miklu leyti um aðra bótaþega almannatrygginga, öryrkjana, þá slösuðu og hina sjúku. Bætur þeirra allra eru skornar við nögl, eins og við viðurkennum allir, og mér finnst ekki líta vel út, að þjóðfélagið sé að reyta af þessari lúsarögn, sem þessu fólki er veitt, með skattheimtu. Það kann að vera, að einstöku menn yfir 67 ára aldur hafi góðar tekjur, hafi háar tekjur, en mér vex það ekki í augum, þó að slíkum manni sé hlíft við því að skattleggja ellistyrkinn hans. Ég viðurkenni, að það er ekki þörf á því í þessu tilfelli, en við höfum verið inni á því alllengi hér að gera ekki mismun eftir efnahag. En það, sem vakir fyrir mér fyrst og fremst, er, að flest gamalmenni eru annaðhvort örsnauð eða hafa ekki nema til brýnustu nauðþurftar. Löggjafinn hefur að vissu marki sýnt skilning í þessu efni. Hann hefur sýnt hann með því að gefa það frjálst, að útsvör þurfi ekki að leggja á bætur almannatrygginga. Þetta er viðurkenning frá hálfu löggjafans. En ég hygg, að reynslan hafi sýnt, að hér er ekki nógu langt gengið. Við eigum að ganga lengra. Alþingi á að samþykkja, að bætur almannatrygginga skuli undanþegnar útsvari, og ekki aðeins það, heldur að þær skuli einnig undanþegnar tekjuskatti, en til þess þarf breyt. á tvennum lögum.

Þessi frv. liggja nú frammi hér til umr., og ég tel mig hafa talað fyrir báðum, þannig að ég þurfi ekki að eyða orðum að því frekar, og skal nú látið staðar numið.

Herra forseti. Ég legg til, að þessu frv. verði að umr. lokinni vísað til hv. heilbr.- og félmn.