21.03.1967
Efri deild: 56. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 516 í C-deild Alþingistíðinda. (2109)

161. mál, togarakaup ríkisins

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Nú að undanförnu hafa átt sér stað hér á hv. Alþ. allmiklar umr. um sjávarútvegsmál, hag og skipulagsþætti ýmissa greina sjávarútvegsins og það greina hans, sem mikilvægar hafa verið og mikilvægar verða að teljast. Tilefni þessara umr. er ljóst. Það eru ekki aðeins þau frv., sem lögð hafa verið fram, heldur eru það hinir sívaxandi erfiðleikar á rekstri sérstaklega togara og minni vélbáta, svo og stórfelld vandamál hraðfrystiiðnaðarins í landinu, sem valda því, að þessar umr. hafa snúizt um hag þessara greina sjávarútvegsins almennt.

Taprekstur togara er engan veginn nýtilkominn. Þar er um að ræða vandamál, sem við höfum staðið frammi fyrir nú í heilan áratug. Til lausnar þeim vanda, sem við það hefur að höndum borið, hefur heldur fátt og smátt verið gert af opinberri hálfu. Þar er ekki margt að finna, sem munað hefur um eða verulega raunhæft má teljast. Það hefur verið gripið ár frá ári til ýmissa ófullnægjandi bráðabirgðaúrræða, svo sem rekstrarstyrkja úr ríkissjóði, en látið undir höfuð leggjast eða ekki þótt fært að gera neinar þær ráðstafanir, sem varanlegar gátu orðið, ekki þótt fært eða að því unnið af alefli að gera eitthvað í áttina við það að tryggja það, sem kallazt gæti frambúðarlausn þessara mála eða lausn, sem eitthvað væri hægt á að byggja næstu árin. Afleiðingin hefur svo orðið sú, að togaraútgerð héðan hefur stórhrakað. Togarafloti landsmanna hefur minnkað með hverju ári, og þeir fáu togarar, sem enn er haldið úti, þeir eða útgerðarfyrirtæki þeirra eru flest eða jafnvel öll á heljarþröm, og það má ekkert út af bera, til þess að rekstur þeirra stöðvist ekki að fullu og öllu.

Þá þarf ekki að rekja það rækilega, það hefur verið gert hér í d. nýlega, hvernig sá hluti bátaflotans, sem stundar bolfiskveiðar, hefur verið rekinn með vaxandi tapi núna síðustu ár. Þar hefur líka orðið alger stöðnun og nú síðustu árin stórfelldur samdráttur. Fiskibátar týna tölunni, öðrum er lagt, þar sem rekstrargrundvöllinn skortir, en um sáralitla endurnýjun er að ræða. Við horfum þess vegna fram á það að öllu óbreyttu, að þessi tegund fiskiskipa, þeir bátar, sem stunda bolfiskveiðar og mikilvægir hafa reynzt fyrir hraðfrystiiðnaðinn, þessir bátar hljóti svipuð örlög og togararnir, að við sitjum uppi með minnkandi flota, sem eldist með hverju ári og rekstrargrundvöllur raunverulega enginn.

Þessi ömurlega þróun, stórminnkuð útgerð þeirra skipa, sem stunda bolfiskveiðar, þeirra skipa, sem hafa aflað hraðfrystiiðnaðinum hráefnis, veldur því öðru fremur, að hraðfrystiðnaður landsmanna á nú við mikla örðugleika að etja og er að verulegu leyti lamaður. Allt fram á síðustu ár gátu hraðfrystihúsin að vísu starfað og það einkum og nær eingöngu fyrir tilstilli síhækkandi verðlags framleiðslu þeirra á erlendum mörkuðum. En jafnskjótt og þessi hagstæða verðlagsþróun stöðvaðist, jafnskjótt og nokkrar verðlækkanir áttu sér stað á s.l. ári, var grundvöllurinn gersamlega brostinn, og auk fyrri rekstrarstyrkja verður þá að grípa til þess úrræðis að verja stórfé úr almannasjóði til verðtryggingar eða verðlagsuppbóta og hrekkur þó tæplega til til þess að tryggja rekstur þessara húsa.

Við Alþb.-menn og aðrir stjórnarandstæðingar höfum ár eftir ár haldið uppi gagnrýni á núv. hæstv. ríkisstj. og þá stjórnarstefnu, sem hún fylgir, fyrir háskalegar stjórnvaldaaðgerðir annars vegar, en afskipta- og skipulagsleysi hins vegar, sem hlaut að koma mikilvægum greinum útgerðar í koll. Við höfum lagt á það áherzlu, að einungis með því, sem kalla mætti markvissa framleiðslustefnu, með endurnýjun og skipulegri uppbyggingu allra þátta útvegsins, með stjórnvaldaráðstöfunum, sem tryggðu eftir föngum hallalausan rekstur mikilvægustu útflutningsatvinnuveganna, einungis með slíkri heildarstefnu yrði hægt til frambúðar að tryggja hag og afkomu þjóðarinnar. En við höfum, að því er stjórnarvöldin og stuðningsflokka þeirra snertir, talað fyrir helzt til daufum eyrum. Þar hefur skipulagsleysið og hentistefnan fengið að ráða meiru en góðu hófi gegnir, með þeim afleiðingum, sem nú blasa við. Á hverju einasta þingi allt þetta kjörtímabil hef ég ásamt fleiri þm. Alþb. flutt þáltill. og frv., sem fjölluðu um ráðstafanir til að hefja endurnýjun íslenzka togaraflotans, endurnýjun hans með nútímasniði, þar sem nútímamöguleikar í togarasmíð og togaraútgerð væru hagnýttir. Af hálfu hæstv. ríkisstj. og stuðningsmanna hennar hefur þessum og ýmsum öðrum málum sjávarútvegsins ekki verið sinnt í neinu. Till. okkar og frv. um þessi efni hafa nær undantekningarlaust farið til 2. umr. og n., án þess að hæstv. ráðh. eða hv. stjórnarþm. sæju ástæðu til að segja um málið aukatekið orð. Það er eins og þeir hafi verið múlbundnir eða áhugalausir, þegar um þessi mál var að ræða, og í n. hefur gerzt sama sagan. Þar hafa till. okkar og frv. naumast fengizt tekin til umr., því síður til afgreiðslu. Ég lýsi ábyrgð á hendur ráðamönnum hér á hv. Alþ. og í ríkisstj. fyrir þetta, fyrir sofandahátt þeirra á liðnum árum, þegar um það var að ræða að leita varanlegra úrræða og marka skynsamlega heildarstefnu í málefnum sjávarútvegsins. Allt þetta kjörtímabil hefur ekki, svo að ég muni, tekizt að knýja talsmenn stjórnarflokkanna til að ræða, svo að teljast megi á jákvæðan hátt, frambúðarlausn þessara mála. Það hefur að vísu verið rætt dálítið um klippt og skorin bráðabirgðaúrræði, sem hæstv. ríkisstj. hefur lagt fram, verið neydd til að leggja fram öðru hverju, t.a.m. um áramót og stundum oftar, til þess að forða einstökum þáttum útvegsins í bili frá algerri stöðvun eða fullkomnu hruni. En umr. um varanlega lausn þeirra vandamála, sem þar var um að ræða, hafa ekki fengizt fram. Það skal viðurkennt, að á þessu hefur orðið dálítil breyting nú síðustu vikurnar á þessu þingi. Hvort sú breyting stafar af því, að kosningar eru nú í nánd, eða af hinu, að augu hv. stjórnarliða eru seint og um siðir að opnast fyrir vandanum, það skal ósagt látið. Athyglisvert er, að það er þó ekki hæstv. ríkisstj., sem fyrst og fremst hefur vaknað af þessum dvala, heldur eru það einstakir þm. úr stjórnarherbúðunum. Það er ljóst, að þessum stjórnarþm. finnst aðgerðaleysi stjórnarvalda í sjávarútvegsmálum svo mikið, að þeir fá ekki lengur orða bundizt. Þess vegna vakna þeir nú upp eftir fjögurra ára rólegan svefn í sambandi við þessi mál, vakna nú upp við lok fjórða árs kjörtímabilsins, og finnst, að eitthvað verði þeir að gera, einhverja tilburði að sýna í þessum málum. Þess vegna flytja nú 7 þm. Sjálfstfl. í hv. Nd. frv. til l. um fiskimálaráð. Þess vegna flytja einnig þrír stjórnarþm. till. til þál. um athugun á endurnýjun hinna smærri vélbáta. Og nú í gærdag var útbýtt hér á Alþ. þáltill. frá nokkrum þm. Sjálfstfl. um endurbyggingu togaraflotans.

Hvað sem um þessi þingmál er að öðru leyti að segja öll i sameiningu eða hvert um sig, bera þau vott um það, að ýmsir stjórnarþm. eru nú orðnir hræddir við það athafna- og stefnuleysi, sem ríkt hefur á hinum hærri stöðum í málefnum útvegsins. En er þá ekkert að frétta af hæstv. ríkisstj. í sambandi við þetta mál annað en frv. um bráðabirgðaúrræði? Heldur er það nú smátt, og þó er það ekki örgrannt með öllu. Við umr. um sjávarútvegsmál hér í þessari hv. d. nú fyrir nokkru lýsti hæstv. sjútvmrh. yfir, að ríkisstj. væri að hugsa um að skipa n. til að athuga, með hverjum hætti yrði unnt að stuðla að kaupum 3—4 skuttogara. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir: hæstv. ríkisstj. er að ráðgera að skipa n. til að athuga o.s.frv. Og þetta skeður á síðustu mánuðum kjörtímabilsins, sem m.a. og ekki sízt að því er sjávarútveginn snertir hefur einkennzt af hruni togaraútgerðar hér, einkennzt af þessu hruni, án þess að stjórnarvöld eða Alþ. hafi svo að segja hreyft hönd eða fót þessari grein útvegsins til bjargar.

Það á kannske ekki við hér; þegar litið er á þetta fyrirheit hæstv. sjútvmrh., að segja, að of seint sé að iðrast eftir dauðann, því að löngum hefur þótt betra að nota síðustu lífsstundirnar til þess að iðrast heldur en ekki, og það virðist hæstv. núv. ríkisstj. þó vera að gera í þessum efnum. En það er hins vegar ljóst, að hér er hæstv. ríkisstj. að gefa ávísun á framtíðina. Þetta fyrsta skref til endurnýjunar togaraflotans gat hún stigið og það átti hún að stíga miklu fyrr. Hún átti að stíga það, meðan það var í hennar valdi að framkvæma hlutina. En þó að seint sé, ber að fagna þessari yfirlýsingu hæstv. ráðh. Vonandi er hér um stefnubreytingu að ræða. Vonandi er þetta eitthvað meira en hálfgert fálm sprottið af kosningahrolli.

Frv. það um togarakaup ríkisins, sem ég endurflyt nú ásamt hv. 4. þm. Norðurl. e., er að efni til samhljóða frv., sem við fluttum hér í d. í fyrra. Munurinn á því frv., sem við flytjum nú, og hinu, sem lá hér fyrir d. í fyrra, er einkum sá, að í fyrra gerðum við ráð fyrir heimild til að kaupa þrjá skuttogara í tilraunaskyni, en nú tekur heimildin til allt að 6 skuttogara af mismunandi stærð. Mörg rök hníga að því, að við teljum þessa auknu heimild til togarakaupa bæði æskilega og nauðsynlega. Í fyrsta lagi verður það brýnna með hverju ári, að endurnýjun togaraflotans hefjist og verði nokkuð ör. Í öðru lagi kallar hinn mikli og sívaxandi hráefnisskortur hraðfrystihúsanna á skjótar og samræmdar aðgerðir í því skyni að bæta þar stórlega um. Í þriðja lagi erum við flm. þessa frv. nú sannfærðari um það en áður, að skuttogarar af mismunandi stærðum og gerðum eru þær tegundir fiskiskipa, sem ásamt minni bátum geta gert okkur kleift að hagnýta til hlítar fiskimiðin umhverfis landið, jafnframt því sem stórir togarar eru einu skipin, sem geta sótt umtalsverðan afla á fengsæl og fjarlæg mið. Reynsla annarra fiskveiðiþjóða bendir ótvírætt til, að nýtízku skuttogarar búnir allri þeirri tækni, sem nú þekkist fullkomnust, tækni bæði að því er snertir skipin sjálf, búnað þeirra, veiðarnar og meðhöndlun aflans, þetta séu álitlegustu og rekstrarhæfustu fiskiskip, sem nú þekkjast.

Í þeirri grg., sem fylgir frv. okkar, er að finna nokkurt yfirlit um það, hvernig íslenzki togaraflotinn hefur a.m.k. þrívegis verið í allra fremstu röð um allan búnað og veiðihæfni. Í grg. er því lýst að nokkru, að íslenzkir togarasjómenn hafa löngum verið einhverjir hinir vöskustu og fengsælustu, sem um getur. Þar er á það bent, hvernig togararnir reyndust hvað eftir annað á örðugum tímum einhverjar traustustu máttarstoðir sjávarútvegs og færðu mikla björg í bú. Í grg. eru einnig leidd rök að því, að svo framarlega sem við ætlum að nytja þau fiskimið, sem okkur hafa verið og geta orðið tiltæk, verður það ekki gert til hlítar án togara. Þar er og lýst að nokkru skuttogurum og þeirri byltingu í veiðitækni og meðferð aflans, sem þeim hefur orðið samfara. Ekkert af þessu, sem lýst er allýtarlega í grg., tel ég ástæðu til að endurtaka í einstökum atriðum hér. Hins vegar vil ég leyfa mér til stuðnings þessu máli að vitna til nýrra og nýlegra ummæla þriggja skipstjóra og útgerðarmanna um nauðsyn og möguleika á hagkvæmri endurnýjun togaraflotans. Þessi ummæli sýna hvort tveggja, að menn, sem hafa til að bera góða þekkingu á þessum málum og hafa kostað kapps um að kynna sér nýjungar í þessum efnum með öðrum þjóðum, benda á ýmsa möguleika, og þeir virðast vera áhugasamir um að taka þátt í að prófa nýjungarnar og hagnýta þær hér. Fyrst vil ég leiða hér sem vitni hinn mikla aflamann, Halldór Halldórsson, skipstjóra á togaranum Maí frá Hafnarfirði. Halldór hefur, eins og víðfrægt er orðið, sett hvert afla- og sölumetið á fætur öðru nú að undanförnu. Í viðtali, sem birtist í dagblaðinu Þjóðviljanum hinn 3. þ. m., kemst hann svo að orði, með leyfi hæstv. forseta:

„Ég er jafnbjartsýnn á togaraútgerð og þegar ég byrjaði til sjós og allt gekk vel fyrir togurunum. Það er nóg af fiski í sjónum, og við þurfum ekki að hætta við togarana vegna þess, að ekki aflist. En við verðum að fylgjast vel með öllum nýjungum og megum ekki dragast aftur úr, eins og við höfum gert að undanförnu. Við erum ekki einungis að dragast aftur úr með útbúnað skipanna, heldur er líka sú hætta fyrir hendi, að við stöndum uppi vankunnandi í öllum vinnubrögðum um borð í nýtízku togara. Okkur er lífsnauðsyn að búa betur að togaraútgerðinni á öllum sviðum. Má t.d. benda á, að óhæfa er, að hver togari þurfi í rauninni að vera leitarskip í hverjum túr. Á þessu sviði er ekkert gert fyrir togarana, þótt reynsla sé fyrir því, að í þau fáu skipti, sem skip hafa verið gerð út gagngert til leitar, hefur árangurinn ekki brugðizt. Þannig fundust Jónsmið, Fylkismið og Nýfundnalandsmið. Með þýzka togaraflotanum eru 4 fullkomin rannsókna-, viðgerða- og sjúkraskip, og fylgja þau flotanum stöðugt eftir til leiðbeiningar og hjálpar. Sárt er að vita til þess, að það skyldi þurfa Þjóðverja til að finna hin auðugu Antondorrmið hér rétt við túnfótinn hjá okkur. Ég tel útilokað,“ segir Halldór Halldórsson enn fremur, „fyrir okkur Íslendinga að byggja þetta þjóðfélag á öðru en sjávarútvegi sem undirstöðuatvinnuvegi. Við erum svo lánsamir að búa hér við auðugustu fiskimið í heimi, við Ísland og Grænland. Þennan auð sækjum við ekki nema með útgerð togara.“

Næstan vil ég leiða til vitnis Guðmund Jörundsson skipstjóra og útgerðarmann. Í einkar fróðlegu útvarpserindi, sem hann flutti snemma í vetur og síðar birtist í tímaritinu „Frost“, kemst Guðmundur Jörundsson m.a. að orði á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir nokkrum árum hófu Bretar og Þjóðverjar tilraunir með skuttogara, sem búnir voru hraðfrystitækjum, ýmist til frystingar á fiskflökum eða heilum fiski. Við það vannst einkum tvennt: Menn losna við alla skemmdahættu og þurfa ekki að láta skipin sigla að landi með mjög litla farma. Óhætt er því að fullyrða, að árangur þessara tilrauna hafi orðið mjög jákvæður, enda er nú svo komið, að öll þau togarafélög, bæði í Bretlandi og Þýzkalandi, sem láta smíða stóra togara, láta smíða þá sem hraðfrystiskip eingöngu. Eðlilegt mætti telja, að við Íslendingar færðum okkur í nyt reynslu stórþjóðanna í þessum efnum og létum smíða skip af svipaðri gerð, en þó nokkru minni fyrir framtíðarrekstur okkar. Sérstaklega yrði að hafa í huga að gera skipin þannig úr garði, að þau hæfðu sem bezt veiðum fyrir innlendan markað. Á ég þar einkum við náin tengsl og viðmiðun við stóru hraðfrystihúsin, sem nú eru naumast starfhæf vegna hráefnaskorts. Sú tegund togara, sem ég tel að nú muni hæfa bezt íslenzkum aðstæðum, er í aðaldráttum sem hér segir: Skuttogarar 1000—1200 lestir að stærð, búnir hraðfrystitækjum fyrir frystingu á hvers konar heilum fiski, og afköstuðu þeir á að gizka 35 lestum á sólarhring.“ Síðan lýsir Guðmundur Jörundsson þessari gerð togara nánar, en hér er ekki rúm til að fara út í það, en að því búnu víkur hann að annarri tegund togskipa, sem hann telur einnig að eigi eða geti átt framtíð hér. Guðmundur Jörundsson segir: „Þá kem ég að annarri gerð togara, sem mjög kæmi til greina, að smíðaðir yrðu. Ættu þeir að geyma aflann ísvarinn og landa honum síðan til vinnslu í hraðfrystihús. Álít ég, að þar komi helzt til greina skuttogarar 500 brúttólestir að stærð með 1000—1200 hestafla aðalvélum, búnir hvers konar sjálfvirkni. Lestar skipsins eru sérstaklega við það miðaðar að geta haft allan farm skipsins í alúminíumkössum, og væru þeir fluttir í frystihúsin að lokinni hverri veiðiferð, en aðrir teknir þar í staðinn. Venjulega mundi sparast bæði tími og kostnaður við löndun fisksins á þennan veg, að því ógleymdu, að þar yrði um gæðavöru að ræða. Jafnframt skapaðist möguleiki fyrir frystihúsið til að geyma kassafiskinn óskemmdan í kæliklefum einn eða tvo daga, ef á lægi.“

Það eru mörg fleiri athyglisverð atriði að finna í þessari grein Guðmundar Jörundssonar. Hann bendir þar á þá miklu breytingu, sem yrði, ef verulegt magn af heilfrystum fiski yrði að miklu leyti undirstaða að rekstri hraðfrystihúsanna. Með þeim hætti mundu skapast möguleikar til fastrar daglegrar vinnslu, þar sem fyrsta flokks hráefni væri jafnan eða a.m.k. dögum og vikum saman tiltækt. Þá væri hægt í þessum húsum að miða vinnuna við hóflegan vinnudag, í stað þess, eins og nú tíðkast, að það verður oft að vinna eftir- og næturvinnu, þegar aflinn berst, en síðan koma langar eyður, þegar ekkert er að gera fyrir starfsfólkið og vélarnar eru stöðvaðar.

Þá vil ég í þriðja lagi vitna til greinar eftir Pál Guðmundsson skipstjóra, sem birtist í síðasta hefti sjómannablaðsins Víkings. Hann ræðir þar um hættuna, sem er því samfara að byggja stöðugt fleiri skip, sem eru miðuð við síldveiðar eingöngu. Páll telur, að hægt sé að sameina, með því að byggja u. þ. b. 500 tonna skuttogara, alla helztu kosti síldveiðiskips og togskips. Hann bendir á ákveðin dæmi þessu til sönnunar. Páll segir m.a., með leyfi hæstv. forseta:

„Ég læt fylgja þessu spjalli mynd af rúmlega 500 tonna tvíþilja togara, sem reynzt hefur vel sem togskip. Búið er að smíða 8 skip af þessari gerð. Ég hef látið mér detta í hug, að svona skip hentaði okkur vel, þ.e. skuttogari, sem jafnframt væri fullkomið síldveiðiskip. Til viðbótar skal þess getið, að Norðmenn eiga tveggja þilja skip, heldur stærri en þetta, sem gert hefur verið út á línuveiðar á annað ár og reynzt mjög vel. Í sumar kom það með óhemjuafla af Grænlandsmiðum, og aflaðist hann á 400 faðma dýpi. Í viðtali, sem norska blaðið Fiskaren átti við útgerðarmann og skipstjóra skipsins, kemur margt fram, og eru þeir bjartsýnir um útgerð þess. Í meðferð afla á svona skipi hef ég látið mér detta í hug, áð athyglisverð væri aðferð, sem notuð er hjá Bandaríkjamönnum við heilfrystingu á túnfiski og smærri fisktegundum. Það er nýjung í pækilfrystingu í þar til gerðum tönkum, sem hafðir eru á þilfari. Ef þessi aðferð eða önnur svipuð hentaði okkur, mætti og heilfrysta talsvert af síld, ef verið er á síldveiðum, en á bolfiskveiðum yrði allur fiskur heilfrystur á þennan hátt, jafnvel án þess að vera aðgerður. Þegar þessum afla er landað, er hann settur í frystiklefa verkunarstöðvarinnar, og þaðan er hann sendur óunninn eða þíddur með þar til gerðri aðferð, eftir því sem viðkomandi vinnslustöð afkastar hverju sinni. Á svona skip þarf fámenna skipshöfn. Úthaldstími skipsins er ekki eins takmarkaður og þegar afli er ísaður. Hjá vinnslustöðvum ætti að hverfa að mestu helgi- og næturdagavinna, en nýting hverrar vinnslustöðvar ætti að aukast, en það þýðir hækkað hráefnisverð til útgerðar og skipshafnar.“

Ég læt þá þessum lestri lokið, þó að margt fleira sé athyglisvert í þeim greinum, sem ég hef vitnað nokkuð til, og raunar er það ýmislegt fleira, sem fram hefur komið í sambandi við þetta mál og ástæða hefði verið til að benda hér á.

Ég vil að síðustu fara nokkrum orðum frekari um það frv., sem hér liggur fyrir. Frv. okkar gerir ráð fyrir því, að keyptir verði til reynslu nokkrir skuttogarar, allt að 6, og þeir af mismunandi stærðum og gerðum, a.m.k. tveim stærðum og gerðum. E.t.v. ættu stærðir og gerðir þessara nýju tilraunaskipa að vera fleiri, til þess að fyrst fáist æskilegur samanburður, samanburður, sem miðaðist við íslenzkar aðstæður, en á slíkum samanburði, á slíku tilraunastarfi verðum við að byggja frekari endurnýjun togaraflotans. Í frv. okkar er gert ráð fyrir því, að ríkið hafi með höndum skipakaupin og útvegun nauðsynlegs lánsfjár á svipaðan hátt eða raunverulega sama hátt og gert var við kaup á nýsköpunartogurunum svonefndu eftir síðustu heimsstyrjöld. Jafnframt yrði bæjarútgerðum og áhugasömum einstaklingum gert kleift að eignast þessi skip, og er vitanlega ekkert því til fyrirstöðu, að væntanlegir kaupendur gætu haft áhrif á gerð og stærð skipanna, eftir því sem hverjum þætti henta og hver teldi vænlegast til árangurs. Þar eð hér verður í upphafi um tilraunastarfsemi að ræða, sem á að geta orðið þýðingarmikil fyrir alla frekari endurnýjun togaraflotans, kemur vitanlega mjög til greina, að hið opinbera styrki slíka tilraunastarfsemi í byrjun með einhverjum þeim hætti, sem sanngjarn og eðlilegur mætti teljast. Þó er engan veginn víst, að til beinna styrkveitinga þurfi að koma umfram það, sem felst í öflun hagkvæmra lána til skipakaupanna.

Að síðustu vil ég leggja á það áherzlu, að hér er um stórmál að ræða og mál, sem þolir ekki lengur neina bið. Við höfum raunar beðið allt of lengi með að hefjast handa um þessa endurnýjun togaraflotans. Sú bið hefur áreiðanlega orðið okkur til skaða og er orðin okkur til vansa. Áhugi framsækinna útgerðarmanna og skipstjóra er þegar fyrir hendi í sambandi við þessi mál, það vil ég fullyrða. Hér eru til þeir aðilar, sem vilja glíma við þann vanda, sem hér er vissulega á ferðum, vilja glíma við þann vanda að reka hér nýtízku skuttogara, svo framarlega sem þeim verður gert fjárhagslega kleift að eignast slík skip. Alþingi og ríkisstjórn á að koma til móts við þessa aðila, sem hafa áhuga á því að prófa þessa hluti. Að því ber vissulega að stefna, að togaraútgerð geti á ný orðið gildur þáttur í íslenzku atvinnulífi.

Herra forseti. Ég óska þess, að frv. þessu verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og sjútvn.