24.11.1966
Efri deild: 18. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

66. mál, útvarpsrekstur ríkisins

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég skal ekki fara mörgum orðum um þetta lagafrv., sem hér liggur fyrir, en ég vil þó ekki með öllu láta það fara þegjandi fram hjá mér.

Þess er þá fyrst að geta, að ég tel það vel farið, að þetta frv. er fram komið. Efni þess er, eins og hæstv. menntmrh. tók fram, að taka af öll tvímæli um, að sjónvarp heyri undir útvarp, en um það hafa verið látnar í ljós nokkrar efasemdir, bæði af mér og öðrum. Ég skal ekkert fara út í það að rekja það mál. Það má sjálfsagt um það deila, getur verið álitamál, og ég skal ekki vera með neinar fullyrðingar í því sambandi, enda hefur það í sjálfu sér litla þýðingu, úr því sem komið er, vegna þess að með þessu frv., ef að lögum verður, verða tekin af öll tvímæli um það. Ég tel raunar enga ástæðu til þess að efast um, að það verði að lögum, því að ég geri ekki ráð fyrir fremur en hæstv. menntmrh., að það verði í sjálfu sér ágreiningur um þetta frv. En þó vil ég taka það fram, að frá mínu sjónarmiði er það ekkert hégómamál, heldur mikið alvörumál, hvort hægt á að vera að setja á stofn stórar og umfangsmiklar ríkisstofnanir, án þess að við skýra og ótvíræða lagaheimild sé að styðjast.

Það má vel vera, að um það séu aðrir á annarri skoðun, og það má vel vera, að aðrir hættir tíðkist í þessum efnum í öðrum löndum en hér. En hér hefur það verið svo samkv. okkar stjórnarháttum, að það er löggjafans, Alþingis, að ákveða það, hvaða stofnanir skuli settar á stofn og hver embætti skuli sett á fót. Og ég býst t.d. við því, svo að tekin sé stofnun, sem mér stendur nærri, háskólinn, að það þætti dálítið einkennilegt, ef það væru ekki lög fyrir þeirri stofnun og ef þar væri ekki kveðið á um, hvaða embætti skyldu vera við þá stofnun, heldur væri lagt á vald menntmrh. að ákveða það, kannske að fengnum till. háskólaráðs. Ég held, að Alþ. þurfi að standa fast á rétti sínum í þessu efni og viðurkenna ekki þá stefnu, sem mér virðist því miður þó vera nokkur viðleitni til, að horfið verði frá því, að stofnanir verði ekki á fót settar nema með Alþingis atbeina og embætti verði ekki stofnuð nema með löggjöf og Alþingis atbeina. Á þetta vildi ég leggja áherzlu. Hitt skal ég fúslega taka fram, að mér hefur náttúrlega aldrei dottið í hug að halda því fram, að stjórnin hafi í þessu máli farið út af fyrir sig án vitundar Alþ., því að það er alveg rétt, sem hæstv. menntmrh. sagði, að óbeint hefur Alþ. lagt blessun sína yfir þetta.

En um þetta frv. verð ég annars að segja, að mér finnst það helzt til magurt og naumast þess virði að vera gert að höfuðfrétt í kvöldfréttum útvarpsins, eins og var s.l. kvöld, að þetta frv. væri fram lagt. Ég hafði satt að segja vænzt þess og stuðzt þar við, ef mig misminnir ekki, ummæli, sem fram komu í umr. um þessi mál á Alþ. í fyrra, að fram mundi fara nokkur endurskoðun á útvarpslögunum, og því var, ef ég man rétt, þá haldið fram, að það væri einmitt ekki ástæða til þess að leita sérstaklega lagaheimildar fyrir sjónvarpið fyrr en í sambandi við þá fyrirhuguðu endurskoðun. Ég er satt að segja hissa á því, úr því að þetta frv. er lagt hér fram, að þá skuli ekki hafa farið fram nokkuð ýtarlegri endurskoðun á útvarpsl. og það skuli ekki fela í sér meiri breytingar á útvarpsl. en raun ber vitni. En ég held, án þess að ég ætli að fara langt út í það, að það séu ýmis atriði í útvarpsl., sem ástæða væri til að íhuga og breyta, sem ekkert er undarlegt, vegna þess að þau lög hafa staðið að meginstofni til óbreytt frá 1934. Ég nefni það t.d., að í framkvæmdinni hefur komizt þar á fast skipulag í ýmsum efnum, t.d. deildaskipting í ýmsum atriðum. Í útvarpsl. er, ef ég man rétt, aðeins gert ráð fyrir einum embættismanni, útvarpsstjóranum sjálfum. Hins vegar vitum við það, að á síðari árum hefur verið komið þar upp ýmsum embættum forstöðumanna og sett í raun og veru nýtt skipulag á þessa starfsemi, sem ekki var gert ráð fyrir í upphafi og ekki var hægt að sjá fyrir í upphafi, þegar útvarpsl. voru sett. Það er kominn, að ég held, sérstakur framkvæmdastjóri dagskrár, það er kominn sérstakur fréttastjóri, það er kominn sérstakur framkvæmdastjóri fjármála, það er kominn sérstakur framkvæmdastjóri eða skrifstofustjóri fyrir sjónvarpsdeild o.s.frv. Ég hefði álitið, að það væri heppilegt að fenginni reynslu að lögfesta þetta skipulag í höfuðdráttum og kveða á um embætti þessara forstöðumanna. Ég vil nefnilega ekki skrifa undir það, að þessi mál séu alveg í fullu frjálsræði í höndum menntmrh. og yfirstjórnar útvarpsins. Ég álít, að Alþ. eigi þar að leggja sínar línur eins og á öðrum sviðum. Ég sakna þess einmitt, að það skuli ekki nú hafa verið tekin í þetta frv. ákvæði þessa efnis.

Ég nefni annað atriði, sem ég sakna og hef saknað alltaf í útvarpsl. Það er þetta: Útvarpið er vitaskuld menningarstofnun fyrst og fremst. Ég álit, að í útvarpsl. ætti að vera stefnuyfirlýsing um þann menningartilgang, sem útvarpinu er ætlað að hafa og þá auðvitað sjónvarpinu líka nú, t.d. að því er sérstaklega varðar útvarpið, hlutverk þess í sambandi við verndun og fegrun íslenzkrar tungu, og margt fleira mætti telja. Það má segja, að svona ákvæði megi setja í reglugerð, en ég álít, að það væri fyllilega ástæða til þess að setja þvílík ákvæði einmitt í lög um útvarpsrekstur ríkisins, þegar þeim er á annað borð breytt og þegar á annað borð er farið að gera nokkrar, en að vísu lítilfjörlegar breytingar á útvarpsl. fram yfir það, sem leiðir af þessu, að heimild er veitt til sjónvarps.

Ég nefni enn eitt atriði, sem ég man frá minni reynslu, að kom dálítið til athugunar á þeim árum, sem ég kom nálægt útvarpinu, að það væri kannske þörf á skýrari markalínum um verksvið útvarpsstjóra og útvarpsráðs. Þær reglur, sem um það eru settar í útvarpsl., eru hvergi nærri fullkomlega skýrar. Ég nefni t.d. eitt dæmi, afstöðu þeirra gagnvart fréttastofu útvarpsins og fréttaflutningi. Það er sagt eitthvað á þá lund, ef ég man rétt, að útvarpsráð setji almennar reglur um fréttaflutning, en svo er gert ráð fyrir því, að fréttastofan að öðru leyti heyri undir útvarpsstjóra, en þó er ráðh. veitt heimild til þess að vísu að gera fréttastofuna að alveg sjálfstæðri deild undir stjórn útvarpsráðs. Ég held, að þetta sé einmitt atriði, sem ætti að koma til athugunar í sambandi við endurskoðun útvarpslaganna.

Ég get nefnt enn eitt atriði, sem mér finnst skorta á í útvarpsl., og það er líka í mínu minni vegna þess, að það reyndi einmitt á það æðioft, þegar ég var við útvarpið eða þegar ég var í útvarpsráði, og það var spurningin um rétt til leiðréttinga á því, sem er flutt í útvarpi. Það kom — mér er óhætt að segja æðioft fyrir, að það komu aðilar, sem töldu að einhverju leyti á sig gengið eða réttu máli hallað í því, sem í útvarpi var sagt, og fóru fram á leiðréttingar, og það voru æðioft talsverð vandkvæði á því að koma þeim leiðréttingum að, því að það vildi þá gjarnan verða svo, að ef ein leiðrétting var birt, vildi hún kalla á aðra leiðréttingu. Það kom meira að segja fyrir dæmi um það, — ég man nú ekki, hvort það var beinlínis í útvarpsumr. frá Alþ. eða í almennum stjórnmálaumr., — að það var óskað eftir því að koma á framfæri leiðréttingu í útvarpið. Ég hef nú reyndar alltaf litið svo á, að þegar þannig er ástatt, láni útvarpið nánast sín tæki og það sé vitaskuld á ábyrgð Alþ. eða þeirra flokka, sem að stjórnmálaumr. standa, hvað þá fer fram. En mér er ljóst, að það er ákaflega erfitt að setja almennar reglur um þetta atriði. En ég held, að það sé samt atriði, sem vert er að hugleiða og ekki sízt eftir að sjónvarp hefur nú tekið til starfa, það er þetta atriði um rétt manna og skyldu útvarpsins til þess að leiðrétta það, sem þar kann að verða missagt.

Það er þannig ýmislegt, sem ég teldi ástæðu til að bæta inn í útvarpsl., og þetta, sem ég hef nefnt, eru bara einstök dæmi, sem koma í hugann við skjótlega umhugsun. Enn fremur eru áreiðanlega í núgildandi útvarpslögum ákvæði, sem útvarpið er fyrir löngu vaxið frá og eru orðin algerlega úrelt. Þess vegna hefði verið alveg eins mikil ástæða til að fella þau niður eins og þetta ákvæði í 1. gr. um byggingu stöðvar. Það er út af fyrir sig alveg rétt að feila það niður. Ég minnist þess t.d., að það stendur í útvarpsl., að útvarpinu sé heimilt að útvarpa endurgjaldslaust háskólaerindum og fræðsluerindum, sem eru styrkt eða kostuð af almannafé, að ég tali nú ekki um messugjörðir og því um líkt. Mér finnst þetta óeðlilegt ákvæði í mesta máta. Núna t.d. að undanförnu hefur staðið þannig á, að það hafa verið flutt háskólaerindi, sem hafa verið alveg óvenjulega vel sótt. Ég býst við því, að það hefði getað dregið eitthvað úr aðsókn að þeim erindum, ef útvarpið hefði viljað notfæra sér þann rétt, sem það hefur skýlaust eftir útvarpsl. að útvarpa því án þess að greiða nokkuð fyrir það. Ég veit vel, að það er alls ekki farið eftir þessum ákvæðum og hefur ekki verið lengi, en þá er náttúrlega ástæða til þess að nema þau hreinlega úr gildi. Og sama máli gegnir um það, að það er heimild til þess fyrir útvarpíð að útvarpa endurgjaldslaust frá mannfundum, og undir það mundu t.d. að sjálfsögðu falla umr. hér á hv. Alþ. Nú geri ég ekki ráð fyrir því, að neinum dytti í hug að fara að krefjast endurgjalds í því sambandi. En hitt gæti komið til mála, að það væri ástæða til þess að setja almennar reglur um rétt útvarpsins til þess að taka umr. frá slíkum mannfundum. Það má svara því kannske til, að það megi gera og muni verða gert í sambandi við setningu ákvæða um þingsköp Alþingis, en þau eru í endurskoðun, eins og kunnugt er. En það er þó í raun og veru sitt hvað, vegna þess að hér í útvarpsl. er um að ræða rétt útvarpsins og þá líka, sem er enn þýðingarmeira, rétt sjónvarpsins. En í þingskapalögunum er aftur vitaskuld um að ræða reglur um viðhorf Alþ., þegar útvarp á umr. á sér stað. Þetta eru alveg úrelt ákvæði að mínum dómi og ættu að fellast niður, enda hefur, eins og ég sagði, alls ekki verið farið eftir þeim mjög lengi.

Þá vil ég nefna annað atriði, sem mér sýndist, að vel mætti hverfa að skaðlausu úr útvarpsl., en það er ákvæði, sem eru á þá lund, að ráðh. er heimilað að semja við blöð lýðræðisflokkanna um þátttöku í rekstri fréttastofu útvarpsins. Ég hygg, að sjónarmiðin séu það breytt frá því, að þetta ákvæði var sett, að það mundi ekki lengur þykja eðlilegt, enda er víst nokkuð á reiki um það, hvaða flokkar séu taldir lýðræðisflokkar eða ekki, eða a.m.k. virtist mér það í einhverri blaðafregn frá fundi Alþýðusambands Íslands, að þar væru nokkuð margir taldir til hinna ólýðræðissinnuðu afla.

Ég held, að svona forngripur, ef ég mætti svo segja, mætti að skaðlausu niður falla. En hins vegar álít ég það einmitt mjög þýðingarmikið atriði og atriði, sem ætti að koma til alveg sérstakrar athugunar í sambandi við endurskoðun útvarpsl., að samvinnu væri komið á fót milli útvarps og blaða almennt um rekstur fréttastofu. Það er vitað mál, að ýmis dagblöð eiga í erfiðleikum, og það er mikið alvörumál. Það sýnist í sjálfu sér, að það væri bara hagkvæmni og hagræðing í rekstri, sem nú er mikið um talað, að það væri starfandi þannig ein fréttastofa, sem gæti að verulegu leyti séð blöðum fyrir fréttaefni og gæti þannig starfað með öllum aðilum, sem að þessu standa.

Ég sagði, herra forseti, að ég ætlaði ekki að fara mörgum orðum um þetta, og þau eru nú kannske orðin fleiri en ég ætlaði í upphafi. En ég hef bara drepið hér á örfá atriði, sem mér finnst koma til álita og æskilegt sé, að athuguð séu, þegar á annað borð er farið að hreyfa við útvarpsl. Og ég vildi beina því til þeirrar hv. n., sem fær málið til meðferðar, að hún íhugaði þessi málefni, þó að ég vilji hins vegar taka það fram, að ég álít í sjálfu sér eðlilegan gang þess máls þann, að útvarpsráð og útvarpsstjóri fjalli fyrst og fremst um þessi mál og geri sínar till. um það, hvernig þeir aðilar telja rétt að skipa þessum málum. Það má vel vera, að þetta gangi allt svo vel, að þeir aðilar telji ekki neina þörf á breytingum um þessi efni, en ég álít samt, að það væri ástæða til að setja ákvæði um ýmis þessi atriði, sem ég hef bent á.

En þetta var nú allt útúrdúr, því að ég ætlaði að koma hingað upp til þess einmitt í sambandi við það, að í þessu frv. er það aðalefnið að fá lagaheimild fyrir sjónvarpi, og þá var það mitt aðalerindi hér að minnast á sjónvarpið, án þess þó að ég ætli að fara að hefja neinar verulegar umr. um það. En um það málefni fóru fram umr. í sameinuðu þingi fyrir nokkru, og þá var lögð á það áherzla af held ég öllum, sem þar tóku til máls, að dreifingu sjónvarpsins um landið væri hraðað, eftir því sem föng væru á og tæknimöguleikar frekast leyfðu. Og þá upplýsti hæstv. menntmrh. nokkuð, hversu vænta mætti um kostnað í því sambandi, og mönnum uxu ekki þær fjárhæðir, sem hann nefndi, mjög í augum. Í því sambandi var líka á það minnt, að sjónvarpsnefnd, sem á sínum tíma hefði starfað, hefði gert ákveðna áætlun um framkvæmd sjónvarpsmálanna og dreifingu sjónvarpsins um landið allt. Ég tel mjög koma til athugunar í sambandi við setningu þessara laga að taka upp í þetta frv. áætlun um dreifingu sjónvarpsins, leggja þar línurnar í því efni og lögfesta beinlínis, því að við skulum alveg gera okkur grein fyrir því, að þetta mál er orðið mjög brennandi. Fólkið úti á landi sem ætlað er að bíða eftir sjónvarpinu í meiri eða minni óvissu um nokkur ár, þykir það hart að verða án þessara gæða, á meðan fólkið hér á þéttbýlissvæðinu nýtur þessa, því að hvað sem við viljum um sjónvarp segja, þýðir ekki að loka augunum fyrir því, að þetta eru náttúrlega áhrifaríkustu fjölmiðlunartæki, sem við nú þekkjum, sem má að vísu bæði nota til góðs og ills, en veita í eðli sínu möguleika til stórfelldrar menningarstarfsemi. Það var þetta, sem ég vildi sérstaklega koma á framfæri og beina til n. að athuga einmitt í sambandi við þetta mál, hvort það sé ekki hægt að herða á þessu máli með þessum hætti, að lögfesta beinlínis í þessu frv. eða í bráðabirgðaákvæði, sem því fylgdi, áætlun um dreifingu sjónvarps um landið. Með því væri lögð áherzla á það, að hv. alþm. vilja hraða þessu máli og að þeim er full alvara í því efni. Jafnframt væri svo eðlilegt, ef horfið yrði að þessu ráði, að taka upp í þetta frv. heimild til nokkurrar lántöku í þessu sambandi. Það er ljóst, að dreifing sjónvarpsins hlýtur alltaf að taka nokkurn tíma, vegna þess að það hlýtur eðlilega að taka nokkurn tíma vegna tæknierfiðleika. En það ætti ekki að taka lengri tíma en þeir skammta, þannig að það ætti ekki að þurfa að láta standa á fjármagni í þessu sambandi.

Ég skal svo ekki, herra forseti, hafa þetta mál lengra. Ég hef viljað skjóta þessum skoðunum hér fram, en endurtek það, sem ég sagði, að út af fyrir sig er sjálfsagt ekki ágreiningur um þetta frv. En ég vil bara, að það sé athugað í sambandi við afgreiðslu þess, hvort ekki sé rétt og fært að taka þessi atriði með, sem ég sérstaklega nefndi nú siðast, og jafnframt, að það sé hugleitt, hvort ekki sé rétt að gera á útvarpslögunum ýmsar þær frekari breytingar, sem ég tel út af fyrir sig réttmætt og þörf á að gera.