24.02.1967
Sameinað þing: 25. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 4 í D-deild Alþingistíðinda. (2139)

67. mál, bætt aðbúð sjómanna

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Fyrr á þessu þingi átti Hilmar Hálfdánarson sæti hér sem varamaður, og flutti hann þá ásamt tveimur öðrum Alþfl: mönnum till. um bætta aðbúð og læknaþjónustu fyrir síldarsjómenn. Till. hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að skipa 5 manna nefnd til að athuga og gera tillögur um bætta aðbúð síldarsjómanna í landi, m.a. að því er varðar stofnsetningu og starfrækslu sjómannastofa á öllum meginhöfnum Austurlands. Jafnframt verði nefndinni falið að kanna, hvort ekki sé mögulegt að koma á fót læknaþjónustu, sem fylgt gæti síldveiðiflotanum a.m.k. á djúpmiðum.“

Það er alkunna, að síðan síldveiðar færðust og jukust fyrir austan landið, hafa verið á því svæði 150 til 200 skip að jafnaði með um 2 þús. sjómenn verulegan hluta úr árinu. Oft hafa þessir menn orðið að vera í landi lengri eða skemmri tíma, og hefur þá komið í ljós, að aðbúnaður fyrir þá er harla lélegur. Í flestum höfnum Austurlands eru ekki til sjómannastofur eða önnur aðstaða til þess að veita þessum mönnum móttöku eða neina þjónustu. Símaþjónusta hefur verið svo slæm, að þeir hafa mátt bíða, oft undir beru lofti, tímum saman til þess að ná einu og einu símtali til fjölskyldna sinna, og annað hefur verið eftir því. Er þetta raunar ekki óeðlilegt, því að Austfirðingar höfðu ekki aðstöðu til þess að búa sig undir móttöku svo margra sjómanna. Undantekning frá þessu ástandi fyrir austan er þó á einum stað. Í Neskaupstað hafa bæjaryfirvöld lagt sig fram um að veita sjómönnum góða aðstöðu í landi, og hefur það starf tekizt svo vel, að ástæða er til þess að gera átak til þess að aðbúnaður og móttaka sjómanna geti orðið með svipuðu móti eða jafnvel enn betri á öðrum höfnum þar eystra.

Síðari liður þessarar till. fjallar um læknaþjónustu fyrir síldveiðiflotann. Síðan till. kom fram í haust, hefur raunar komið fram frv., sem nú er vel á vegi í þinginu, þar sem heimilað er að greiða úr ríkissjóði kostnað við það að hafa lækni staðsettan á Austurlandi fyrir síldveiðiflotann, svo að vonir eru til þess, að úr framkvæmdum geti orðið á því sviði, áður en langt um liður.

Hér er um að ræða augljóst hagsmunamál fyrir sjómenn, sem samtök þeirra hafa hvað eftir annað gert samþykktir um og áskoranir. Það er nauðsynlegt að gera líf sjómanna sem léttast, og þegar tæknin hefur breytt vinnu þeirra svo, að þeir eru lengur fjarri heimilum sínum en áður, er mjög nauðsynlegt að sjá svo um, að þeir eigi eitthvert athvarf, þar sem þeir þurfa að hafa landlegu, og að þeir geti fengið þá þjónustu, sem þeir þurfa á að halda, þegar þannig stendur á.

Herra forseti. Ég legg til, að umr. verði frestað og till. vísað til allshn.