13.04.1967
Neðri deild: 65. fundur, 87. löggjafarþing.
Sjá dálk 9 í D-deild Alþingistíðinda. (2151)

132. mál, þaraþurrkstöð á Reykhólum

Frsm. (Sigurður Ingimundarson):

Herra forseti. Með þáltill. þeirri, sem hér er til umr., er skorað á ríkisstj. að hraða undirbúningi að byggingu þaraþurrkunarstöðvar með ákveðna afkastagetu á Reykhólum í Austur-Barðastrandarsýslu. Af fskj., sem till. fylgdu, er þó sýnt, að undirbúningsathugunum er ekki svo langt komið, að hægt sé að mæla með svo afdráttarlausri ákvörðun. Verðmæti framleiðslunnar byggist mjög á alginsýruinnihaldi, sem er breytilegt eftir árstímum. Nokkrar athuganir hafa verið gerðar á þessu, en það verður að teljast, að sú athugun sé ófullnægjandi, það þurfi meiri athugun á því máli, jafnvel þó að stefnt væri að því að afla þarans á hagstæðasta tímanum.

Skv. fskj. má gera ráð fyrir, að hægt sé að fá markað fyrir það magn, sem tiltekið er í till. En það er óvissa um, hvort hægt sé að fá nægilega hátt verð. Eigi að síður verður að telja, að aðstæður til þaratöku við Breiðafjörð og þaraþurrkun við jarðhita að Reykhólum séu vel þess virði, að fullnaðarathugun sé framkvæmd. Og ekki er að efa það, að ef grundvöllur reynist fyrir þessum rekstri, þá yrði það byggðarlaginu til góðs og ef til vill vísir að byggðakjarna.

Þær upplýsingar, sem liggja fyrir um undirbúningsathuganir, eru skjalfestar í fskj. með till. Þessar athuganir eru framkvæmdar af Sigurði V. Hallssyni efnafræðingi og eru traustvekjandi hvað alla umsögn snertir. Jafnframt er ljóst, að bæði hann og áhugamenn í byggðarlaginu hafa innt af hendi fórnfúst sjálfboðastarf við athuganir á þessum möguleika. Framleiðslan getur ef til vill, ef vel tekst til, numið nokkrum millj. kr. Eigi að síður er skylt að minnast þess, að mjór er mikils vísir, þegar um er að ræða uppbyggingu útflutningshæfs iðnaðar í landi voru, og alla vega yrði það byggðarlaginu til styrktar. Íslendingum fjölgar ört og vandséð, hversu lengi þeir geta lifað kóngalífi á landbúnaði og fiskveiðum, ef við tæki óástsæl ríkisstj.

Iðnn.-menn hv. deildar hafa orðið sammála um, að skylt sé að koma til móts við þá áhugamenn og sjálfboðaliða, sem að þessu máli hafa staðið til þessa, og leggja til í nál., að ríkisstj. hlutist til um, að fullnaðarrannsókn verði framkvæmd. Er það einnig í samræmi við umsögn rannsóknaráðs ríkisins, sem prentuð er með nál. sem fskj.